Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 456 . mál.


789. Frumvarp til laga



um breytingu á lögræðislögum, nr. 68/1984, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson,


Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Maður er sjálfráða 18 ára gamall, nema sviptur sé sjálfræði, og fjárráða 18 ára gamall, nema sviptur sé fjárræði. Sá sem er sjálfráða og fjárráða er lögráða.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu leggja flutningsmenn til að sjálfræðisaldur barna verði hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Hækkun sjálfræðisaldurs hefur verið til umræðu á Íslandi um árabil og fagfólk verið mjög á einu máli um að hann beri að hækka.
    Sjálfræðisaldur hefur verið 16 ár á Íslandi allt frá lokum þjóðveldisaldar. Með gildistöku fyrstu lögræðislaga árið 1917 var miðað við 16 ára sjálfræðisaldur og hefur það verið óbreytt síðan þrátt fyrir breytingar á lögunum.
    Þróunin í nágrannalöndunum hefur verið önnur. Annars staðar á Norðurlöndum var sjálfræðisaldur víða orðinn 20 til 21 ár en var lækkaður aftur í 18 ár á þessari öld. Nú er sjálfræðisaldur í öllum löndunum 18 ár.
    Í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1989 segir í 1. gr.: „Börn eru allt fólk í heiminum yngra en 18 ára.“ Samningurinn var fullgiltur af hálfu Íslands árið 1992. Barnasáttmálinn, sem er brjóstvörn mannréttinda barna, mælir fyrir um réttindi og vernd barna aðildarríkjanna. Hugsunin á bak við 1. gr. samningsins er sú að skapa varnarmúra umhverfis réttindi barna til 18 ára aldurs samtímis því að leggja ábyrgð á herðar foreldra og samfélagsins alls gagnvart ungviði þjóðanna. Hækkun sjálfræðisaldurs er framlenging á ábyrgð og skyldum foreldra, forráðamanna og samfélagsins í heild gagnvart börnum.
    Á Íslandi eru foreldrar forsjárskyldir við barnið til 16 ára aldurs þess. Forsjáraðilar eru þó framfærsluskyldir gagnvart börnum sínum til 18 ára aldurs þeirra og geta einstakar forsjárskyldur haldist lengur ef þörf krefur. Framlag til menntunar eða starfsþjálfunar getur haldist til 20 ára aldurs.
    Inntak forsjárskyldu er uppeldisskylda svo sem best hentar hag barns og þörfum. Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Foreldrum ber að stuðla að því eftir mætti að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál. Í forsjá felst bæði réttur og skylda foreldra til að ráða persónulegum högum barnsins og gegna öðrum foreldraskyldum. Löggjöfin byggist öðru fremur á því að fela foreldrum ákveðið vald, þar sem börn hafi takmarkaða getu til að ráða sér sjálf, samfara þeirri hugsun að barnið eigi rétt á umsjá foreldra sinna til þess að þau fái náð fullum þroska. Framlenging á forsjárskyldum foreldra miðar því gagngert að auknu réttaröryggi barnsins. Í barnalögunum er mælt fyrir um að foreldrar skuli hafa samráð við barn sitt áður en persónulegum málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem gerlegt er, þar á meðal með tilliti til þroska barns. Barnasáttmálinn gerir ráð fyrir því að eðlilegt sé að miða aldursmörkin við 18 ár, en við þau mörk taki börnin yfir réttinn til að ráða sér alfarið sjálf og séu þá jafnframt tilbúin til að axla þá ábyrgð sem frelsinu fylgir. Þeir sem hafa forsjá barns á hendi hafa rétt og skyldu til að vera fjárráðamenn barnsins, sbr. ákvæði lögræðislaga.
