Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 313 . mál.


554. Frumvarp til laga




um breytingu á lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
    Í stað orðanna „skráð sé aðvörun“ í 1. mgr. kemur: skráðar séu viðvaranir.
    Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Sígarettupakka skal merkja sérstaklega með upplýsingum um tjöru- og nikótíninnihald.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir það er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt að gefa út verðskrá fyrir tóbak og birta skrá yfir skaðleg efni í tóbaksvörum.
    Við 2. mgr. bætist: og í myndskreytingu á varningi.
    3. mgr. verður svohljóðandi:
                  Með auglýsingum er í lögum þessum m.a. átt við:
         
    
    hvers konar söluhvetjandi tilkynningar til almennings eða sérstakra markhópa, þar á meðal útstillingar, skilti og svipaðan búnað, og notkun tóbaksvörumerkja (heita og auðkenna),
         
    
    söluhvetjandi umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir,
         
    
    dreifingu vörusýna til neytenda.
                  Bannað er að framleiða hér á landi tónlistarmyndbönd þar sem tóbaksneysla er áberandi.

3. gr.


    8. gr. laganna orðast svo:
 8.1.    Tóbak má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 17 ára. Bann þetta skal auglýst með áberandi hætti þar sem tóbak er selt. Leiki vafi á um aldur kaupandans getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 17 ára.
 8.2.    Bannað er að flytja inn, framleiða og selja leikföng eða sælgæti sem er eftirlíking af sígarettum, vindlum eða reykjarpípum eða er ætlað að minna á tóbak með öðrum hætti, svo sem myndskreytingu.


Prentað upp á ný.
 8.3.    Bannað er að selja tóbak úr sjálfsölum.
 8.4.    Ekki er heimilt að selja sígarettur í minna magni en heilum 20 stykkja pökkum og vindla má aðeins selja í heilum pakkningum. Heimilt er þó að selja vindla í stykkjatali á vínveitingastöðum.
 8.5.    Bannað er að flytja inn, framleiða og selja munntóbak og fínkornótt neftóbak.
 8.6.    Ekki má selja tóbak í skólum, stofnunum fyrir börn og unglinga eða á heilbrigðisstofnunum.

4. gr.


    3. málsl. fyrri málsgreinar 9. gr. laganna orðast svo: Á þeim veitingastöðum þar sem megináhersla er lögð á kaffiveitingar og matsölu skulu þó ávallt vera reyklaus svæði, ekki síðri en þau svæði þar sem reykingar eru leyfðar, og tryggja skal að aðgangur að þeim liggi ekki um reykingasvæði.

5. gr.


    10. gr. laganna orðast svo:
10.1.    Tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar:
         
    
    Í grunnskólum, á leikskólum, hvers konar dagvistum barna og í húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags- og tómstundastarfa barna og unglinga.
         
    
    Á opinberum samkomum innan húss sem einkum eru ætlaðar börnum eða unglingum.
         
    
    Í framhaldsskólum og sérskólum.
         
    
    Á heilsugæslustöðvum, á læknastofum og öðrum stöðum þar sem veitt er heilbrigðisþjónusta. Það á þó ekki við íbúðarherbergi vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum en þar er þó skylt að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum íbúðarherbergjum.
         
    
    Á sjúkrahúsum. Þó má leyfa reykingar sjúklinga í vissum tilvikum. Ráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd undanþágunnar.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
    Í stað orðanna „um skaðsemi tóbaksneyslu“ í 1. mgr. kemur: í því skyni að draga úr tóbaksneyslu.
    Í stað orðsins „ríkisfjölmiðlum“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: fjölmiðlum.
    2. mgr. orðast svo:
                  Fræðsla um áhrif tóbaksneyslu skal veitt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, svo og aðstoð við þá sem vilja hætta að nota tóbak.

7. gr.


    15. gr. laganna orðast svo:
15.1.    Skylt er að verja a.m.k. 0,4 % af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs.
15.2.    Tóbaksvarnanefnd ráðstafar fénu í samráði við ráðherra.

8. gr.


