Ferill 441. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 441 . mál.


773. Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum, nr. 55 30. mars 1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
    Skilgreining á hugtakinu „Tollyfirvald“ verður svohljóðandi: Ríkistollstjóri og tollstjórar.
    Eftirfarandi orðaskilgreiningar bætast við málsgreinina:
                   Skjalasending milli tölva (SMT): Sendingar á gögnum milli gagnavinnslukerfa sem fylgja ákveðnum stöðlum.
                  Rammaskeyti: Safn samstæðra gagna sem raðað er saman samkvæmt ákveðnum stöðlum fyrir skeyti til flutnings með rafeindaboðum milli tölva og forsniðið er þannig að unnt sé í tölvu að lesa það og vinna sjálfvirkt á vélrænan og ótvíræðan hátt. Rammaskeytin skulu gerð samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum staðli sem samþykktur hefur verið til nota við tollafgreiðslu af ríkistollstjóra, sbr. staðal Sameinuðu þjóðanna (UN/ EDIFACT) fyrir SÞ-rammaskeyti vegna tollafgreiðslu, og í þeim eiga að koma fram sömu upplýsingar og í þeim tollskjölum sem þau eiga að koma í staðinn fyrir og send eru á milli innflytjenda, útflytjenda, farmflytjenda, tollyfirvalda og annarra, auk annarra upplýsinga sem um ræðir í lögum þessum.
                   Gagnaflutningur: Sending rammaskeyta milli innflytjenda, útflytjenda, farmflytjenda, tollyfirvalda og annarra vegna tollafgreiðslu.
                   Gagnaflutningsnet: Almennt gagnaflutningsnet Póst- og símamálastofnunarinnar eða annað sambærilegt gagnaflutningsnet sem notar viðurkenndan alþjóðlegan staðal, t.d. X. 400, og fullnægir skilyrðum ríkistollstjóra að öðru leyti.
                   Gagnahólf: Gagnahólf í gagnaflutningsneti, skráð á nafn SMT-notanda, þar sem unnt er að geyma rammaskeyti frá SMT-notanda og tollyfirvöldum.
                   Lykilorð að gagnahólfi: Sérstakt stafrænt auðkenni sem gerir SMT-notanda mögulegt að fá aðgang að gagnahólfi sínu í gagnaflutningsneti til að senda rammaskeyti eða veita þeim viðtöku.
                   Tölvukerfi ríkistollstjóra: Tölvukerfi og hugbúnaður sem notaður er af tollyfirvöldum við tollafgreiðslu, m.a. álagningu aðflutningsgjalda og innheimtu þeirra.
                   Umflutningur: Flutningur vöru innan lands undir tolleftirliti frá aðkomufari um borð í útflutningsfar, enda sé upphaflegur ákvörðunarstaður vörunnar annar en Ísland.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
    Í stað orðanna „eða ákveða fast gjald fyrir smásendingar, sem sendar eru í pósti, í stað reiknaðra aðflutningsgjalda“ í 2. málsl. 2. tölul. kemur: ákveðið fyrir smásendingar fast gjald eða hundraðshlutagjald (%-gjald) sem ekki sé hærra en meðaltal þeirra gjalda sem hvíla á slíkum vörum, auk virðisaukaskatts, sbr. lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Við 7. tölul. bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. og orðast svo:
                  Ákvæði töluliðar þessa skulu gilda eftir því sem við getur átt um bifreiðar sem erlendir ferðamannahópar, ferðaskrifstofur eða aðrir, sem atvinnu hafa af slíkum fólksflutningum, flytja til landsins vegna hópferðalaga um landið, enda verði þær fluttar úr landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin var ætluð í upphafi.
    Við 13. tölul. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hafi tollur verið endurgreiddur eða felldur niður samkvæmt heimild þessari getur fullbúna varan ekki notið fríðindameðferðar samkvæmt EES-samningnum og öðrum fríverslunar- eða milliríkjasamningum nema annað leiði af efni þeirra.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
    2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
    Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um tollmeðferð samkvæmt þessari grein og bundið hana þeim skilyrðum sem tryggi framkvæmd hennar.

4. gr.


    Á eftir orðunum „greitt er eða greiða ber fyrir vörurnar“ í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: við sölu þeirra til útflutnings til landsins.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
    Í stað orðanna „sölugengi myntar sem skráð er af Seðlabanka Íslands“ í 1. mgr. kemur: opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands.
    2. mgr. orðast svo:
                  Seðlabanki Íslands skal tilkynna ríkistollstjóra daglega um opinbert viðmiðunargengi erlendrar myntar.

6. gr.


    14. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

SMT-tollafgreiðsla o.fl.


    Þeir sem stunda innflutning á vörum í atvinnuskyni skulu áður en vara eða sending er tekin úr vörslu farmflytjanda eða annars vörsluaðila senda viðkomandi tollstjóra með skjalasendingum milli tölva þær upplýsingar sem láta ber honum í té við tollafgreiðslu vara, hér eftir nefnt SMT-tollafgreiðsla. Þegar um er að ræða SMT-tollafgreiðslu skal viðkomandi veittur greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum, sbr. 109. gr., og hann skuldfærður fyrir lánuðum aðflutningsgjöldum, nema greiðsla í ríkissjóð fari þegar fram með SMT-millifærslu af bankareikningi innflytjanda. Sama gildir um þá sem hafa leyfi til að reka frísvæði eða almennar tollvörugeymslur og umboðsaðila er koma fram gagnvart tollyfirvöldum við SMT-tollafgreiðslu fyrir hönd innflytjenda eða viðtakenda vara, enda ábyrgjast þessir aðilar og innflytjendur eða viðtakendur vara in solidum greiðslu aðflutningsgjalda.
    Aðflutningsskýrsla, sem send er með rammaskeyti, telst vera móttekin hjá tollstjóra við skráningu í tölvukerfi ríkistollstjóra. Vara eða sending telst þá vera tekin til tollmeðferðar, enda fullnægi upplýsingarnar, sem veittar eru með þessum hætti, að öllu leyti þeim skilyrðum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að heimila afhendingu vöru eða sendingar þegar í stað. Um ábyrgð leyfishafa á réttmæti þeirra upplýsinga sem koma fram í rammaskeyti fer eftir ákvæðum 17. gr.
    Þegar SMT-tollafgreiðsla fer fram skal innflytjandi senda aðflutningsskýrslu um viðkomandi vöru eða sendingu með rammaskeyti um gagnaflutningsnet til tollstjóra þar sem tollmeðferð á að fara fram. Innflytjandi skal nota gagnahólf sem skráð er á nafn hans. Sama gildir um þá sem hafa leyfi til að reka frísvæði eða almennar tollvörugeymslur og koma fram gagnvart tollyfirvöldum við SMT-tollafgreiðslu fyrir hönd innflytjenda eða viðtakenda vara, enda ábyrgist umboðsaðilar og innflytjendur eða viðtakendur vara in solidum greiðslu aðflutningsgjalda.
    Rammaskeyti samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við fyrirmynd að rammaskeyti fyrir aðflutningsskýrslu eins og ákveðið er af ríkistollstjóra.
    Ríkistollstjóri getur ákveðið að stöðva móttöku skeyta sem send eru í tölvukerfi ríkistollstjóra vegna breytinga á aðflutningsgjöldum, tollskrá, tollgengi eða af öðrum ástæðum sem gera það nauðsynlegt að hans mati.
    Þeir sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum vegna SMT-tollafgreiðslu skulu varðveita í bókhaldi sínu á aðgengilegan og tryggilegan hátt öll gögn sem snerta tollmeðferð vara og sendinga, hvort sem þau eru skrifleg eða ekki. Þeir skulu halda fullkomna skrá eða gagnadagbók í réttri tímaröð og geyma óbreytt öll rammaskeyti sem þeir senda tollstjórum eða móttaka frá þeim. Þegar gagnadagbók er haldin á tölvutæku formi skal á auðveldan hátt vera unnt að nálgast rammaskeyti og endurmynda þau á læsilegan hátt og prenta þau, ef þess er óskað. Ákveða má í reglugerð að nefndir aðilar skuli prenta á pappír og varðveita tilkynningu tollstjóra um skuldfærslu aðflutningsgjalda og að hún skuli varðveitast með tilheyrandi tollskjölum, sbr. og m.a. VIII. kafla laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með áorðnum breytingum. Að öðru leyti ber að varðveita bókhaldsgögn í samræmi við lög nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum, og fyrirmæli sett samkvæmt þeim.
    Reglur 6. mgr. þessarar greinar um varðveislu gagna skulu enn fremur eiga við, eftir því sem við getur átt, um varðveislu gagna af hálfu annarra aðila en þeirra sem ráðstafa vöru eða sendingu til tollmeðferðar samkvæmt lögum þessum, t.d. flutningsmiðlara, farmflytjenda, tollvörugeymslna og rekstraraðila frísvæða, varðandi gögn og upplýsingar sem þessir aðilar hafa sent tollyfirvöldum eða móttekið frá þeim vegna tollmeðferðar vara samkvæmt lögum þessum.
    Ráðherra getur með reglugerð sett almenn skilyrði sem innflytjendur og aðrir þurfa að uppfylla vegna SMT-tollafgreiðslu. Þar skal enn fremur kveðið á um tryggingar fyrir lánuðum aðflutningsgjöldum, frest til skila á upplýsingum um innflutta vöru, uppgjörstímabil, gjalddaga og skil aðflutningsgjalda, greiðslu kostnaðar vegna gagnaflutnings og gjaldtöku vegna þessarar tollmeðferðar, varðveislu gagna sem snerta tollmeðferð og innflutning vara, endurskoðun aðflutningsgjalda, tolleftirlit og önnur atriði eftir því sem nauðsyn ber til.
    Sé vara ekki flutt inn í atvinnuskyni og innflytjandi, viðtakandi eða aðilar, sem fá heimild til að koma fram fyrir þeirra hönd, nýta ekki þjónustu þeirra sem um ræðir í 1. mgr. skulu þeir láta tollstjóra í té skriflega aðflutningsskýrslu um vöru áður en hún er tekin úr vörslu farmflytjanda, póststofnunar eða annars aðila sem hefur slíkar vörur í sinni vörslu.
    Tollstjórum er heimilt að bjóða innflytjendum aðstoð við útfyllingu aðflutningsskýrslu gegn hæfilegu gjaldi sem ákveðið skal í reglugerð og miða skal við eðlilegan rekstrarkostnað af slíkri þjónustu.
    Ráðherra getur í reglugerð eða með öðrum fyrirmælum heimilað afhendingu og viðtöku póstsendinga og vara sem ekki eru á farmskrá, án þess að aðflutningsskýrsla samkvæmt þessari grein sé send eða afhent tollstjóra.

7. gr.


    15. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Form aðflutningsskýrslu.


    Ríkistollstjóri ákveður form aðflutningsskýrslu og hvaða upplýsingar skuli þar koma fram, svo sem um innflytjanda, vöru, flutningsfar og annað sem nauðsynlegt getur talist og varðar innflutning. Ákvæði þetta gildir bæði um aðflutningsskýrslu sem send er tollstjóra með tollskjalasendingum milli tölva vegna SMT-tollafgreiðslu og skriflega aðflutningsskýrslu sem annars ber að afhenda tollstjóra.
    Ríkistollstjóri skal hafa til sölu eyðublöð fyrir skriflegar aðflutningsskýrslur. Er honum heimilt að ákveða verð eyðublaðanna með hliðsjón af kostnaði við prentun, dreifingu og aðra umsýslu tollyfirvalda.
    Innflytjendur geta sjálfir lagt til eyðublöð fyrir aðflutningsskýrslur, enda uppfylli þau skilyrði sem ríkistollstjóri setur um form þeirra.

8. gr.


    16. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Ábyrgð á upplýsingum sem gefnar eru með aðflutningsskýrslu.


    Sá sem sendir tollstjóra aðflutningsskýrslu um vöru með rammaskeyti um gagnaflutningsnet vegna SMT-tollafgreiðslu ber ábyrgð á því að upplýsingar, sem þar eru veittar, séu réttar. Enn fremur ber hann ábyrgð á að um sé að ræða allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær séu byggðar á þeim tollskjölum sem hefði átt að leggja fram með aðflutningsskýrslu ef vöru hefði ekki verið ráðstafað til SMT-tollafgreiðslu. Þessi málsgrein tekur til innflytjanda og annarra sem ráðstafa vöru til SMT-tollafgreiðslu, auk aðila sem heimild hafa til að skuldbinda þá.
    Innflytjandi, eigandi eða annar aðili, sem afhendir tollstjóra skriflega aðflutningsskýrslu eða veitir upplýsingar með öðrum hætti vegna tollafgreiðslu vöru, ber ábyrgð á því að þær upplýsingar séu réttar. Sama gildir um hvern þann sem kemur fram gagnvart tollstjóra fyrir hönd aðila sem um ræðir í þessari grein.

9. gr.


