Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 371 . mál.


649. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um sálfræðinga, nr. 40/1976, sbr. lög nr. 68/1988.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Í stað orðsins „menntamálaráðuneytisins“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.
    

2. gr.

    Í stað orðsins „menntamálaráðuneytisins“ í 1. mgr. 7. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 68/1988, kemur: heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.

3. gr.

    Í stað orðsins „Menntamálaráðuneytið“ í 9. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 68/1988, kemur: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að flytja löggildingu á starfsréttindum sálfræðinga frá menntamálaráðuneyti til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.
    Vorið 1993 skipaði þáv. menntamálaráðherra nefnd til að athuga nauðsyn þess að endurskoða lög um sálfræðinga og gera tillögur til breytinga ef þörf krefði. Á vordögum 1995 kom formaður nefndarinnar í menntamálaráðuneytið til viðræðna um bréf, dags. 30. maí 1995, er borist hafði frá Sálfræðingafélagi Íslands. Í bréfi þessu var greint frá því að í könnun, sem stjórn félagsins gekkst fyrir í árslok 1994, hafi komið fram að 96 af hundraði félagsmanna telji æskilegt að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti fari með starfsréttindi sálfræðinga í stað menntamálaráðuneytis. Á stjórnarfundi Sálfræðingafélagsins hafi verið samþykkt að fara þess á leit við nefndina að hún annaðhvort skili umboði sínu eða felli niður störf þar til yfirstandandi heildarendurskoðun á löggildingarmálum heilbrigðisstétta, sem fram fer á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sé lokið. Ástæðan sé sú að Sálfræðingafélagið leggi svo mikla áherslu á að sálfræðingar teljist til heilbrigðisstétta að ekki sé talið æskilegt að vinna að endurskoðun laganna án þess að málefni sálfræðinga verði flutt frá menntamálaráðuneyti til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Fram kom hjá formanni hinnar stjórnskipuðu nefndar að óskir Sálfræðingafélagsins væru í fullu samræmi við hugmyndir nefndarmanna um framgang málsins.
    Hlutaðeigandi stjórnvöld hafa fjallað um og fallist á þessi sjónarmið sálfræðinga. Viðfangsefni og starfsvettvangur þeirra er í mörgum tilvikum innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem þeir gegna margvíslegu og mikilvægu hlutverki, bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila. Sálfræðingar starfa einnig innan menntakerfisins en verkefnin þar tengjast oft viðfangsefnum sem fjallað er um í heilbrigðisþjónustunni. Eftir að starfsheiti í sérgreinum innan sálarfræði voru einnig lögvernduð með lögum nr. 68/1988, um breyting á lögum um sálfræðinga, hefur hluti sérleyfa, þ.e. í klínískri sálfræði, aðeins verið veittur að fengnu áliti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Er talinn ávinningur af því að meðferð umsókna um sérfræðileyfi og leyfi til þess að kalla sig sálfræðing verði framvegis á hendi eins ráðuneytis. Efnisleg endurskoðun á lögum um sálfræðinga getur síðan farið fram samhliða framangreindri heildarendurskoðun á löggildingarmálum heilbrigðisstétta.
    Með vísan til framanritaðs þarfnast einstakar greinar frumvarpsins ekki nánari skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneytið,
fjárlagaskrifstofa:
    
    

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum


um sálfræðinga, nr. 40/1976, sbr. lög nr. 68/1988.


    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að leyfisveitingar til sálfræðinga flytjist frá menntamálaráðuneyti til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Gert er ráð fyrir að þetta hafi engin áhrif á kostnað ríkisins þegar á heildina er litið en að kostnaður á bilinu 140–170 þús. kr. færist á milli ráðuneyta.