Ferill 364. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 364 . mál.


639. Frumvarp til laga



um breytingu á póstlögum, nr. 33/1986.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Í stað orðanna „Póst- og símamálastofnun“ í upphafi 4. gr. laganna komi: „Íslenska ríkið“.
    Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Samgönguráðherra er heimilt að veita Pósti og síma hf. rekstrarleyfi til að annast þá póstþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á samkvæmt þessari grein.
    

2. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Íslenska ríkið hefur einkarétt á uppsetningu póstkassa á almannafæri.
    Notkun póstlúðurs með eða án stjarna eða örva, til auðkenningar póstþjónustu, er einungis heimil Pósti og síma hf.
    

3. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Samgönguráðherra setur, að fengnum tillögum frá Pósti og síma hf., gjaldskrá fyrir þjónustu sem lýtur einkarétti. Jafnframt getur hann ákveðið gjaldskrá fyrir flutning og dreifingu dagblaða, vikublaða og tímarita á vegum Pósts og síma hf.
    

4. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Ríkið hefur einkarétt á útgáfu frímerkja. Með orðinu frímerki er átt við gjaldmiðil sem ætlaður er til greiðslu fyrir póstþjónustu sem innt er af hendi í umboði ríkisins.

5. gr.

    Í stað orðanna: „Póst- og símamálastofnun“ og „póst- og símamálastjóri“ í niðurlagi 5. gr. laganna, 1. mgr. 6. gr., 7., 9., 20., 21., 23., 26., 27., 31., 34. og 36. gr. komi „Póstur og sími hf.“ með fallbreytingum eftir því sem við á.
    

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. október 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar er gert ráð fyrir að Póstur og sími hf. taki til starfa 1. október 1996. Í samgönguráðuneytinu er unnið að undirbúningi frumvarps til nýrra póstlaga sem stefnt er að að leggja fram síðla á vorþinginu til kynningar og afgreiða á komandi haustþingi. Ef ný póstlög taka gildi 1. janúar 1997 er nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um hver annist skyldur ríkisins til póstþjónustu á ofangreindu tímabili og hver fari með einkarétt póstmála.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 4. gr. núgildandi laga er kveðið á um, að Póst- og símamálastofnun hafi einkarétt á „að safna saman, flytja og bera út“ þar taldar póstsendingar. Eftir stofnun hlutafélags um reksturinn er talið rétt að ríkið fari með einkaréttinn, en samgönguráðherra er veitt heimild til að veita Pósti og síma hf. leyfi til að fara með framkvæmd einkaréttarins.
    

Um 2. gr.


    Hér eru tekin af öll tvímæli um einkarétt ríkisins til að setja upp á almannafæri póstkassa. Í gildandi póstlögum segir að óheimilt sé „að setja upp á almannafæri neitt það er að lit, lögun og gerð líkist póstkössum Póst- og símamálastofnunar“.
    Enn fremur er í þessari grein skýrt kveðið á um að notkun auðkennis póstþjónustu, sem er póstlúður með eða án stjarna eða örva, er einungis heimil Pósti og síma hf.

Um 3. gr.


    Í 19. gr. gildandi laga segir að ráðherra skuli setja gjaldskrá fyrir póstþjónustu, að fengnum tillögum Póst- og símamálastofnunar. Hér er lögð til sú breyting að ráðherra setji einungis gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem lýtur einkarétti að fengnum tillögum frá Pósti og síma hf. Auk þess er lagt til að ráðherra geti ákveðið gjaldskrá fyrir flutning og dreifingu dagblaða, vikublaða og tímarita á vegum Pósts og síma hf.
    

Um 4. gr.


    Samkvæmt 25. gr. gildandi póstlaga hefur Póst- og símamálastofnunin einkarétt á að gefa út frímerki. Eðlilegt er talið að ríkið fari með þennan einkarétt eftir að stofnað hefur verið hlutafélag um rekstur stofnunarinnar. Auk þess er orðið frímerki nánar skilgreint.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.
    

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á póstlögum, nr. 33/1986.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar en þar er gert ráð fyrir að stofnuninni verði breytt í hlutafélag 1. október 1996. Í frumvarpinu er kveðið á um beytingu á póstlögum, nr. 33/1986, sem ætlað er að taka af allan vafa um hver annist skyldur ríkisins til póstþjónustu frá 1. október þar til ný póstlög taka gildi 1. janúar 1997. Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.