    Nú er það svo að þroski barna er einstaklingsbundinn. Mörg ungmenni eru fullfær um að bera ábyrgð á sjálfum sér þegar við 16 ára aldurinn og því eðlilegt að þau öðlist rétt til að ráða persónulegum högum sínum, svo sem dvalarstað, við 16 ára aldur. Þegar það er virt að framlenging á forsjárskyldum foreldra um tvö ár, sem eru oft miklvæg ár í þroska og félagsmótun barna, felur í sér aukna vernd fyrir börn eiga þau tilvik almennt ekki að leiða til skerðingar á réttaröryggi barna. Skjótur og eðlilegur þroski barna mælir ei heldur gegn því að foreldraskyldur og vald viðhaldist til 18 ára aldurs. Það er alkunna að þjóðfélagsaðstæður hafa gjörbreyst frá því að 16 ára reglan var innleidd í lög. Með auknum menntunarkröfum og atvinnuleysi ungs fólks dveljast ungmenni mun lengur í foreldrahúsum. Það reynir því meira á skyldur/vald foreldris gagnvart barni sínu en fyrr á tímum þegar börn voru oft komin í pláss á bátum við 12 ára aldur og algengt að þau væru orðin matvinnungar 16 ára gömul.
    Nokkuð hefur borið á því í umræðu um áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga að hinn lági sjálfræðisaldur geri foreldrum og þjóðfélaginu í heild erfitt að taka á vandanum. Þau úrræði sem fyrir hendi eru, svo sem meðferð ungmenna á lokuðum deildum, hafa ekki nýst sem skyldi og skoðun sérfræðinga og annarra þeirra sem komið hafa að þessu vandamáli er að hækka beri sjálfræðisaldurinn í 18 ár. Í tilvikum sem þessum er nauðsynlegt að foreldrar geti haft yfirráð og eftirlit með börnum sínum lengur en til 16 ára aldurs í því skyni að veita þeim vernd gegn vandamálum. Með þessu er ekki verið að gera ungmenni ábyrgðarlaus heldur er það viðurkenning á því að ábyrgðin sé ekki einungis þeirra heldur og foreldranna og samfélagsins alls. Nú búa 80–90% ungmenna á aldrinum 16–18 ára í foreldrahúsum.
    Hækkun sjálfræðisaldurs miðar að samræmi í íslenskri löggjöf þar sem framfærsluskyldu foreldra lýkur ekki fyrr en barnið verður 18 ára. Eðlilegt er að skyldu og ábyrgð foreldranna fylgi vald þegar nauðsyn krefur. Í lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, er miðað við að börn séu einstaklingar allt að 18 ára aldri.
    Samráðsnefnd um málefni barna og ungmenna skilaði áfangaskýrslu í október 1992. Þar kom eftirfarandi fram varðandi sjálfræðisaldurinn: „Það er álit samráðsnefndarinnar að fyrst á annað borð var farið að framkvæma víðtæka endurskoðun á barnaverndarlögunum hefði verið eðlilegt að hækka sjálfræðisaldur í 18 ár eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Nú á tímum dveljast langflestir unglingar á Íslandi í heimahúsum fram að og jafnvel fram yfir tvítugt og lúta þar almennum húsaga og handleiðslu foreldra sinna og sjálfræði þeirra hefur því einungis táknrænt gildi. Einu tilvikin þar sem sjálfræðisaldurinn hefur einhverja verulega þýðingu er gagnvart unglingum í alvarlegum vanda. Þegar skjólstæðingurinn verður 16 ára og þar af leiðandi sjálfráða standa þeir sem starfa að meðferðarmálum unglinga oft frammi fyrir því að það meðferðarstarf sem hafið er ónýtist.“
    Í tillögum starfshóps á vegum borgarstjóra um úrbætur í miðbæ Reykjavíkur kom einnig fram tillaga um að sjálfræðisaldurinn verði hækkaður úr 16 árum í 18. Sömuleiðis hefur fulltrúaráð Sambands íslenskra sveitarfélaga lagt til við stjórn sambandsins að það beiti sér fyrir því að sjálfræðisaldur verði hækkaður úr 16 árum í 18 á yfirstandandi þingi.
    Nái þetta frumvarp fram að ganga koma önnur lög til endurskoðunar, svo sem lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, og lög um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt, nr. 16/1938.