    18. gr. laganna orðast svo:
18.1.    Heilbrigðisnefndir, Vinnueftirlit ríkisins, Siglingamálastofnun ríkisins og Flugmálastjórn hafa, eftir því sem við á, eftirlit með því að virt séu ákvæði II. kafla laga þessara í samræmi við þau lög sem gilda um þessar stofnanir.
18.2.    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlitsins.

9. gr.


    Í stað orðanna „2. og 3. mgr.“ í 3. mgr. 19. gr. laganna kemur: 2.–6. mgr.

10. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til nýrra heildarlaga um tóbaksvarnir var lagt fram á 118. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Unnið hafði verið að smíði þess frumvarps allt frá árinu 1988 er Guðmundar Bjarnasonar, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, óskaði eftir því að tóbaksvarnanefnd mótaði tillögur um breytingar á núgildandi tóbaksvarnalögum, nr. 74/1984, í ljósi fenginnar reynslu. Frumvarp þetta er að hluta til byggt á frumvarpinu sem lagt var fram á 118. löggjafarþingi en í ljósi neikvæðrar þróunar varðandi reykingar unglinga er nú lögð áhersla á að breytt verði ákvæðum um aðgengi að tóbaki, um auglýsingar og um reykingar á ýmsum stöðum, svo sem í skólum, með það að markmiði að styrkja baráttuna gegn reykingum þessa aldurshóps. Þá eru í frumvarpinu ákvæði vegna breytinga sem nauðsynlegt er að gera vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Frumvarpið er byggt á tillögum tóbaksvarnanefndar sem í eiga sæti Halldóra Bjarnadóttir, sem er formaður, Helgi Guðbergsson og Þorvarður Örnólfsson.
    Lög um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, sem tóku gildi í ársbyrjun 1985, mörkuðu tímamót og voru mun ítarlegri en eldri lög, nr. 27/1977. Við setningu þeirra var tekið mið af löggjöf sem einna lengst gekk í nálægum löndum. Lögin í heild og reglugerðir sem þeim fylgdu vöktu á sínum tíma heimsathygli og mikið hefur verið til þeirra vitnað. Þau hafa reynst árangursríkt vopn í þeirri baráttu sem háð hefur verið hérlendis síðustu ár gegn reykingum. Frá því að lögin voru sett hefur jafnt og þétt dregið úr sölu og neyslu tóbaks. Nefna má að tóbakssala á hvern fullorðinn íbúa minnkaði um tæp 29% frá 1984 til 1994. Þó að mikið hafi áunnist erum við samt enn langt frá því takmarki sem sett hefur verið, að Ísland verði reyklaust land.
    Síðan lög um tóbaksvarnir voru samþykkt árið 1984 hafa orðið miklar breytingar á viðhorfum til varnaraðgerða, m.a. vegna aukinnar þekkingar á áhrifum óbeinna reykinga. Erlendis hefur löggjöf orðið æ harðari, ekki síst um takmarkanir á reykingum. Þetta á t.d. við Bandaríkin og Kanada. Þá hefur Evrópusambandið markað ákveðna stefnu gegn tóbaksneyslu í tengslum við víðtækt átak gegn krabbameini og sum bandalagsríkin gengið enn lengra en þeim er skylt. Við Íslendingar höfum því ekki lengur sömu forustu í tóbaksvörnum og áður að því er löggjöf varðar.
    Á hinn bóginn samþykkti Alþingi með íslenskri heilbrigðisáætlun 19. mars 1991 einarða stefnu í tóbaksmálum sem trauðla verður framfylgt nema með mun víðtækari og afdráttarlausari löggjöf en þeirri sem nú gildir. Þar segir í 8. lið: „Draga skal úr og helst útrýma neyslu tóbaks með því að fá fólk til að byrja ekki að reykja og þá sem reykja til að hætta. Til þess að ná þessu takmarki verður að auka bæði upplýsingar og áróður og athuga sérstaklega tengsl milli reykinga og annarra lífshátta. Koma þarf í veg fyrir að fólk, sem ekki reykir, þurfi að líða tóbaksreyk. Verð á tóbaksvörum ætti að hækka umfram almennar verðhækkanir. Útiloka ber áhrif innflytjenda á útsöluverð tóbaksvara.“

    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint fjórþætt markmið tóbaksvarna sem greina má þannig í stuttu máli:
—    Að ungt fólk byrji ekki að reykja.
—    Að reykingamenn hætti að reykja og fái til þess hvatningu og aðstoð.
—    Að þeir sem hætta ekki að reykja fái sem minnst af skaðlegum efnum úr reyknum.
—    Að þeir sem ekki reykja njóti verndar gegn tóbaksreyk frá öðrum.
    Markmið þessi hafa m.a. verið höfð að leiðarljósi við samningu þessa frumvarps.