    20. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tollafgreiðsla farangurs ferðamanna og farmanna.


    Ferðamenn og farmenn, sem koma til landsins frá útlöndum, skulu gera tollgæslunni grein fyrir tollskyldum varningi sem þeir hafa meðferðis. Sama gildir um varning sem er háður sérstökum innflutningsskilyrðum eða óheimilt er að flytja til landsins. Þeim er skylt að opna töskur og aðrar umbúðir um farangur þegar tollvörður óskar þess, taka upp úr þeim og veita þá aðstoð og gefa þær upplýsingar um farangurinn sem óskað er eftir.
    Þar sem tollafgreiðsla ferðamanna fer fram er tollstjóra heimilt að hafa aðskilda tollafgreiðslu, annars vegar fyrir þá sem hafa meðferðis tollskyldan varning eða varning sem háður er sérstökum innflutningsskilyrðum eða óheimilt er að flytja til landsins og hins vegar fyrir þá sem hafa engan slíkan varning meðferðis. Farþegar skulu þá sjálfir velja sér tollafgreiðslu og teljast þeir með vali sínu gefa til kynna hvort þeir hafi meðferðis varning sem þeim ber að gera tollgæslunni grein fyrir.
    Taki tollgæslan farangur í sína vörslu til skoðunar síðar getur viðkomandi krafist þess að hann sé innsiglaður þar til skoðun fer fram og að honum verði gefinn kostur á að vera viðstaddur skoðunina. Enn fremur skal honum látin í té fullnægjandi kvittun ef hann óskar þess.
    Með ferðamönnum er í grein þessari átt við farþega sem koma til landsins frá útlöndum með skipum eða flugvélum, en farmenn eru skipverjar og flugliðar sem eru í áhöfn slíkra fara.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um tollafgreiðslu samkvæmt þessari grein.

10. gr.


    Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
    Reynist við tollafgreiðslu nauðsynlegt að fresta lokaákvörðun um tollverð vöru samkvæmt ákvæðum 8.–11. gr. eða önnur atriði sem lög þessi taka til skal innflytjanda engu að síður heimilt að leysa til sín vöruna, að því tilskildu að hann setji fullnægjandi tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda sem kunna að verða lögð á vöruna, tollstjóri telji ekki ástæðu til að halda vörunni vegna endanlegrar ákvörðunar um þau atriði sem upplýsingar skortir um eða ágreiningur er um og ákvæði annarra laga séu því ekki til fyrirstöðu.

11. gr.


    22. gr. laganna orðast svo:
    Tollyfirvald getur neitað um SMT-tollafgreiðslu ef upplýsingar, sem láta ber viðkomandi tollstjóra í té í rammaskeyti sem sent er með skjalasendingum milli tölva, eru ekki réttar, þeim er áfátt eða öðrum skilyrðum um tollafgreiðslu ekki fullnægt.
    Sama gildir ef aðflutningsskýrslueyðublað er ekki rétt og nákvæmlega útfyllt, tilskilin gögn ekki afhent eða öðrum settum skilyrðum um tollmeðferð vöru eða sendingar ekki fullnægt.

12. gr.


    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
    Tollyfirvöldum er skylt að veita almennar upplýsingar og leiðbeiningar um tollflokkun vöru, ákvörðun tollverðs, gjaldtöku og hvaðeina sem lýtur að tollafgreiðslu, sbr. þó 141. gr.

13. gr.


    Við 27. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra getur þó með reglugerð breytt mörkum tollumdæma ef sérstaklega stendur á.

14. gr.


    Orðið „tollgæslustjóri“ í fyrirsögn VI. kafla laganna og orðin „og tollgæslustjóra“ í 2.–4. mgr. 28. gr. þeirra falla brott.

15. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 29. gr. laganna:
    Orðin „í samráði við tollgæslustjóra“ í 1. málsl. falla brott.
    Í stað orðsins „Tollgæslustjóri“ í 3. málsl. kemur: Tollstjóri.
    Við bætist nýr málsliður er orðast svo: Tilkynna skal ríkistollstjóra þegar um slík leyfi.

16. gr.


    1. málsl. 30. gr. laganna orðast svo: Fjármálaráðherra er æðsti yfirmaður tollamála samkvæmt lögum þessum og hefur eftirlit með því að ríkistollstjóri, ríkistollanefnd og tollstjórar ræki skyldur sínar.

17. gr.


    Í stað 31.–40. gr. laganna koma tíu nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, er orðast svo:

    a. (31. gr.)

Ríkistollstjóri.


    Fjármálaráðherra skipar ríkistollstjóra.
    Ríkistollstjóri ræður aðra starfsmenn embættisins og skiptir með þeim verkum. Að tillögu ríkistollstjóra getur ráðherra ákveðið að einn þeirra skuli vera staðgengill ríkistollstjóra.

    b. (32. gr.)
    Ríkistollstjóri fer í umboði ráðherra með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits hvarvetna á tollsvæði ríkisins.
    Ríkistollstjóri skal auk annarra starfa sem honum eru falin lögum samkvæmt hafa eftirlit með störfum tollstjóra og umboðsmanna þeirra og gæta þess að tollframkvæmdin sé í samræmi við lög og reglur og önnur fyrirmæli varðandi tollamálefni og alþjóðasamninga um þau efni sem Ísland er aðili að. Ríkistollstjóri getur kannað tollskjöl aðila og hvert það atriði er varðar framkvæmd laga þessara og annarra laga um tolla og aðra skatta eða gjöld sem lögð eru á af tollstjórum eða umboðsmönnum þeirra. Getur hann í því skyni krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á frá tollstjórum, umboðsmönnum þeirra og öðrum þeim sem fram koma gagnvart tollstjórum vegna tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum, svo og þeim sem um ræðir í 24. og 122. gr.
    Ríkistollstjóri getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt kæru hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar innflutning, umflutning og útflutning á vörum til og frá landinu og ferðir og flutning fara og fólks til og frá landinu, svo og flutning á ótollafgreiddum varningi innan lands samkvæmt lögum þessum eða öðrum lagafyrirmælum.
    Ríkistollstjóri getur falið tollstarfsmönnum við embætti sitt að annast eftirlits- og rannsóknarstörf hvar sem er á landinu og er tollstjórum skylt að veita nauðsynlega aðstoð við framkvæmd starfanna.
    Ríkistollstjóri skal annast framkvæmd og samskipti við erlend tollyfirvöld samkvæmt þeim milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að og lúta að framkvæmd tollamála, nema annað sé þar ákveðið.

    c. (33. gr.)
    Ríkistollstjóri setur tollstjórum og umboðsmönnum þeirra starfsreglur og fyrirmæli varðandi tollframkvæmd. Hann skal veita þeim leiðbeiningar um tollframkvæmdina og kynna þeim dóma, úrskurði og aðrar ákvarðanir sem þýðingu kunna að hafa fyrir störf þeirra. Enn fremur skal hann sjá tollstarfsmönnum fyrir nauðsynlegri fræðslu um tollamál. Ríkistollstjóri skal gefa út leiðbeiningar, úrskurði og önnur gögn sem hann metur að rétt sé að kynnt verði fyrirtækjum og almenningi.

    d. (34. gr.)
    Ríkistollstjóri skal sjá um þróun og rekstur þess tölvu- og upplýsingakerfis sem notað er af hálfu tollyfirvalda við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Hann getur sett innflytjendum, útflytjendum, farmflytjendum og öðrum, sem senda tollyfirvöldum upplýsingar vegna tollafgreiðslu um gagnaflutningsnet, samskiptareglur.
    Ríkistollstjóri ákveður form tollskjala og eyðublaða sem notuð eru við tollframkvæmdina og hvaða atriði skuli þar tilgreina.

    e. (35. gr.)
    Telji ríkistollstjóri ástæðu að lögum til að breyta ákvörðun tollstjóra um eitthvað sem lýtur að framkvæmd laga þessara eða annarra laga um tollamál, m.a. gjöld og skatta sem tollstjórar leggja á og innheimta, getur hann skriflega og með rökstuddum hætti breytt ákvörðun tollstjóra eða falið honum að taka málið upp að nýju.
    Áður en ríkistollstjóri tekur ákvörðun skv. 1. mgr. um breytingu á gjaldtöku skal málsaðilum gefinn kostur á að tjá sig. Endurákvörðun ríkistollstjóra um breytingu á gjöldum skal rökstudd þannig að ljóst megi vera á hvaða forsendum hún er byggð. Gjaldanda skal send tilkynning um endurákvörðun með ábyrgðarbréfi og honum jafnframt bent á heimild til að kæra endurákvörðunina til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. Hafi tollstjóra verið falin endurákvörðun gjalda samkvæmt þessari grein gilda sömu málsmeðferðarreglur.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. taka ekki til úrskurðar og ákvörðunar tollstjóra skv. 100. og 142. gr.

    f. (36. gr.)

Tollstjórar.


    Tollstjórar eru tollstjórinn í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur og sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum, sbr. lög nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    Ráðherra skipar tollstjórann í Reykjavík.
    Tollstjórar, hver í sínu tollumdæmi, annast álagningu og innheimtu tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum. Þeir annast jafnframt hver í sínu tollumdæmi eftirlit með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu og ferðum og flutningi fara og fólks til og frá landinu, svo og flutningi á ótollafgreiddum varningi innan lands, auk annars eftirlits lögum samkvæmt.
    Tollstjórar ráða tollstarfsmenn og skipta með þeim störfum. Tollstarfsmenn, þar með taldir tollgæslumenn, starfa í umboði og á ábyrgð viðkomandi tollyfirvalds.

    g. (37. gr.)
    Fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra geta ákveðið að þar sem henta þykir skuli lögreglumenn annast tolleftirlit jafnframt öðrum löggæslustörfum.
    Fela má starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands að annast tolleftirlit.
    Þegar lögreglumönnum, starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum er falið að vinna tollgæslustörf, án þess að þeir hafi tollgæslu að aðalstarfi, hafa þeir sömu heimildir til starfa og gegna sömu starfsskyldum og tollverðir.
    Tollstjórar geta falið tollvörðum að gegna almennum löggæslustörfum, hverjum í sínu tollumdæmi.

    h. (38. gr.)

Ríkistollanefnd.


    Ríkistollanefnd skal vera óháður úrskurðaraðili í ágreiningsmálum sem til hennar er skotið skv. 101. og 102. gr. um ákvörðun tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu, tollverð, tollflokkun, og annað eftir því sem lög þessi mæla fyrir um.
    Ráðherra skipar þrjá menn í ríkistollanefnd, þar af einn sem formann og skal hann fullnægja skilyrðum til skipunar í héraðsdómaraembætti. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á tollamálum. Nefndarmenn skulu skipaðir til tveggja ára í senn.

    i. (39. gr.)
    Um kærur til ríkistollanefndar og störf hennar fer eftir ákvæðum 101. og 102. gr.

    j. (40. gr.)

Vanhæfi.


    Eigi má maður taka þátt í rannsókn eða annarri meðferð máls, hvorki ákvörðun né kæru, ef honum hefði borið að víkja sæti sem héraðsdómari í málinu.

18. gr.

    2. mgr. 47. gr. laganna orðast svo:
    Ríkistollstjóri ákveður gerð innsigla og notkun þeirra.

19. gr.


    Við 50. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
    Tollyfirvöld annast rannsókn brota á lögum þessum að svo miklu leyti sem slík rannsókn er ekki í höndum lögreglu. Skulu þau, hvenær sem þess er þörf, hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um refsivert brot. Hafi tollstjóri grun um að stórfelld tollsvik hafi verið framin skal hann þegar tilkynna það ríkistollstjóra sem ákveður um framhald málsins. Um rannsókn skulu að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

20. gr.


    Í stað orðsins „hafnsögumenn“ í 3. mgr. 52. gr. laganna kemur: leiðsögumenn.

21. gr.


    1. mgr. 53. gr. laganna orðast svo:
    Ríkistollstjóri ákveður form skýrslna og skjala vegna fara í utanlandsferðum og hvaða upplýsingar skuli þar koma fram, svo sem um flutningsfar, vörur sem það flytur og annað sem nauðsynlegt getur talist og varðar ferðir þess til og frá landinu. Ákvæði þetta gildir bæði um skýrslur og skjöl sem sendar eru tollstjóra með skjalasendingum milli tölva vegna SMT-tollafgreiðslu og um skriflegar skýrslur og skjöl sem annars ber að afhenda tollstjóra. Upplýsingar þessar skulu sendar eða afhentar fyrir eða við komu fars inn á tollsvæði ríkisins en fyrir brottför sé far á leið til útlanda. Ákvæði 14.–25. gr. skulu að öðru leyti gilda eftir því sem við getur átt um slíkar SMT-tollafgreiðslur.

22. gr.


    54. gr. laganna orðast svo:
    Vörur skulu settar á farmskrá til þeirrar tollhafnar sem er ákvörðunarstaður þeirra.

23. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
    Orðin „og tollgæslustjóra“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
    6. mgr. orðast svo:
                  Farmflytjendum er heimilt að geyma umflutningsvörur í geymslu- eða afgreiðslustöðum sem viðurkenndir hafa verið samkvæmt þessari grein.

24. gr.


    Orðin „í samráði við tollgæslustjóra“ í 65. gr. laganna falla brott.

25. gr.


    Í stað 97.–100. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, er orðast svo:

    a. (97. gr.)

Álagning tolla og annarra gjalda.


    Tollstjórar annast álagningu tolla og annarra gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu vara.
    Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að innflytjandi eða umboðsmaður hans skuli reikna út tolla og önnur gjöld í aðflutningsskýrslu.
    Ef tollstjóra er látin í té útreiknuð aðflutningsskýrsla má hann leiðrétta augljósar reikningsskekkjur. Enn fremur má hann leiðrétta einstaka liði aðflutningsskýrslu ef óyggjandi upplýsingar eru fyrir hendi, en gera skal hann innflytjanda viðvart um slíkar breytingar.
    Ef aðflutningsskýrslu er ekki skilað innan tilskilins frests, sbr. 3. mgr. 14. gr. og 23. gr., getur tollstjóri áætlað aðflutningsgjöld eða knúið innflytjanda til að skila aðflutningsskýrslu með stöðvun tollafgreiðslu.

    b. (98. gr.)
    Komi í ljós eftir að aðflutningsskýrsla hefur verið látin tollstjóra í té að hún eða einstakir liðir hennar eða fylgiskjöl eru ófullnægjandi, óglögg eða tortryggileg, eigi skráð á lögmæltan hátt eða undirrituð á ófullnægjandi hátt eða tollstjóri telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði skal hann skora á viðkomandi að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skýringar og þau gögn sem tollstjóri telur þörf á. Fái tollstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan frests leggur hann toll og önnur gjöld á samkvæmt aðflutningsskjölum og fengnum skýringum og gögnum. Ef eigi er bætt úr annmörkum á aðflutningsskýrslu, svar frá viðkomandi berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi, eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir eða send gögn eru ófullnægjandi eða tortryggileg skal tollstjóri áætla aðflutningsgjöld.
    Telji tollstjóri að mat vegna ákvörðunar tollverðs eða annarra atriða sem varða tollafgreiðslu vöru sé eigi á færi annarra en sérfróðra manna skal honum heimilt án dómskvaðningar að láta mat fara fram á kostnað innflytjanda. Um matið skulu gilda ákvæði IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eftir því sem við getur átt. Tollstjóra er einnig heimilt að láta fara fram sérfræðilega rannsókn á vöru á kostnað innflytjanda sé það talið nauðsynlegt vegna tollflokkunar hennar samkvæmt tollskrá.
    Ef innflytjandi vill ekki una við ákvörðun tollstjóra samkvæmt þessari grein getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra skv. 100. gr.

    c. (99. gr.)

Endurákvörðun gjalda.


    Tollstjóri skal í samræmi við ákvæði þessarar greinar endurákvarða innflytjanda aðflutningsgjöld ef í ljós kemur að þau voru ekki rétt ákvörðuð við tollafgreiðslu.
    Hafi innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollmeðferðar látið tollstjóra í té við tollafgreiðslu fullnægjandi upplýsingar og, eftir atvikum, gögn sem byggja mátti rétta álagningu aðflutningsgjalda á skal tollstjóri hafa lokið endurákvörðun aðflutningsgjalda innan 60 daga, talið frá því að hann heimilaði afhendingu vöru. Hafi heimild verið veitt til innflutnings vöru tímabundið en síðan komið til endanlegrar tollafgreiðslu hennar skal frestur til endurákvörðunar vera 60 dagar, talið frá því að aðflutningsgjöld voru ákvörðuð.
    Áður en til endurákvörðunar tollstjóra á aðflutningsgjöldum kemur skv. 1. mgr. skal hann tilkynna viðkomandi skriflega um að til endurákvörðunar geti komið og lýsa í meginatriðum þeim ástæðum sem hann telur að eigi að leiða til þess. Skal tollstjóri jafnframt gefa viðkomandi kost á að tjá sig um hina fyrirhugðu endurákvörðun innan hæfilegs frests og, eftir atvikum, framvísa þeim gögnum sem hann telur máli kunna að skipta við þá ákvörðun. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. um 60 daga frest til endurákvörðunar er nægjanlegt að tollstjóri sendi viðkomandi tilkynningu samkvæmt þessari málsgrein innan þess tíma.
    Endurákvörðun aðflutningsgjalda skv. 2. mgr. skal rökstudd þannig að ljóst megi vera á hvaða forsendum ákvörðun er byggð. Innflytjanda skal tilkynnt um endurákvörðun með ábyrgðarbréfi og honum jafnframt bent á heimild til að kæra hana til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr . er tollstjóra heimilt að endurákvarða aðflutningsgjöld sex ár aftur í tímann, talið frá tollafgreiðsludegi, í eftirfarandi tilvikum, enda sé gætt ákvæða 3. og 4. mgr. þessarar greinar eftir því sem við á:
    Hafi framlögðum gögnum eða þeim upplýsingum, sem látin voru í té við tollafgreiðslu, verið áfátt þannig að ekki var unnt að byggja á þeim rétta álagningu aðflutningsgjalda. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort innflytjandi eða sá sem ráðstafaði vöru til tollafgreiðslu vissi eða mátti vita um réttmæti þessara gagna eða upplýsinga.
    Hafi innflytjandi vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð vöru. Það getur m.a. átt við hafi innflytjandi áður fengið úrskurð tollstjóra eða bindandi ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru í tiltekið tollskrárnúmer samkvæmt tollskrá en síðan tollflokkað sams konar vöru í annað tollskrárnúmer við tollafgreiðslu eða áður flutt inn sams konar vöru og fengið tollafgreidda í ákveðnu tollskrárnúmeri án athugasemda eða með samþykki tollstjóra.
    Þegar um SMT-tollafgreiðslu er að ræða.
    Um greiðslu vaxta vegna oftekinna aðflutningsgjalda gilda ákvæði laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, með síðari breytingum.
    Um greiðslu dráttarvaxta af vangreiddum aðflutningsgjöldum gilda ákvæði vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum.


    d. (100. gr.)

Kærur til tollstjóra.


    Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra um gjaldskyldu, tollflokkun, tollverð eða fjárhæð aðflutningsgjalda við tollmeðferð vöru eigi rétta getur hann sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til viðkomandi tollstjóra. Ef ágreiningur er um tollmeðferð vöru sem hefur verið endanlega tollafgreidd skal kæra send tollstjóra innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi eða innan 60 daga frá póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun tollstjóra á aðflutningsgjöldum samkvæmt 99. gr.
    Telji tollstjóri óljóst á hvaða rökum kæra er reist eða að fylgigögn séu ófullnægjandi skal hann gefa kæranda kost á að bæta úr því innan hæfilegs tíma. Ef þess er eigi gætt varða meinbugir frávísun kæru.
    Úrskurða skal um kæru svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Úrskurður tollstjóra skal rökstuddur þannig að ljóst megi vera á hvaða forsendum hann er byggður. Innflytjanda skal sendur úrskurður í ábyrgðarbréfi og honum bent á heimild til að kæra úrskurðinn til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr.

26. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
    1. mgr. ásamt fyrirsögn greinarinnar orðast svo:

Kærur til ríkistollanefndar


                  Úrskurði og ákvörðun tollstjóra skv. 98., 99., 100. og 142. gr. má skjóta til ríkistollanefndar og skal kærufrestur vera 30 dagar, talið frá póstlagningu úrskurðar eða ákvörðunar tollstjóra.
    2. mgr. orðast svo:
                  Ríkistollstjóra er heimilt að skjóta úrskurði eða ákvörðun tollstjóra, sbr. 1. mgr., til ríkistollanefndar á næstu þremur mánuðum eftir dagsetningu úrskurðar eða ákvörðunar.
    5. mgr. orðast svo:
                  Nefndin skal hafa úrskurðað í öllum kærum innan 30 daga frá því að gagnaöflun er lokið. Sé munnlegur málflutningur viðhafður skal úrskurður kveðinn upp innan 30 daga frá lokum málflutnings.
    Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem verða 6. og 7. mgr. og orðast svo:
                  Ríkistollanefnd er heimilt að kveðja sér til aðstoðar við úrlausn ágreiningsmála sérfróða menn og krefjast upplýsinga samkvæmt ákvæðum laga þessara.
                  Úrskurður ríkistollanefndar er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Málskot til almennra dómstóla um úrlausnarefni sem farið hefur fyrir nefndina frestar eða breytir ekki niðurstöðu hennar fyrr en dómur er genginn.

27. gr.


    1. og 3. mgr. 102. gr. laganna falla brott.

28. gr.


    Í stað tilvísunarinnar „36/1986“ í 2. mgr. 105. gr. laganna kemur: 25/1987.

29. gr.


    106. gr. laganna orðast svo:
    Aðflutningsgjöld skal greiða tollstjóra í því tollumdæmi þar sem vara er flutt úr fari því sem hana flytur til landsins samkvæmt farmskrá. Sé vara framsend ótollafgreidd í annað tollumdæmi en þar sem afferming fór fram, sbr. VII. kafla, skal þó greiða gjöldin í því tollumdæmi sem varan er send til.
    Aðflutningsgjöld af póstsendingum skulu greidd í því pósthúsi þar sem þeirra skal vitjað samkvæmt tilkynningu pósthúss.
    Aðflutningsgjöld af vörum í tollvörugeymslu eða á frísvæði skulu greidd tollstjóra í því tollumdæmi þar sem tollvörugeymsla eða frísvæði er, nema vörurnar séu framsendar ótollafgreiddar í annað tollumdæmi, en þá skal greiða gjöldin þar.
    Hafi innflytjanda verið veittur greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum skv. 109. gr. skal hann greiða aðflutningsgjöld þar sem hann á lögheimili.

30. gr.


    107. gr. laganna orðast svo:
    Póst- og símamálastofnun annast tollheimtu og tollmeðferð póstsendinga sem hún sér um flutning á og skal standa ríkissjóði skil á þeim aðflutningsgjöldum sem hún innheimtir. Póstafgreiðslumenn, sem Póst- og símamálastofnunin tilnefnir, geta krafist þess að fá að skoða í viðurvist viðtakanda póstsendingu sem ætla má að í séu tollskyldar vörur til að ganga úr skugga um að innihaldi hennar beri saman við upplýsingar sem viðtakanda ber að gefa við tollmeðferð sendingarinnar eða nauðsynlegar eru til að hún verði tollafgreidd og að í póstsendingu séu ekki vörur sem bannaður er innflutningur eða útflutningur á eða háðar eru innflutnings- eða útflutningstakmörkunum. Hafni viðtakandi slíkri kröfu skal málið sent tollstjóra til ákvörðunar.
    Tollstjóri getur heimilað aðilum, sem annast vörslu vara eða skipaðir eru sérstakir umboðsmenn tollstjóra, að annast með sama hætti og um ræðir í 1. mgr. tollheimtu og tollmeðferð vara eða veita greiðslu aðflutningsgjalda viðtöku og standa ríkissjóði skil á þeim. Binda má leyfi því skilyrði að leyfishafi setji ríkissjóði tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda og annarra gjalda sem leiða kann af tollmeðferð vöru hjá leyfishafa.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um tollheimtu og tolleftirlit samkvæmt þessari grein og má þar kveða svo á um að ákvæði laganna skuli, eftir því sem við getur átt, gilda um þá aðila sem grein þessi tekur til, svo og starfsmenn þeirra.

31. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. laganna:
    Á undan orðunum „stöðvun tollafgreiðslu“ kemur: dráttarvexti og.
    Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Eindagi aðflutningsgjalda, sem innflytjandi hefur vanreiknað í aðflutningsskýrslu eða vanreiknuð reynast samkvæmt upplýsingum sem gefnar hafa verið við tollafgreiðslu, er tollafgreiðsludagur varanna.
                  Ef aðflutningsgjöld eru ekki greidd á eindaga eins og hann er ákveðinn samkvæmt þessari grein skal frá og með eindaga reikna dráttarvexti af kröfunni fram að greiðsludegi. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta skulu gilda ákvæði vaxtalaga, nr. 25/1987, með áorðnum breytingum.

32. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna:
    Orðin „enda hafi þeir verið skráðir skv. 110. gr.“ í 1. mgr. falla brott.
    Í stað 1. og 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Ráðherra ákveður í reglugerð uppgjörstímabil og eindaga lánaðra aðflutningsgjalda.
    Í stað tilvísunarinnar „36/1986“ í 3. mgr. kemur: 25/1987.

33. gr.


    110. gr. laganna fellur brott.

34. gr.


    Við 111. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 6. mgr. og orðast svo:
    Um mótmæli gegn nauðungarsölu gilda ákvæði XI. og XIV. kafla laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.

35. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 121. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Þeir sem stunda útflutning á vörum í atvinnuskyni skulu, áður en vara eða sending er afhent farmflytjanda eða öðrum vörsluaðila til útflutnings, senda viðkomandi tollstjóra með skjalasendingum milli tölva þær upplýsingar sem láta ber honum í té við tollafgreiðslu vara. Ákvæði 14.–25. gr. skulu að öðru leyti gilda um útflutning eftir því sem við getur átt.
    2. mgr. fellur brott.
    6. mgr. fellur brott.

36. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 122. gr. laganna:
    Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Sé útflytjandi framleiðsluvara sem um ræðir í 1. mgr. annar en framleiðandi þeirra skal auk upprunavottorðs útflytjanda liggja fyrir yfirlýsing framleiðanda sem staðfesti að framleiðsluvörurnar uppfylli skilyrði um fríðindameðferð samkvæmt fríverslunar- eða milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að.
    5. mgr. fellur brott.
    Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Ráðherra getur með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sett nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

37. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 126. gr. laganna:
    Á eftir orðunum „rangar upplýsingar, sbr. 1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: eða leggja ekki fram til tollmeðferðar gögn sem 18.–20. gr. taka til eða með öðrum hætti skýra rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir við álagningu aðflutningsgjalda.
    Á eftir orðinu „sektum“ í 2. mgr. kemur: sem nema skulu að lágmarki tvöfaldri en að hámarki tífaldri þeirri fjárhæð sem undan var dregin af aðflutningsgjöldum.
    Síðari málsliður 4. mgr. fellur brott.
    Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Gera má lögaðila og fyrirsvarsmanni hans að greiða in solidum sekt fyrir brot á lögum þessum þrátt fyrir að ekki sé upplýst um saknæman verknað starfsmanna lögaðilans, enda hafi brotið verið framið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

38. gr.


    134. gr. laganna fellur brott.

39. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 139. gr. laganna:
    Í stað orðanna „Tollyfirvöldum“ og „tollyfirvald“ í 2. mgr. kemur: Tollstjóra, og: tollstjóri.
    Á eftir orðunum „ólöglegan innflutning“ í 2. mgr. kemur: eða önnur brot gegn lögum þessum.
    Í stað fjárhæðanna „50.000 kr.“ og „100.000 kr.“ í 2. mgr. kemur: 150.000 kr., og: 300.000 kr.
    Við bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
                  Sektir og eignaupptaka samkvæmt þessari grein skulu ákveðnar af tollstjóra eða löglærðum fulltrúa hans.
    3. mgr., sem verður 4. mgr., orðast svo:
                  Senda skal ríkissaksóknara skrá um mál sem lokið er skv. 2. mgr. eftir þeim reglum sem dómsmálaráðherra setur, en m.a. skulu ákvæði 19. og 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, gilda um færslu á sakaskrá og leiðbeiningu ríkissaksóknara um sektarfjárhæð fyrir hverja tegund brots.

40. gr.


    142. gr. laganna orðast svo:
    Ef óskað er bindandi upplýsinga um tollflokkun vöru skal senda skriflega beiðni þar að lútandi til tollstjóra. Tollstjóri tekur ákvörðun um tollflokkun vöru samkvæmt þessari grein sem er bindandi fyrir fyrirspyrjanda og tollyfirvöld, nema hún sé afturkölluð af tollstjóra eða henni breytt eftir kæru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr.
    Tollstjóra er ekki skylt að verða við beiðni skv. 1. mgr. ef hún lýtur að vöru sem þegar hefur verið tollafgreidd eða vöru sem er í sendingu sem flutt hefur verið til landsins. Sama gildir ef beiðni reynist augljóslega vera tilefnislaus.
    Erindi skulu fylgja þau gögn sem eru nauðsynleg til þess að unnt sé að ákveða tollflokkun vöru, svo sem teikning, mynd, vörulýsing eða bæklingur. Ef nauðsyn ber til að mati tollstjóra getur hann sett skilyrði um að sýnishorn af vöru sé lagt fram áður en hann tekur ákvörðun um tollflokkun.
    Tollstjóri skal svara beiðni skriflega innan 30 daga frá því að hún berst. Í svari tollstjóra skal í meginatriðum koma fram á hvaða rökum niðurstaða er byggð. Telji tollstjóri að beiðni hafi ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar eða henni fylgi ekki nauðsynleg gögn til þess að unnt sé að ákveða tollflokkun skal hann tilkynna viðkomandi hvaða upplýsingar eða gögn vanti. Þegar úr því hefur verið bætt skal tollstjóri svara beiðni innan 30 daga. Afrit af svari tollstjóra ásamt ljósriti af mikilvægustu gögnum skal sent ríkistollstjóra sem skotið getur ákvörðuninni til ríkistollanefndar.

41. gr.


    146. gr. laganna orðast svo:
    Ríkistollstjóri setur nánari reglur um skil tollstjóra á upplýsingum úr aðflutnings- eða útflutningsskjölum og öðrum gögnum að höfðu samráði við Hagstofu Íslands.

42. gr.


    Á eftir orðunum „einfalda tollmeðferð“ í 147. gr. laganna kemur: vegna gagnkvæmra upplýsingaskipta og innheimtu vangreiddra gjalda.

43. gr.


    Við lögin bætist ný grein sem verður 149. gr. og orðast svo:
    Ákvæði laga þessara um innflutning skulu gilda um útflutning og umflutning eftir því sem við getur átt.

44. gr.


    Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.
    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 55 30. mars 1987, ásamt síðari breytingum og breytingum á viðaukum við þau, og gefa þau út með samfelldri greinatölu svo breytt.

45. gr.


    Við gildistöku laga þessara kemur í stað orðsins „tollgæslustjóra“ í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 56/1972, um lögreglumenn: ríkistollstjóra.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Til 1. janúar 2000 er heimilt að skila tollskjölum í því formi sem ákveðið var fyrir gildistöku þessara laga en SMT-tollafgreiðsla er heimil að því leyti sem hún hefur þegar verið tekin upp eða verður tekin upp eftir gildistöku þessara laga og skulu ákvæði þessara laga þá gilda að öllu leyti um framkvæmd hennar. Reglugerðir og öll önnur fyrirmæli, sem sett hafa verið skv. 14. gr., 15. gr., 1. mgr. 53. gr. og 1. og 2. mgr. 121. gr. tollalaga, nr. 55/1987, eins og þau voru fyrir gildistöku þessara laga, skulu halda gildi sínu til 1. janúar 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Almennar athugasemdir.


    Frumvarp þetta er liður í áformum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að kveða skýrar á um hlutverk, ábyrgð og verkaskiptingu milli æðri sem lægri stjórnsýslustiga innan tollakerfisins til að gera það skilvirkara. Jafnframt að tryggja borgurunum betur en nú rétt til að fá efnislega umfjöllun sinna mála, m.a. þegar ágreiningur rís um tollmeðferð vöru. Með frumvarpinu eru settar skýrar reglur um upplýsingaskyldu tollyfirvalda um hvaðeina sem snýr að tollafgreiðslu. Lagt er til að einfölduð verði tollafgreiðsla ýmiss smávarnings m.a. í pósti, jafnframt því sem gert er ráð fyrir að tollmeðferð við inn- og útflutning á vörum í atvinnuskyni verði alfarið sniðin að nútímaupplýsingatækni og tölvuvæddri tollafgreiðslu komið á í því skyni árið 2000.

Skipulag yfirstjórnar tollamála.


