Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 451 . mál.


1067. Nefndarálit



um frv. til lögreglulaga.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Tómas Magnússon og Símon Sigvaldason frá dómsmálaráðuneyti, Boga Nilsson rannsóknarlögreglustjóra, Böðvar Bragason, lögreglustjóra í Reykjavík, frá Landssambandi lögreglumanna Jónas Magnússon, Jóhannes Jensson, Baldvin Einarsson og Óskar Bjartmarz og frá Kríunum – félagi kvenlögregluþjóna – Dóru Hlín Ingólfsdóttur, Berglindi Eyjólfsdóttur og Kristínu Brandsdóttur. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Rannsóknarlögreglu ríkisins, Sýslumannafélagi Íslands, sýslumanninum í Stykkishólmi, Landssambandi lögreglumanna, Lögreglufélagi Reykjavíkur, Lögreglufélagi Gullbringusýslu, Lögreglufélagi Akraness, Lögreglufélagi Vesturlands, Lögreglufélagi Vestfjarða, Lögreglufélagi Norðurlands vestra, Lögreglufélagi Austurlands, Lögreglufélagi Suðurlands, Lögreglufélagi Hafnarfjarðar, Lögreglufélagi Kópavogs, Lögregluskóla ríkisins, Félagi íslenskra rannsóknarlögreglumanna, bæjarstjóranum í Neskaupstað, Jafnréttisráði, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, Fangelsismálastofnun ríkisins, Nordiska Polisförbundet og Union Internationale des Syndicats de Police.
    Lagafrumvarpi þessu er ætlað að koma í stað laga um lögreglumenn og laga um Rannsóknarlögreglu ríkisins. Lagt er til að gerð verði sú grundvallarbreyting á skipulagi lögreglunnar og æðstu stjórn hennar að komið verði á fót embætti ríkislögreglustjóra er fari með yfirstjórn lögreglu í landinu. Með því að setja slíkt embætti á stofn er stigið skref í að styrkja stjórnsýslu lögreglunnar, auka samræmingu og eftirlit og efla fagleg vinnubrögð. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að færa rannsókn meginþorra brotamála til einstakra lögreglustjóra og tengja með því betur saman almenna löggæslu og rannsóknir.
    Þá er með þessu frumvarpi og frumvarpi um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, sem lagt hefur verið fram á þingi samhliða, stefnt að því að ferill algengustu brotamála á rannsóknar- og ákærustigi verði gerður einfaldari með því að vinna við rannsókn máls frá upphafi, útgáfa ákæru og saksókn fari fram hjá sama embætti, en það ætti að spara vinnu og gera refsivörslukerfið í heild skilvirkara en áður.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Í þeim breytingartillögum felst:
    Við 6. gr. Sú gagnýni hefur komið fram á frumvarpið, m.a. frá lögreglustjórum og lögreglumönnum, að í það vanti ákvæði um yfirstjórn lögreglu varðandi björgun og leitaraðgerðir. Ekki er umdeilt að eitt af verkefnum lögreglustjóra hefur verið að hafa með höndum yfirstjórn slíkra aðgerða, sbr. t.d. ákvæði í reglugerð um samvinnu og starfsskiptingu milli lögreglustjóra og Rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 253/1977, þar sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 2. gr. að rannsóknardeildir einstakra lögregluembætta skuli hafa stjórn á leit að týndu fólki, enda sé leitin ekki þáttur í rannsókn brots, en jafnan skuli Rannsóknarlögreglu ríkisins tilkynnt um slíka leit.
