Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 534 . mál.


1073. Skýrsla



félagsmálaráðherra um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem haldið var á árinu 1995.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. INNGANGUR


    Höfuðviðfangsefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) eru félagslegt réttlæti, samskipti atvinnurekenda og launafólks, svo og aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum. Stofnunin er vettvangur fyrir umræður aðildarríkjanna um umbætur á þessum sviðum.
    Á 82. Alþjóðavinnumálaþinginu var meginviðfangsefnið stöðugt vaxandi atvinnuleysi og aðgerðir til að fjölga störfum. Fyrir þinginu lá skýrsla forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf um þetta efni. Í henni er að finna yfirlit yfir atvinnustig á öllum helstu atvinnusvæðum heimsins og greiningu á þeim vanda sem knýr dyra nú á tímum hjá flestum þjóðum heimsins, þ.e. vaxandi atvinnuleysi sem leiðir til aukinna félagslegra vandamála, einkum fátæktar og félagslegrar útskúfunar. Í skýrslunni er þess freistað að brjóta til mergjar ástæður vaxandi atvinnuleysis og reynt að benda á leiðir til lausnar þessum vanda sem ríkisstjórnir flestra ef ekki allra aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru að glíma við um þessar mundir.
    Í skýrslu forstjóra ILO er vakin athygli á þeirri staðreynd að höfuðmarkmiðið í hagstjórn á árunum eftir síðari heimstyrjöldina hafi verið full vinna fyrir alla. Þetta markmið virkaði hvetjandi á atvinnusköpun. Forstjórinn bendir á að nú á tímum sé eins og stjórnmálamenn hafi gefið þetta markmið upp á bátinn og það sé miður. Ástæða er til að vekja athygli á þessu áliti. Það sem ef til vill skiptir mestu máli er að takast á við atvinnuleysið með því hugarfari að það sé óásættanlegt böl og að hafa bjargfasta trú á að hægt sé að viðhalda fullri atvinnu fyrir allar vinnufúsar hendur.
    Enda þótt atvinnuleysi sé mikið í flestum ríkjum heims virðist ýmislegt benda til þess að heldur sé að rofa til í atvinnu- og efnahagsmálum. Sérfræðingar hafa bent á að víðtæk lækkun tolla og afnám viðskiptahindrana mundi leiða til aukinna heimsviðskipta og fjölgunar starfa. Á Alþjóðavinnumálaþinginu kom greinilega fram í máli margra að lok samningaviðræðna um tolla og viðskipti, sem kenndar eru við Úrúgvæ, hafa vakið bjartsýni um að betri tímar séu í nánd.
    82. Alþjóðavinnumálaþingið starfaði með líku sniði og undanfarin þrjú ár. Á þeim tíma hefur verið unnið að ýmsum skipulagsbreytingum sem miða að því að gera þingið skilvirkara og stytta starfstíma þess. Árangurinn ætti að leiða til sparnaðar bæði fyrir stofnunina og aðildarríkin.
    Að venju hvíldi þungi þingstarfanna á nefnd sem fjallar um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Fleiri ríki en nokkru sinni áður sendu fulltrúa sína á fund nefndarinnar til að gefa viðbótarupplýsingar vegna athugasemda sérfræðinganefndar ILO við framkvæmd á ákvæðum í stofnskrá eða samþykktum stofnunarinnar.
    Réttindi þeirra sem vinna heima, t.d. vegna fjarvinnslu, voru til fyrstu umræðu á þinginu. Fram komu ólíkar skoðanir á þessu málefni eins og oft áður þegar um er að ræða nýtt svið vinnumála. Sumir töldu að ekki væri tímabært að setja um þetta reglur. Hér væri um að ræða nýtt atvinnuform sem væri í örum vexti. Aðrir bentu á nauðsyn þess að sett yrði tiltölulega ítarleg alþjóðasamþykkt auk tillögu þar sem sett yrðu nánari ákvæði um útfærslu á einstökum atriðum. Á 83. Alþjóðavinnumálaþinginu verður leitast við að samræma sjónarmiðin og finna ásættanlega lausn.
    Aðbúnaður og heilsugæsla námuverkamanna var til annarrar umræðu á þinginu.Við fyrstu sýn virðist sem þetta málefni hafi takmarkaða þýðingu fyrir íslenskan vinnumarkað. Þetta er þó ekki rétt því hér koma til álita ýmsar stórframkvæmdir sem fela í sér vinnu neðanjarðar, t.d. gerð hvers kyns jarðganga hvort sem þau eru ætluð til umferðar eða vegna orkuvinnslu. Umræðum lauk með afgreiðslu vinnumálaþingsins á alþjóðasamþykkt og tillögu. Með vísan til 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er hér með lögð fyrir Alþingi skýrsla um 82. Alþjóðavinnumálaþingið og birt alþjóðasamþykkt nr. 176, og tillaga nr. 183, um öryggi og hollustuhætti í námum, sem þingið afgreiddi.


2. 82. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 1995


2.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA


    Dagana 6.–22. júní 1995 var haldið þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) og var það hið 82. í röðinni. Að venju fór þinghaldið að mestu fram í höll Þjóðabandalagsins í Genf. Fundir fjölmennustu nefndarinnar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta, voru haldnir í húsakynnum alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Samtals tóku þátt í þinginu rúmlega 2.770 fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Aðildarríkjunum heldur áfram að fjölga og sendu fleiri en nokkru sinni fulltrúa til þingsins eða 160 ríki af 173. Ráðherrar fóru fyrir 134 sendinefndum.
    Forseti þingsins var kjörinn vinnumálaráðherra Níkaragva, Jose F.R. Argüello. Varaforsetar voru kjörnir úr röðum þeirra þriggja hópa sem eiga fulltrúa á þinginu. Kosnir voru Dan-Mircea Popescu, ríkisstjórnarfulltrúi Rúmeníu, John Halliwell, fulltrúi atvinnurekenda í Kanada, og Ursula Engelen-Kefer, fulltrúi launafólks í Þýskalandi.
    Sendinefnd Íslands skipuðu eftirtaldir:
    Frá félagsmálaráðuneyti: Páll Pétursson félagsmálaráðherra og Gylfi Kristinsson deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Frá utanríkisráðuneyti: Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf. Varamenn voru: Lilja Ólafsdóttir sendiráðunautur og Guðmundur B. Helgason sendiráðsritari. Á þingtímanum voru þau bæði starfsmenn fastanefndar Íslands í Genf. Fulltrúar atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Vinnuveitendasambands Íslands. Varamaður hennar var Jón H. Magnússon, lögfræðingur VSÍ. Fulltrúar launafólks: Bryndís Hlöðversdóttir, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands. Varamenn hennar voru Hervar Gunnarsson, varforseti ASÍ, og Ástráður Haraldsson lögfræðingur. Fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skiptu með sér þátttöku í þinginu þannig að varamaður leysti aðalmann af hólmi þegar u.þ.b. helmingur þingtímans var liðinn.
    Helstu málefni á dagskrá þingsins voru:
    Skýrsla forstjóra og stjórnarnefndar.
    Fjárhags- og framkvæmdaáætlun.
    Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna.
    Öryggi og hollusta námuverkamanna (síðari umræða).
    Félagsleg staða þeirra sem vinna heima (fyrri umræða).
    Breytingar á gildissviði samþykktar nr. 81, um vinnueftirlit í iðnaði og verslun.
    Fyrirkomulaginu, sem tekið var upp á 79. Alþjóðavinnumálaþinginu var haldið þetta þing. Í því felst að fulltrúar þeirra þriggja hópa, sem aðild eiga að þinginu, komu saman til óformlegra funda daginn fyrir formlega setningu Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var gengið frá tilnefningum fulltrúa til setu í þingnefndum. Samþykkt var stofnun eftirtalinna þingnefnda: fjárhagsnefndar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna, nefndar sem fjallaði um drög að alþjóðasamþykkt um hollustu og öryggi námuverkamanna, þingskapanefndar og nefndar um framvindu þingsins. Fulltrúar Íslands tóku þátt í störfum nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og fjárhagsnefndar.
    Sérstakur heiðursgestur forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Michel Hansenne, og Alþjóðavinnumálaþingsins var forseti Túnis, Zine El Abidine Ben Ali.

2.2. SKÝRSLA FORSTJÓRA


    Almennar umræður á allsherjarþingi Alþjóðavinnumálaþingsins fjalla að verulegu leyti um skýrslu forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf og skýrslu stjórnarnefndarinnar um starfsemi stofnunarinnar í Sviss og öðrum löndum. Umræður á allsherjarþinginu fara fram samhliða störfum í þingnefndum.
    Skýrsla forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skiptist í tvo hluta. Í fyrri hluta skýrslunnar er fjallað um afmarkað viðfangsefni sem er ofarlega á baugi á sviði vinnumála. Í seinni hlutanum er að finna skýrslu um starfsemi stofnunarinnar.
    Fyrri hluti skýrslu forstjóra ILO til 82. Alþjóðavinnumálaþingsins bar yfirskrifina Fjölgun starfa. Rösklega 100 ráðherrar tóku þátt í umræðum um hana. Skýrslan er útdráttur úr annarri skýrslu í nýrri ritröð um atvinnuástandið í heiminum. Í henni er að finna yfirlit yfir atvinnustig á öllum helstu atvinnusvæðum heimsins og greiningu á þeim vanda sem knýr dyra nú á tímum hjá flestum þjóðum heimsins, þ.e. vaxandi atvinnuleysi sem leiðir til aukinna félagslegra vandamála, einkum fátæktar og félagslegrar útskúfunar. Í skýrslunni er þess freistað að greina ástæður vaxandi atvinnuleysis og reynt að benda á leiðir til lausnar þessum vanda sem ríkisstjórnir flestra ef ekki allra aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru að glíma við um þessar mundir. Í seinni hluta skýrslunnar vekur forstjórinn athygli á þeirri staðreynd að höfuðumarkmiðið í hagstjórn á árunum eftir síðari heimstyrjöldina hafi verið full vinna fyrir alla. Þetta markmið virkaði hvetjandi á atvinnusköpun. Forstjórinn bendir á að nú á tímum er eins og stjórnmálamenn hafi gefið þetta markmið upp á bátinn og það sé miður.
    Páll Pétursson félagsmálaráðherra lagði í ræðu sinni áherslu á aðgerðir gegn atvinnuleysi. Hann tók undir orð forstjóra ILO um að viðhorfið til vandamálsins skipti ef til vill mestu máli. Að takast á við atvinnuleysi með því hugarfari að það sé óásættanlegt böl og hafa bjargfasta trú á að hægt sé að viðhalda fullri atvinnu fyrir allar vinnufúsar hendur.
    Félagsmálaráðherra gerði að umtalsefni nokkur atriði sem koma fram í fyrri hluta skýrslu forstjórans um helstu atriði sem einkenna þróun atvinnu- og efnahagsmála síðustu árin og áratugina. Þar er enn á ný vakin athygli á þeim skipulagsbreytingum sem hafa átt sér stað í atvinnulífinu. Hlutur landbúnaðar og iðnframleiðslu hefur dregist saman en hlutur þjónustu í heimsframleiðslunni hefur vaxið mjög hratt, einkum í iðnríkjum og þróunarríkjum. Þetta hefur valdið breytingum á vinnumarkaðinum. Samdráttur í iðnaði og landbúnaði hefur valdið miklu atvinnuleysi í þessum atvinnugreinum. Hins vegar hefur skortur á hæfu vinnuafli gert vart við sig í ýmsum greinum þjónustu, einkum þeim sem tengjast öflun, úrvinnslu og miðlun hvers kyns upplýsinga. Þessar breytingar hafa kallað á umfangsmiklar aðgerðir af hálfu stjórnvalda vinnumála. Stóraukin áhersla á menntun og þjálfun hafa verið rökrétt viðbrögð við þessum breytingum. Háar atvinnuleysistölur eru til vitnis um að þetta er ekki nóg. Félagsmálaráðherra taldi að fleira þyrfti að koma til og vakti athygli á atriðum sem sérfræðingar í efnahags- og atvinnumálum hafa talið mikilvæg til að örva efnahagslíf heimsins og stuðla að fjölgun starfa. Þeir hafa talið að almennar verðhækkanir og verndarsjónarmið hafi stefnt efnahagsþróun í hættu. Í því skyni að hleypa lífi í efnahagsþróun og örva atvinnulífið var ákveðið á ráðherrafundi í Punta del Este í Úrúgvæ árið 1986 að taka viðskiptakerfi GATT til gagngerrar endurskoðunar og koma á nýskipan heimsviðskipta. Niðurstaða viðræðnanna kemur fram í lokagerðinni sem m.a. samanstendur af samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organiztion, WTO), viðaukum við hann auk ýmissa ráðherraákvarðana og viljayfirlýsinga sem ráðherrar samþykktu 15. apríl 1994 í Marrakesh.
    Félagsmálaráðherra sagðist styðja starf Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um allan heim til að auka atvinnu og draga úr atvinnuleysi. Hann benti á þörfina fyrir að auka efnahagssamvinnu. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á fleiri ástæður fyrir því að Alþjóðavinnumálastofnunin ætti að halda áfram að láta til sín taka á sviði atvinnusköpunar. Einnig ætti Alþjóðavinnumálastofnunin að halda áfram sínu mikilvæga starfi við að berjast gegn vinnuþrælkun barna, nauðungarvinnu og mismunun til vinnu og starfa. Ráðherra lagði áherslu á að áætlanir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um alþjóðlega vinnustaðla og mannréttindi og atvinnu skipti miklu máli. Ræða félagsmálaráðherra er birt í heild í fylgiskjali V með þessari skýrslu.
    Ýmsir ræðumenn gerðu að umtalsefni skipulagsbreytingar sem hafa verið gerðar á alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf og Alþjóðavinnumálaþinginu. Margir urðu til að lýsa yfir ánægju sinni með viðleitni stjórnarnefndarinnar í þá átt að bæta starfshætti Alþjóðavinnumálastofnunarinnar þannig að hún nái betur til aðildarríkjanna. Með því var verið að vísa til þeirrar vinnu sem fram fer í stjórnarnefndinni til að komast að raun um hvers konar alþjóðasamþykktir væri mest þörf fyrir, m.a. til að örva aðildarríkin til að fullgilda slík skjöl.
    Fjölmargir ræddu einnig um atvinnusköpun og bentu m.a. á það starf sem fram fer innan Evrópusambandsins (ESB) og í Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD).