    Nokkur helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu eru:
—    Merkja skal sígarettupakka með upplýsingum um tjöru- og nikótíninnihald.
—    Bann er sett við framleiðslu tónlistarmyndbanda hér á landi þar sem tóbaksneysla er áberandi.
—    Aldursmörk til tóbakskaupa eru hækkuð úr 16 árum í 17 ár.
—    Munntóbak og fínkornað neftóbak er bannað.
—    Nánar er kveðið á um takmarkanir á reykingum á veitingastöðum.
—    Reykingar eru með öllu bannaðar á leikskólum, í grunnskólum, framhaldsskólum, sérskólum, dagvistum barna og húsnæði til félags- og tómstundastarfs barna og unglinga.
—    Veita skal fræðslu á heilbrigðisstofnunum um áhrif tóbaksneyslu.
—    Fjárveitingar til tóbaksvarna eru auknar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Breytingar á 6. gr. laganna eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða orðalagsbreytingu á 1. mgr. að tillögu málfræðinga og hugtakið „viðvörun“ er notað í stað hugtaksins „aðvörun“. Þá er lögfest að sígarettupakka skuli merkja sérstaklega með upplýsingum um tjöru- og nikótíninnihald í samræmi við tilskipanir Evrópuráðsins 89/622/EBE og 92/41/EBE um viðvörunarmerkingar á tóbaki og reglugerð nr. 433/1995 um viðvörunarmerkingar á tóbaki.

Um 2. gr.


    Íslendingar urðu með fyrstu þjóðum til að banna tóbaksauglýsingar (lög nr. 59/1971) og með lögum nr. 27/1977 varð það bann algert. Bannið við hvers konar tóbaksauglýsingum er hér enn áréttað og skýrar en áður leiðbeint um það hvað teljist tóbaksauglýsingar í þessu sambandi.
    Með breytingu á 1. mgr. 7. gr. laganna er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins veitt heimild til að gefa út verðskrá um tóbak og tóbaksvarnanefnd að birta skrá um skaðleg efni í tóbaksvörum. Með því er tekinn af vafi um þessar heimildir en þær þykja eiga rétt á sér.
    2. mgr. 7. gr. verður óbreytt að öðru leyti en því að einnig verður bannað að sýna hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í myndskreytingu á varningi. Er þá m.a. átt við myndir af reykjandi fólki, t.d. frægum kvikmyndaleikurum, á fatnaði.
    3. mgr. 7. gr. verður ítarlegri en núgildandi málsgrein hvað varðar skýringar á því hvað teljist vera auglýsing og þar með bannað. 1. tölul. er efnislega samhljóða gildandi ákvæði en nýmæli felast í 2. og 3. tölul. Lýsingin er þó ekki tæmandi fremur en fyrr.

Um 3. gr.


