Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 101 . mál.


635. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 11/1993, um Verðbréfaþing Íslands.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneytinu, Jóhann Albertsson og Þórð Ólafsson frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Guðmund Hauksson og Helga Sigurðsson frá Samtökum verðbréfasjóða, Karl Jóhann Ottósson verðbréfamiðlara, Pétur Kristinsson verðbréfamiðlara, Agnar Kofoed-Hansen verðbréfamiðlara, Hrafn Magnússon frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, Guðbjörn Marinósson og Valgarð Sverrisson frá Landssambandi lífeyrissjóða, Stefán Halldórsson frá Verðbréfaþingi Íslands og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands. Þessir sömu aðilar sendu nefndinni umsagnir um málið.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að við frumvarpið verði bætt nýrri grein, 1. gr., til breytinga á 2. gr. laganna. Í þeim breytingum felst annars vegar að Verðbréfaþinginu verði falið að setja reglur um uppgjör viðskipta með tilliti til fjárhagsstöðu aðila. Þörfin fyrir slíkar reglur er orðin mjög brýn og frekari fjölgun þingaðila, eins og tillögurnar gera ráð fyrir, mun auka enn á nauðsyn þess að setja slíkar reglur. Hins vegar er lagt til að þingið vinni að framþróun og skilvirkni verðbréfamarkaðar. Í einkaréttinum sem þingið hefur hljóta einnig að felast ákveðnar skyldur, m.a. til að þróa markaðinn í þá átt sem íslenskar aðstæður krefjast hverju sinni.
    Lagt er til að gerðar verði ríkari kröfur til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra Verðbréfaþingsins en gert er ráð fyrir í hlutafélagalöggjöfinni. Breytingin er til samræmis við breytingar á frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verðbréfasjóði.
    Lagðar eru til þrjár breytingar á 3. gr. frumvarpsins (8. gr. laganna). Í fyrsta lagi er lagt til að heimild til aðildar að þinginu verði ekki takmörkuð við verðbréfafyrirtæki heldur geti verðbréfamiðlanir, sem heimilt er samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti að eiga viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning, einnig átt þar aðild. Í öðru lagi er lagt til að það sé gert að skilyrði fyrir aðild erlendra lögaðila að þinginu að þeir hafi sambærilegan aðgang að skipulegum verðbréfamarkaði í heimaríki sínu. Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði inn í lagatextann ákvæði um að stjórn Verðbréfaþingsins setji nánari reglur um aðild. Stjórnin hefur sett slíkar reglur í gildistíð núverandi laga án þess að bein lagastoð væri fyrir hendi.
    Breytingin á 4. gr. er til samræmis við breytingar á 2. gr., sbr. skýringar í 1. lið.
    Loks er lagt til að ráðherra verði gert að skipa nefnd til að vinna að heildarendurskoðun laganna með það að markmiði að einkaréttur Verðbréfaþings Íslands verði afnuminn eigi síðar en í árslok 1997. Sambærileg þróun hefur átt sér stað í flestum nágrannalöndunum á undanförnum árum og sér efnahags- og viðskiptanefnd enga ástæðu fyrir Íslendinga til að vera með sérstöðu á þessu sviði. Brýnt er að ráðherra sjái til þess að fyrir Alþingi verði lagt fram almennt frumvarp til laga um verðbréfamarkaði, eða aðrar tillögur sem nefndin kann að koma fram með, eigi síðar en í upphafi haustþings 1997.
    Jón Baldvin Hannibalsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. febr. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.


form., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Einar Oddur Kristjánsson.

Valgerður Sverrisdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.

Sólveig Pétursdóttir.