2.3. UMRÆÐUR UM KJÖRBRÉF


    Í kjörbréfanefnd sitja aðeins þrír nefndarmenn, þ.e. einn frá hverjum hópi sem á fulltrúa á þinginu. Í ár sátu eftirtaldir menn í kjörbréfanefnd: formaður nefndarinnar, Bjørn Jonzon, ríkisstjórnarfulltrúi frá Svíþjóð, Funes de Rioja, fulltrúi atvinnurekenda frá Argentínu, og Gray, fulltrúi launafólks frá Bandaríkjunum.
    Í ár komu fram kærur vegna fulltrúa launafólks í sendinefndum frá Frakklandi, Sri Lanka og Tyrklandi. Einnig komu fram athugasemdir við tilnefningu fulltrúa launafólks í sendinefndum frá Búlgaríu, Lesótó og Malaví. Gerðar voru athugasemdir við skipun ráðgjafa launafólks frá Rúmeníu. Loks kom fram kæra vegna fulltrúa atvinnurekenda í sendinefnd Venesúela.
    Nefndin samþykkti samhljóða — sem er yfirleitt raunin — að leggja ekki til neina ógildingu kjörbréfs í þessum tilvikum. Þegar nefndin samþykkir einum rómi að samþykkja kjörbréf, þ.e. leggst gegn tillögu um ógildingu kjörbréfs, getur þingið aðeins skýrt frá niðurstöðum hennar án þess að nokkur umræða fari fram um þær.

2.4. FJÁRMÁL


    Fjárhagsnefndin, en í henni eiga aðeins sæti fulltrúar ríkisstjórna, átti í óvenjulega víðtækum umræðum um fjárhagsáætlunina fyrir árin 1996–97. Áætlunin miðaðist við þá meginreglu að raunvöxtur yrði enginn. Til að koma til móts við fjárveitingarbeiðnir vegna verðbólgu o.fl. lagði forstjórinn til að gert væri ráð fyrir raunvexti sem næmi 6,26%. Meginástæða þess að mörg aðildarríki áttu erfitt með að samþykkja fjárhagsáætlunina var óheppileg gengisþróun milli Bandaríkjadals og svissneska frankans. Árið 1994 voru 100 Bandaríkjadalir jafngildi 145 svissneskra franka, en í júní sl. var gengið komið niður í 116 svissneska franka. Þetta hefur í för með sér að jafnvel þótt gert sé ráð fyrir engum raunvexti, mældum í svissneskum frönkum, munu framlög ríkja með gjaldmiðil sem tengdur er Bandaríkjadal aukast að mun. Heildarfjárhagsáætlunin, mæld í Bandaríkjadölum, hækkar þannig úr 466 milljónum Bandaríkjadala 1994–95 í 579 milljónir Bandaríkjadala 1996–97, þ.e. 24,2% aukning. Engin leið er að spá fyrir um það sumarið 1995 hverjar aðstæður kunna að verða fyrir hendi þegar aðildarríkin greiða framlög sín 1996 og 1997. Þróun gengis hvað snertir svissneska frankann hefur verið óhagstæð fyrir flesta gjaldmiðla.
    Fulltrúi Bandaríkjanna hafði sagt áður að gera yrði ráð fyrir því að Bandaríkjaþing mundi lækka framlög til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og annarra alþjóðlegra stofnana, en það mundi koma í veg fyrir að Bandaríkin gætu greitt árgjald sitt að fullu. Þetta getur haft mikil áhrif á starfsemi ILO vegna þess að Bandaríkin greiða fjórðung samanlagðra árgjalda aðildarríkjanna. Fleiri ríki í Suður-, Mið- og Norður-Ameríku tilkynntu að þau ættu í erfiðleikum með að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar við Alþjóðavinnumálastofnunina.
    Frakkar stungu upp á að nefndin legði til að fjárhagsáætlunin yrði samþykkt samkvæmt tillögu forstjórans, en jafnframt því yrði hann beðinn um að leggja fram tillögu um þær breytingar sem í ljós kæmi að væru nauðsynlegar. Þessi tillaga var samþykkt eftir nokkrar lagfæringar. Í fyrsta lagi var samþykkt að stjórnarnefndin skyldi ákveða tilhögun mats á lagfæringum á fjárhagsáætluninni á fundi sínum strax að lokinni vinnumálaþinginu. Í öðru lagi var lögð áhersla á að lagfæringarnar mættu ekki snerta „tæknilega samvinnu og vettvangsáætlanir“. Alls 63 ríki samþykktu tillöguna, fjögur voru á móti og ellefu sátu hjá. Áður en atkvæði voru greidd um þessa tillögu hafði tillaga Kanada þess efnis að samþykkja fjárhagsáætlun með engum raunvexti verið felld með 57 atkvæðum gegn 13, en sex ríki sátu hjá.
    Fjárhagsáætlunin, sem fjárlaganefndin lagði til og Alþjóðavinnumálaþingið samþykkti síðar, nemur 579.500.000 Bandaríkjadölum, sem jafngildir 672.220.000 svissneskum frönkum með gengishlutfallinu 1,16. Framlag Íslands nemur 0,0296%. Árið 1996 verður framlag Íslands 99.197 svissneskir frankar.

2.5. FRAMKVÆMD SAMÞYKKTA OG TILLAGNA


    Í samræmi við þingsköp þings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var að venju stofnuð nefnd til að fjalla um framkvæmd samþykkta og tillagna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og gaf hún allsherjarþinginu skýrslu um það efni.
    Í ár sátu 293 fulltrúar í nefndinni, en þeir voru 227 í fyrra. Þar af voru 112 fulltrúar ríkisstjórna, 38 fulltrúar atvinnurekenda og 89 fulltrúar launafólks. Auk þess sátu í nefndinni 183 varafulltrúar og 21 alþjóðleg stofnun óháð ríkisvaldinu átti áheyrnarfulltrúa.
    Nefndin valdi eftirfarandi til formennsku: Fulltrúi ríkisstjórnar Indlands, Gopalan, var kosinn formaður. Fulltrúi atvinnurekenda í Þýskalandi, Wisskirchen, og fulltrúi launafólks í Belgíu, Peirens, voru kosnir varaformenn. Fulltrúi ríkisstjórnar Hollands, van Blankenstein, var kosinn ritari og jafnframt talsmaður nefndarinnar.
    Fulltrúi ríkisstjórnar Íslands í nefndinni var Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Bryndís Hlöðversdóttir, Ástráður Haraldsson lögfræðingar ASÍ og Hervar Gunnarsson, varaforseti ASÍ, voru fulltrúar íslensks launafólks. Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón H. Magnússon, lögfræðingar VSÍ, voru fulltrúar íslenskra atvinnurekenda.

Hlutverk nefndarinnar.


    Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með því að aðildarríkin standi við skuldbindingar sínar þegar þau hafa fullgilt samþykktir. Skýrslur og yfirlýsingar aðildarríkjanna og athugasemdir og álitsgerðir sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd samþykkta og tillagna er það efni sem liggur til grundvallar starfi nefndarinnar. Skýrsla sérfræðinganefndarinnar í ár er 460 þéttskrifaðar blaðsíður. Allmörg ríki voru beðin um að veita upplýsingar beint til þingnefndarinnar. Hinn nýi formaður sérfræðinganefndarinnar, Sir William Douglas, tók þátt í fyrstu nefndarfundunum sem áheyrnarfulltrúi.

Nefndarstörf.


    Nefndin hélt samtals 20 fundi. Að venju var byrjað á almennum umræðum um ýmis mál í tengslum við eftirlitskerfið. Síðan fjallaði nefndin sérstaklega um skýrslu frá 6. fundi sameiginlegrar sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um framkvæmd tilmæla um stöðu kennara. Enn fremur ræddi nefndin framkvæmd á samþykkt nr. 158 og tillögu nr. 166 frá 1982 um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Því næst ræddi nefndin að hve miklu leyti einstök ríki hefðu fullnægt skyldum sínum samkvæmt fullgiltum samþykktum. Síðastnefndu umræðurnar, sem snúast um mikilvægasta hlutverk nefndarinnar, tóku upp mestan tíma hennar.

Almenn umræða um framkvæmd alþjóðasamþykkta.


    Að venju var byrjað á almennum umræðum um ýmis mál í tengslum við framkvæmd fullgiltra samþykkta og eftirlitskerfið. Í þessum hluta umræðnanna hélt fulltrúi hollensku ríkisstjórnarinnar ræðu fyrir hönd margra ríkisstjórna þar sem hann lagði áherslu á þörfina fyrir betri röksemdir fyrir vali á þeim ríkjum sem beðin eru um að gera nefndinni grein fyrir stöðu mála. Hann var þeirrar skoðunar að það væri mjög nauðsynlegt að nefndin sýndi þolinmæði gagnvart þeim ríkjum sem væru að gera nefndinni grein fyrir stöðu mála í fyrsta skipti. Enn fremur væri heppilegt í framtíðinni að gefa betri og skýrari ástæður fyrir því hvers vegna ríki væru valin á skrá þeirra ríkja tekin væru til umfjöllunar í nefndinni.
    Fulltrúi ríkisstjórnar Íslands flutti ræðu af hálfu ríkisstjórna Norðurlandanna fimm sem áttu fulltrúa í nefndinni. Hann gerði m.a. að umtalsefni samskipti þingnefndarinnar og sérfræðinganefndar ILO sem voru til umræðu í nefndinni fyrir nokkrum árum. Orsökin voru ummæli í skýrslu sérfræðinganefndarinnar sem sumum fundust orka tvímælis. Svo virtist sem uppi hefði verið skoðanamunur á hlutverki nefnda. Fulltrúi Íslands lýsti yfir ánægju ríkisstjórna Norðurlanda með það sem kemur fram í skýrslu sérfræðinganefndarinnar. Þar tekur nefndin fram að í samskiptum við þingnefndina hafi ríkt gagnkvæm virðing, ábyrgð og góður samstarfsandi. Í skýrslunni kemur einnig fram að sérfræðinganefndin taki fullt tillit til álits þingnefndarinnar og upplýsinga sem þar koma fram þegar hún leggi mat á það hvernig aðildarríkin standi við skuldbindingar sínar gagnvart stofnuninni og alþjóðasamþykktum sem þau hafa fullgilt. Hann tók fram að ríkisstjórnir Norðurlanda telji að hafi verið miskilningur eða skoðanaágreiningur á milli nefndanna um hlutverk hverrar um sig hafi honum að fullu verið eytt með þessum orðum.
    Fulltrúi Íslands gerði að umtalsefni það sem kemur fram í 41.–58. gr. í skýrslu sérfræðinganefndarinnar en þar er fjallað um samskipti Alþjóðavinnumálastofnunarinnar við aðrar stofnanir sem fjalla um alþjóðasamninga og samþykktir sem tengjast starfsemi ILO. Hann kvað þessi samskipti afar mikilvæg. Ekki síst vegna þess að á undanförnum árum og áratugum hafi mátt merkja að ýmis ákvæði í alþjóðasamþykktum ILO hafi verið tekin upp óbreytt eða lítilega breytt í aðra samninga, bæði alþjóðlega og samninga sem taka til afmarkaðra svæða. Að mati ríkisstjórna Norðurlanda hafi þetta verið jákvæð þróun. Það sé hins vegar mjög mikilvægt að þess sé gætt að hliðstæð ákvæði í mismunandi samningum, alþjóðlegum eða þeim sem taka til einstakra svæða, séu túlkuð með sama hætti. Ríkisstjórnir verði að geta treyst því að í hliðstæðum ákvæðum felist sambærilegar skuldbindingar. Þar af leiðandi telji ríkisstjórnir Norðurlanda mjög miklvægt að fulltrúar ILO taki eins og frekast er kostur þátt í störfum annarra eftirlitsstofnana sem fylgjast með framkvæmd alþjóðasamninga sem tengjast verksviði Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og stuðli að því að hliðstæð ákvæði í samningum á sviði félags- og vinnumála séu túlkuð með svipuðum hætti óháð því hvort eftirlitið fer fram í Strassborg, Brussel og Genf.
    Í ræðunni var einnig fjallað um endurskoðun félagsmálasáttmála Evrópu, leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í mars 1995, fyrirkomulag á skýrslugjöf um framkvæmd alþjóðasamþykkta o.fl.
    Eins og í fyrra fjallaði nefndin sértaklega um samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 122, um stefnu í atvinnumálum, frá 1964. Umræður snerust einkum um efnahags- og félagslega þætti samþykktarinnar.
    Einnig var vakin athygli á öðrum samþykktum, sem fjalla um launuð menntunarleyfi, erlenda farandverkamenn, barnavinnu og lágmarksaldur til vinnu.
    Nefndin ræddi frekar skýrsluna frá 6. fundi sameiginlegrar sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um framkvæmd tillögunnar um stöðu kennara.