                  Nefndin telur nauðsynlegt að festa slíkt ákvæði í lög þar sem rannsóknarskyldur lögreglu tengist mjög oft leitar- og björgunaraðgerðum og mikilvægt sé að heimildir lögreglustjóra í því efni séu sem gleggstar. Leggur nefndin því til að í 6. gr. frumvarpsins, um lögregluumdæmi og stjórn þeirra, verði tekið slíkt ákvæði. Ljóst er að við umfangsmeiri leitir og björgunaraðgerðir er lögregla oft of liðfá og gegna björgunarsveitir, sem skipulagðar eru og kostaðar af frjálsum félagasamtökum, þar lykilhlutverki. Samvinna lögreglu og björgunarsveita hefur verið með miklum ágætum. Með ákvæðinu er ekki stefnt að því að lögreglustjórar hafi afskipti af innra skipulagi björgunarsveita heldur fyrst og fremst mælt fyrir um hlutverk lögreglustjóra varðandi yfirstjórn aðgerða. Með lögfestingu slíks ákvæðis er ekki ætlunin að lögregluyfirvöld beri frekari kostnað af leitar- og björgunaraðgerðum en nú. Þá er ákvæðinu ekki ætlað að taka til þeirra tilvika þegar virkja þarf skipulag Almannavarna ríkisins og er ekki ætlað að hafa áhrif á hlutverk Landhelgisgæslunnar á sjó.
                  Rétt þykir að kveða á um að dómsmálaráðherra setji reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita og að við samningu þeirra verði haft samráð við önnur ráðuneyti sem málið varðar og hlutaðeigandi aðila.
    Við 8. gr. Í umsögnum hefur komið fram talsverð gagnrýni á 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um sérstakar rannsóknardeildir. Í umsögn Sýslumannafélags Íslands er lagst gegn ákvæðinu og Félag íslenskra rannsóknarlögreglumanna hefur bent á að óheppilegt sé að sami lögreglumaður lúti mismunandi yfirstjórn.
                  Í reglugerð um samvinnu og starfsskiptingu milli lögreglustjóra og Rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 253/1977, er mælt fyrir um starfrækslu rannsóknarlögregludeilda við lögregluembætti. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu eru slíkar deildir nú starfræktar við 11 lögregluembætti, í Reykjavík, á Akranesi, á Ísafirði, á Akureyri, á Eskifirði, á Selfossi, í Vestmannaeyjum, í Keflavík, á Keflavíkurflugvelli, í Hafnarfirði og í Kópavogi. Í frumvarpinu er mælt fyrir um stofnun einnar nýrrar deildar og tilfærslu annarrar. Einnig er hlutverk þeirra skilgreint nánar og þeim ætluð verkefni utan þess umdæmis sem þær voru staðsettar í.
                  Í breytingartillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir að fyrirkomulag lögreglurannsókna verði ákvarðað með almennari hætti en í frumvarpinu. Nefndin telur mikilvægt að kveðið verði á um að lögregla annist rannsóknir brota í samráði við ákærendur. Náið samráð lögreglu og ákæruvalds við lögreglurannsóknir er í fyllsta samræmi við þau meginmarkmið sem frumvarpi þessu og frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála (450. mál), sem lagt var fram samhliða, er ætlað að ná fram.
                  Með 2. mgr. er lagt til að lögfest verði sú grundvallarregla að rannsókn skuli að jafnaði hefja í því umdæmi þar sem brotið er framið. Hér er fyrst og fremst verið að víkja að skyldu lögreglu í umdæmi sem brot er framið í til að hefja þegar í stað rannsókn. Önnur atvik og aðstæður geta síðan ráðið því að mál er rannsakað að hluta eða að öllu leyti í öðru umdæmi eða undir stjórn ríkislögreglustjóra. Í niðurlagi 2. mgr. er vikið að samspili staðarlögreglu og rannsóknardeilda ríkislögreglustjóraembættisins, þ.e. skatta- og efnahagsbrotadeildar og stoðdeildar.
                  Þá leggur nefndin til að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um í hvaða umdæmi brot skuli rannsakað, hvernig stjórn rannsóknar skuli háttað og um verkaskiptingu einstakra lögreglustjóra og rannsóknardeilda ríkislögreglustjóraembættisins. Óheppilegt þykir að slík verkaskipting sé fastákveðin í lögum þar sem ákveðinn sveigjanleiki þarf að vera til staðar til að hægt sé að bregðast við breytilegum aðstæðum. Ákvæðum um samvinnu og starfsskiptingu lögreglustjóra og Rannsóknarlögreglu ríkisins er nú fyrirkomið í reglugerð nr. 253/1977 eins og fyrr segir.
