Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 320 . mál.


1070. Nefndarálit



um frv. til l. um staðfesta samvist.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið sendar umsagnir frá barnaverndarstofu, biskupi Íslands, Prestafélagi Íslands og Samtökunum '78.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að tveir einstaklingar af sama kyni geti stofnað til staðfestrar samvistar. Gert er ráð fyrir að einstaklingar í staðfestri samvist njóti sömu réttinda og á þeim hvíli sömu skyldur og á einstaklingum í hjúskap. Í því sambandi má benda á gagnkvæman lögerfðarétt, skattalega samstöðu og reglur almannatryggingalaga og laga um félagslega aðstoð. Þó er gert ráð fyrir að ákvæði ættleiðingarlaga um hjón og ákvæði laga um tæknifrjóvgun gildi ekki um staðfesta samvist.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:



    Við 6. gr. Í stað 1.–3. mgr. komi ný málsgrein er orðist svo:
                  Ákvæði ættleiðingarlaga um hjón og laga um tæknifrjóvgun gilda ekki um staðfesta samvist.
    Við 8. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
         
    
    Í stað orðanna „2. og 3. mgr.“ í 1. málsl. komi: 2.–4. mgr.
         
    
    Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein er orðist svo:
                            Sýslumaður eða dómari leitar sátta samkvæmt reglum 42. gr. hjúskaparlaga.
    Við 9. gr. Í stað orðanna „1. júlí 1996“ komi: 27. júní 1996.

    Fyrstu breytingartillöguna leiðir af lögum um tæknifrjóvgun sem afgreidd voru frá Alþingi fyrir skömmu. Þar er jafnframt gert ráð fyrir að ákvæði 3. mgr. 6. gr. verði fellt brott, enda engin sérákvæði lengur í lögum sem bundin eru við kynferði annars makans í hjúskap. Í annarri breytingartillögunni felst að sýslumenn og dómarar skuli leita sátta í tengslum við slit á staðfestri samvist. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir kirkjulegri vígslu til staðfestrar samvistar og því þykir rétt að undanþiggja presta einnig frá sáttaskyldu sem þeim er lögboðin í vissum tilvikum í hjúskaparlögum. Í þriðja lagi er að ósk Samtakanna '78 lagt til að frumvarpið öðlist gildi 27. júní nk. sem er alþjóðlegur mannréttindabaráttudagur samkynhneigðra.
    Jóhanna Sigurðardóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 23. maí 1996.



Sólveig Pétursdóttir,

Jón Kristjánsson.

Hjálmar Jónsson.


form., frsm.



Guðný Guðbjörnsdóttir.

Sighvatur Björgvinsson.

Kristján Pálsson.



Árni R. Árnason.

Ögmundur Jónasson.

Valgerður Sverrisdóttir.