Uppsagnir að frumkvæði atvinnurekanda.


    Annar meginþáttur í almennu umræðunum var samþykkt nr. 158 og tillaga nr. 166 frá 1982 um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Nefndin fjallaði ítarlega um þetta efni. Til grundvallar umræðunni var skýrslan „Vernd gegn óréttmætri uppsögn“ sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði samið. Kjarni samþykktarinnar felst í því að aðildarríki hennar er skuldbundið til að tryggja að launamanni verði ekki sagt upp án gildra ástæðna. Gildar ástæður geta verið tvenns konar: Hæfni eða hegðun hlutaðeigandi starfsmanns eða ástæður sem tengjast rekstri atvinnurekandans. Aðildarríki skal einnig tryggja að atvinnurekandinn gefi starfsmanni kost á að tjá sig um aðfinnslur og að hann geti skotið uppsögninni til úrskurðaraðila.
    Fullgilding samþykktar nr. 158 hefur nokkrum sinnum komið til umfjöllunar á vettvangi íslensku ILO-nefndarinnar og hafa skoðanir fulltrúa á fullgildingu verið mjög skiptar. Fulltrúi launafólks hefur taldið nauðsynlegt að bæta réttarstöðu starfsmanna að því er varðar uppsagnir og verið fylgjandi fullgildingu. Fulltrúi atvinnurekenda hefur talið að afleiðingar af fullgildingu gætu orðið neikvæðar fyrir starfsmenn og dregið úr nýráðningum. Í þingnefndinni kom þessi skoðanaágreiningur skýrt fram í ræðum þeirra sem tóku til máls undir þessum dagskrárlið. Samþykkt nr. 158 hefur verið fullgilt af 25 aðildarríkjum.

Eftirlit með því að aðildarríkin fullnægi skyldum sínum.


    Mikilvægasta hlutverk nefndarinnar og það sem mestur tími fer í eru umræður um að hve miklu leyti einstök ríki fullnægja skyldum sínum.
    Í nefndinni gáfu 46 fulltrúar viðbótarupplýsingar vegna athugasemda sérfræðinganefndarinnar um að hve miklu leyti hlutaðeigandi ríki hefðu framkvæmt einstakar samþykktir og fullnægt skyldum sínum samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Alls var fjallað um 14 samþykktir. Alls 32 ríki voru sérstaklega beðin um að gera nefndinni grein fyrir stöðu mála. Öll þessi ríki fóru að þessari beiðni og tóku þátt í umræðum nefndarinnar um framkvæmd samþykktanna.
    Nefndin gaf gaum að því að verulegar framfarir hefðu orðið í framkvæmd fullgiltra samþykkta. Í 36 tilvikum í samtals 22 ríkjum og þremur sjálfstjórnarríkjum höfðu verið gerðar lagabreytingar eða venjum breytt eftir að sérfræðinganefndin hafði komið athugasemdum sínum á framfæri. Skráð hafa verið 2.070 tilvik um framfarir síðan sérfræðinganefndin hóf slíka skráningu 1964.
    Nefndin lét einnig í ljós ánægju sína með það að í mörgum tilvikum, m.a. í málum sem snertu grundvallarmannréttindi, höfðu ríkisstjórnir gert breytingar á lögum og venjum í því skyni að fullnægja ákvæðum samþykktanna eins og þingnefndin hafði áður mælst til.
    Mál sem vöktu sérstaka athygli í nefndinni voru:
    Nefndin fjallað um að Tælendingar hefðu ekki framkvæmt samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu frá 1930. Meginvandinn er fólginn í víðtækri misnotkun á börnum til vinnu sem tíðkast í landinu. Í þessum umræðum var haldin ræða af hálfu Norðurlanda þar sem bent var á að Tæland væri eitt þeirra ríkja í Austur-Asíu þar sem vergar þjóðartekjur hefðu aukist verulega á undanförnum árum. Hins vegar hefði virðing fyrir mannréttindum ekki aukist að sama skapi. Látin var í ljós sú von að ríkisstjórnin, í samvinnu við Alþjóðavinnumálastofnunina, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og Barnahjálparsjóð Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), mundi grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að útrýma hvers konar nauðungarvinnu barna og yrði þeim börnum sem hefðu verið notuð með þeim hætti gert kleift að ganga í skóla til að bæta framtíðarmöguleika sína.
    Indland var enn í ár tilefni umræðu vegna þess að það hefur ekki framkvæmt samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu. Nefndin hefur áður rætt þetta mál árin 1986, 1989, 1991, 1992, 1993 og 1994. Sérfræðinganefndin og þingnefndin hafa áður bent á þá víðtæku nauðungarvinnu sem fram fer á Indlandi. Einkum þykir vítaverð veruleg misnotkun barna til vinnu sem á sér stað í mörgum ríkjum Indlands. Fulltrúi ríkisstjórnar Íslands hélt ræðu af hálfu ríkisstjórna Norðurlandanna í umræðum um þetta málefni þar sem vísað var til skýrslu sérfræðinganefndarinnar þess efnis að um væri að ræða mjög alvarleg brot á samþykkt nr. 29. Brotin ná til þrælkunarvinnu, barnavinnu og barnavændis. Í ræðunni var getið um fyrri orðsendingar til indversku ríkisstjórnarinnar um að gera ráðstafanir án tafar til að koma í veg fyrir slíka misnotkun. Nefndin lét í ljós alvarlegar áhyggjur yfir ástandinu í Indlandi á þessu sviði.
    Málefni Stóra-Bretlands komu enn einu sinni til umfjöllunar í þingnefndinni. Forsenda málsins er áður fram komin kæra breska alþýðusambandsins (TUC — Trades Union Congress) á hendur bresku ríkisstjórninni. Þetta kærumál er einnig þekkt undir heitinu „Cheltenham-málið“ og snýst um að hve miklu leyti Stóra-Bretland hefur fullnægt ákvæðum samþykktar nr. 87, um félagafrelsi. Málið hefur oft áður verið á dagskrá nefndarinnar, síðast 1992, og kom aftur til umræðu á ársþinginu. Í stuttu máli snýst kæra bresku landssamtakanna (TUC) um að starfsmönnum í stofnun leyniþjónustunnar er meinaður réttur til að stofna fagfélag að eigin vali. Ástæða þess var sú að ríkisstjórnin taldi sig ekki geta sætt sig við þann möguleika að verkfall yrði gert í stofnuninni, en hún er óaðskiljanlegur hluti af leyniþjónustu bæði Stóra-Bretlands og Atlantshafsbandalagsins. Þeim 13 starfsmönnum sem sættu sig ekki við bann við að ganga í félag að eigin vali var sagt upp störfum. Að lokinni umfjöllun í þingnefndinni árið 1989 var bresku ríkisstjórninni gert skylt að taka aftur upp viðræður við TUC til að finna lausn á deilunni. Tillaga fulltrúa launafólks árið 1989 þess efnis að ríkisstjórnin skyldi falla undir sérstök ákvæði var felld með naumum meiri hluta.
    Á undanförnum árum hefur ekki fundist viðunandi lausn á þessu máli og, eins og nefnt var, var það enn einu sinni tilefni ítarlegra umræða í framkvæmdanefndinni.
    Nefndin komst að eftirfarandi niðurstöðum:
    Nefndin harmar mjög þá staðreynd að ríkisstjórnin hafi ekki gert ráðstafanir til að finna lausn á þeim vandamálum sem liggja málinu til grundvallar. Á grundvelli þess hafi nefndin að vissu leyti metið hvort ríkisstjórnin skyldi falla undir sérstök ákvæði. Mikill fjöldi nefndarmanna var því fylgjandi, en meiri hluti nefndarinnar vildi þó gefa ríkisstjórninni síðasta tækifæri til að finna lausn á þessu margslungna máli. Í þessu sambandi kom fram að ríkisstjórnin hefði lagt áherslu á að frekari umræður væru bæði mögulegar og æskilegar.
    Nefndin lét í ljós þá von að unnt yrði að vinda bráðan bug að því að finna lausn á þessu máli og óskaði eftir því að ríkisstjórnin hitti að máli sendinefnd frá Alþjóðavinnumálastofnuninni sem gæti veitt ráð um framvindu málsins.

Sérstakar ábendingar.


    Ýmsum viðurlögum er beitt í þingnefndinni til að freista þess að fá aðildarríkin til að sjá að sér og bæta framkvæmd á ákvæðum alþjóðasamþykkta sem þau hafa brotið. Alþjóðavinnumálastofnunin getur ekki þvingað aðildarríkin með valdi til að fara eftir ábendingum sínum. Þess í stað er höfðað til heiðurs hlutaðeigandi og skapað viðhorf meðal annarra aðildarríkja til verknaðarins. Hörðustu viðurlögin felast í því að aðildarríkis er getið í svonefndum sérstaka hluta skýrslu nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta til allsherjarþings vinnumálaþingsins. Þetta var gert að því er varðar eftirtalin ríki:

Myanmar (Burma).


    Nefndin fjallaði um gróf brot Myanmars á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu. Fulltrúi stjórnarinnar upplýsti að ráðstafanir yrðu gerðar til að breyta tilteknum þáttum löggjafarinnar í því skyni að samræma hana samþykktinni.
    Nefndin samþykkti að geta Myanmar í sérstaka hluta skýrslu sinnar til allsherjarþingsins vegna brota á þessari grundvallarsamþykkt.
    Nefndin ræddi einnig að Myanmar hefði láðst að framkvæma samþykkt nr. 87, um félagafrelsi og vernd réttar til að stofna félög, frá 1948. Myanmar var getið í sérstaka hluta skýrslu nefndarinnar vegna alvarlegra brota á þessari samþykkt bæði 1993 og 1994.
    Í umræðunum var staðfest að einnig að þessu leyti hefði ríkisstjórnin í mörg ár ekki gert neitt til að tryggja að unnt væri að stofna frjáls verkalýðsfélög í landinu.
    Í umræðunum hélt fulltrúi norsku ríkisstjórnarinnar ræðu fyrir hönd ríkisstjórna Norðurlandanna fimm og Hollands. Í ræðunni var vísað til yfirlýsingar fulltrúa ríkisstjórnar Myanmars þess efnis að ríkisstjórnin væri hlynnt því að taka upp viðræður um aðstæður í atvinnulífinu, þar með talinn rétt starfsmanna til að stofna félög. Í ræðunni kom fram von um — að fenginni faglegri ráðgjöf Alþjóðavinnumálastofnunarinnar — að nauðsynlegar ráðstafanir yrðu gerðar til að samræma lög og venjur landsins samþykktinni svo skjótt sem auðið væri.
    

Nígería.


