Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 399 . mál.


703. Frumvarp til laga



um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993.

Frá allsherjarnefnd.



1. gr.


    Í stað „7,5–földum“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: tíföldum.

2. gr.


    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Þegar miskastig er minna en 10% greiðast engar örorkubætur. Þegar miskastig er 10%, 12%, 15%, 18% og 20% skulu örorkubætur vera 120%, 125%, 130%, 135% eða 140% af bótum fyrir varanlegan miska.

3. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Dómsmálaráðherra skal skipa nefnd til að vinna að heildarendurskoðun skaðabótalaga. Sérstaklega skal hugað að skaðabótum fyrir líkamstjón, meðal annars með hliðsjón af þeim tillögum sem allsherjarnefnd lét vinna fyrir sig á 120. löggjafarþingi og þeim athugasemdum sem fram hafa komið í nefndinni. Ráðherra skal leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögunum í samræmi við niðurstöður nefndarinnar eigi síðar en í október 1997.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1996.

Greinargerð.


    Með bréfi frá 6. júní 1995 leitaði allsherjarnefnd eftir því við Gest Jónsson hrl. og Gunnlaug Claessen hæstaréttardómara að þeir tækju á ný upp athugun sem þeir framkvæmdu á árinu 1994 að tilhlutan dómsmálaráðherra á ákvæðum skaðabótalaga, nr. 50/1993. Einkum var þeim falið að taka á ný til athugunar þann margföldunarstuðul sem kveðið er á um í 1. mgr. 6. gr. laganna í ljósi þess að Hæstiréttur hefur með dómi 30. mars 1995 mótað nýja stefnu um hvaða frambúðarávöxtun eigi að reikna með að fáist af greiddum bótum fyrir varanlega örorku. Jafnframt var Gesti og Gunnlaugi falið að yfirfara önnur ákvæði laganna og leggja mat á hvort gera þyrfti breytingar á þeim og þá hverjar. Var þeim falið að semja frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum í samræmi við niðurstöður sínar.
    Gestur og Gunnlaugur skiluðu álitsgerð sinni til nefndarinnar 10. nóvember 1995. Var hún ítarleg og vel rökstudd og henni fylgdu fullbúin drög að frumvarpi til breytinga á skaðabótalögunum (sjá fskj.). Þar er gert ráð fyrir miklum breytingum á gildandi lögum þótt áfram sé í aðalatriðum miðað við þá stöðlun bótareglna sem lögfest var 1993. Allsherjarnefnd sendi frumvarpsdrögin ýmsum aðilum til umsagnar. Flestir umsagnaraðilar töldu að rétt gæti verið að huga að breytingum á gildandi lögum í þá átt að hækka bætur. Hins vegar kom hjá sumum fram gagnrýni á einstaka þætti frumvarpsdraganna. Sérstaklega er þar um að ræða þrjú atriði: 1) Gagnrýni á tillögur um ákvörðun lágmarkslauna til viðmiðunar við bótaútreikning og um afmörkun bótaréttar fyrir varanlega örorku við aldur. 2) Að tillögurnar leiði í ýmsum tilvikum til ofbóta, þ.e. að heildarbætur til hins slasaða verði hærri en nemur tekjutjóni hans, þar sem áfram verði í gildi reglur laganna um að bætur frá þriðja aðila dragist ekki frá bótakröfu. 3) Að aukinn bótaréttur gæti leitt til umtalsverðrar hækkunar iðgjalda.
    Allsherjarnefnd hefur í vetur farið mjög ítarlega yfir málið út frá framangreindum tillögum. Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá nefndinni við skoðun málsins svo sem hvort rétt sé að víkja frá þeirri stöðlun bótareglna sem lögfest var 1993 með því að láta bætur frá öðrum en hinum bótaskylda hafa áhrif á skaðabótakröfu; hvort unnt sé að láta sömu meginreglur gilda við ákvörðun skaðabóta til tjónþola hvort sem þeir hafa aflað sér atvinnutekna fyrir slys eða ekki og hvort rétt sé að lögfesta lágmarksviðmiðun í því sambandi; hvort réttara sé að greiða örorkulífeyri út mánaðarlega í stað eingreiðslu skaðabóta þegar örorkustig er hátt og hinn bótaskyldi er fær um að taka á sig slíka skuldbindingu; hvort eðlilegra sé að reikna framtíðartjón út frá nettóárslaunum hins slasaða fremur en heildarárslaunum; hvort möguleikar á frambúðarávöxtun séu aðrir en Hæstiréttur gengur út frá í dómi sínum frá 30. mars 1995 o.fl. Nefndin telur að of mörgum spurningum sé ósvarað enn til að hægt sé að framkvæma allar þær lagabreytingar sem fram kom í tillögunum tvímenninganna að sinni. Nefndin leggur því til að dómsmálaráðherra verði falið að skipa nefnd sérfræðinga til að yfirfara skaðabótalögin í heild sinni. Í þeirri endurskoðun yrði þó sérstaklega hugað að skaðabótum fyrir líkamstjón, meðal annars með hliðsjón af þeim tillögum sem allsherjarnefnd lét vinna og þeim athugasemdum sem fram komu í nefndinni. Þeirri nefnd verði gert að ljúka störfum það tímanlega að ráðherra geti eigi síðar en í október 1997 lagt tillögur nefndarinnar fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps.
    Með hliðsjón af tillögum tvímenninganna og með tilliti til framkominna athugasemda telur allsherjarnefnd þó að ekki verði hjá því komist að gera strax á þessu þingi ákveðnar lágmarksbreytingar á lögunum. Þannig virðist alveg ljóst að sá margföldunarstuðull sem fram kemur í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaganna sé ekki nægjanlega hár til þess að slasað fólk fái fullnægjandi bætur fyrir fjártjón sem leiðir af varanlegri örorku. Nefndin leggur til að stigið verði það skref að þessi stuðull verði hækkaður úr 7,5 í 10 eða um þriðjung. Jafnframt leggur nefndin til að lágmarksákvæði 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna, en sú grein fjallar um bætur til tekjulausra einstaklinga, um að engar örorkubætur greiðist þegar miskastig er minna en 15% verði breytt þannig að lágmarkið verði fært niður í 10% og gerðar samsvarandi breytingar á reiknireglu 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. Þessar tillögur eru jafnframt í samræmi við meirihlutaálit tvímenninganna við fyrri skoðun skaðabótalaganna. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að breytingarnar taki gildi um mitt þetta ár.


Fylgiskjal.


Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður,
Gunnlaugur Claessen hæstaréttardómari:



Álitsgerð um skaðabótalög, nr. 50/1993,


ásamt fylgiskjölum og breytingartillögum.






(49 síður)