Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 148 . mál.


700. Nefndarálit



um frv. til l. um köfun.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Jóhannesson og Jósef Þorgeirsson lögfræðinga frá samgönguráðuneyti, Kristbjörn Óla Guðmundsson frá Slysavarnafélagi Íslands og Auðun F. Kristinsson, formann Félags íslenskra kafara.
    Skriflegar umsagnir bárust nefndinni frá Félagi íslenskra kafara, Slysavarnafélagi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Siglingamálastofnun ríkisins og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins, um að óheimilt sé að ráða til köfunarstarfa aðra en handhafa atvinnuköfunarskírteina, verði flutt í 3. gr. þar sem fjallað er um hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til að mega stunda atvinnuköfun.
    Með breytingu á 2. gr. frumvarpsins er annars vegar lagt til að sett verði inn ákvæði sem gerir sjálfboðaliðum, sem ekki þiggja laun fyrir köfunarstörf sín, kleift að starfa samkvæmt starfsreglum sem samtök þeirra, t.d. Slysavarnafélag Íslands, skulu setja og ráðherra samþykkja. Með þessu verður slíkum sjálfboðaliðum ekki skylt að hafa atvinnuréttindi eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Hins vegar er lagt til að köfunarbúnaður verði skilgreindur mun þrengra en gert er í 2. gr. og verði talinn sá búnaður sem notaður er við köfun og gerir mönnum jafnframt kleift að kafa.
    Með breytingartillögu við 3. gr. frumvarpsins er lagt til að nánari reglur verði settar um áhugaköfun og að ráðherra geti ákveðið að þeir sem stunda áhugaköfun skuli hafa gilt áhugaköfunarskírteini útgefið af Siglingastofnun Íslands. Þá er lagt til að í 6. gr. frumvarpsins verði sett ákvæði um að ráðherra skuli setja nánari reglur um skilyrði fyrir viðhaldi réttinda samkvæmt köfunarskírteini og um heimild Siglingastofnunar Íslands til gjaldtöku fyrir eftirlit, útgáfu og endurnýjun köfunarskírteina. Þá er og lagt til að í 3. gr., sem og annars staðar þar sem það á við, verði Siglingamálastofnun ríkisins breytt í Siglingastofnun Íslands vegna sameiningar fyrrnefndu stofnunarinnar við Hafnamálastofnun ríkisins og Vitastofnun Íslands í eina stofnun, Siglingastofnun Íslands.
    Lagt er til að í 5. gr. frumvarpsins verði skýrt kveðið á um að það séu innflytjendur eða þeir sem smíða köfunarbúnað sem þurfa að fá viðurkenningu Siglingastofnunar Íslands á búnaðinum eða hlutum hans en ekki kaupendur. Um slíkan búnað gildi hins vegar að ef vottorð liggur fyrir frá viðurkenndri prófunarstofu um að búnaður sé í samræmi við staðla og reglur sé staðfesting Siglingastofnunar fullnægjandi. Þá er og bætt við ákvæði um viðhald köfunarbúnaðar.
    Þá eru lagðar til breytingar á 7. gr. frumvarpsins. Ef slys eða óhöpp verða við köfun skal tilkynna það lögreglu í hlutaðeigandi umdæmi og skal hún annast rannsókn á orsökum slíkra slysa. Lagt til að sérfróðir menn verði kallaðir til við rannsóknina og að fulltrúi frá Siglingastofnun Íslands skoði búnaðinn.
     Loks er lagt til að með ákvæði til bráðabirgða verði kveðið á um að fram til 1. október 1996 skuli Siglingamálastofnun ríkisins fara með þau verkefni sem Siglingastofnun Íslands eru falin í frumvarpinu. Þann dag mun síðarnefnda stofnunin taka formlega til starfa.
    Árni Johnsen og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Bryndís Guðmundsdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 13. mars 1996.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.



Stefán Guðmundsson.

Kristján Pálsson.

Ragnar Arnalds.



Guðmundur Árni Stefánsson.