Ferill 87. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 87 . mál.


584. Nefndarálit



um frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1991.

Frá fjárlaganefnd.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar. Í endurskoðunarskýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1991 er lagt til að ríkisreikningur verði samþykktur með eftirtöldum breytingum:
    Að framlag að fjárhæð 1.633.431 þús. kr. til Framkvæmdasjóðs Íslands, fjárlagaliður 01–173, verði ekki samþykkt sem útgjöld ársins 1991 en færist sem framlag í ríkisreikningi ársins 1992.
    Að færð sé til baka lánveiting Endurlána ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs vegna framkvæmda við Sandgerðishöfn að fjárhæð 287.336 þús. kr. en á móti lækki ógreidd gjöld um sömu fjárhæð.
    Niðurstöðutölur reikningsins breytist til samræmis við þetta.
    Í áritun Ríkisendurskoðunar í ríkisreikningi fyrir árið 1991 segir m.a.:
    „Í ríkisreikningi 1991 er framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs Íslands fært til gjalda hjá forsætisráðuneytinu. Þetta er byggt á 13. gr. lánsfjárlaga fyrir árið 1992 sem staðfest voru 24. janúar 1992 og heimila fjármálaráðherra að yfirtaka skuldir Framkvæmdasjóðs Íslands að fjárhæð allt að 1.700 millj. kr. á því ári. Fjármálaráðherra hefur þegar nýtt þessa heimild samkvæmt samkomulagi við Framkvæmdasjóð, dags. 9. mars 1992. Það er álit Ríkisendurskoðunar að færa beri nefnt framlag til gjalda í ríkisreikningi 1992 í stað 1991 og því sýnir rekstrarreikningur A-hluta ríkissjóðs á árinu 1991 verri afkomu sem þessu nemur.“
    Í bréfi fjármálaráðherra og ríkisbókara til forseta Alþingis segir m.a. um fyrrgreint efni:
    „Gjalda- og tekjufærslur eru óháðar því hvenær greitt er eða innheimt. Skuldbindingar, sem falla til á fjárhagsárinu, eru færðar til bókunar samkvæmt stöðu verkefna. Þetta á t.d. við vegagerð, hafnagerð og byggingarframkvæmdir, svo og ábyrgðir ríkissjóðs sem augljóslega eru tapaðar. Hvenær bókun á sér stað ræðst þannig af mati á því hvenær til skuldbindinganna er stofnað, en ekki af hinni formlegu afgreiðslu Alþingis. Með þessu telur ráðuneytið að ríkisreikningurinn gefi sem réttasta mynd af efnahag ríkissjóðs á hverjum tíma.“
    Fyrrverandi fjármálaráðherra ákvað á árinu 1990 að beita sér fyrir heildarendurskoðun á uppgjöri og framsetningu ríkisreiknings og fjárlaga svo og að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga.
    Samkvæmt lögum er ríkisreikningsnefnd ætlað það hlutverk að vera fjármálaráðherra til ráðuneytis um atriði er varða uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings og önnur atriði er hafa meginþýðingu fyrir það reikningslega kerfi er lögum er ætlað að tryggja. Í nefndinni eiga sæti ríkisbókari, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, ríkisendurskoðandi, hagstofustjóri og fulltrúar Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka Íslands.
    Að undanförnu hefur mikil vinna verið lögð í að endurskoða lög er varða fjárreiður ríkisins. Árangur hennar hefur nú birst í frumvarpi til laga um fjárreiður ríkisins sem nú er til meðferðar á Alþingi.
    Nú liggur fyrir álit ríkisreikningsnefndar og hefur fjárlaganefnd kynnt sér rækilega þær tillögur hennar sem eiga að tryggja samræmi í gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Fjárlaganefnd telur að skýrsla Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna gefi fullnægjandi skýringar á þeim athugasemdum sem settar eru fram við reikninginn. Hins vegar telur fjárlaganefnd ekki ástæðu til að breyta reikningnum.
    Í áritun löggiltra endurskoðenda Framkvæmdasjóðs Íslands í ársreikningi sjóðsins fyrir árið 1991 segir m.a.:
    „Í rekstrarreikningi 1991 er fært til tekna framlag frá ríkissjóði að upphæð 1.633 millj. kr. Byggist þetta á heimildarákvæði til fjármálaráðherra samkvæmt lánsfjárlögum sem samþykkt voru 23. janúar 1992 og fjármálaráðherra hefur þegar nýtt sér, sbr. samkomulag við Framkvæmdasjóð, dags. 9. mars 1992. Þar sem ákvörðun um þetta framlag ríkissjóðs lá ekki fyrir á árinu 1991 sýnir rekstrarreikningur Framkvæmdasjóðs betri afkomu sem þessu nemur svo og eigið fé hans í árslok 1991.“
    Í ljósi athugasemda yfirskoðunarmanna ríkisreiknings, Ríkisendurskoðunar og löggiltra endurskoðenda Framkvæmdasjóðs Íslands við ríkisreikning ársins 1991 og reikninga Framkvæmdasjóðs telur fjárlaganefnd eðlilegt að sama athugasemd fylgi ríkisreikningi 1991. Er með því samræmi milli reiknings Framkvæmdasjóðs og ríkisreiknings, en hvorugum reikningnum breytt. Þá skal tekið fram að ekki er deilt um ábyrgð ríkissjóðs á fjárhag Framkvæmdasjóðs Íslands.
    Með vísun til þess sem að framan greinir leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Árni M. Mathiensen og Bryndís Hlöðversdóttir voru fjarstödd lokaafgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. febr. 1996.



Jón Kristjánsson,

Sturla Böðvarsson.

Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.

með fyrirvara.



Árni Johnsen.

Gísli S. Einarsson.

Ísólfur Gylfi Pálmason.



Hjálmar Jónsson.

Kristín Halldórsdóttir,

Arnbjörg Sveinsdóttir.


með fyrirvara.