                  Þótt hlutverk stoðdeildar ríkislögreglustjóra muni nokkuð aukast við þær áherslubreytingar sem hér eru lagðar til þykir nefndinni ljóst að efla þarf lögreglurannsóknir utan höfuðborgarsvæðisins þannig að einstök embætti þurfi aðeins í undantekningartilvikum að leita til ríkislögreglustjóraembættisins um aðstoð. Minnstu lögregluembættin munu þó alltaf þurfa á slíkri aðstoð að halda við sérhæfðar og flóknar rannsóknir.
    Við 9. gr. Tekið er af skarið um að slíkt framsal lögregluvalds, sem málsgreinin mælir fyrir um, verði aðeins heimilt þegar um er að ræða sérstök verkefni. Þá er lagt til að auk tollvarða fari ríkistollstjóri, tollstjórar og löglærðir fulltrúar þeirra með lögregluvald á sínu starfssviði þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu.
    Við 10. gr. Lögð er til leiðrétting á tilvísun.
    Við 18. gr. Skerpt er á ákvæðinu þannig að lögreglu beri skilyrðislaust að hafa afskipti af börnum undir 16 ára aldri sem eru á stöðum þar sem heilsu þeirra og velferð er alvarleg hætta búin.
    Við 20. gr. Lagt er til að orðalag verði samræmt.
    Við 22. gr. Lagt er til að orðalagi ákvæðins verði breytt. Nefndin leggur áherslu á að í athugasemdum við þetta ákvæði frumvarpsins segir að ákvæðinu sé ekki ætlað að þrengja að stjórnarskrárvernduðu tjáningarfrelsi lögreglumanna eða koma í veg fyrir gagnrýni á yfirstjórn lögreglu. Breytingartillagan miðar að því að taka af allan vafa um þetta.
    Við 28. gr. Lagt er til að sá sem ráðinn er tímabundið í lögreglustarf skuli fullnægja öllum skilyrðum fyrir inngöngu í Lögregluskólann. Nefndin lítur svo á að ekki verði hægt að ráða menn til starfa skv. 4. mgr. lengur en til eins árs og æskilegt sé að þeir sem ráðnir eru hafi lokið námskeiði í Lögregluskóla ríkisins fyrir afleysingamenn í lögreglunni.
    Við 32. gr. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að bann við aukastörfum lögreglumanna verði ekki eins fortakslaust. Í stað þess að fyrir fram þurfi að leita heimildar fyrir aukastarfi er hér lagt til að lögreglumaður skuli tilkynna þeim lögreglustjóra er hann heyrir undir um starfið. Lögreglustjórinn skuli síðan innan tveggja vikna skýra lögreglumanninum frá því hvort starfsemin teljist ósamrýmanleg stöðu hans. Þó er kveðið á um að rétt sé að banna slíka starfsemi síðar ef leitt er ljós að hún megi ekki saman fara starfinu. Gera má ráð fyrir að í slíkum tilvikum þurfi stundum að veita lögreglumanninum hæfilegan frest til að láta af starfinu. Þá er í texta tillögunnar sett fram leiðbeinandi sjónarmið um til hvers skuli horft þegar metið er hvort aukastarf teljist samrýmanlegt lögreglustarfi eða ekki og gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji almennar reglur um hvaða aukastörf teljist heimil. Nefndin leggur áherslu á að samráð verði haft við hagsmunaðila í sambandi við setningu slíkra reglna.
    Við 35. gr. Í umsögn Landssambands lögreglumanna og einstakra lögreglufélaga um þetta ákvæði var gerð athugasemd við að ríkislögreglustjóra væri ætlað að rannsaka mál vegna meintra refsiverðra brota lögreglumanna í starfi. Nefndin leggur því til að ríkissaksóknari stýri rannsókn slíkra mála.
    Við 37. gr. Lagt er til að skólastjóri Lögregluskóla ríkisins verði skipaður með sama hætti og lögreglustjórar.
