Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 331 . mál.


961. Breytingartillögur



við frv. til l. um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.

Frá meiri hluta samgöngunefndar (EKG, MS, StG, ÁJ, EgJ, KPál).



    Við 4. gr.
         
    
    2. mgr. falli brott.
         
    
    Í stað orðanna „þegar niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir“ í fyrri málslið 3. mgr. komi: við skráningu félagsins.
    Við 5. gr.
         
    
    Á eftir fyrri málslið komi nýr málsliður, svohljóðandi: Við endanlegt mat á stofnhlutafé skal jafnframt taka tillit til áhrifa verðbreytinga og rekstrar á efnahag á árinu 1996.
         
    
    Í stað orðanna „1. júlí 1996“ í síðari málslið komi: 1. október 1996.
    Við 7. gr. Greinin orðist svo:
                  Póstur og sími hf. skal taka til starfa 1. janúar 1997.
                  Samgönguráðherra skipar þriggja manna undirbúningsnefnd til þess að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfrækslu. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga.
    Við 8. gr.
         
    
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó fer um biðlaunarétt þeirra eftir þeim lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem í gildi eru við gildistöku laga þessara.
         
    
    Í stað orðsins „tveggja“ í 2. mgr. komi: sex.
         
    
    3. mgr. orðist svo:
                            Ef fastráðinn starfsmaður Póst- og símamálastofnunar, sem ráðinn hefur verið hjá félaginu samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr., fær eigi að síður greidd biðlaun eða bætur fyrir missi biðlauna úr ríkissjóði vegna formbreytingar þeirrar á starfsemi stofnunarinnar, sem lög þessi kveða á um, fellur sjálfkrafa niður biðlaunaréttur hans hjá félaginu.
    Við 15. gr. Greinin orðist svo:
                  Póstur og sími hf. yfirtekur í samræmi við 1. gr. allar eignir, réttindi og skuldbindingar Póst- og símamálastofnunar frá og með 1. janúar 1997. Yfirtakan veitir samningsaðilum stofnunarinnar ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda.
    Við 16. gr. Greinin orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. september 1996.
                  Við yfirtöku Pósts og síma hf. á eignum, réttindum og skyldum Póst- og símamálastofnunar 1. janúar 1997 falla úr gildi lög um stjórn og starfrækslu póst- og símamála, nr. 36/1977, með síðari breytingum.
    Við bætist þrjú ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
         
    
    (I.)
                            Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. skal samgönguráðherra eigi síðar en 1. júlí 1996 skipa nefnd þá sem mælt er fyrir um í 5. gr.
         
    
    (II.)
                            Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. skal samgönguráðherra eigi síðar en 1. júlí 1996 skipa undirbúningsnefnd þá sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 7. gr. og skal nefndin taka til starfa þegar í stað.
         
    
    (III.)
                            Á stofnfundi félagsins sem haldinn skal eigi síðar en 27. desember 1996 skal samgönguráðherra skipa félaginu stjórn sem starfa skal fram að fyrsta aðalfundi, sbr. 6. gr.