Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 295 . mál.


892. Nefndarálit



um till. til þál. um breyt. á þál. um vegáætlun fyrir árin 1995–1998.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hluti nefndarinnar gagnrýnir harðlega þann niðurskurð á fjármagni til vegamála sem gert er ráð fyrir á gildandi vegáætlun fyrir árin 1995–1998. Aðeins ári eftir að samþykkt er vegáætlun til fjögurra ára, 1995–1998, er fjárhagslegum forsendum hennar gjörbreytt. Bæði hefðbundin framlög og framlög til framkvæmdaátaks eru skorin verulega niður með fjárlögum þannig að vegáætlunin er öll úr skorðum.
    Áætlunargerð til lengri tíma, sbr. vegáætlun sem gildir fjögur ár fram í tímann, er vinnubrögð sem hljóta að teljast skynsamleg. Á þann hátt er unnt að hafa heildaryfirsýn yfir brýnustu verkefni auk þess sem allir hlutaðeigandi aðilar geta lagað sig að þeirri framtíðaráætlun. Hins vegar er grundvallaratriði að slík áætlunargerð standist og sé þannig marktæk. Allar breytingar í niðurskurðarátt á áætlunartímabilinu gera það að verkum að trúverðugleiki áætlunarinnar verður að engu.
    Því er ekki eingöngu verið að breyta áætlun yfirstandandi árs heldur er í raun verið að gefa til kynna að vænta megi svipaðra vinnubragða á seinni hluta tímabilsins, á árunum 1997 og 1998. Með öðrum orðum, vegáætlun er ekki lengur marktækt plagg og ljóst að heildarendurskoðunar er þörf.
    Minni hlutinn lýsir yfir vonbrigðum með almennan niðurskurð á framlagi til vegamála sem er að meðaltali um 18,2%. Atvinnuleysi er enn mikið um allt land og niðurskurður framkvæmda kemur sér víða mjög illa, ekki síst utan Faxaflóasvæðisins þar sem ekki er um neinar stóriðjuframkvæmdir að ræða, en þar að auki lækka framlög til svokallaðs framkvæmdaátaks um heil 36%. Framkvæmdaátakinu var eins og kunnugt er skipt eftir höfðatölureglunni þannig að loks urðu til fjármunir til brýnna framkvæmda sem skila hámarksarði, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Niðurskurðurinn mun því seinka verulega að langþráðum markmiðum um vegabætur á suðvesturhorni landsins verði náð. Má þar nefna niðurskurð á löngu tímabæru verkefni í Ártúnsbrekku, en breytt áætlun fyrir það verkefni eykur mjög slysahættu. Einnig verða brýn og hagkvæm verkefni á landsbyggðinni fyrir niðurskurðarhnífnum.
    Samanlagt vantar um 800 millj. kr. á þessu ári til að unnt sé að standa við fyrirheit og áform í gildandi vegáætlun. Það eru óþolandi vinnubrögð.
    Undirritaðir nefndarmenn gera á hinn bóginn ekki athugasemdir við skiptingu fjármuna til einstakra verkefna enda hafa kjördæmahópar þingmanna fjallað um það mál og náð um það samkomulagi. Í því ljósi munu undirritaðir nefndarmenn greiða þingsályktunartillögu um skiptingu fjármuna á einstök verkefni atkvæði sitt en vísa að öðru leyti allri ábyrgð á hendur þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem með afgreiðslu fjárlaga í desember sl. kipptu fjárhagslegum stoðum undan gildandi vegáætlun.

Prentað upp.

    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 2. maí 1996.



Guðmundur Árni Stefánsson.

Ásta R. Jóhannesdóttir.

Ragnar Arnalds.


frsm.