Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 455 . mál.


788. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á sameiningu ríkisviðskiptabankanna.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Hjörleifur Guttormsson,


Kristinn H. Gunnarsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Ragnar Arnalds,


Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna sérstaklega sameiningu ríkisviðskiptabankanna í einn viðskiptabanka. Ríkisstjórnin skili skýrslu og tillögum um þetta efni til Alþingis haustið 1996.
    Markmið sameiningar bankanna verði:
    að spara verulega í rekstri bankanna frá því sem nú er,
    að bæta stjórnkerfi bankanna þannig að þátttaka ríkisins í rekstri viðskiptabanka skili þjóðarbúinu sem mestum árangri,
    að eign þjóðarinnar í ríkisviðskiptabönkunum tveimur skili sem mestri hagkvæmni út frá hagsmunum eigenda bankanna,
    að tryggja og auka möguleika viðskiptabanka til þjónustu við atvinnulíf og einstaklinga hér á landi og
    að skapa öflugan íslenskan aðila í því alþjóðlega fjármagnskerfi sem nú er í mótun.

Greinargerð.


    Þessi tillaga er flutt í framhaldi af umræðum á Alþingi fyrir nokkru og í kjölfar samþykkta og yfirlýsinga Alþýðubandalagsins. Í tillögunni er ekki tekin afstaða til rekstrarforms ríkisviðskiptabankanna, en lagt er til að hagkvæmni við sameiningu bankanna verði könnuð sérstaklega. Í tillögunni er vísað til fimm atriða sem könnuð verði.
    Það er skoðun flutningsmanna að nægileg samkeppni yrði í starfsemi viðskiptabankanna hér á landi þótt af sameiningu bankanna tveggja yrði. Aðalatriðið er að hér starfi sterkur íslenskur banki sem hefur í fullu tré við erlenda banka sem sjálfsagt munu hasla sér völl hér á landi í vaxandi mæli á komandi árum.
    Í ræðu sinni á ársfundi Landsbankans nýverið mælti formaður bankastjórnar fyrir sameiningu ríkisbankanna. Kafli úr ræðu hans er birtur sem fylgiskjal með tillögunni.



Fylgiskjal.

SAMEINING RÍKISBANKA.


Kafli úr ræðu Björgvins Vilmundarsonar


formanns bankastjórnar Landsbankans.


(8. mars 1996.)