    Við gildistöku tollalaga nr. 55/1987 var ákveðið að stofna nýtt embætti, embætti ríkistollstjóra. Sérstakt heimildarákvæði var jafnframt sett í lögin þar sem gert var ráð fyrir að ákveða mætti að tollstjórinn í Reykjavík gegndi starfi ríkistollstjóra auk starfa sinna sem tollstjóri.
    Af hálfu þeirra sem unnu að undirbúningi lagasetningarinnar var þetta fyrirkomulag einungis hugsað sem liður í undirbúningi að stofnun sjálfstæðs embættis er hefði með höndum yfirstjórn framkvæmdar tollheimtu og tolleftirlits og eftirlit og boðvald gagnvart einstökum tollstjórum. Ljóst var að ekki gengi til lengdar að eitt hliðsettra stjórnvalda, tollstjórinn í Reykjavík, hefði í raun bæði eftirlit með eigin gerðum og annarra tollstjóra og því var fyrirhugað að þessi skipan mála yrði tekin til endurskoðunar að fenginni nokkurri reynslu. Fyrirkomulag þetta á sér hins vegar sína forsögu sem hér skal að nokkru rakin.
    Frá því að tilskipun handa Íslandi um gjald á brennivíni og öðrum áfengum drykkjum var sett árið 1872, og landssjóður fékk þar með sinn fyrsta fasta tekjustofn, hefur tollheimta og tolleftirlit um land allt með litlum breytingum verið í höndum bæjarfógeta og sýslumanna, en ekki sjálfstæðra tollstjóra eða innheimtumanna. Á þessu varð þó nokkur breyting árið 1917 er bæjarfógetaembættinu í Reykjavík var skipt upp og lögreglustjóraembætti stofnað í Reykjavík er auk annarra löggæslustarfa skyldi sjá um tollheimtu og tollgæslu í Reykjavík. Umfang tollheimtunnar í Reykjavík óx verulega á næstu árum og var svo komið árið 1927 að óhjákvæmilegt var talið að stofna sjálfstætt tollstjóraembætti þar er sinnti alfarið tollheimtu og tolleftirliti. Breytingar á samgöngum, vöruflutningum til landsins og vinnubrögðum almennt við innflutning leiddu til þess að ástæða var talin til þess að breyta fyrirkomulagi tolleftirlits utan Reykjavíkur með því að setja í lög heimild fyrir fjármálaráðuneytið, m.a. til að ráða menn til tollgæslu um stundarsakir eða við sérstök tækifæri, sbr. 2. gr. laga nr. 47/1956. Nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar heimildar voru síðan sett með 3. gr. reglugerðar nr. 41/1957. Þar sagði að utan Reykjavíkur heyrðu tollgæslumenn undir yfirstjórn sérstaks umboðsmanns fjármálaráðuneytisins sem annaðist þar fyrir hönd ráðuneytisins umsjón með framkvæmd tollgæslunnar samkvæmt því sem nánar yrði ákveðið í erindisbréfi hans.
    Með lögum nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, var þessu fyrirkomulagi síðan breytt er tekið var upp heimildarákvæði fyrir fjármálaráðherra til þess að fela tollstjóranum í Reykjavík yfirstjórn ákveðinna þátta tollamála, eftir því sem henta þætti. Var jafnframt ákveðið að setja sérstakan tollgæslustjóra við embætti tollstjóra í Reykjavík að fengnum tillögum tollstjóra er annaðist í umboði hans stjórn tollgæslunnar í Reykjavík og yfirstjórn tollgæslunnar utan Reykjavíkur.
    Um þetta sagði þáverandi fjármálaráðherra, Magnús Jónsson, í framsöguræðu er hann mælti fyrir frumvarpi að nefndum lögum um tollheimtu og tolleftirlit, sbr. C-deild Alþingistíðinda frá 1967, dálk 509–510:
    „Þá er með þessu frv. lagt til að lögfesta ástand, sem í rauninni hefur skapast, án þess að væri gert ráð fyrir því í l., en það hefur verið ákveðið með reglugerð, en það er, að tollstjórinn í Reykjavík fari formlega með yfirstjórn tollgæslunnar um land allt, þótt sýslumenn og bæjarfógetar verði að sjálfsögðu áfram tollstjórar á sínum stað. En það hefur verið framkvæmt þannig að undanförnu, að sérstakur tollgæslustjóri hefur verið skipaður við embætti tollstjóra, og hefur honum verið falið umboð til þess að hafa yfirumsjón með tollgæslunni um land allt. Þetta hefur gefið mjög góða raun og þykir því sjálfsagt að lögfesta þessa skipan mála.“
    Við breytta stjórnskipulega stöðu ríkisendurskoðunar árið 1987, er starfsemi hennar varðandi endurskoðun og eftirlit með fésýslu ríkisins var færð undir Alþingi, varð ekki hjá því komist að taka afstöðu til þess með hvaða hætti framkvæmdarvaldið, í þessu tilviki fjármálaráðuneytið, kæmi fyrir innra eftirliti með störfum tollstjóra/innheimtumanna ríkissjóðs, bæjarfógeta, sýslumanna, lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli og tollstjórans í Reykjavík, við álagningu og innheimtu aðflutningsgjalda og að tollamálum almennt. Tveir kostir komu á því stigi til álita. Annars vegar að yfirtaka þau verkefni Ríkisendurskoðunar er sneru að tollamálum og færa þau til tolladeildar fjármálaráðuneytisins en hins vegar að stofna nýtt embætti er færi með þennan málaflokk. Síðari kosturinn varð fyrir valinu og var jafnframt ákveðið að byggja embætti ríkistollstjóra upp með hliðstæðum hætti og embætti ríkisskattstjóra. Um leið var ákveðið að færa vissa þætti tollamála til tollstjóranna og setja á laggirnar sjálfstæðan úrskurðaraðila, ríkistollanefnd, er færi með úrskurðarvald í tollamálum, en það vald hafði legið hjá fjármálaráðherra. Tollgæslan var í heild sinni færð undir embætti ríkistollstjóra ásamt tollgæslustjóra sem áður tilheyrði embætti tollstjórans í Reykjavík eins og þegar er komið fram.
    Auk nefndra breytinga á tollstjórninni voru gerðar ýmsar breytingar á gildandi lagaákvæðum og ný ákvæði tekin upp í tengslum við fyrirhugaða tölvuvinnslu upplýsinga úr tollskýrslum. Ekki er ástæða til að rekja þessar breytingar í einstökum atriðum hér en ítarleg grein var gerð fyrir þeim í frumvarpi til tollalaga sem lagt var fyrir Alþingi og afgreitt sem lög nr. 55/1987.
    Nú að tæpum níu árum liðnum frá setningu tollalaga er fengin nokkur reynsla af þeirri skipan tollstjórnarinnar og ýmsum þeim lagafyrirmælum sem þá voru lögfest. Verður að telja í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd laganna að nauðsynlegt sé að gera á þeim ýmsar breytingar, bæði að því er varðar yfirstjórn tollamála og einstök ákvæði er mæla fyrir um tolleftirlit, álagningu, innheimtu og úrlausn ágreiningsmála. Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á lögunum.
    Grundvallaratriði í allri stjórnsýslu er að réttarstaða þeirra sé skýr sem framfylgja eiga eða hlíta þeirri löggjöf sem á hverjum tíma gildir um tollamál. Gildir það jafnt um sambandið á milli æðra og lægra setts stjórnvalds og um samskipti borgaranna við þessi stjórnvöld. Eins og áður sagði var sá kostur valinn við setningu tollalaga árið 1987 að heimila ráðherra að fela tollstjóranum í Reykjavík að hafa eftirlit með og boðvald yfir hliðsettu stjórnvaldi. Jafnframt var ákveðið að setja tollgæsluna í heild sinni undir yfirstjórn ríkistollstjóra og fela líkt og áður sérstökum tollgæslustjóra stjórn hennar.
    Reynslan hefur leitt í ljós að staða þessara aðila, svo og valdmörk milli þeirra, er óljós auk þess að vera stjórnunarlega og stjórnskipunarlega óæskileg. Sé á annað borð talin ástæða til þess að færa yfirstjórn vissra þátta tollamála, sem stjórnunarlega eiga undir fjármálaráðuneytið, frá ráðuneytinu og fela öðru stjórnvaldi ætti tvímælalaust að fela hana sjálfstæðu embætti og kveða nánar í lögum á um verkefni sem það bæri ábyrgð á, svo og kveða skýrt á um stöðu lægra settra tollyfirvalda gagnvart slíku embætti.
    Um tvo kosti er að ræða í þessum efnum. Annars vegar að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var í tollalögum og gera ráð fyrir sjálfstæðu ríkistollstjóraembætti. Hins vegar að feta í fótspor Dana og sameina í einu embætti alla yfirstjórn tolla- og skattamála. Það mundi í raun þýða að starfsemi ríkistollstjóra og ríkisskattstjóra yrði sameinuð í einu embætti. Ef fylgt yrði danska fyrirkomulaginu fylgdi sameining embætta skattstjóra og tollstjóra (sýslumanna að því marki sem störf þeirra tengdust skatta- og tollamálum) í kjölfarið.
    Þrátt fyrir að Danir hafi valið þann kost að sameina starfsemi nefndra aðila er alls ekki víst að sá kostur henti hér á landi. Ljóst er að ákvarðanataka í þessum efnum kallar á víðtæka athugun á áhrifum slíkrar breytingar á íslenskt skatt- og innheimtukerfi þar sem ýmsir þættir aðrir en hagkvæmni spila inn í og hafa áhrif á hina endanlegu pólitísku ákvörðun í málinu. Þar þarf að skoða m.a.:
    Mismunandi umdæmaskipan, þ.e. skattumdæmin (sem eru 9) falla ekki saman við tollumdæmin en þau síðarnefndu falla saman við umdæmi sýslumanna (sem eru 27).
    Nýlega hafa verið sett lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Eflaust þyrfti að breyta þessum lögum ef af sameiningu yrði. Samkvæmt frumvarpi til lögreglulaga, sem dómsmálaráðherra hefur látið semja, er gert ráð fyrir að landinu verði skipt upp í 10 rannsóknarumdæmi og umdæmismörk lögreglustjóra verði að því leyti önnur en núverandi stjórnsýsluumdæma.
    Ekki er víst að staðsetning einstakra skattstjóraembætta væri eðlileg miðað við tollhafnir (aðaltollhafnir) eða komu- eða brottfararstaði flutningsfara til og frá landinu.
    Einungis yrði um að ræða tilfærslu á skattalegum verkefnum. Eftir yrðu ýmis verkefni löggæslulegs eðlis eins og eftirlit með ferðum útlendinga til landsins sem tollgæslumenn hafa sinnt ásamt lögreglu.
    Hér hafa aðeins verið nefnd einstök dæmi. Af þeim má þó ljóst vera að það krefst vandaðs undirbúnings að gera jafnviðamikla breytingu og hér um ræðir. Alls er óvíst að sú breyting mundi leiða til hagræðingar í rekstri hins opinbera. Meðal annars af þeirri ástæðu er lagt til að á þessu stigi verði einungis gerðar þær breytingar að embætti ríkistollstjóra verði gert að sjálfstæðu embætti sem fari með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits og hafi jafnframt eftirlit með störfum tollstjóra sem fari með stjórn þessara mála, hver í sínu tollumdæmi, þar á meðal stjórn tollgæslu. Þegar stjórn þessara verkefna hefur verið færð heim í héruðin eins og reyndar er gert ráð fyrir í lögum nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, er ekki lengur grundvöllur fyrir því að gerður sé sérstakur greinarmunur á einstökum stöðum innan ríkistollstjóraembættisins eins og nú er, enda ekkert sem bendir til þess að einn þáttur tollamála sé öðrum mikilvægari. Með tilkomu sjálfstæðs ríkistollstjóraembættis, sem er stjórnvaldsstig milli fjármálaráðuneytisins og einstakra tollstjóra, eru ekki lengur rök til þess að sérstaks umboðsmanns fjármálaráðuneytisins sé sérstaklega getið í lögunum. Tollgæslumál eru aðeins einn þáttur tollamála og eiga eins og önnur eftirlitsstörf að heyra undir ríkistollstjóra. Ber því að skipa tollgæslumálum þannig að þau verði eðlilegur hluti verkefna sem heyra undir embætti ríkistollstjóra. Því er lagt til að horfið verði frá því að innan ríkistollstjóraembættisins starfi sérstakur embættismaður sem beri starfsheiti tollgæslustjóra og að starfið verði lagt niður.
    

Réttaröryggi borgaranna.


    Á árinu 1992 tók umboðsmaður Alþingis að eigin frumkvæði til athugunar skilyrði stjórnsýslukæru til ríkistollanefndar. Tilefnið var að umboðsmaður hafði orðið þess var við athuganir á kvörtunum og ábendingum sem honum höfðu borist hve þröng kæruheimild innflytjenda var skv. 100. og 101. gr. tollalaga. Meðal skilyrða þess að ríkistollanefnd taki mál til efnismeðferðar er að tollstjóri hafi kveðið upp úrskurð í málinu skv. 100. gr. laganna. Til að tollstjóri taki mál til kæranlegs úrskurðar verður hins vegar sending eða vara að vera í vörslu farmflytjanda eða póststofnunar, eða tollstjóri að hafa veitt sérstaka heimild til afhendingar hennar þrátt fyrir framkomna kæru, sbr. 2. málsl. 100. gr. Skilyrði þetta var rökstutt með því að illmögulegt gæti verið að staðreyna hvernig vara hefði verið úr garði gerð er hún var tekin til tollmeðferðar, en aðflutningsgjöld miðuðust við tollflokkun á því tímamarki. Umboðsmaður taldi skilyrðið ganga mun lengra en nauðsyn bæri til. Benti hann á í því sambandi að ágreiningur, sem borinn væri undir tollyfirvöld, væri ekki alltaf um gerð vöru, og jafnvel þegar svo stæði á kynni innflytjandi að geta framvísað vörunni og sýnt fram á með nokkuð tryggum hætti að hún hefði ekki tekið breytingum. Taldi umboðsmaður því æskilegt, að umrætt skilyrði 2. málsl. 100. gr. yrði tekið til endurskoðunar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum í samræmi við þessar tillögur umboðsmanns Alþingis.
    Mikilvægt er að framkvæmd tollalaga sé með þeim hætti að réttaröryggi borgaranna sé tryggt komi til ágreinings, m.a. um tollmeðferð vöru. Einnig varðar miklu að skýrt sé kveðið á um réttaráhrif bindandi upplýsinga sem tollstjórar veita um tollflokkun vara. Þá er ekki síður mikilvægt að öllum sé ljós sú almenna upplýsingaskylda sem hvílir á tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vara og í öðru tilliti. Það er mikilvægt fyrir aðila að geta átt málskotsrétt að fengnu áliti tollstjóra um tollflokkun. Niðurstaða um tollflokkun getur haft úrslitaáhrif á viðskipti og því mikilvægt að unnt sé að leita úrlausnar óháðs úrskurðaraðila.
    Samkvæmt 2. mgr. 142. gr. núgildandi tollalaga getur innflytjandi nú óskað eftir bindandi upplýsingum ríkistollstjóra um tollflokkun vöru, en hins vegar er ekki reiknað með að hann geti fengið niðurstöðu ríkistollstjóra endurskoðaða hjá ríkistollanefnd. Í 1. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 96/1987, um breytingu á þeim, er tæmandi talið hvaða ágreiningsmálum verði skotið til ríkistollanefndar. Þar er einungis reiknað með því að unnt sé að kæra til nefndarinnar úrskurði skv. 100. gr. og endurákvörðun ríkistollstjóra, sbr. 3. mgr. 32. gr. Þar sem ekki er hægt að kæra bindandi upplýsingar ríkistollstjóra um tollflokkun hefur innflytjandi, sem ekki sættir sig við niðurstöðuna, ekki aðra möguleika til að fá mál sitt endurskoðað hjá ríkistollanefnd en að flytja vöru til landsins og leita síðan úrskurðar tollstjóra skv. 100. gr. Síðan getur hann skotið niðurstöðu tollstjóra til ríkistollanefndar.
    Í gildandi lögum er ekki tekið af skarið um hvaða réttaráhrif bindandi upplýsingar um tollflokkun hafa. Til að mynda er ekki ljóst hvort tollstjóri er bundinn af slíku áliti eða upplýsingum ríkistollstjóra um tollflokkun ef innflytjandi kærir til tollstjóra ákvörðun um tollflokkun vöru. Í frumvarpinu er lagt til að málsmeðferð í þessum efnum verði öll einfölduð með því að tollstjórum í stað ríkistollstjóra verði falið þetta verkefni, sbr. 40. gr. frumvarpsins, og innflytjanda heimilað að skjóta ákvörðun tollstjóra til ríkistollanefndar, sbr. 26. gr. frumvarpsins. Sama gildi um ríkistollstjóra sem hafa skal eftirlit með því að ákvarðanir tollstjóra séu lögum samkvæmt.
    Auk þessara breytinga á ákvæðum laganna um upplýsingagjöf vegna tollflokkunar er lagt til að kveðið verði skýrt á um upplýsingaskyldu tollyfirvalda, m.a. vegna tollmeðferðar vara. Lögin kveða rækilega á um upplýsingaskyldu viðskiptavina tollyfirvalda en í minna mæli um upplýsingaskyldu tollyfirvalda sjálfra. Full ástæða er til að árétta leiðbeiningarskyldu tollyfirvalda, þrátt fyrir almennt ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Er því lagt til að ákvæði um upplýsingaskyldu tollyfirvalda verði tekið upp í tollalög, sbr. 12. gr. frumvarpsins.

Tölvuvædd tollafgreiðsla.