    Við 38. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að skilyrði a-liðar verði rýmkað þannig að einungis sé um hindrun að ræða ef umsækjandi hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað. Í þessu sambandi vill nefndin taka fram að ýmis önnur atriði geta að sjálfsögðu valdið því að umsækjendur séu síður fallnir til lögreglustarfa. Vegna þeirrar miklu ábyrgðar sem í lögreglustarfinu felst hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir valnefndina að huga að því að lögreglumannsefni sé þekkt að reglusemi og háttvísi og hafi gott mannorð. Lagt er til að heimild til að setja í reglugerð skilyrði um lágmarkshæð lögreglumannsefna verði felld brott. Nefndin telur að slíkt skilyrði geti brotið gegn jafnræði umsækjenda. Þá er lagt til að fellt verði brott það skilyrði fyrir inngöngu í Lögregluskóla ríkisins að lögreglumannsefni hafi lokið grunnskólaprófi, enda slíkt próf ekki fortakslaust skilyrði fyrir inngöngu í framhaldsskóla. Nægjanlegt þykir að taka fram að lögreglumannsefni hafi að baki a.m.k. tveggja ára almennt framhaldsnám. Í þeim umræðum sem fram fóru í nefndinni um Lögregluskóla ríkisins kom m.a. fram að námið skiptist bæði í bóklegt og verklegt nám. Nefndin telur ástæðu til að ráðherra kanni möguleika á því hvort ekki sé grundvöllur fyrir að flytja bóklega hluta námsins yfir í almenna framhaldsskólakerfið. Loks ber að geta þess að þar sem ákvæði 4. mgr. 38. gr. getur haft áhrif á kjarasamning ríkisins við Landssamband lögreglumanna að því er varðar laun nema í lögregluskólanum telur nefndin nauðsynlegt að það mál sé tekið til skoðunar við gerð næsta kjarasamnings milli þessara aðila.
    Við 43. gr. Lögð er til samræming á orðalagi.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist nýr kafli með ákvæði til bráðabirgða er varðar aðgerðir vegna niðurlagningar Rannsóknarlögreglu ríkisins. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að starfsmenn Rannsóknarlögreglu ríkisins glati ekki áunnum réttindum sínum við tilfærslu í starfi þegar lögin koma til framkvæmda. Með stofnun samráðsnefndar er starfsmönnum ætlað að hafa áhrif á með hvaða hætti verði staðið að auglýsingu og skipun í ný störf við embætti ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík og önnur embætti. Tryggja þarf að framkvæmd laganna valdi sem minnstri röskun á rannsóknastarfsemi og stöðu og högum starfsmanna.
    Kríurnar – félag kvenlögregluþjóna – lögðu áherslu á að a.m.k. ein kona ætti sæti í valnefndinni sem velur nema í Lögregluskólann úr hópi umsækjenda. Sú ábending kom fram að eðlilegt væri að tilnefningaraðilar tilnefndu einn karl og eina konu hver og ráðherra tryggði við skipun nefndarinnar að a.m.k. ein kona ætti þar fast sæti hverju sinni. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið þeirra. Þá leggur nefndin til að farið verði rækilega yfir þær forsendur sem fram koma í athugasemdum með frumvarpinu og lagðar hafa verið til grundvallar flutningi starfsmanna og fjárheimilda til embætta ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans í Reykjavík þannig að tryggt sé að hægt verði að sinna með fullnægjandi hætti rannsóknum þeirra mála sem flytjast munu til embættis lögreglustjórans í Reykjavík. Loks vill nefndin að gefnu tilefni benda á mikilvægi þess að samræmingarhlutverk ríkislögreglustjóra taki til allra brotaflokka, þar með talið rannsóknar ávana- og fíkniefnabrota.
    Jóhanna Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 23. maí 1996.



Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Sighvatur Björgvinsson.


form., frsm.



Hjálmar Jónsson.

Ögmundur Jónasson,

Kristján Pálsson.


með fyrirvara.



Guðný Guðbjörnsdóttir.

Árni R. Árnason.

Jón Kristjánsson.