    Í aðhalds- og hagræðingaraðgerðum síðustu ára í Landsbankanum hefur náðst sýnilegur árangur sem kemur fram í verulegri fækkun starfsmanna og lækkun annars rekstrarkostnaðar. Það er þó skoðun bankastjórnar að við óbreytt rekstrarumhverfi verði ekki gengið mikið lengra í niðurskurði kostnaðar án þess að það fari að bitna á þjónustu við viðskiptamenn og samkeppnisstöðu bankans.
    Í þjóðfélagsumræðu síðustu missira hefur breyting á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög og síðar hugsanleg sala þeirra verið hvað mest áberandi. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að í þeirri umræðu og ákvarðanatöku verði sérstaklega horft til þess með hvaða hætti við getum best náð fram hagræðingu og endurskipulagningu í bankakerfinu út frá sjónarmiðum eigenda ríkisviðskiptabankanna og fólksins í landinu, ekki síst ef slíkt getur skilað hinum sameiginlega sjóði landsmanna, ríkissjóði, betra verði fyrir bankana við sölu þeirra.
    Það er vissulega skref í þá átt að jafna samkeppnisstöðu bankanna að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög og því ber að fagna, en sú breyting ein og sér skilar að mínum dómi ekki þeirri hagræðingu í bankakerfinu sem nauðsynleg er. Slík hagræðing í íslenska bankakerfinu næst ekki nema saman fari sala og/eða sameining ríkisviðskiptabankanna við aðra banka og/eða fjármálastofnanir. Bönkunum þarf að fækka og það þarf að hagræða í rekstri þeirra þannig að þeir séu betur í stakk búnir til að takast á við breyttar aðstæður á þessum markaði og mæta vaxandi samkeppni frá aðilum sem geta boðið lánsfé og þjónustu á lægra verði, þar með talda vexti, á grundvelli minni tilkostnaðar við rekstur sinn.
    Það hlýtur líka að vera skylda okkar sem stöndum í fyrirsvari innan íslenska bankakerfisins að sjá til þess að hér á landi verði til, eftir slíka uppstokkun, banki sem er nógu stór og öflugur til að geta veitt stórum innlendum fyrirtækjum og stofnunum eðlilega bankafyrirgreiðslu á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði. Ríkisviðskiptabankarnir hafa í gegnum árin byggst upp sem þjónustufyrirtæki með það fyrir augum að veita atvinnufyrirtækjum, opinberum stofnunum og einstaklingum sem víðtækasta bankaþjónustu og þá sem víðast um landið. Það fyrirkomulag að reka mörg útibú dreift um landið er kostnaðarsamt og það sparifé sem þar er veitt viðtaka og ávaxtað verður því dýrt útlánafé. Vextir af því þurfa auk ávöxtunar til eigenda sparifjárins að skila bönkunum vaxtamun til að mæta rekstrarkostnaði. Landsmenn, og þá ekki síst fólk á landsbyggðinni, hljóta að spyrja sig hvort það sé æskileg þróun að verulega dragi úr bankaþjónustu á landsbyggðinni. Ég tel að gæta verði að þessu við endurskipulagningu á bankakerfinu.
    En hvernig verður þessum markmiðum náð og er hægt að ná þeim öllum í senn með einhverri einni aðgerð? Ég er þeirrar skoðunar að það sé unnt og þá með því að sameina ríkisviðskiptabankana, Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands, í einn öflugan banka. Með því næst fram sú hagræðing í bankakerfinu sem ítrekað hefur verið rætt um og nauðsynlegt er að verði að raunveruleika samhliða því að til verður stór og öflugur banki sem getur sinnt þörfum einstaklinga og íslensks atvinnulífs hvar sem er á landinu. Það er einfaldlega staðreynd sem blasir við að skipulag útibúa og aðalstöðva Landsbankans og Búnaðarbankans er með þeim hætti að ná má fram verulegri hagræðingu með sameiningu og þar með fækkun útibúa þessara banka án þess að það skerði þá þjónustu sem veitt er. Ég tel ekki fjarri lagi að sameining ríkisviðskiptabankanna mundi skila allt að 1 milljarði króna á ári í lægri rekstrarkostnaði miðað við núverandi rekstrarkostnað beggja bankanna. Þar vegur þungt fækkun útibúa og afgreiðslustaða með sameiningu, en ætla má að loka mætti einum 18 útibúum og afgreiðslustöðum án þess að þjónusta yrði skert. Þá mundi einnig nást verulegur sparnaður með sameiningu höfuðstöðva bankanna.
    Þær gagnrýnisraddir heyrast að með sameiningu ríkisviðskiptabankanna yrði til alltof stór aðili á íslenskum fjármálamarkaði og ekki næðist jöfnuður í samkeppnisstöðu aðila á þessum markaði. Víst er að slíkur sameinaður banki yrði stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, en slíkur banki væri ekki stór í því fjölþjóðlega umhverfi sem Ísland er að verða hluti af. Fjármála- og bankaþjónusta er starfsemi sem í vaxandi mæli byggist á fjarskiptatækni og vélrænni starfsemi. Ísland verður innan skamms hluti af hinum fjölþjóðlega markaði á þessu sviði. Menn þurfa því að taka afstöðu til þess hvort þeir kjósa að áfram verði til öflugur innlendur banki sem er tilbúinn að takast á við gjörbreyttar aðstæður á þessum markaði. Það var á sínum tíma hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að byggja upp innlenda banka og nú þurfa landsmenn að taka afstöðu til þess hvort þeir vilja áfram tryggja þann þátt sjálfstæðis þjóðarinnar.