    Nefndin ræddi að Nígería hefði látið hjá líða að fullnægja skyldum sínum samkvæmt samþykkt nr. 87, um félagafrelsi. Nú eru liðin 35 ár síðan Nígería fullgilti þessa samþykkt og gaf nefndin gaum að miklum og stöðugum frávikum í löggjöf landsins og venjum frá ákvæðum samþykktarinnar. Í löggjöfinni var ákvæði sem heimilaði stofnun aðeins eins verkalýðsfélags í landinu og að ríkisstjórnin tæki þátt í skipulagingu þess. Nefndin lét í ljós miklar áhyggjur vegna þessara tveggja atriða.
    Nefndin samþykkti að geta Nígeríu í sérstaka hluta skýrslu sinnar vegna brota á þessari samþykkt.
    Loks lét nefndin í ljós þá almennu von að hlutaðeigandi ríkisstjórnir gerðu nauðsynlegar ráðstafanir, m.a. með faglegri aðstoð Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, til að tryggja að það sem brugðist hefði í framkvæmd samþykktanna yrði lagfært þannig að um raunverulegar framfarir gæti orðið að ræða innan árs.

Athugasemdir við framkvæmd Íslands á fullgiltum alþjóðasamþykktum.


    Ekki var fjallað um framkvæmd Íslands á fullgiltum samþykktum í skýrslu sérfræðinganefndarinnar til 82. Alþjóðavinnumálaþingsins. Hins vegar sendi sérfræðinganefndin íslenskum stjórnvöldum athugasemdir og fyrirspurnir um framkvæmd á tveimur samþykktum, þ.e. samþykkt nr. 122, um stefnu í atvinnumálum, og nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi.

Alþjóðsamþykkt nr. 122, um stefnu í atvinnumálum.


    Í athugasemdum sérfræðinganefndarinnar kemur efnislega fram að hún kveðst gefa gaum að fyrstu skýrslu Íslands sem tekur til tímabils sem lýkur 30. júní 1993. Skýrslan varpi skýru ljósi á efnahagsástandið og aðsteðjandi vandamál. Nefndin kveðst taka eftir samdrætti á vinnumarkaðinum árið 1992 og auknu atvinnuleysi úr 1,5% árið 1991 í 3% árið 1992. Samkvæmt upplýsingum OECD hafi þessi þróun haldið áfram og atvinnuleysi reynst 4,3% á árinu 1993. Nefndin óskar þess að í næstu skýrslu verði ítarlegar tölulegar upplýsingar um þróunina á vinnumarkaðinum.
    Nefndin kveðst veita athygli stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem miðar að því að auka tekjur þjóðarbúsins og auka samkeppnishæfni fyrirtækja með það að markmiði að fjölga störfum. Í þessu sambandi kemur fram að hún taki eftir árangri í að draga úr verðbólgu. Nefndin óskar eftir upplýsingum um stefnu í ríkisfjármálum, peninga- og gjaldeyrismálum og verðlags- og launamálum „innan ramma samræmdrar stefnu í efnahags- og félagsmálum” til að viðhalda fullri vinnu. Enn fremur kemur fram að sérfræðinganefndin hefur tekið eftir upplýsingum um viðfangsefni Byggðastofnunar. Hún óskar eftir nánari upplýsingum um aðgerðir hennar sem hafa að markmiði að stuðla að uppbyggingu, einkum á svæðum þar sem samdráttur ríkir eða skipulagsbreytingar eiga sér stað í atvinnulífi. Nefndin óskar eftir upplýsingum um aðgerðir til að auka atvinnu eða sem eru til hagsbóta fyrir atvinnulaust fólk. Hún óskar eftir upplýsingum um viðfangsefni starfsmenntaráðs félagsmálaráðuneytisins og ráðgjafanefndar vinnumálaskrifstofu ráðuneytisins.

Alþjóðasamþykkt nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi.


    Sérfræðinganefndin kveðst veita athygli upplýsingum sem koma fram í fyrstu skýrslu Íslands og óskar þess að ríkisstjórnin veiti nánari upplýsingar um framkvæmd á nokkrum ákvæðum samþykktarinnar.
    Sérfræðingarnir benda á að þættir hafi verið undanþegnir gildissviði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, t.d. flugumferð, fiskveiðar, siglingar og köfun. Nefndin óskar eftir upplýsingum í næstu skýrslum Íslands um aðgerðir til að láta gildissvið samþykktarinnar einnig taka til þessara þátta atvinnulífsins.
    Nefndin óskar enn fremur eftir upplýsingum um stöðu og vernd öryggistrúnaðarmanna á vinnustöðum, um reglugerðir sem settar eru á grundvelli laga nr. 46/1980 um það hvort lagt hafi verið bann við flutningi á einhverjum tegundum af hættulegum efnum, útgáfu á tölum um vinnuslys o.fl.

2.6. RÉTTINDI ÞEIRRA SEM VINNA HEIMA


    Réttindi þeirra sem stund launavinnu á heimilum sínum var til fyrri umræðu á 82. Alþjóðavinnumálaþinginu. Fjallað var um þetta málefni í sérstakri þingnefnd. Formaður nefndarinnar var kjörinn ríkisstjórnarfulltrúi Kýpur, Lenia Samuel. Varaformenn voru kosnir A. Wild, fulltrúi atvinnurekenda frá Stóra-Bretlandi, og I. Van den Burg, fulltrúi launafólks í Hollandi.
    Nefndin hélt 15 fundi á meðan á þinginu stóð, einkum síðdegisfundi, þar eð báðir aðilar, ESB-ríkin og IMEC-hópurinn (samráðshópur vestrænna ríkja) héldu samræmingarfundi árdegis.
    Alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði samið drög að texta samþykktar og tillögu sem send voru ríkjunum haustið 1994 og þau beðin að gera athugasemdir. Á grundvelli athugasemda ríkjanna samdi skrifstofan nýjan texta sem varð grundvöllur starfs nefndarinnar á vinnumálaþinginu. Önnur umræða og lokaumræða fer fram á vinnumálaþinginu sumarið 1996.
    Í upphafi nefndarstarfsins fór fram atkvæðagreiðsla um hvort drög vinnumálskrifstofunnar skyldu teljast drög að tillögu eða hvort stefnt yrði að afgreiðslu bæði samþykktar og tillögu. Meiri hlutinn greiddi atkvæði með síðarnefnda kostinum. Við upphaf umræðna héldu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna ræður þar sem fram kom að heimavinna væri ekki mjög almenn á Norðurlöndunum, en þeir styddu hins vegar samþykkt og tillögu þess efnis að bæta aðstæður launafólks í þeim ríkjum þar sem heimavinna væri almenn. Í þessu sambandi var lögð áhersla á að æskilegt væri að hafa ákvæðin sveigjanleg þannig að sem flest ríki gætu samþykkt þau, einkum þau ríki þar sem er að finna stóran hluta hefðbundins heimastarfs, en erfitt er að framkvæma samþykktir sem eru of nákvæmlega orðaðar. Þess yrði enn fremur freistað að taka tillit til nýrrar tegundar heimavinnu sem verður æ útbreiddari og nefnist fjarvinnsla (teleworking).
    Hætt var við að hluti fram kominna ákvæða kynni að valda vandkvæðum. Í meðferð málsins komu fram u.þ.b. 200 breytingartillögur. Atvinnurekendur héldu því einkum fram að ekki væri tímabært að setja reglur um þetta svið vegna þess að enn væri of lítil reynsla fengin af hinni nýju og ört vaxandi tegund heimavinnu, fjarvinnslu. Þeir héldu því einnig fram að hvað sem öðru liði væri heppilegast að samþykkja tillögu þar eð heimavinna væri víðtækt hugtak og hefðir væru mismunandi á hinum ýmsu landsvæðum og í hinum ýmsu löndum. Fulltrúar launafólks óskuðu eftir skyldubundnum reglum í tiltölulega nákvæmlega orðaðri samþykkt ásamt meðfylgjandi tillögu. Fulltrúar ríkisstjórna skiptust nokkurn veginn í tvo hópa um hvort skjalið skyldi vera í formi samþykktar eða tillögu. Nokkrir fulltrúar ríkisstjórna sögðu að samþykkt samkvæmt uppástungu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar gæti valdið vandkvæðum í tengslum við löggjöf hlutaðeigandi ríkja eða skort á löggjöf á þessu sviði.
    Nefndin tók sér tiltölulega langan tíma til að fara höndum um sjálfan texta samþykktarinnar. Erfitt reyndist að finna skilgreiningar um heimavinnu og heimavinnandi fólk sem aðilar vinnumarkaðarins gætu sætt sig við, svo og fulltrúar stjórnvalda hinna ýmsu landa. Vandinn var einkum fólginn í afmörkun hugtaksins launamaður í hinum ýmsu ríkjum. Fulltrúar launafólks höfðu hug á að hafa skilgreiningarnar nógu víðtækar til að þær næðu til sem flestra aðstæðna og forðast skyldi fastákveðna tilhögun fyrir sjálfstætt starfandi fólk. Atvinnurekendur óskuðu eftir að skilgreiningin væri sem víðtækust. Niðurstaðan varð sú að samin var skilgreining þar sem tilgreint var hvað felast skyldi í hugtakinu heimavinna því sem næst án þess að tekið væri tillit til hugtaksins launamaður í hinum ýmsu ríkjum.
    Í texta samþykktarinnar kemur fram að ríkin skuli hafa stefnu á landsvísu hvað snertir heimavinnu og skuli hún endurskoðuð með reglulegu millibili í því skyni að bæta aðstæður heimavinnandi fólks og eigi slíkt að fara fram í samvinnu við helstu samtök á vinnumarkaði. Einnig beri ríkjunum að hafa hafa það á stefnuskrá sinni að stuðla að jafnrétti í vinnuréttarmálum milli heimavinnandi fólks og venjulegra starfsmanna. Nokkur umræða varð um hvað fólgið væri í hugtakinu stefna á landsvísu hvað snertir heimavinnandi fólk. Leitað var álits lögfræðilegs ráðunautar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Hann kvað upp úr með það að ákvæðin hefðu ekki í för með sér að ríkjunum væri skylt að móta eigin stefnu eða áætlun um heimavinnu, ef hún væri ekki þegar fyrir hendi, heldur skyldu að því marki sem mögulegt væri samþætta hana atvinnumálastefnu ríkisins á jafnréttisgrundvelli með tilliti til réttinda o.fl. sem starfsmönnum ber. Í þessu sambandi skyldi tekið tillit til sérstakra aðstæðna heimavinnandi fólks. Sérstök áhersla var lögð á rétt heimavinnandi fólks til að bindast samtökum og frelsi til að velja sér verkalýðsfélag, svo og að njóta jafnrar verndar á sviði vinnuumhverfis og öryggis og félagslegra réttinda samkvæmt landslögum.
    Eitt af álitaefnunum sem komu til umfjöllunar var spurningin um ábyrgð stjórnvalda á launakjörum og lágmarkslaunum heimavinnandi fólks. Alþjóðavinnumálaskrifstofan upplýsti að ákvæði um þetta atriði kæmu ekki í veg fyrir að áfram yrði beitt því kerfi sem tíðkaðist á Norðurlöndum um launakjör samkvæmt kjarasamningum.
    Enn fremur var rætt um að hve miklu leyti ríkjunum væri skylt samkvæmt landslögum að taka upp ákvæði þar sem tilgreint væri hvers konar störf og hvers konar efni væru bönnuð í heimavinnu. Í ljós kom að slíkt mundi leiða til vandkvæða í flestum ríkjum og engin tillaga kom fram um skilgreiningu á þessu atriði.
    Spurningin að hve miklu leyti ríkin skyldu setja sér eigin ákvæði þess efnis að heimilt væri að nota milliliði við heimavinnu varð tilefni umræðna. Niðurstaðan varð sú að þau ríki sem ekki höfðu ákvæði um aðstæður milliliða í reglugerðum sínum var ekki gert skylt að setja eigin reglur hvað þetta snertir um heimavinnu.
    Löng umræða varð um eftirlit og hve langt skyldi gengið í þeim efnum með tilliti til friðhelgis einkalífsins. Niðurstaðan varð sú að eftirlitskerfi skyldu vera í samræmi við reglur sérhvers ríkis um heimavinnu og að í þeim reglum sem settar yrðu skyldi tekið tillit til friðhelgis einkalífsins.
    Víðtækur ágreiningur er enn bæði um efnisinnihald og hvort afgreiða eigi samþykkt. Því er að vænta átaka um þetta mál á næsta þingi.

Tillaga.