    Tóbak veldur ávana og fíkn og ætti í raun að skilgreina það sem fíkniefni (sjá skýrslu landlæknis Bandaríkjanna 1988: Nicotine addiction). Þetta skýrir að verulegu leyti hve sterk tök það hefur á flestum neytendum, jafnvel þó að þeim sé ljóst hvaða háska það veldur. Margt bendir til að tóbaksávani verði hvað mestur hjá þeim sem byrja ungir að reykja. M.a. hefur verið sýnt fram á að þeir hneigjast öðrum fremur til stórreykinga og til þess að reykja „ofan í sig“. Sama á væntanlega við aðra tóbaksneyslu. Margar rannsóknir hafa jafnframt sýnt að reykingamönnum er því hættara við að deyja af völdum reykinga sem þeir byrja yngri að reykja. Sem dæmi má nefna umfangsmikla rannsókn bandaríska læknisins F.C. Hammonds. Samkvæmt henni var körlum sem byrjuðu að reykja 14 ára eða yngri um það bil fimm sinnum hættara við að deyja úr lungnakrabbameini en þeim sem voru 25 ára eða eldri þegar þeir byrjuðu að reykja. Áhætta þeirra sem byrjuðu að reykja á aldrinum 15–19 ára var fjórföld að þessu leyti. Það eru því veigamikil rök til þess að sporna sérstaklega og með öllum tiltækum ráðum við því að börn og unglingar byrji að neyta tóbaks. Skipuleg fræðsla og upplýsingar um áhrif og afleiðingar tóbaksneyslu eru að vísu hornsteinar í slíkum forvörnum en margar aðrar ráðstafanir þurfa að koma til. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins (8. gr. laganna) hníga að þessu. Sum þeirra er að finna í meginatriðum í 8. gr. laganna, önnur eru nýmæli.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur mælst til að börnum sé ekki selt tóbak. Mörg lönd hafa bannað sölu á tóbaki til barna og unglinga og er þar í reynd um að ræða opinbera staðfestingu á því að nauðsynlegt sé að hamla gegn því að menn byrji að neyta tóbaks. Yfirleitt hafa mörkin verið sett við 16 ára aldur. Sums staðar, t.d. víða í Bandaríkjunum, eru þessi aldursmörk hærri, allt upp í 19 ár, og þróun í löggjöf um tóbaksvarnir virðist vera í þá átt að hækka mörkin.
    Þegar lög um tóbaksvarnir voru sett árið 1984 var ákveðið að miða bann við tóbakssölu til barna við 16 ára aldur. Almenningur virðist hlynntur því að hækka mörkin enn meir, eins og fram kom í könnun Hagvangs í september 1991. Þá kváðust 62% þeirra sem afstöðu tóku vera hlynntir því að aldursmörkin yrðu hækkuð í 18 ár. Hér er lagt til að farinn verði meðalvegur og miðað við 17 ár þannig að ná megi til allra grunnskólanema sem er mjög æskilegt. Við það ætti að verða auðveldara að girða fyrir reykingar nemenda en allir virðast vera sammála um mikilvægi þess.
    Athuganir hafa sýnt að töluverður misbrestur er á því að farið sé að lögum um bann við sölu tóbaks til barna hér á landi. Oft er um að ræða vanþekkingu á lagaákvæðinu. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að skylda söluaðila til að hafa uppi skilti um þetta bann.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Nokkuð hefur borið á því að seldar séu hér á landi eftirlíkingar af sígarettum og öðrum reykfærum, svo og leikföng með vörumerkjum tóbaksframleiðenda. Með varningi þessum er leynt eða ljóst verið að minna á tóbak og tengja eftirsóknarverða eiginleika sælgætis eða leikfanga við hættulegt ávanaefni þannig að orðið geti til að fegra mynd þess í augum ungra neytenda. Jafnframt gefa eftirlíkingar af sígarettum, vindlum og reykjarpípum kost á „þykjustuleikjum“ sem gætu verið spor í þá átt að líkja í alvöru eftir háttalagi reykingamanna. Ákvæði um bann við tóbaksauglýsingum taka að vísu til dreifingar á umræddum varningi en erfitt er um vik að hefta sölu á honum nema til komi jafnframt bann við að flytja hann inn og framleiða.
    Ákvæði 3. mgr. um bann við að selja tóbak úr sjálfsölum er óbreytt frá gildandi ákvæðum.
    Tilgangurinn með 4. mgr. er fyrst og fremst að hamla gegn tóbaksneyslu unglinga. Sérfræðinganefnd Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur tekið undir þetta sjónarmið og lög hafa verið sett í nokkrum löndum í þessa veru, m.a. í Ástralíu.
    Tóbaksneysla Íslendinga er nú fyrst og fremst í formi reykinga. Tóbaksneysla er hér um bil úr sögunni og neysla neftóbaks sem framleitt er hér á landi hefur dregist mjög saman og er að mestu leyti bundin við roskna karlmenn.
    Erlendis hefur mikið borið á viðleitni tóbaksframleiðenda til að markaðssetja nýjar tegundir munntóbaks sem blandað er bragðefnum, svo og lyktblandað og fínmulið neftóbak. Með þessum nýju formum tóbaksneyslu er einkum höfðað til ungs fólks og sums staðar, t.d. í Svíþjóð og Bandaríkjunum, með þeim afleiðingum að umtalsverður hluti unglinga, allt frá 12 ára aldri, er farinn að nota „reyklaust tóbak“ að staðaldri. Ljóst er að þetta tóbak er ávanabindandi, ekki síður en reyktóbak, enda inniheldur það nikótín sem frásogast auðveldlega í gegnum slímhúð í nefi og munni. Í því eru ýmis efni sem geta valdið krabbameini, svo sem fjölhringlaga kolvetnissambönd og nítrósamín og er þegar farið að bera á aukinni tíðni krabbameina í munni í þeim löndum þar sem neyslan hefur aukist mest. Hér á landi hefur neftóbak, framleitt erlendis, og hin nýju form munntóbaks að jafnaði ekki verið á almennum markaði. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hóf að vísu dreifingu á mentólblönduðu neftóbaki fyrir um áratug og aftur 1984. Í bæði skiptin hvarf verslunin fljótlega frá því að hafa þessa vöru á boðstólum vegna eindreginna viðbragða af hálfu landlæknis og fleiri aðila. Síðustu árin hefur fínmulið, lyktblandað neftóbak (dry snuff, luktsnus) þó verið sérpantað fyrir tóbaksverslun í Reykjavík og nú um skeið hefur verið flutt inn munntóbak í grisjum (moist snuff, fugtig snus) fyrir sömu verslun. Hún hefur svo dreift þessum vörum til verslana á nokkrum stöðum utan Reykjavíkur og sent í pósti til einstaklinga. Þetta hefur leitt til staðbundinna neyslufaraldra meðal barna og unglinga og hafa borist uggvænlegar fréttir þar að lútandi. Við þessu þarf að bregðast af fullri einurð. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað eindregið við neyslu á reyklausu tóbaki og hvatt aðildarríkin til að banna það eftir því sem frekast er kostur. Meðal þeirra ríkja sem hafa bannað allar tegundir af reyklausu tóbaki eru Hong Kong, Nýja-Sjáland, Ísrael, Japan og Taiwan. Nú hefur Evrópusambandið, með tilskipun 92/41/EBE, gert aðildarríkjunum skylt að banna munntóbak (þó ekki „traditional tobacco products“ sem gæti átt við gamla íslenska munntóbakið). Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er Íslendingum skylt að hlíta þessu banni. Hér er því lagt til að skrefið verði stigið til fulls.