    Fyrirtæki í dag vinna almennt með upplýsingar um viðskipti í tölvuvæddu umhverfi, hvort sem um milliríkjaviðskipti eða viðskipti innan lands er að ræða. Upplýsingaskipti milli fyrirtækja og jafnvel einstaklinga fara jafnframt í auknum mæli fram með skjalaskiptum milli tölva. Af því er augljóst hagræði að allar grunnupplýsingar, sem fara eiga á milli aðila, séu aðeins skráðar einu sinni, þ.e. hjá sendanda þeirra, og þær síðan notaðar aftur af viðtakanda án endurtekinnar skráningarvinnu.
    Þegar síðasta heildarendurskoðun laga sem snertu tollamál fór fram árið 1987 og heildarlöggjöf var gefin út um þann málaflokk með tollalögum, nr. 55/1987, var tekið upp heimildarákvæði í lögin til þess að hægt yrði að taka upp tölvuvædda afgreiðsluhætti eftir því sem tæknilegar aðstæður sköpuðust. Allt frá árinu 1977 hafði verið unnið að athugun og undirbúningi þessara mála. Tæknilegar forsendur voru fyrir hendi til þess að taka upp vélræna álagningu aðflutningsgjalda 1. janúar 1988 en nokkrum árum áður hafði tölvuvinnsla upplýsinga úr farmskrám verið tekin upp, fyrst með skilum á disklingum en síðar beinlínutengingu farmflytjenda við tollkerfið. Tölvuvædd álagning aðflutningsgjalda hófst hins vegar í upphafi árs 1988 og hefur reynst vel. Þessi áfangi var hins vegar aðeins sá fyrsti af mörgum í átt til breyttra tollafgreiðsluhátta sem síðan hefur verið unnið að. Í dag fer tollafgreiðsla í pósti fram með sama hætti.
    Á árinu 1988 var jafnframt farið að taka við upplýsingum úr aðflutningsskýrslum á disklingum sem skráðar voru vélrænt í tölvukerfi tollsins. Þessi vinnsla var aðeins undirbúningur undir fullkomnari upplýsingaskipti þar sem innflytjendur og tollyfirvöld skiptust á upplýsingum með vélrænum skjalaskiptum milli tölva. Takmarkið var að innflytjendur gætu lokið skýrslugerð sinni gagnvart tollyfirvöldum í hvaða tollumdæmi sem er frá starfsstöðvum sínum. Jafnframt ætti ekki að skipta máli á hvaða tíma sólarhringsins unnið væri í kerfinu — hið endanlega markmið var allt að 24 tíma afgreiðslutími, enda innflytjendur skuldfærðir vélrænt fyrir öllum aðflutningsgjöldum, þar með töldum virðisaukaskatti.
    Í september 1992 var tæknilegum undirbúningi lokið að alsjálfvirku tollafgreiðslukerfi og sérstök reglugerð sett um þessa tollafgreiðsluhætti, sbr. reglugerð nr. 309/1992, um tollafgreiðslu og greiðslufrest á aðflutningsgjöldum þegar tollskjöl eru send milli tölva. Ætla má að yfir 25% allra vörusendinga, sem tollafgreiddar verða hjá tollstjórum á þessu ári, fari um alsjálfvirkt tollafgreiðslukerfi. Til viðbótar skila innflytjendur upplýsingum úr aðflutningsskýrslum í um 55% tilvika á disklingum.
    Þótt mikil hagræðing hafi náðst fram með þessum nýju tollafgreiðsluháttum er ljóst að markmiðinu um fullkomlega tölvuvætt tollafgreiðslukerfi verður ekki náð nema breyting verði á viðhorfum allra, jafnt yfirvalda sem fyrirsvarsmanna fyrirtækja, til mikilvægis þess að hámarka nýtingu þess tölvubúnaðar sem fjárfest hefur verið í.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 eru í fyrsta skipti á Íslandi tekin upp á vettvangi opinberrar stjórnmálaumræðu ákvæði er beinlínis varða beitingu upplýsinga- og fjarskiptatækni til að bæta stjórnsýsluna. Þar segir m.a.: „Þjónusta ríkisins verði sniðin að nútíma tækni, t.d. með nettengingu þjónustustofnana og pappírslausum tollviðskiptum.“
    Í frumvarpi þessu, sem tekur mið af nefndri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og áliti ráðgjafarnefndar fjármálaráðuneytisins um upplýsinga- og tölvumál, er lagt til að horfið verið frá hefðbundnum skriflegum tollskýrslum sem afhenda beri hjá tollstjóra. Í þess stað verði stefnt að því á næstu árum að taka upp alsjálfvirka tölvuvædda tollafgreiðslu og aðilum, sem stunda milliríkjaviðskipti eða vöruflutninga í atvinnuskyni, verði gert skylt að senda upplýsingar um vöruviðskipti og vöruflutninga með skjalasendingum milli tölva. Gert er ráð fyrir að slíkir tollafgreiðsluhættir, hvort sem þeir snerta tollafgreiðslu vara eða flutningsfara, verði komnir á um aldamótin 2000.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Vegna þeirra breytinga sem leiðir af breyttri skipan yfirstjórnunar tollamála samkvæmt frumvarpi þessu er lagt til að viðeigandi breytingar verði gerðar á skýringu 1. gr. laganna á hugtakinu „tollyfirvald“.
    Jafnframt er lagt til að teknar verði upp nokkrar orðskýringar sem tengjast þeim breytingum sem verða með upptöku tölvuvæddrar tollafgreiðslu. Ýmis réttaráhrif eru til að mynda tengd slíkri tollmeðferð vöru og getur skipt verulegu máli við hvaða atvik miða eigi stofnun réttinda eða skyldu í því sambandi.

Um 2. gr.


    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að nokkrar minni háttar breytingar verði gerðar á heimildum ráðherra skv. 6. gr. tollalaga í því skyni að auðvelda tollmeðferð og kveða skýrar á um efni heimildanna.
    Í fyrsta lagi er lagt til að rýmkuð verði heimild í 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. þannig að hægt verði að ljúka tollmeðferð smásendinga á einfaldan og ódýran hátt. Margar smásendingar berast til landsins, m.a. í pósti. Reynt hefur verið í framkvæmd að einfalda tollmeðferð þessara sendinga með því að sameina þær undir eitt tollskrárnúmer þótt vörur í sendingunni falli strangt tiltekið undir fleiri en eitt númer. Þó hefur verið skilyrði að tollskrárnúmerin sem einstakar vörur í sendingunni falla undir beri sömu gjöld. Æskilegt er að hægt verði að ganga lengra í þessum efnum og tollafgreiða án sérstakrar tollflokkunar allar smásendingar. Viðmiðunarmörk smásendingar í þessu sambandi gætu verið hin sömu og gilda um smásendingar skv. 26. gr. bókunar 4 við EES-samninginn eða 500 ECU. Þannig mundu slíkar vörusendingar verða samflokkaðar og njóta tollfrelsis við innflutning frá EES að uppfylltum skilyrðum nefndrar bókunar en hlutfallslegt gjald, t.d. 5% aðflutningsgjald, greitt af smásendingum frá löndum utan EES-svæðisins.
    Í öðru lagi er lagt til að lögfest verði skýr heimild til tímabundins tollfrjáls innflutnings á hópferðabifreiðum sem erlendir ferðamenn og aðrir flytja til landsins til ferðalaga hér á landi. Þessi háttur ferðalaga til landsins hefur aukist hin síðari ár eins og slík ferðalög Íslendinga til útlanda. Núgildandi tollalög taka ekki skýrt á slíkum innflutningi hópferðabifreiða til landsins en í framkvæmd hefur gilt sú regla sem lagt er til að tekin verði upp skv. b-lið 2. gr. frumvarpsins.
    Að lokum er lagt til að bætt verði við nýjum málslið í 13. tölul. 6. gr. laganna sem kveði skýrt á um að endurgreiðsla eða niðurfelling tolla af efnivörum til innlendrar framleiðslu leiði til þess að hin íslenska framleiðsluvara glati rétti til fríðindameðferðar samkvæmt EES-samningnum, þ.e. geti ekki notið tollfrelsis vegna útflutnings til annarra aðildarríkja EES-samningsins.

Um 3. gr.


    Núgildandi ákvæði um tollmeðferð vara, sem sendar hafa verið til viðgerðar eða annarrar aðvinnslu erlendis, taka ekki mið af þeim breytingum sem orðið hafa eða verða á komandi árum með tölvuvæddri tollafgreiðslu. Ýmis skilyrði um staðfestingar og útfyllingu sérstaks eyðublaðs koma í veg fyrir hagræðingu við tollafgreiðslu. Því er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja um tollafgreiðslu þessara vara þær reglur sem tryggi rétta tollmeðferð þeirra og taki þá mið af þeirri tækni sem notuð verður í framtíðinni til að vinna úr upplýsingum um viðkomandi vörusendingu.

Um 4. gr.


    Með aðild Íslands að samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina 1994 gerðist Ísland jafnframt aðili að Samningnum um framkvæmd VII. gr. GATT 1994 sem felur í sér samræmdar reglur um ákvörðun tollverðs. Nefndar reglur eru að mestu samhljóða þeim samningi sem gerður var í tengslum við svonefndar Tókýó-viðræður 1979, en í framhaldi af þeim voru tollverðsreglur þess samnings teknar upp með tollalögum, nr. 55/1987.
    Þar sem tollverðsskýring 1. mgr. 8. gr. tollalaga er ekki að öllu leyti í samræmi við orðalag hliðstæðs ákvæðis í Samningnum um framkvæmd VII. gr. GATT 1994 er lagt til að orðalag 1. mgr. 8. gr. laganna verði fært til samræmis við ákvæði nefnds samnings þannig að ekki sé hætta á að mismunandi túlkun komi upp í framkvæmd og staðið verði við samningsskuldbindingar Íslands að þessu leyti.

Um 5. gr.


    Samkvæmt heimild í 18. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, er gengisskráning nú tvíþætt. Annars vegar er skráð viðskiptagengi banka og sparisjóða og hins vegar Seðlabankagengi. Í stað sölugengis Seðlabankans er því nú annars vegar komið almennt viðskiptagengi sem hver banki gefur út til greiðslu fjárhæða og hins vegar opinbert viðmiðunargengi sem Seðlabankinn skráir og er notað m.a. vegna samninga sem áður miðuðust við gengisskráningu Seðlabankans. Rétt þykir að orðalag 1. mgr. 13. gr. laganna verði fært til samræmis við breytta gengisskráningu Seðlabankans.
    Þar sem rekstur tölvuvædds tollafgreiðslukerfis hefur verið falinn ríkistollstjóraembættinu og öll álagning aðflutningsgjalda er byggð á opinberu viðmiðunargengi skráðu af Seðlabankanum þykir rétt að gengisskráning verði tilkynnt ríktollstjóraembættinu beint.

Um 6.–8. gr.


    Í almennum athugasemdum er gerð grein fyrir þeirri meginbreytingu vegna skýrslugjafar sem stefnt er að með frumvarpi þessu. Lagt er til að meginregla tollalaga verði sú að aðilar í atvinnurekstri sendi tollstjóra með skjalasendingum milli tölva (nefnt SMT-tollafgreiðsla) þær upplýsingar sem láta ber honum í té við tollafgreiðslu vara. Gert er ráð fyrir að viðkomandi verði veittur greiðslufrestur á öllum aðflutningsgjöldum, sbr. 109. gr. tollalaga, og hann skuldfærður vélrænt fyrir öllum aðflutningsgjöldum nema greiðsla fari fram með vélrænum hætti sem úttekt af bankareikningi viðkomandi innflytjanda.
    Gert er ráð fyrir að einstaklingar, sem ekki nýta sér miðlara eða aðra sem nota SMT-afgreiðsluhætti, geti skilað skriflegri aðflutningsskýrslu til tollstjóra eða keypt hjá honum aðstoð við skýrslugerðina gegn hæfilegu endurgjaldi.
    Settar eru ítarlegar reglur um SMT-samskipti í 6.–8. gr. sem skýra sig að mestu sjálfar.
    Þar sem nokkurn tíma tekur að innleiða SMT-afgreiðsluhætti á hinum ýmsu sviðum tollamála og jafnt innflytjendur, útflytjendur, farmflytjendur og aðrir, sem samskipti eiga við tollyfirvöld, þurfa nokkurn tíma til aðlögunar er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að núgildandi ákvæði um skýrslugjöf haldi jafnframt gildi sínu næstu fjögur árin en árið 2000 verði kerfisbreytingunni að fullu lokið.

Um 9. gr.


    Engar skýrar reglur eru í tollalögum um upplýsingagjöf ferðamanna við komu til landsins sem byggist á því að ferðamaður gangi í gegnum svonefnd tollhlið eða tollafgreiðslur sem aðskildar eru fyrir farþega sem hafa meðferðis annars vegar tollskyldan varning og hins vegar engan eða tollfrjálsan varning. Lagt er til með 9. gr. frumvarpsins að skýr ákvæði verði lögfest um þetta efni þannig að réttaróvissu verði eytt og ferðamönnum jafnframt tryggð eðlileg réttindi vegna skoðunar varnings sem þeir kunna að hafa meðferðis.

Um 10. gr.


    Lagt er til að tekið verði upp skýrt lagaákvæði sem tryggi rétt innflytjanda til þess að leysa vöru til sín þrátt fyrir að upplýsingar skorti um einhver atriði sem snerta tollverð vöru eða annað, t.d. tollflokkun, gegn fullnægjandi tryggingu að mati tollstjóra.