    Nokkur þau atriði sem rædd voru í drögum að samþykkt komu einnig fram í drögum að tillögu. Drögin að tillögu hafa enn fremur að geyma ákvæði m.a. um skráningu heimavinnandi fólks og atvinnurekenda sem hafa heimavinnandi fólk á sínum snærum. Enn fremur er lagt til að tilteknar upplýsingar, sem atvinnurekanda er skylt að skrá hvað snertir starfs- og launakjör heimavinnandi fólks, svo og nokkur refsiákvæði vegna atvinnurekenda sem brjóta ítrekað gegn gildandi ákvæðum um heimavinnu, væru fyrir hendi. Eins og texti samþykktarinnar inniheldur texti tillögunnar ákvæði um lágmarksaldur, rétt til að stofna félög, launakjör, þar með talið hvaða greiðslu starfamaður getur krafist með tilliti til þess að vinnan fer fram á heimili hans o.s.frv., vinnuumhverfi og öryggi, þar með talið við hvaða aðstæður heimavinnandi maður getur hafnað því að taka að sér eða framkvæma vinnu, ef öryggi eða heilsu hins heimavinnandi manns eða fjölskyldu hans er hætta búin, án þess að slíkt hafi neikvæðar afleiðingar fyrir hinn heimavinnandi mann.
    Enn fremur hefur tillagan að geyma kröfu um ákveðinn vinnutíma, leyfi, rétt til leyfa og trygginga, svo og starfsöryggi og reglur um lausn ágreiningsmála. Í meginatriðum snýst þetta um að heimavinnandi fólki beri sömu réttindi og öðrum starfsmönnum samkvæmt reglum hinna einstöku ríkja.
    Lítill tími vannst undir lok þingsins til að fjalla ítarlega um allar spurningar sem bornar höfðu verið fram í drögum að tillögu. Gert var ráð fyrir því að nokkur atriði yrðu rædd ítarlegar við aðra umræðu málsins sumarið 1996.

Nefndarfundir.


    Nefndarfundir við afgreiðslu bæði texta samþykktarinnar og viðræðna um tillöguna voru oft bæði erfiðir og langir þar eð aðilar vinnumarkaðarins voru mjög á öndverðum meiði í flestum málum og ekki var ávallt samningsvilji fyrir hendi. Hinn mikli fjöldi breytingartillagna (u.þ.b. 200) sem fram komu er vottur um þetta. Nokkur tími fór í að kalla til hinn lögfræðilega ráðunaut alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til að skýra texta, í umræður um orðalag sem, þegar öll kurl voru komin til grafar, skiptu ekki mjög miklu máli, svo og beitingu vinnureglna við atkvæðagreiðslur og andmæli vegna rangrar málsmeðferðar. Ein ástæða þess að starfið í starfshópnum gekk fremur hægt er líklega sú að atvinnurekendur voru frá byrjun ófúsir til að afgreiða samþykkt á þessu sviði. Þeir töldu að það væri ekki tímabært, m.a. með tilliti til þróunar fjarskipta og fjarvinnslu. Hins vegar óskuðu fulltrúar launafólks eftir að fá sem best skjal með tilliti til samþykktar og tillögu og lögðu mikla áherslu á hvort tveggja.
    Fulltrúar stjórnvalda höfðu ekki uppi mikil andmæli. Þau ríki þar sem hefðbundin heimavinna er hvað útbreiddust, t.d. sum þróunarlönd, höfðu hægt um sig, bæði við umræðurnar og við að leggja fram breytingartillögur.

2.7. BREYTINGAR Á GILDISSVIÐI SAMÞYKKTAR NR. 81, UM VINNUEFTIRLIT
    Fyrir 82. vinnumálaþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar lá einnig tillaga um að gera gildissvið samþykktar nr. 81 frá 1949, um vinnueftirlit, víðtækara og láta það ná til ýmiss konar þjónustu sem er ekki rekin á viðskiptalegum grunni. Alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði samið drög að bókun sem nefndin samþykkti eftir að hafa gert á henni nokkrar breytingar.
    Ákveðið var að aðeins ein umræða færi fram um drögin að bókuninni. Drögin höfðu að geyma texta tíu greina, þar af sex megingreina og fjögurra lokagreina.
    Ráðgjafi norsku ríkisstjórnarinnar, Anne-Sofie Trosdahl Oraug, frá Vinnueftirliti Noregs, var kosin formaður nefndarinnar. Varaformaður var kosinn F. Diaz Garayoca frá Ekvador fyrir hönd atvinnurekenda og Kari Tapiola frá Finnlandi fyrir hönd launafólks.
    Nefndin átti mjög auðvelt með að starfa saman og ríkti góður andi meðal aðilanna þriggja.
    Upphaflega hafði verið ráðgert að fulltrúi nígerísku ríkisstjórnarinnar stjórnaði nefndarstarfinu. Hann kom hins vegar ekki til þingsins og þá lagði fulltrúi hollensku ríkisstjórnarinnar til að norski fulltrúinn skyldi stjórna fundum.
    Skrifstofan veitti góðan stuðning og nefndinni tókst að halda fyrir fram gerða tímaáætlun. Varaformennirnir voru og mjög dugmiklir og var til þess tekið að hinn finnski fulltrúi ríkisstjórnarinnar, sem fór fyrir fulltrúum launafólks, hefði staðið sig vel.
    Það voru einkum fjögur atriði í sambandi við textann sem umræður í nefndinni snerust um:
    Form skjalsins.
    Gildissvið.
    Sérstök tilhögun.
    Gildistími skjalsins.
    Umræðum um hvort um bókun eða tillögu (inngangur og 1. gr.) skyldi vera að ræða lauk með því að samþykkt var að gefin skyldi út bókun. Atvinnurekendur og nokkrir fulltrúar ríkisstjórna óskuðu eftir að samþykkt yrði tillaga þar eð þeir töldu að slíkt byði upp á meiri sveigjanleika.
    Deilt var um gildissvið samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. Í tillögu að texta var gefinn möguleiki á undantekningum í þremur tilvikum:
    Herinn, bæði hermenn og almennir starfsmenn.
    Lögreglan og önnur opinber öryggisþjónusta.
    Fangelsismálastofnunin, bæði starfsmenn og fangar við vinnu.
    Breytingartillögur komu frá atvinnurekendum og fulltrúum ríkisstjórna sem óskuðu eftir að lengja þennan lista verulega. Að loknum nokkrum umræðum var komist að samkomulagi sem fulltrúar launafólks studdu að lokum. Samkomulagið var fólgið í að leggja til fjórða flokkinn, þ.e.: „essential national (federal) government administration“ (nauðsynlega yfirstjórn ríkisins (sambandsríkisins)).
    Lokaatriðið varðandi efni textans sem nokkurn tíma tók að ræða var 4. gr. um sérstaka tilhögun (arrangements). Hér var textanum gefið aukið vægi með því að fjarlægja a-lið sem fjallaði um takmarkanir á slembiúrtökum og greiningu efna.
    Við umfjöllun um fjórar síðustu greinarnar, sem eru lokagreinar, varð nokkuð óvænt umræða um gildistímann.
    Fulltrúar atvinnurekenda og Stóra-Bretlands höfðu lagt fram tillögu þess efnis að breyta gildistíma bókunarinnar úr tíu árum í fimm. Þetta er meginspurning sem er til meðferðar hjá stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, en nefndin hafði einnig umboð til að fjalla um. Fulltrúar launafólks óskuðu eftir því að þessu yrði vísað til stjórnarnefndarinnar til afgreiðslu. Þeir sættu sig ekki við slíka breytingu á þessu stigi málsins og voru ósveigjanlegir í afstöðu sinni.
    Margar ríkisstjórnir gátu sætt sig við að stytta gildistímann í fimm ár. Hins vegar ber á það að líta að þar með hefði bókunin annan gildistíma en samþykkt nr. 81.
    Málið var leyst með atkvæðagreiðslu með nafnakalli og var breytingartillögunni vísað frá með naumum meiri hluta atkvæða.
    Eins og áður var getið samþykkti mikill meirihluti þingsins bókunina.
    

2.8. ÖRYGGI OG HEILSUGÆSLA NÁMUVERKAMANNA


    Málefni námuverkamanna voru til annarrar umræðu og lokaumræðu á Alþjóðavinnumálaþingi ársins. Í nefndinni sátu upphaflega 155 fulltrúar, þar af 62 fulltrúar ríkisstjórna, 35 fulltrúar atvinnurekenda og 58 fulltrúar launafólks. Nefndin hélt ellefu fundi og tók til meðferðar alls 168 breytingartillögur.
    Eins og í fyrstu umferð var fulltrúi ríkisstjórnar Ungverjalands, Andreas Békés, kosinn formaður nefndarinnar. Einn af fulltrúum atvinnurekenda, John Steward, og einn af fulltrúum launafólks, John Maitland, voru kosnir varaformenn. Fulltrúi ríkisstjórnar Kanada, Ralph McGinn, var kosinn talsmaður nefndarinnar.
    Til grundvallar umræðum lágu skýrslur um öryggi og hollustuhætti í námum (Safety and health in mines), drög að samþykkt og tillögu sem byggðist á fyrstu umræðu á þinginu 1994, umsögn ríkisstjórnanna um skýrslu þingnefndarinnar IV (1), endurnýjuð drög að samþykkt og tillögu sem byggðist á athugasemdum aðildarríkja ILO.
    Samtals fóru fram þrjár atkvæðagreiðslur og snertu tvær þeirra samþykktina. Í einu tilviki var um að ræða bókfærða atkvæðagreiðslu. Atvinnurekendur urðu að lúta í lægra haldi við allar þrjár atkvæðagreiðslurnar.
    Þrátt fyrir að starf nefndarinnar einkenndist af mismunandi afstöðu aðila til umfangs samþykktar og viðkomandi tillögu var fyrir hendi mikill áhugi á að ná niðurstöðu sem væri ásættanleg fyrir sem flesta. Aðilar vildu að svo miklu leyti sem unnt var komast hjá því að endurtaka þær löngu og áköfu umræður sem áttu sér stað við fyrstu umræðu árið 1994. Þetta olli því að flestar breytingar sem voru samþykktar voru minni háttar og snerust oft um orðalag. Meiri háttar breytingar og tillögur um nýjar málsgreinar voru í fæstum tilvikum samþykktar.
    Mikilvæg breyting á 1. gr., skilgreiningar, snerist um skilgreiningu á hugtakinu „náma“. Þar var samþykkt að undanskilja olíu- og gasvinnsluiðnaðinn ákvæðum samþykktarinnar. Á grundvelli þessarar samþykktar lagði formaðurinn til að stofnaður yrði starfshópur til að ræða hugsanlegar aðgerðir til að koma á sambærilegum staðli fyrir olíu- og gasvinnsluiðnaðinn. Atvinnurekendur lögðust gegn því, en að lokinni atkvæðagreiðslu var stofnaður starfshópur án þátttöku atvinnurekenda. Starf hópsins leiddi til ályktunar þar sem því er beint til stjórnarnefndarinnar að olíu- og gasvinnsluiðnaðurinn verði undanskilinn í skilgreiningu á hugtakinu náma og að Alþjóðavinnumálastofnunin vinni áfram að því að tryggja öryggi og heilsu launafólks í olíu- og gasvinnsluiðnaðinum.
    Í 6. gr. er fjallað um ábyrgð atvinnurekenda. Við mat á áhættu ber atvinnurekanda að leggja eftirfarandi forgangsröð til grundvallar:
    að fjarlægja áhættu,
    að hafa eftirlit með áhættu þar sem hún kemur upp,
    að draga úr áhættu,
    persónuhlífar.
    Við afgreiðslu samþykktarinnar var samþykkt tillaga frá atvinnurekendum um að taka upp í texta samþykktarinnar málsgrein þess efnis að ofangreindar ráðstafanir skyldu gerðar með tilliti til þess sem væri skynsamlegt, eðlilegt og hagkvæmt, þ.e. þetta hafi í för með sér að engar „óframkvæmanlegar“ skyldur verði á lagðar.

Niðurstaða.


    Samþykktin og tillagan hlutu mikinn meiri hluta atkvæða á þinginu. Ríkisstjórnarfulltrúar greiddu atkvæði með báðum þessum skjölum á allsherjarþinginu. Samþykktin hlaut 378 atkvæði en sex voru á móti og 26 sátu hjá.