Um 4. og 5. gr.


    Ákvæði um vernd gegn tóbaksreyk frá öðrum eru í III. kafla laganna en fyrirsögn hans er „Takmörkun á tóbaksreykingum“. Mikil framför var að ákvæðum þessum sem voru einhver hin róttækustu er þá þekktust í löggjöf. Hafa þau að verulegu leyti, þó ekki öllu, náð tilgangi sínum. Meginávinningur af slíkum reglum felst í þeirri heilsuvernd sem þær stuðla beinlínis að með því að draga úr tóbaksmengun andrúmslofts í umhverfi fólks. Þegar gildandi lög voru samin og sett var byggt á þáverandi vitneskju um skaðsemi óbeinna reykinga. Þekkingu á því sviði hefur hins vegar fleygt fram síðan þannig að ljóst er að þörf er á enn afdráttarlausari löggjöf um vernd gegn tóbaksreyk en nú gilda. Ákvæði um takmarkanir á reykingum styðjast einnig við þá nauðsyn að börn og unglingar geti sem víðast verið óhult fyrir fordæmi reykjandi fólks. Jafnframt er vafalaust að slíkar reglur eru fólki hvatning til og stuðningur við að hætta að reykja. Ákvæði III. kafla taka mið af því sem fram kemur í 8. lið íslenskrar heilbrigðisáætlunar: „Koma þarf í veg fyrir að fólk, sem ekki reykir, þurfi að líða tóbaksreyk.“


Um 4. gr.