Um 11. gr.


    Í þessari grein er lagt til að tekið verði upp sérstakt lagaákvæði um synjun SMT-tollafgreiðslu þegar upplýsingar, sem láta ber tollstjórum í té við tollafgreiðslu, eru ekki lögum samkvæmt. Ákvæði núgildandi 22. gr., um synjun móttöku á skriflegum aðflutningsskýrslum þegar þeim er áfátt, verður 2. mgr.

Um 12. gr.


    Lagt er til að fjallað verði um upplýsingaskyldu tollyfirvalda gagnvart viðskiptavinum þeirra. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum kveða tollalög rækilega á um skyldur innflytjenda, en lítið er fjallað um réttindi þeirra, m.a. til að fá upplýsingar frá tollyfirvöldum um verklag og reglur sem gilda vegna tollmeðferðar vöru. Rétt þykir að kveða sérstaklega á um skyldu tollyfirvalda til að veita upplýsingar um tollflokkun vöru, gjaldtöku og hvaðeina sem lýtur að tollafgreiðslu. Í 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er að sönnu að finna almennar reglur um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem innflytjendur og aðrir sem samskipti eiga við tollyfirvöld geta borið fyrir sig telji þeir gengið á rétt sinn til upplýsinga og leiðbeininga. Engu að síður þykir rétt að árétta í tollalögum skyldur tollyfirvalda og starfsmanna þeirra í þessum efnum.
    Með vísan í 141. gr. tollalaga er áréttað að upplýsingaskylda tollyfirvalda takmarkast við þagnarskyldu tollstarfsmanna varðandi verslunarhagi einstakra manna og fyrirtækja. Sé óskað eftir bindandi ákvörðun (upplýsingum) um tollflokkun fer um slíkar beiðnir skv. 142. gr. tollalaga.

Um 13. gr.


    Lagt er til að tekið verði upp að nýju ákvæði sem fellt var úr tollalögum árið 1992 og heimilar fjármálaráðherra að breyta mörkum tollumdæma, m.a. til að ná fram sem mestri hagkvæmni við tollheimtu og tolleftirlit.

Um 14.–17. gr.


    Í 15.-18. gr. frumvarpsins er fjallað um þær skipulagsbreytingar sem lagt er til að gerðar verði á yfirstjórn tollamála með því að tollstjórar fari almennt með álagningu og ákvarðanatöku vegna tollheimtu og tolleftirlits, hver í sínu umdæmi. Þau tolleftirlitsverkefni, sem tollgæslustjóri hefur sinnt undir yfirstjórn ríkistollstjóra, verða almennt færð til viðkomandi tollstjóra sem beri ábyrgð á og fari með stjórn þeirra þar, en yfirstjórn og eftirlit með framkvæmd þessara verkefna verði í höndum ríkistollstjóra. Með þessari breytingu er komið á skýrri verkaskiptingu milli embættis ríkistollstjóra og tollstjóra um tollgæslumálefni. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að rannsókn meiri háttar tollsvikamála verði vísað til ríkistollstjóra sem taki ákvörðun um framhald málsmeðferðar. Með tilliti til þessara skipulagsbreytinga, svo og þeirra breytinga sem gerðar verða á verkefnum og verkaskiptingu innan ríkistollstjóraembættisins, er lagt til að sérstök staða tollgæslustjóra innan embættisins verði lögð niður. Gert er ráð fyrir að embættinu verði skipt í fjórar deildir eftir verkefnum og yfir þær settir forstöðumenn sem stjórni og beri ábyrgð á rekstri þeirra í umboði ríkistollstjóra.
    Um einstakar greinar skal að öðru leyti eftirfarandi tekið fram:
    Breytingar samkvæmt 14., 15., 18., 23. og 24. gr. frumvarpsins leiðir eingöngu af þeirri ákvörðun að kveða skýrt á um stjórnsýslusamband ríkistollstjóra og tollstjóra og mynda með því einfalda og skýra boðleið ákvarðanatöku þessara stjórnvalda sjálfra og borgaranna sem við þau skipta en af því leiðir að staða tollgæslustjóra, sem heyrir undir embætti ríkistollstjóra, verður lögð niður.
    Í 17. gr. er lagt til að ýmsar breytingar, sem leiðir af því sem að ofan er rakið, verði gerðar á 31. til 40. gr. tollalaga.
    Í fyrsta lagi er lagt til að skorið verði á tengslin milli embættis tollstjórans í Reykjavík og embættis ríkistollstjóra sem gert verði að sjálfstæðri stofnun með þau verkefni sem um ræðir í þeim greinum sem gert er ráð fyrir að verði 32.–35. gr. laganna. Embættið hefur í raun starfað sem sjálfstæð stofnun frá árinu 1991 er sérstakur ríkistollstjóri var settur yfir það.
    Lagt er til að fjármálaráðherra skipi ríkistollstjóra. Til að tryggja sjálfstæði og ábyrgð ríkistollstjóra í starfi er jafnframt lagt til að hann ráði sjálfur samstarfsmenn sína.
    Í 32. gr., eins og lagt er til að hún hljóði, eru talin upp þau verkefni sem ríkistollstjóra eru falin. Samkvæmt henni fer ríkistollstjóri í umboði fjármálaráðherra með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits hvarvetna á tollsvæði ríkisins. Í því felst heimild fyrir ríkistollstjóra til að setja tollstjórum almennar framkvæmdareglur um tollheimtu og tolleftirlit og eins vald til að hafa eftirlit með störfum tollstjóra, þar á meðal vegna framkvæmdar milliríkjasamninga um tollamál og framkvæmdar tollareglna EES-samningsins. Kveðið er á um að ríkistollstjóri hafi heimild til að senda starfsmenn sína í öll tollumdæmi vegna eftirlits og rannsókna og beri tollstjórum skylda til að veita nauðsynlega aðstoð við framkvæmd þessa.
    Lagt er til að núgildandi ákvæði um sérstakan tollskóla verði fellt brott. Er það í samræmi við þá almennu stefnumörkun að ekki skuli reknir sérstakir skólar innan embætta. Eftir sem áður verður haldið uppi fræðslu um tollamál innan embættis ríkistollstjóra og er kveðið á um það í 33. gr.
    Í 34. gr., eins og lagt er til að hún verði orðuð, er ríkistollstjóra falið að annast rekstur þess tölvukerfis sem komið hefur verið upp eða komið verður upp í framtíðinni og notað verður vegna tölvuvæddrar tollafgreiðslu.
    Í 36. gr., eins og lagt er til að hún hljóði, er kveðið nánar á um skipun, stöðu og verkefni tollstjóra. Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra skipi tollstjórann í Reykjavík.
    Ákvæði 38. og 39. gr., eins og lagt er til að þær verði orðaðar, eru efnislega samhljóða 37. og 38. gr. núgildandi laga en jafnframt tekið fram í 38. gr. að aðrar ákvarðanir, eins og ákvarðanir tollstjóra um breytingar á aðflutningsgjöldum skv. 99. gr. og bindandi ákvarðanir samkvæmt 142. gr., megi kæra til ríkistollanefndar.
    Tillaga að orðalagi 40. gr. laganna er efnislega samhljóða 39. gr. núgildandi laga, sbr. einnig hliðstætt ákvæði 103. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 18. gr.


    Vísað er til þess sem segir í athugasemdum við 14.-17. gr.

Um 19. gr.


    Lagt er til að kveðið verði skýrt á um það í lögunum að tollyfirvöld annist rannsókn brota á þeim enda sé slík rannsókn ekki í höndum lögreglu samkvæmt öðrum lagafyrirmælum. Þar sem tollalagabrot geta tengst tollmeðferð vara í fleiri en einu tollumdæmi og því verið mjög umfangsmikil, auk þess sem leita getur þurft aðstoðar erlendra tollyfirvalda við rannsókn þeirra, er lagt til að tollstjórar skuli tilkynna ríkistollstjóra, þegar grunur er um stórfelld tollsvik, sem ákveði um framhald málsins.

Um 20. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 21. gr.


    Lagt er til að ríkistollstjóri ákveði hvaða upplýsingar og í hvaða formi og hvenær eigandi eða stjórnandi fars í utanlandsferðum eða umboðsmaður hans skuli senda eða afhenda tollstjóra vegna aðkomuafgreiðslu o.fl. Gert er ráð fyrir að upplýsingar þessar verði sendar í framtíðinni með skjalasendingum milli tölva með líkum hætti og gildir um SMT-tollafgreiðslu, sbr. það sem segir í 6. gr. frumvarpsins um slíka tollafgreiðsluhætti.

Um 22. gr.


    Vörur eru almennt í dag settar á farmskrá miðað við þá tollhöfn sem talin er ákvörðunarstaður þeirra. Breytingin er því staðfesting á gildandi framkvæmdareglu.

Um 23. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 24. gr.


    Lagt er til að tollstjórar sjái alfarið um viðurkenningu á geymslustöðum undir ótollafgreiddar vörur.

Um 25. gr.


    Í fyrsta lagi er kveðið skýrt á um það að tollstjórar skuli annast álagningu tolla og annarra gjalda skv. 97. gr. Þetta er í samræmi við þá framkvæmd sem gildir í dag varðandi innflutning, en eins og komið hefur fram eru upplýsingar þær, sem innflytjendur gefa í aðflutningsskýrslum sínum, unnar í tölvuvæddu tollafgreiðslukerfi sem leggur aðflutningsgjöld á vélrænt auk þess að skuldfæra viðkomandi fyrir öllum gjöldum ef um SMT-tollafgreiðslu er að ræða.
    Í öðru lagi er lagt til að réttarstaða innflytjanda verði betur tryggð í 99. gr. en nú, komi til endurákvörðunar gjalda. Skiptir þar ekki máli hvort tollstjóri hefur veitt heimild til afhendingar vöru og hún er tekin úr vörslu farmflytjanda eða ekki. Þá er tekinn upp almennur sex ára fyrningarfrestur vegna endurákvörðunar aðflutningsgjalda sem bundinn er við nánar tilgreind skilyrði, til samræmis við endurákvörðunarheimildir skattstjóra skv. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta á meðal annars við um SMT-tollafgreiðslu, enda eru öll gögn, sem slík tollafgreiðsla er byggð á, í vörslu innflytjanda og endurskoðun tollstjóra því nær eingöngu framkvæmd eftir á.
    Í þriðja lagi er rýmkuð heimild til að krefjast úrskurðar tollstjóra um t.d. tollflokkun, tollverð og fjárhæð aðflutningsgjalda, en úrskurður tollstjóra er forsenda þess að máli verði skotið til ríkistollanefndar.

Um 26. gr.


    Breytingar þær sem lagðar eru til á 101. gr. laganna leiðir m.a. af breytingum á ákvörðunarvaldi tollstjóra um álagningu eða endurákvörðun gjalda og tollflokkun vara. Jafnframt eru frestir nokkuð rýmkaðir til að tryggja betur að fullnægjandi gögnum verði komið að við málsmeðferðina.

Um 27. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 28. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 29. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 106. gr. núgildandi tollalaga, en áréttað er að greiða skuli aðflutningsgjöld af póstsendingum í því pósthúsi sem tilkynnir viðtakanda um póstsendinguna. Með tilkomu SMT-tollafgreiðslu er ekki lengur talin þörf á sérstakri heimild til greiðslu aðflutningsgjalda í öðru tollumdæmi en varan er í og er því lagt til að ákvæði 2. mgr. 106. gr. verði fellt niður.

Um 30. gr.


    Í EES-samningnum er gert ráð fyrir að tollafgreiðsla vara verði einfölduð til að greiða fyrir vöruskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Til þess að fullnægja þessu ákvæði samningsins þykir rétt að gera viðeigandi breytingar á tollalögum að því er varðar tollmeðferð á póstsendingum. Í 107. gr. núgildandi laga er ákvæði um að póststarfsmenn sjái um innheimtu aðflutningsgjalda, en að öðru leyti er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmdina. Fjármálaráðuneytið hefur sett reglugerð um tollmeðferð póstsendinga sem meðal annars miðar að því að greiða fyrir tollmeðferð slíkra sendinga auk þess sem gert er ráð fyrir skipulagsbreytingu varðandi flokkun póstsendinga til tollmeðferðar, svo og alla vinnu við álagningu og innheimtu aðflutningsgjalda. Þessar breytingar miða að því að ná fram sparnaði hjá bæði póststjórninni og tollinum auk þess að efla þjónustu við viðtakendur póstsendinga. Til þess að enginn vafi leiki á um lagalegan grundvöll þessara breytinga þykir rétt að taka upp skýrari ákvæði en nú er að finna í 107. gr. um tollheimtuna. Gert er ráð fyrir að póststjórnin annist bæði álagningu og innheimtu þeirra gjalda sem lögð eru á eða kunna að verða lögð á við tollmeðferð á vörum sem fluttar eru í pósti og gangi að öðru leyti úr skugga um að rétt gjöld verði lögð á umræddar vörur.
    Jafnframt er lagt til að hliðstæð heimild gildi í öðrum tilvikum, enda viðbúið að einkaaðilar taki með tímanum að sér póstflutning í einni eða annarri mynd auk þess sem bankaútibú eru þegar rekin í tengslum við afgreiðslur farmflytjenda eða geymsluaðila til að taka við greiðslum fyrir hönd viðkomandi tollstjóra.