2.9. AÐBÚNAÐUR LAUNAFÓLKS Á HERNUMDUM SVÆÐUM ARABA


Stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar samþykkti í apríl 1995 að á vinnumálaþingi ársins skyldi haldinn sérstakur fundur (special sitting) til að ræða skýrslu forstjórans um aðstæður launafólks á hernumdum svæðum araba. Hins vegar hafði stjórnarnefndin ákveðið að þetta yrði síðasta árið sem slíkur sérstakur fundur yrði haldinn.
    Flestar ræður á fundi ársins voru lausar við stóryrði, en Ísraelsmenn urðu þó fyrir nokkuð miklu aðkasti fyrir að hafa afturkallað leyfi margra Palestínumanna til að starfa í Ísrael. Í stað þeirra hefðu komið u.þ.b. 70.000 farandverkamenn frá ríkjum utan svæðisins. Lokun landamæra Ísraels hjá Gazasvæðinu og á Vesturbakkanum hefðu valdið miklu atvinnuleysi og vanda við flutning nauðsynjavara og mjög mikilli verðhækkun margra nauðsynjavara.
    Margir héldu því fram að ef friðarferlið ætti að takast yrði að leysa hin miklu félagslegu vandamál á Gazasvæðinu og Vesturbakkanum. Þarna hefur Alþjóðavinnumálastofnunin mikilvægu hlutverki að gegna, m.a. hvað snertir uppbyggingu stofnana, þróun samtaka á sviði atvinnulífsins og aukna atvinnu.

2.10. SAMSTARF Á ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGINU


    Alþjóðavinnumálaþingið er fjölmenn samkoma sem haldin er samtímis í mörgum nefndum. Að venju voru haldnir margir óformlegir samráðsfundir fulltrúa ríkisstjórna Vesturlanda með markaðsbúskap (IMEC-ríkjanna).
    Náin samvinna var milli sendinefnda norrænu ríkisstjórnanna, jafnt í nefndum og á allsherjarþinginu, og fluttar voru margar sameiginlegar norrænar ræður.
    Einnig voru haldnir fjölmargir sameiginlegir fundir hinna norrænu sendinefnda ríkisstjórnanna.
    Samstarf ríkisstjórnarfulltrúa frá Norðurlöndum og vestrænum iðnaðarríkjum hefur auðveldað Íslendingum þátttöku í Alþjóðavinnumálaþinginu. Fámenn þjóð getur ekki með sama hætti og stórþjóðir sent fjölmennar sendinefndir til þingsins og þar með haft fulltrúa í öllum nefndum þess. Þar af leiðandi hafa Íslendingar notið góðs af miðlun upplýsinga frá traustum samstarfsaðilum og tekið þátt í málatilbúnaði eftir efnum og ástæðum.



Fylgiskjal I.


Samþykkt nr. 176, um öryggi og hollustuhætti í námum.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 82. þingsetu sinnar í Genf 6. júní 1995 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að viðkomandi alþjóðasamþykktum og -tillögum, einkum samþykkt um afnám nauðungarvinnu frá 1957, samþykkt og tillögu um vernd verkamanna fyrir geislun frá 1960, samþykkt og tillögu um öryggisbúnað véla frá 1963, samþykkt og tillögu um bætur vegna slysa frá 1964, samþykkt og tillögu um lágmarksaldur við vinnu neðanjarðar í námum frá 1965, samþykkt um læknisskoðun ungmenna með tilliti til hæfi til vinnu neðanjarðar frá 1965, samþykkt og tillögu um verndun verkamanna gegn hættu frá loftmengun, hávaða og titring frá 1977, samþykkt og tillögu um öryggi og heibrigði við vinnu og starfsumhverfi frá 1981, samþykkt og tillögu um heilsugæslu á vinnustöðum frá 1985, samþykkt og tillögu um öryggi við notkun asbests frá 1986, samþykkt og tillögu um öryggi og hollustuhætti í byggingariðnaði frá 1988, samþykkt og tillögu um notkun efna frá 1990 og samþykkt og tillögu um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys frá 1993, og
    með tilliti til þess að starfsmenn hafa þörf fyrir og eiga rétt á upplýsingum, þjálfun og raunverulegu samráði um og þátttöku í undirbúningi og framkvæmd ráðstafana varðandi öryggi og hollustuhætti vegna hættu sem yfir þeim vofir í námuvinnslu, og
    þar eð viðurkennt er að æskilegt sé að koma í veg fyrir dauðsföll, slys eða heilsutjón sem starfsmenn eða almenningur getur orðið fyrir eða umhverfisspjöll sem stafa af námugreftri, og
    tekur tillit til nauðsynjar samvinnu milli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og annarra hlutaðeigandi stofnana, svo og til viðeigandi gagna, starfsreglna, laga og viðmiðunarreglna sem framangreindar stofnanir hafa getið út, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar um öryggi og hollustuhætti í námum, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,
    gerir þingið í dag, 22. júní 1995, eftirfarandi samþykkt sem nefna má Samþykkt um öryggi og hollustuhætti í námum, 1995:

I. Hluti. Skilgreiningar.


1. gr.

    1. Hvað varðar þessa samþykkt merkir hugtakið „náma“:
    staði ofan- eða neðanjarðar þar sem eftirfarandi starfsemi fer einkum fram:
        i.     leit að steinefnum, öðrum en olíu og gasi, sem hefur í för með sér jarðrask;
        ii.     brottnám steinefna, annarra en olíu og gass;
        iii.    undirbúningur, þar með talin kvörnun, mölun, samþjöppun eða þvottur brottnumins efnis; og
    allar vélar, tæki, áhöld, verksmiðjur, byggingar og verkfræðileg mannvirki sem notuð eru við þá starfsemi sem tilgreind er í a-lið hér að framan.
    2. Hvað varðar þessa samþykkt merkir hugtakið „atvinnurekandi“ persónu eða lögpersónu sem hefur ráðið til starfa einn eða fleiri starfsmenn í námu og, eftir því sem við á, rekstraraðila, aðalverktaka, verktaka eða undirverktaka.

II. Hluti. Gildissvið og framkvæmdaatriði.


2. gr.

    1. Samþykkt þessi á við um allar námur.
    2. Að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins er hlutaðeigandi stjórnvaldi aðildarríkis sem fullgildir samþykktina:
    heimilt að undanskilja tilteknar tegundir náma frá samþykktinni eða tilteknum ákvæðum hennar ef heildarvernd í slíkum námum samkvæmt landslögum eða venju er ekki minni en hún yrði ef til kæmi full beiting ákvæða samþykktarinnar;
    skylt, ef tilteknar tegundir náma hafa verið undanskildar samkvæmt a-lið hér að framan, að gera ráðstafanir til þess að samþykktin nái smám saman til allra náma.
    3. Aðildarríki, sem fullgildir samþykktina og nýtir sér þann möguleika sem veittur er samkvæmt ákvæðum 2. gr. a hér að framan, ber að tilgreina í skýrslum sínum um beitingu samþykktarinnar, sem lagðar eru fram samkvæmt ákvæðum 22. gr. Stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, hvaða tegundir náma eru undanskildar og hvaða ástæður liggja að baki.

3. gr.

    Með tilliti til aðstæðna og venja og að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðila vinnumarkaðarins ber hverju aðildarríki að móta, framkvæma og endurskoða reglulega samræmda stefnu um öryggi og hollustuhætti í námum, einkum hvað snertir ráðstafanir í því skyni að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktarinnar.

4. gr.

    1. Ráðstafanir til að tryggja framkvæmd samþykktarinnar skulu gerðar samkvæmt lögum og reglugerðum sérhvers ríkis.
    2. Þar sem það á við skal, auk laga og reglugerða, beita:
    tæknilegum stöðlum, viðmiðunarreglum eða starfsreglum; eða
    öðrum framkvæmdaatriðum sem samrýmast venjum í hverju ríki samkvæmt ábendingum hlutaðeigandi stjórnvalds.

5. gr.

    1. Lög og reglugerðir hvers ríkis samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 4. gr. skulu tilgreina hlutaðeigandi stjórnvald sem hefur með höndum eftirlit með og stjórnun hinna ýmsu þátta sem snerta öryggi og hollustuhætti í námum.
    2. Í landslögum og reglugerðum skulu vera ákvæði um:
    eftirlit með öryggi og hollustuháttum í námum;
    skoðun náma af hálfu eftirlitsmanna sem hlutaðeigandi stjórnvald tilnefnir í því skyni;
    tilhögun við tilkynningu um og rannsókn á dauðaslysum og alvarlegum slysum, hættulegum viðburðum og meiri háttar námuslysum, samkvæmt skilgreiningu í landslögum eða reglugerðum hvers ríkis;
    samantekt og útgáfu tölfræðilegra upplýsinga um slys, atvinnusjúkdóma og hættulega viðburði, samkvæmt skilgreiningu landslaga og reglugerða;
    vald hlutaðeigandi stjórnvalds til að banna eða takmarka námugröft á grundvelli öryggis og hollustuhátta þangað til þær aðstæður sem voru orsök banns eða takmörkunar hafa verið færðar í lag; og
    að gera virkar ráðstafanir til að tryggja rétt starfsmanna og fulltrúa þeirra til að vera hafðir með í ráðum í málum sem snerta öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og taka þátt í ráðstöfunum þar að lútandi.
    3. Í landslögum og reglugerðum skulu vera ákvæði þess efnis að framleiðsla, geymsla, flutningur og notkun sprengiefna og hvellhettna við námuna sé í höndum eða undir beinu eftirliti hæfra og lögmætra persóna.
    4. Í landslögum og reglugerðum skulu vera ákvæði um:
    kröfur um björgunaraðgerðir í námum, skyndihjálp og viðeigandi aðstöðu til læknishjálpar;
    skyldu til að leggja til og viðhalda viðeigandi öndunarbúnaði til sjálfshjálpar fyrir starfsmenn í kolanámum neðanjarðar og, ef þörf krefur, í öðrum neðanjarðarnámum;
    varnaraðgerðir til að ganga frá námum sem hætt er að nota til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu hvað snertir öryggi og heilsu manna;
    kröfur um örugga geymslu, flutning og eyðingu hættulegra efna sem notuð eru við námuvinnslu og úrgangsefna sem leggjast til við námuna; og
    þar sem við á, skuldbindingu til að leggja til næg salerni og aðstöðu til þvotta, fataskipta og til að matast og viðhalda þeim í því ástandi að það fullnægi hreinlætiskröfum.
    5. Í landslögum og reglugerðum skulu vera ákvæði þess efnis að atvinnurekandi sem stjórnar námunni tryggi að gerðar séu viðeigandi teikningar af þeim hluta námunnar þar sem vinna fer fram áður en vinnan hefst og ef verulegar breytingar eru gerðar hvað þetta varðar þá séu teikningarnar dagréttar reglulega og hafðar til reiðu við námuna.

III. Hluti. Aðgerðir til forvarna og varna við námur.


A. ÁBYRGÐ ATVINNUREKENDA


6. gr.

    Þegar atvinnurekandi gerir ráðstafanir til forvarna og varna samkvæmt þessum hluta samþykktarinnar ber honum að meta hættuna og taka á henni í þeirri forgangsröð sem hér segir:
    koma í veg fyrir hættuna;
    hafa stjórn á hættunni þar sem hún kann að koma upp;
    draga úr hættunni með því að hanna örugg vinnukerfi; og
    ef hættan er enn fyrir hendi, að sjá starfsmönnum fyrir persónuhlífum,
að teknu tilliti til þess hvað er eðlilegt, framkvæmanlegt og mögulegt, til góðra vinnuvenja og þess að starfsmenn viðhafi eðlilega gát.

7. gr.

    Atvinnurekendum ber að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu hvað snertir öryggi og heilsu manna í námum undir þeirra stjórn, og einkum:
    að tryggja að náman sé hönnuð, grafin og útbúin með rafbúnaði, vélbúnaði og öðrum búnaði, þar með talin fjarskiptakerfi, til að skapa aðstæður fyrir örugga vinnslu og heilnæmar vinnuaðstæður;
    að tryggja að náman sé tekin í notkun, starfsrækt, henni við haldið og hún tekin úr notkun með slíkum hætti að starfsmönnum sé kleift að framkvæma þau verk sem þeim eru falin án þess að skapa hættu hvað snertir öryggi og heilsu þeirra sjálfra eða annarra;
    að gera ráðstafanir til að viðhalda stöðugleika jarðvegs á þeim svæðum þar sem menn hafa aðgang við vinnu sína;
    þar sem því verður við komið, að hafa til reiðu frá sérhverjum vinnustað neðanjarðar tvær útgönguleiðir sem hvor tengist aðskilinni leið upp á yfirborðið;
    að tryggja eftirlit, mat og reglulega skoðun á vinnuumhverfinu til þess að finna hina ýmsu áhættuþætti sem starfsmenn kunna að verða fyrir og meta hve mikil áhættan er;
    að tryggja nægilega loftræstingu í öllum hlutum námu sem starfsmönnum er heimill aðgangur að;
    hvað snertir þau svæði þar sem starfsmönnum er sérstök hætta búin, að semja og framkvæma rekstraráætlun og gera ráðstafanir til að tryggja öruggt vinnuumhverfi og vernd starfsmanna;
    að gera varúðarráðstafanir og aðrar ráðstafanir eftir eðli námuvinnslunnar til að koma í veg fyrir, greina og berjast gegn upptökum eldsvoða, dreifingu elds og sprengingum; og
    að tryggja að þegar um alvarlega hættu er að ræða hvað snertir öryggi og heilsu starfsmanna sé rekstur stöðvaður og starfsmenn fluttir til öruggs staðar.