    Veitinga- og skemmtistaðir eru meðal þeirra fyrirtækja sem eðli sínu samkvæmt falla undir meginákvæði núgildandi 1. mgr. 9. gr. Þar er sú undantekning gerð að reykingar eru leyfðar en þó áskilið að tóbaksreykingar séu bannaðar við „afmarkaðan fjölda veitingaborða“. Hér er að svo stöddu lagt til að veitingasalir á skemmtistöðum séu alveg undanþegnir reykingabanni, svo og veitingasalir á öðrum veitingastöðum þar sem ekki er lögð aðaláhersla á kaffiveitingar og matsölu og er þar átt við svonefndar krár. Sú undanþága á einungis við salina en ekki ganga, snyrtingar og því um líkt. Vilji forráðamenn ganga lengra en skylt er samkvæmt þessu njóta þeir stuðnings laganna. Á þeim veitingastöðum þar sem áherslan er á kaffi- og matsölu skulu þó enn sem fyrr vera reyklaus svæði og nú er nánar kveðið á um þá skyldu. Vert er að geta niðurstöðu könnunar Hagvangs frá febrúar 1989 þar sem 80% þeirra sem afstöðu tóku töldu æskilegt að eiga kost á reyklausum matsölustöðum.

Um 5. gr.


    Í grein þessari eru lagðar til veigamiklar breytingar á 10. gr. laganna. Viðaukar við ákvæði hennar eru í samræmi við þá breytingu sem orðið hefur á viðhorfi til mengunar af völdum tóbaksreyks og með hliðsjón af auknum skilningi á nauðsyn þess að draga úr fordæmisáhrifum reykinga. Einnig hafa undanþáguheimildir í núgildandi ákvæði leitt til slappleika í framkvæmd laganna í þeim stofnunum sem ákvæðið tekur til. Hér er því gert ráð fyrir að undanþágur þessar falli úr gildi og reykingar verði með öllu óheimilar í grunnskólum, leikskólum, hvers konar dagvistum barna og húsakynnum fyrir félags- og tómstundaiðkanir barna og unglinga, þar með taldir dansskólar og hliðstæðir skólar. Með dagvistum barna er átt við skóladagheimili, sumardvalarheimili og aðrar sambærilegar stofnanir, svo og gæslu barna í heimahúsum (hjá dagmæðrum).
    Orðlagi í 2. tölul. um opinberar barna- og unglingasamkomur er breytt lítillega.
    Í 3. tölul. er kveðið á um að reykingar verði með öllu bannaðar í framhaldsskólum og sérskólum eins og í grunnskólum. Til þess liggja sömu rök að flestu leyti.
    Í 4. tölul. er ákvæði sem tekur til allra staða sem veita heilbrigðisþjónustu en þó er gerð undantekning varðandi íbúðarherbergi vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum.
    Í 5. tölul. er gert ráð fyrir að reykingar á sjúkrahúsum verði með öllu óheimilar öðrum en sjúklingum sem fá leyfi til að reykja samkvæmt nánari reglum sem settar skulu. Þetta er í samræmi við þróun bæði hér á landi og erlendis í þá átt að sjúkrahús verði að mestu leyti reyklausar stofnanir. Reykingar hafa verið bannaðar á Ríkisspítölum frá 1. janúar 1991. Á sama tíma voru takmarkanir á reykingum hertar á Borgarspítalanum. Nokkur önnur sjúkrahús eru nú reyklausir vinnustaðir. Þrátt fyrir þessa ótvíræðu þróun þykir rétt að hafa ákvæði í frumvarpinu til að tryggja að öll sjúkrahús á landinu verði reyklaus og er það í samræmi við ályktun Landssambands sjúkrahúsa.

Um 6. gr.