Um 31. gr.


    Lagt er til að kveðið verði skýrt á um að auk annarra úrræða, sem greinin tekur til og ætlað er að knýja á um fullnaðartollafgreiðslu vara, verði heimilt að beita innheimtu dráttarvaxta.
    Samkvæmt þessari grein er lagt til að teknar verði upp tvær nýjar málsgreinar í 108. gr. þar sem kveðið verði skýrt á um frá hvaða tíma vangreidd aðflutningsgjöld teljast vera komin í eindaga lögum samkvæmt, svo og um greiðslu dráttarvaxta af þeim.

Um 32. gr.


    Um a-lið vísast til athugasemda við 33. gr. hér á eftir.
    Lagt er til að ekki verði bundið í tollalögum hvaða uppgjörstímabil skuli vera vegna greiðslufrests á aðflutningsgjöldum. Aðflutningsgjöld eru margs konar, þar á meðal virðisaukaskattur og vörugjald, og eru uppgjörstímabil mismunandi samkvæmt þeim lögum sem um þessa skatta gilda. Til þess að hægt verði að samræma betur innheimtu allra þeirra gjalda sem greiðslufrestur er veittur á í tolli er lagt til að ráðherra ákveði með reglugerð uppgjörstímabil sem almennt verði ekki lengri en uppgjörstímabil virðisaukaskatts.

Um 33. gr.


    Ákvæði 110. gr. fjallar um sérstaka skráningu aðila, sem flytja vörur inn í atvinnuskyni, hjá tollstjórum. Ákvæði þetta hefur aldrei komist í framkvæmd. Telja verður nægilegt að fyrirtæki séu skráð sem slík í fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands auk skráningar hjá skattstjórum vegna virðisaukaskatts, en tollstjórar hafa aðgang að síðarnefndu skráningunni. Þykir óþarfi að bæta enn einni skráningunni við og því lagt til að ákvæðið verði fellt úr lögum.

Um 34. gr.


    Lagt er til að tekið verði upp sérstakt ákvæði sem vísi til þess réttarúrræðis sem borgararnir hafa komi til nauðungarsölu vegna innheimtu aðflutningsgjalda og tryggja réttaröryggi borgaranna þegar ágreiningsmál hafa ekki fengið efnislega umföllun á stórnsýslustigi.

Um 35. gr.


    Breyting þessi er liður í tölvuvinnslu upplýsinga úr útflutningsskjölum. Vísast að öðru leyti til almennra athugasemda og greinargerðar með 6. gr. frumvarpsins varðandi SMT-tollafgreiðslu.

Um 36. gr.


    Lagt er til að tekið verði upp sjálfstætt ákvæði er skyldi útflytjendur íslenskra framleiðsluvara, sem ætlað er að njóta fríðindameðferðar samkvæmt fríverslunar- eða milliríkjasamningum og þeir hafa ekki sjálfir framleitt, til að hafa í bókhaldi sínu og leggja fram við tollafgreiðslu auk upprunavottorðs (t.d. EUR. 1 flutningsskírteini) yfirlýsingu framleiðanda varanna um að þær uppfylli skilyrði viðkomandi samninga til að öðlast upprunaréttindi. Rannsóknir ríkistollstjóraembættisins á útflutningi hafa leitt í ljós að gefin hafa verið ranglega út slík upprunavottorð sem leitt hefur til rangrar tollmeðferðar þeirra í viðkomandi innflutningslandi. Sjálfstæð yfirlýsing framleiðanda ætti að tryggja betur en nú er að ekki séu gefin út upprunavottorð fyrir aðrar vörur en þær sem raunverulega teljast upprunavörur samkvæmt þeim milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Röng yfirlýsing framleiðanda varðar einnig við lög, sbr. 126. gr. tollalaga.

Um 37. gr.


    Í 2. mgr.126. gr. núgildandi laga er kveðið á um að ef maður verður uppvís að því að láta í té rangar upplýsingar, m.a. um tegund, magn eða verðmæti vöru, í því skyni að svíkja undan eða fá ívilnun á tolli eða gjöldum varði það sektum, svo og varðhaldi eða fangelsi ef miklar sakir eru eða brot er ítrekað. Hins vegar er ekki kveðið á um það hverju það varði ef aðili leynir upplýsingum fyrir tollyfirvöldum í sama skyni. Skv. 134. gr. mundi slíkt brot varða 20% viðauka (álagi) á tollverð eða toll. Telja verður eðlilegt að um slík brot fari með sama hætti og um þau brot er um ræðir í 2. mgr. 126. gr. Því er lögð til breyting á þeirri grein í samræmi við það. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um lágmarks- og hámarksfjárhæð sektar í greininni.
    Samhliða þessari breytingu er lagt til að 134. gr. laganna falli brott þar sem um brot samkvæmt þeirri grein færi við breytinguna eftir 126. gr.
    Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 126. gr. má falla frá málssókn ef sá sem misgert er við hefur ekki krafist hennar eða málssókn reynist ekki réttmæt á grundvelli þeirra sönnunargagna sem fyrir liggja. Rétt þykir að saksóknari taki sjálfstætt ákvörðun um hvort efni séu til málshöfðunar.
    Samkvæmt tollalögum hvílir rík upplýsingaskylda um ýmis atriði, m.a. vegna inn- og útflutnings á vörum. Fyrirtækjum jafnt sem einstaklingum ber að veita slíkar upplýsingar, oftast í tollskýrslum en einnig með reikningum og upprunavottorðum sem viðkomandi gefur út. Mjög mikilvægt er að útflytjendur veiti réttar upplýsingar, m.a. um upprunaréttindi vegna sjávarafurða sem njóta tollfríðinda við innflutning til EES-svæðisins, að uppfylltum skilyrðum EES-samningsins. Á hverjum einstökum útflytjanda hvílir sú skylda að veita réttar upplýsingar og gefa ekki út upprunavottorð yfir sjávarafurðir sem standast ekki kröfur samningsins. Brögð hafa verið að því að einstakir útflytjendur fari ekki að lögum í þessum efnum, en það gæti leitt til refsiaðgerða og skaðað hagsmuni þjóðarinnar. M.a. af þessum ástæðum er lagt til að lögfest verði lagaákvæði sem kveði á um að gera megi lögaðilum og fyrirsvarsmönnum þeirra að greiða in solidum sekt vegna brota á lögunum. Um er að ræða hlutlæga refsiábyrgð þar sem lögaðila og fyrirsvarsmanni yrði gert að greiða fésekt án tillits til þess hvort hægt væri að sanna sök á starfsmann eða ekki. Ákvæðið á hliðstæðu í 8. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og í lögum nr. 145/1994, um bókhald.

Um 38. gr.


    Lagt er til að 134. gr. laganna falli brott. Vísað er til athugasemda við 37. gr. um þessa breytingu.

Um 39. gr.


    Í samræmi við það meginmarkmið frumvarpsins að ákvarðanataka og afgreiðsla mála í hverju tollumdæmi fyrir sig sé í höndum viðkomandi tollstjóra en ríkistollstjóraembættið hafi almennt eftirlit með því að framkvæmdin sé í samræmi við lög og reglur er lagt til að sektir og eignaupptaka vegna smærri tollalagabrota samkvæmt nefndri grein verði aðeins á forræði tollstjóra en ekki jafnframt ríkistollstjóra eins og nú er.
    Þá er lagt til að heimild tollstjóra til að ljúka smærri málum með sektum og eignaupptöku verði rýmkuð. Skv. 2. mgr. 139. gr. núgildandi laga er heimild til að ljúka máli með sekt, sem sökunautur játast undir, bundin við þau tilvik er brot felst í ólöglegum innflutningi. Lagt er til að heimild til að ljúka málum með sekt sem hinn brotlegi gengst undir verði látin ná til annarra brota gegn lögunum. Slík heimild er til þess fallin að einfalda og flýta málsmeðferð í þeim tilvikum þegar ekki er um stórfellt brot að ræða og brot er sannað. Jafnframt er lagt til að hámarksfjárhæðum ákvæðisins verði breytt með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á verðlagi í landinu. Við útreikning er miðað við sektar- og eignaupptökuheimildir eins og þær voru settar með lögum nr. 46/1984, um breyting á lögum nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, uppfært miðað við þá breytingu sem orðið hefur á vísitölu neysluverðs frá árinu 1984. Vísitalan var á þeim tíma 43,74 stig, en í nóvember 1995 var hún 174,9 stig. Nokkru rýmri heimildir eins og hér eru lagðar til ættu að létta á störfum dómstóla. Heimild tollstjóra er eins og áður bundin við að sökunautur játist undir ákvörðun tollstjóra og greiði sektina eða ákvörðun tollstjóra um eignaupptöku.
    Til þess að tryggja sem vandaðasta meðferð þessara mála er jafnframt lagt til að tollstjóri eða löglærður fulltrúi hans annist afgreiðslu þeirra mála sem lagaákvæðið tekur til.

Um 40. gr.


    Í samræmi við þá stefnu að borgararnir eigi að geta snúið sér til tollstjóra í því umdæmi þar sem þeir eiga lögheimili og fengið upplýsingar um tollframkvæmdina er lagt til að tollstjórar annist bindandi upplýsingagjöf um tollflokkun vara.

Um 41. gr.


    Breytingu þessa leiðir af SMT-tollafgreiðslu.

Um 42. gr.


    Breytingu þá, sem lögð er til í þessari grein, leiðir m.a. af þeim milliríkjasamningum sem gerðir hafa verið vegna Evrópska efnahagssvæðisins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Um 43. gr.


    Til þess að tryggja að samræmi sé í þeim reglum sem gilda samkvæmt tollalögum um innflutning og útflutning er lagt til að sérstakt ákvæði verði tekið í tollalögin sem kveði skýrt á um framkvæmd laganna að þessu leyti.

Um 44. gr.


    Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á tollalögum frá því að þau voru sett á árinu 1987. Rétt þykir til þess að heildarmynd fáist af gildandi lögum að breytingar þær, sem gerðar hafa verið á lögunum og viðaukum við þau, verði felldar inn í megintexta laganna og þau gefin út í heild með samfelldri greinatölu svo breytt. Með slíkri heildarútgáfu verður einnig meira öryggi í framkvæmd laganna.

Um 45. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan er gert ráð fyrir að tölvuvæddri tollafgreiðslu verði að fullu komið á eftir fjögur ár eða árið 2000. Lagt er til að þau ákvæði frumvarpsins sem fjalla um SMT-tollafgreiðslu taki gildi 1. júlí 1996 en jafnframt verði í gildi þau ákvæði núgildandi tollalaga sem fjalla um afhendingu skriflegra tollskjala.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á tollalögum,


nr. 55 30. mars 1987, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu er einkum að finna ákvæði um skipulag yfirstjórnar tollamála, málsmeðferðarreglur í tollamálum og tölvuvæðingu á tollafgreiðslu.
    Í fyrsta lagi er lagt til að breytingar verði gerðar á yfirstjórn tollamála. Lagt er til að tollstjórar fari með álagningu og ákvarðanatöku vegna tollheimtu og tolleftirlits, hver í sínu umdæmi. Tolleftirlit, sem tollgæslustjóri hefur sinnt undir yfirstjórn ríkistollstjóra, verði fært til viðkomandi tollstjóra sem beri ábyrgð á og fari með stjórn þeirra þar, en yfirstjórn og eftirlit verði í höndum ríkistollstjóra. Lagt er til að sérstök staða tollgæslustjóra innan ríkistollstjóraembættisins verði lögð niður. Ekki verður séð að þessi breyting hafi í för með sér aukinn kostnað ríkissjóð.
    Í annan stað eru ítarleg ákvæði í frumvarpinu um tölvuvæðingu tollafgreiðslu. Lagt er til að horfið verði frá hefðbundnum skriflegum tollskýrslum og stefnt að því að öll tollafgreiðsla fari fram með tölvusamskiptum árið 2000. Gera verður ráð fyrir að slík tölvuvæðing muni hafa í för með sér hagræðingu og lækkun á kostnaði við tollafgreiðslu þegar til lengri tíma er litið.
    Í þriðja lagi eru ýmis ákvæði í frumvarpinu sem ætlað er að tryggja réttaröryggi borgaranna betur en nú er. Lagt er til að lögfestar verði skýrari reglur en eru í núgildandi lögum um réttarúrræði borgaranna ef til ágreinings kemur um tollmeðferð vöru.
    Fjármálaráðuneytið fyrirhugar að framangreindum breytingum verði komið við innan óbreytts fjárlagaramma.