8. gr.

    Atvinnurekanda ber að semja viðbragðsáætlun í neyðartilvikum, sérstaka áætlun fyrir hverja námu, vegna iðnaðarslysa og náttúruhamfara sem eðlilegt má telja að sjá megi fyrir.

9. gr.

    Þar sem starfsmenn verða fyrir líkamlegri hættu eða hættu af völdum kemískra eða lífrænna efna ber atvinnurekanda:
    að kynna starfsmönnum með skiljanlegum hætti þær hættur sem eru samfara vinnu þeirra, þær hættur fyrir heilsu þeirra sem um er að ræða og viðeigandi forvarnir og ráðstafanir þeim til verndar;
    að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættum af völdum slíkra áhættuþátta;
    þar sem viðeigandi vernd fyrir hættu á slysum eða heilsutjóni, þar með talið að lenda í varasömum aðstæðum, verður ekki tryggð með öðrum hætti, að leggja starfsmanni til og viðhalda honum að kostnaðarlausu viðeigandi persónuhlífum, fatnaði eftir þörfum og öðrum aðstæðum, samkvæmt ákvæðum landslaga eða reglugerða; og
    að sjá starfsmönnum, sem hafa orðið fyrir slysi eða orðið veikir á vinnustað, fyrir skyndihjálp, viðeigandi flutningi frá vinnustað og aðgangi að viðeigandi aðstöðu til læknishjálpar.

10. gr.

    Atvinnurekanda ber að tryggja:
    að starfsmönnum sé séð fyrir viðeigandi þjálfunar- og endurþjálfunarnámskeiðum og skiljanlegum leiðbeiningum, þeim að kostnaðarlausu, um öryggi og hollustuhætti, svo og um þau störf sem þeim er ætlað að vinna;
    samkvæmt landslögum og reglugerðum, að séð sé fyrir nægilegu eftirliti og stjórnun á hverri vakt til að tryggja öruggan rekstur námunnar;
    að komið sé á fót kerfi þess efnis að vitað sé nákvæmlega um nöfn allra sem eru neðanjarðar á hverjum tíma, svo og hvar þeir eru líklega staðsettir;
    að öll slys og hættulegir viðburðir, samkvæmt skilgreiningu í landslögum eða reglugerðum, séu rannsakaðir og að viðeigandi ráðstafanir til úrbóta gerðar; og
    að skýrsla sé samin, samkvæmt ákvæðum landslaga og reglugerða, og send hlutaðeigandi stjórnvaldi á sviði slysa og hættulegra viðburða.

11. gr.

    Á grundvelli almennra reglna um hollustuhætti á vinnustöðum og samkvæmt ákvæðum landslaga og reglugerða, ber atvinnurekanda að tryggja að reglulegt eftirlit sé haft með heilsu starfsmanna sem vinna við hættulegar aðstæður sem eiga einkum við í námuvinnslu.

12. gr.

    Þegar tveir eða fleiri atvinnurekendur hafa með höndum starfsemi í sömu námu ber þeim atvinnurekanda sem hefur með höndum yfirstjórn námunnar að samræma allar ráðstafanir varðandi öryggi og heilsu starfsmanna og ber hann meginábyrgð á öryggi í rekstrinum. Þetta leysir einstaka atvinnurekendur ekki undan þeirri skyldu að gera allar ráðstafanir hvað snertir öryggi og heilsu starfsmanna.

B. RÉTTINDI OG SKYLDUR STARFSMANNA OG


FULLTRÚA ÞEIRRA


13. gr.

    1. Samkvæmt landslögum og reglugerðum, sem tilgreind eru í 4. gr., hafa starfsmenn eftirtalin réttindi:
    að tilkynna atvinnurekanda og hlutaðeigandi stjórnvaldi um slys, hættulega viðburði og hættur;
    að óska eftir því við atvinnurekanda og hlutaðeigandi stjórnvald að fá framkvæmda skoðun og rannsókn ef þeim þykir ástæða til að halda að öryggi þeirra og heilsu sé hætta búin;
    að vita um og fá vitneskju um áhættuþætti á vinnustað sem kunna að hafa áhrif á öryggi þeirra og heilsu;
    að fá upplýsingar, sem atvinnurekandi eða hlutaðeigandi stjórnvald hafa undir höndum, sem snerta öryggi þeirra eða heilsu;
    að forða sér frá hverjum þeim stað í námunni þar sem þær aðstæður koma upp sem þeir hafa ástæðu til að ætla að valdi alvarlegri hættu hvað snertir öryggi þeirra eða heilsu; og
    að standa sameiginlega að vali öryggis- og heilbrigðisfulltrúa.
    2. Öryggis- og heilbrigðisfulltrúar þeir sem tilgreindir eru í f-lið 1. tölul. hér að framan skulu hafa eftirtalin réttindi samkvæmt landslögum og reglugerðum:
    að vera fulltrúar starfsmanna hvað snertir alla öryggis- og heilbrigðisþætti á vinnustað, þar með talda, þar sem við á, framkvæmd réttinda þeirra sem tilgreind eru í 1. mgr. að framan;
    að
         i.    taka þátt í skoðunum og rannsóknum sem atvinnurekandinn og hlutaðeigandi stjórnvald framkvæma á vinnustað; og
         ii.    fylgjast með og kanna öryggi og hollustuhætti;
    að geta leitað til ráðgjafa og óháðra sérfræðinga;
    að hafa samráð við atvinnurekandann í tíma hvað snertir öryggi og hollustuhætti, þar með talda stefnumörkun og ráðstafanir;
    að hafa samráð við hlutaðeigandi stjórnvald; og
    að fá tilkynningar um slys og hættulega viðburði á þeim sviðum sem umboð þeirra nær til.
    3. Aðgerðir við framkvæmd þess réttar sem tilgreindur er í 1. og 2. mgr. hér að framan skulu skilgreindar:
    í landslögum og reglugerðum; og
    á samráðsfundum atvinnurekenda og starfsmanna og fulltrúa þeirra.
    4. Landslög og reglugerðir skulu tryggja að unnt sé að beita þeim rétti sem getið er í 1. og 2. mgr. hér að framan án þess að starfsmenn þurfi að óttast mismunun eða refsiaðgerðir.

14 . gr.


    Samkvæmt landslögum og reglugerðum er starfsmönnum skylt samkvæmt þeirri þjálfun sem þeir hafa fengið:
    að hlíta þeim öryggis- og heilbrigðisreglum sem fyrir er mælt;
    að gæta eðlilegrar varúðar hvað snertir eigin öryggi og heilsu og öryggi og heilsu annarra sem verða kunna fyrir áhrifum af því sem þeir gera eða láta undir höfuð leggjast að gera við vinnu, þar með talin eðlileg aðgát og notkun hlífðarfatnaðar, aðstæðna og búnaðar sem þeim er látinn í té í þessum tilgangi;
    að tilkynna án tafar næsta yfirmanni sínum um hverjar þær aðstæður sem þeir telja að gætu valdið hættu fyrir öryggi og heilsu þeirra eða annarra og þeir eru ekki færir um að takast á við sjálfir; og
    að hafa samstarf við atvinnurekandann svo að honum reynist unnt að uppfylla skyldur sínar og ábyrgð samkvæmt samþykktinni.

C. SAMVINNA


15. gr.

    Gerðar skulu ráðstafanir, samkvæmt landslögum og reglugerðum, til að hvetja til samvinnu atvinnurekenda og starfsmanna og fulltrúa þeirra í því skyni að stuðla að öryggi og hollustuháttum í námum.

IV. Hluti. Framkvæmd.


16. gr.

    Aðildarríki er skylt:
    að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, þar með talið að gera ráð fyrir viðeigandi refsiákvæðum og ráðstöfunum til úrbóta, til að tryggja virka framkvæmd ákvæða samþykktarinnar; og
    að sjá fyrir nauðsynlegri eftirlitsþjónustu til að fylgjast með framkvæmd þeirra ráðstafana sem grípa ber til samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar og veita slíku eftirliti þá aðstöðu sem nauðsynleg er til að það geti leyst verkefni sitt af hendi.

V. Hluti. Lokaákvæði.


17. gr.

    Formlegar fullgildingar þessarar samþykktar skulu sendar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.

18. gr.

    1. Þessi samþykkt skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
    2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3. Síðan gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

19. gr.

    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að tíu árum liðnum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2. Sérhvert aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri málsgrein, rétt þann til uppsagnar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, en getur síðan sagt henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

20. gr.

    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin gangi í gildi.

21. gr.

    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

22. gr.


    Þegar stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir Allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

23. gr.

    1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt að öllu eða nokkru leyti, og sú samþykkt mælir ekki fyrir um á annan veg, skal:
    fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, þrátt fyrir ákvæði 19. gr. hér að framan, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist;
    aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.
    2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað snertir form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.

24. gr.

    Enskur og franskur texti þessarar samþykktar er jafngildur.



Fylgiskjal II.


Tillaga nr. 183, um öryggi og hollustuhætti í námum.



    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 82. þingsetu sinnar í Genf 6. júní 1995 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að viðkomandi alþjóðasamþykktum og -tillögum, einkum samþykkt um afnám nauðungarvinnu frá 1957, samþykkt og tillögu um vernd verkamanna fyrir geislun frá 1960, samþykkt og tillögu um öryggisbúnað véla frá 1963, samþykkt og tillögu um bætur vegna slysa frá 1964, samþykkt og tillögu um lágmarksaldur við vinnu neðanjarðar í námum frá 1965, samþykkt um læknisskoðun ungmenna með tilliti til hæfi til vinnu neðanjarðar frá 1965, samþykkt og tillögu um verndun verkamanna gegn hættu frá loftmengun, hávaða og titring frá 1977, samþykkt og tillögu um öryggi og heibrigði við vinnu og starfsumhverfi frá 1981, samþykkt og tillögu um heilsugæslu á vinnustöðum frá 1985, samþykkt og tillögu um öryggi við notkun asbests frá 1986, samþykkt og tillögu um öryggi og hollustuhætti í byggingariðnaði frá 1988, samþykkt og tillögu um notkun efna frá 1990 og samþykkt og tillögu um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys frá 1993, og
    með tilliti til þess að starfsmenn hafa þörf fyrir og eiga rétt á upplýsingum, þjálfun og raunverulegu samráði um og þátttöku í undirbúningi og framkvæmd ráðstafana varðandi öryggi og hollustuhætti vegna hættu sem yfir þeim vofir í námuvinnslu, og
    þar eð viðurkennt er að æskilegt sé að koma í veg fyrir dauðsföll, slys eða heilsutjón sem starfsmenn eða almenningur getur orðið fyrir eða umhverfisspjöll sem stafa af námugreftri, og
    tekur tillit til nauðsynjar samvinnu milli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og annarra hlutaðeigandi stofnana, svo og til viðeigandi gagna, starfsreglna, laga og viðmiðunarreglna sem framangreindar stofnanir hafa getið út, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar um öryggi og hollustuhætti í námum, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi tillögu sem kemur til viðbótar við samþykkt um öryggi og hollustuhætti í námum;
    gerir þingið í dag, 22. júní 1995, eftirfarandi tillögu sem nefna má Tillögu um öryggi og hollustuhætti í námum, 1995:

I. ALMENN ÁKVÆÐI


    Ákvæði þessarar tillögu koma til viðbótar við samþykkt um öryggi og hollustuhætti í námum frá 1995 (hér eftir nefnd „samþykktin“), og skyldu þau framkvæmd ásamt henni.
    Þessi tillaga á við um allar námur.
    (1) Með tilliti til aðstæðna og venja og að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðila vinnumarkaðarins ber hverju aðildarríki að móta, framkvæma og endurskoða reglulega samræmda stefnu um öryggi og hollustuhætti í námum.
        (2) Samráð það sem tilgreint er í 3. gr. samþykktarinnar skyldi m.a. vera fólgið í samráði við aðila vinnumarkaðarins um áhrif lengdar vinnutíma, næturvinnu og vaktavinnu á öryggi og heilsu starfsmanna. Að loknu slíku samráði ættu aðildarríkin að gera nauðsynlegar ráðstafanir hvað snertir vinnutíma, einkum hámarksfjölda vinnustunda á dag, og lágmarkshvíldarstundir á dag.
    Hlutaðeigandi stjórnvald skyldi hafa á að skipa vel hæfu og þjálfuðu starfsliði sem hefur aflað sér viðeigandi færni, svo og nægilegri tæknilegri og sérfræðilegri aðstoð til að skoða, rannsaka, meta og veita ráð um þau atriði sem samþykktin fjallar, og til að tryggja að farið sé að landslögum og reglugerðum.
    Gerðar skyldu ráðstafanir til að hvetja til og stuðla að:
         
    
    rannsóknum á og upplýsingaskiptum um öryggi og hollustuhætti í námum innan hvers ríkis og á alþjóðavettvangi;
         
    
    sérstakri aðstoð hlutaðeigandi stjórnvalda við litlar námur með tilliti til þess:
                  i.    að hjálpa til við að dreifa tækniþekkingu;
                  ii.    að koma á fót áætlunum um öryggi og hollustuhætti;
                  iii.    að hvetja til samvinnu og samráðs milli atvinnurekenda og starfsmanna og fulltrúa þeirra; og     
         