    Hér er lögð til orðalagsbreyting á 1. mgr. 14. gr. laganna í því skyni að árétta markmið fræðslunnar, þ.e. að draga úr tóbaksneyslu. Fræðslan þarf að sjálfsögðu að beinast að fleiru en skaðsemi neyslunnar, enda hefur svo verið í reynd. Þar hefur hlutur félagasamtaka verið drýgri en hins opinbera. Mikilvægt er að styðja við bak þeirra með aukinni tóbaksfræðslu af hálfu skólakerfisins og fjölmiðla.
    Með breytingum á 2. mgr. er skylda til að aðstoða þá sem vilja hætta að reykja lögð á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús, en ekki er gert ráð fyrir beinni forgöngu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í því efni svo sem er í núgildandi tóbaksvarnalögum. Er þá tekið mið af reynslu undanfarinna ára og því sjónarmiði sem m.a. var túlkað svo í greinargerð með lögunum að líta beri á tóbaksvarnir sem eðlilegan þátt í heilsugæslustarfi (sbr. lög um heilbrigðisþjónustu). Engan veginn er ætlunin að taka fyrir samvinnu heilbrigðisyfirvalda við félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki um námskeið af þessu tagi.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir að framlag til tóbaksvarna verði 0,4% af brúttósölu tóbaks í stað 0,2% í gildandi lögum. Tilgangurinn með þeirri hækkun er að efla tóbaksvarnir í landinu og flýta þar með fyrir þeirri þróun sem stefnt er að með lögunum. Með þessu fæst m.a. aukið svigrúm til að veita styrki til sérstakra verkefna, þar á meðal vísindarannsókna. Þess skal getið að við útreikning á brúttósölu tóbaks hefur verið miðað við sölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríksins með virðisaukaskatti, sem var árið 1994 tæplega 4,7 milljarðar króna.

Um 8. gr.


    Hér er eftirlitsaðilum fjölgað og eftirlit falið Siglingamálastofnun ríkisins og Flugmálastjórn auk heilbrigðisnefnda og Vinnueftirlits ríkisins eins og nú. Nauðsynlegt er talið að ráðherra setji nánari ákvæði um framkvæmd eftirlitsins, m.a. um verkaskiptingu aðila.

Um 9. gr.


    Hér er tilvísunum breytt í samræmi við breytingu á 8. gr. laganna.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir.


    Markmið frumvarpsins er að draga úr tóbaksneyslu og því heilsutjóni sem slík neysla veldur reykingamanni beint og með óbeinum hætti þeim sem verða fyrir loftmengun af reyknum.
    Hér á eftir er lagt mat á kostnað þeirra atriða sem ætla má að hafi bein áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs, í sömu röð og þau birtast í frumvarpinu. Ekki er gerð tilraun til að meta ábata ríkissjóðs og heilbrigðiskerfis af minni reykingum eða hugsanleg áhrif frumvarpsins á reykingar. Bent er á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands nr. 10/1992 um þjóðhagslegan kostnað af reykingum.
    Í 3. gr. er lagt bann við innflutningi, framleiðslu og sölu á munntóbaki og fínkornóttu neftóbaki. Heildarálagning á innlent og innflutt munntóbak og fínkornótt neftóbak nam um 6,5 m.kr. árið 1994 og lækka tekjur ríkissjóðs samsvarandi verði af banninu.
    Í 6. gr. er kveðið á um að heilsugæslustöðvar og sjúkrahús skuli aðstoða þá sem vilja hætta að reykja, svo og veita fræðslu um áhrif tóbaksneyslu. Ef veita á fólki aðstoð við að hætta reykingum, svo sem með námskeiðum, kynningarefni o.fl., á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum sem ríkissjóður rekur mun slík starfsemi á almennum markaði væntanlega dragast verulega saman nema starfsemi ríkisins verði fjármögnuð með námskeiðsgjöldum. Ekki verður séð að framangreindar stofnanir séu undir það búnar að taka við slíkum verkefnum í neinum mæli án aukinna fjárframlaga eða heimildar til innheimtu námskeiðsgjalda.
    Í 7. gr. er kveðið á um að verja skuli 0,4% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs í stað 0,2% í gildandi lögum. Samtals gefur ákvæðið tæplega 20 m.kr. til tóbaksvarnastarfs sem er hækkun um tæplega 10 m.kr. frá gildandi lögum. Lækka tekjur ríkissjóðs af hagnaði ÁTVR um sömu fjárhæð.
    Að öllu samanlögðu má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af sölu tóbaks lækki um 16 til 18 m.kr og að einhver kostnaðarauki verði vegna námskeiða og aukins eftirlits. Ekki er gerlegt að meta með vissu þann kostnað en gera má ráð fyrir að innheimt verði námskeiðsgjöld og að kostnaði við eftirlit verði haldið innan þess ramma sem fjárráð stofnana, sem taldar eru í 8. gr. frumvarpsins, leyfa.