    
    áætlunum eða kerfum til endurhæfingar og enduraðlögunar starfsmanna sem hafa orðið fyrir sjúkdómum eða slysum í tengslum við starf sitt.
    Kröfur um eftirlit með öryggi og hollustuháttum í námum, skv. 2. mgr. 5. gr. samþykktarinnar, ættu m.a., þar sem það á við, að innihalda ákvæði um:
         
    
    vottorð og þjálfun;
         
    
    skoðun námunnar og búnaðar og tækja í henni;
         
    
    eftirlit með meðferð, flutningi, geymslu og notkun sprengiefna og hættulegra efna sem eru notuð eða framleidd við námuvinnsluna;
         
    
    vinnu við raftæki og -búnað; og
         
    
    verkstjórn.
    Kröfur skv. 4. mgr. 5. gr. samþykktarinnar gætu mælt svo fyrir að seljendur tækja, áhalda, hættulegra vara og efna til námunnar skyldu tryggja að þeir færu að stöðlum landsins um öryggi og hollustuhætti, merktu vörurnar með skýrum hætti og veittu skiljanlegar upplýsingar og leiðbeiningar.
    Kröfur um björgun úr námum og skyndihjálp, skv. a-lið 4. mgr. 5. gr. samþykktarinnar, og um viðeigandi aðstöðu til læknishjálpar í neyðartilvikum gætu náð til:
         
    
    skipulagðra aðgerða;
         
    
    hvaða tæki skyldu vera til reiðu;
         
    
    staðla um þjálfun;
         
    
    þjálfunar starfsmanna og þátttöku í æfingum;
         
    
    þess að viðeigandi fjöldi þjálfaðra manna væri til staðar;
         
    
    viðeigandi fjarskiptakerfis;
         
    
    virks kerfis til að veita viðvörun um hættu;
         
    
    þess að gert sé ráð fyrir aðstöðu til flótta og björgunaraðgerða og viðhalds slíkrar aðstöðu;
         
    
    þess að stofnuð verði sveit eða sveitir til björgunar úr námum;
         
    
    reglulegs læknisfræðilegs mats á hæfni þeirra manna sem skipa slíka björgunarsveit eða björgunarsveitir og reglulegrar þjálfunar þeirra;
         
    
    læknishjálpar og flutnings manna til læknis, hvort tveggja þeim starfsmönnum að kostnaðarlausu sem meiðst hafa eða orðið veikir á vinnustað;
         
    
    samræmingar við sveitarfélög;
         
    
    ráðstafana til að stuðla að alþjóðlegri samvinnu á þessu sviði.
    Kröfur skv. b-lið 4. mgr. 5. gr. samþykktarinnar gætu náð til tæknilýsingar og staðla hvað snertir gerð sjálfvirks björgunarbúnaðar sem starfsmenn hafa aðgang að, einkum í námum þar sem hætta er á skyndilegu gasútstreymi og öðrum námum þar sem viðeigandi er að hafa til reiðu sjálfstæð öndunartæki.
    Í landslögum og reglugerðum skyldu vera ákvæði um örugga notkun og viðhald fjarstýritækja.
    Í landslögum og reglugerðum skyldu vera ákvæði þess efnis að atvinnurekandi geri viðeigandi ráðstafanir til að vernda starfsmenn sem starfa einir eða einangraðir.

II. FORVARNIR OG VARNARAÐGERÐIR Í NÁMUM


    Atvinnurekendur ættu að gera hættumat og áhættugreiningu og koma síðan á fót, þar sem það á við, kerfum til að sporna við hættunni.
    Til þess að viðhalda stöðugleika jarðvegs, samkvæmt ákvæðum c-liðar 7. gr. samþykktarinnar, ætti atvinnurekandi að gera allar viðeigandi ráðstafanir til:
         
    
    að fylgjast með og hafa stjórn á hreyfingu á jarðlögum;
         
    
    eftir þörfum, að leggja til fullnægjandi stoðir fyrir loft, veggi og gólf í þeim hluta námu þar sem menn eru við vinnu, að undanteknum þeim svæðum þar sem, í þeim vinnsluaðferðum sem valdar hafa verið, er gert ráð fyrir því að jarðlög falli saman þannig að á því sé höfð stjórn;
         
    
    að hafa eftirlit með og stjórn á veggjum opinnar yfirborðsnámu til þess að koma í veg fyrir að efni falli eða renni ofan í gryfjuna og valdi starfsmönnum hættu; og
         
    
    að tryggja að stíflur, uppistöðulón, vatnsæðar og annað þess háttar sé hannað og útbúið með viðunandi hætti, og að eftirlit sé haft með slíku, þannig að komið sé í veg fyrir hættu af völdum skriðufalla eða hruns.
    Skv. d-lið 7. gr. samþykktarinnar ættu aðskildar útgönguleiðir að vera eins óháðar hver annarri og mögulegt er; gera ætti ráðstafanir og hafa til reiðu tæki til þess að unnt sé að flytja starfsmenn burt ef hættu ber að höndum.
    Skv. f-lið 7. gr. samþykktarinnar ætti að loftræsta með viðeigandi hætti alla hluta námu sem starfsmenn hafa aðgang að, og önnur svæði eftir þörfum, til þess að viðhalda andrúmslofti:
         
    
    þar sem komið sé í veg fyrir eða dregið úr hættu á sprengingum;
         
    
    þar sem vinnuaðstæður eru viðunandi með tilliti til þeirrar vinnuaðferðar sem beitt er, svo og þeirra krafna um líkamlega vinnu sem gerðar eru til starfsmanna; og
         
    
    sem fullnægir landsstöðlum um ryk, gas, geislun og loftslagsaðstæður; ef landsstaðlar eru ekki fyrir hendi ætti atvinnurekandi að taka tillit til alþjóðastaðla.
    Sú sérstaka hætta sem tilgreind er í g-lið 7. gr. samþykktarinnar, sem útheimtir starfsáætlun og starfsreglur, gæti t.d. verið:
         
    
    námueldar og sprengingar;
         
    
    skyndilegt innstreymi gass;
         
    
    klettsprenging;
         
    
    skyndilegt innstreymi vatns eða eðju;
         
    
    grjóthrun;
         
    
    hætta á jarðhræringum;
         
    
    hætta í tengslum við vinnu sem unnin er nærri varasömum opum eða við sérstaklega erfiðar aðstæður;
         
    
    skortur á loftræstingu.
    Ráðstafanir, sem atvinnurekendur ættu að gera skv. h-lið 7. gr. samþykktarinnar, ættu m.a. að vera, þar sem það á við, fólgnar í því að banna mönnum að fara niður í iður jarðar með hvers konar hluti eða efni sem gætu valdið eldsvoða, sprengingu eða hættulegum viðburði.
    Skv. i-lið 7. gr. samþykktarinnar ættu aðstæður í námum, þar sem það á við, m.a. að vera fólgnar í nægilega eldþolnum og sjálfstæðum hólfum til þess að veita starfsmönnum skjól ef hættu ber að höndum. Slík sjálfstæð hólf ættu að vera auðþekkt og aðgengileg, einkum ef skyggni er slæmt.
    Í viðbragðsáætlun við hættu, sem tilgreind er í 8. gr. samþykktarinnar, gætu verið ákvæði um:
         
    
    virkar neyðaráætlanir á staðnum;
         
    
    að vinna skuli stöðvuð og starfsmenn fluttir burt ef hættu ber að höndum;
         
    
    viðunandi þjálfun í aðgerðum og notkun tækja þegar hættu ber að höndum;
         
    
    viðunandi vernd fyrir almenning og umhverfið;
         
    
    upplýsingagjöf til og samráð við viðeigandi aðila og stofnanir.
    Sú hætta sem tilgreind er í 9. gr. samþykktarinnar gæti m.a. verið fólgin í:
         
    
    rykmettuðu lofti;
         
    
    eitruðu, illa lyktandi eða annars konar námugasi;
         
    
    reyk og hættulegum efnum;
         
    
    útblæstri frá dísilvélum;
         
    
    súrefnisskorti;
         
    
    geislun frá berglögum, tækjum eða af öðrum uppruna;
         
    
    hávaða og titringi;
         
    
    miklum hita;
         
    
    miklum loftraka;
         
    
    ónógri lýsingu eða loftræstingu;
         
    
    hættu í tengslum við vinnu sem framkvæmd er í mikilli hæð eða á miklu dýpi í þröngum rýmum;
         
    
    hættu við handfjötlun hluta;
         
    
    hættu af völdum vélbúnaðar og rafbúnaðar;
         
    
    hættu af völdum fleiri en eins ofangreinds þáttar.
    Ráðstafanir skv. 9. gr. samþykktarinnar gætu m.a. verið fólgnar í:
         
    
    tæknilegum eða skipulagslegum ráðstöfunum við viðeigandi námuvinnslu eða hvað snertir verksmiðju, vélar, tæki, áhöld eða mannvirki;
         
    
    þar sem ekki er unnt að koma við þeim ráðstöfunum sem tilgreindar eru í a-lið hér að framan, virkum ráðstöfunum, þar með talið að nota persónuhlífar og hlífðarföt, starfsmönnum að kostnaðarlausu;
         
    
    þar sem staðfest hefur verið að heilsu manna sé hætta búin hvað snertir getnað, þjálfun og sérstökum tæknilegum og skipulagslegum ráðstöfunum, þar með talinn réttur starfsmanna til að fá sig flutta í annað starf, eftir því sem við á, án þess að lækka í launum, einkum á tímabilum þegar heilsu manna er hætta búin, svo sem þegar konur eru þungaðar eða hafa börn á brjósti;
         
    
    reglulegu eftirliti og skoðun svæða þar sem hætta er fyrir hendi eða líklegt er að hún sé fyrir hendi.
    Þær tegundir hlífðarbúnaðar og aðstæður sem tilgreindar eru í c-lið 9. gr. samþykktarinnar gætu verið fólgnar í:
         
    
    mannvirkjum til að vernda starfsmenn fyrir veltandi og fallandi hlutum;
         
    
    sætisbeltum og beislum í tækjum;
         
    
    lokuðum þrýstihólfum;
         
    
    sjálfstæðum björgunarhólfum;
         
    
    aðstöðu til sturtubaðs og augnþvotta í neyð.
    Við framkvæmd b-liðar 10. gr. samþykktarinnar ættu atvinnurekendur:
         
    
    að tryggja viðeigandi eftirlit á hverjum vinnustað í námunni, en einkum með andrúmslofti, aðstæðum á gólfi, vélum, tækjum og áhöldum í námunni, þar með talið eftirlit fyrir hverja vakt ef þörf krefur; og
         
    
    að halda ritaðar skrár yfir eftirlit, galla og ráðstafanir til úrbóta og hafa slíkar skrár aðgengilegar hjá námunni.
    Þar sem það á við ætti heilbrigðiseftirlit það sem tilgreint er í 11. gr. samþykktarinnar, starfsmönnum að kostnaðarlausu og án þess að þeir þurfi að óttast nokkurs konar mismunun eða refsiaðgerðir:
         
    
    að veita starfsmönnum tækifæri til að undirgangast læknisrannsókn í tengslum við þær kröfur sem gerðar eru í þeim störfum sem þeim ber að inna af hendi, áður en eða rétt eftir að þeir hefja störf og síðan reglulega; og
         
    
    að veita aðstöðu, þar sem því verður við komið, til enduraðlögunar eða endurhæfingar starfsmanna sem ekki reynist kleift að takast á við sitt venjulega starf vegna vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms.
    Skv. e-lið 4. mgr. 5. gr. samþykktarinnar ættu atvinnurekendur, þar sem það á við, að veita starfsmönnum aðgang að og viðhalda, starfsmönnum að kostnaðarlausu:
         
    
    nægilega mörgum og viðeigandi salernum, sturtum, handlaugum og búningsklefum sem eru, eftir því sem við á, aðeins ætlaðar öðru kyninu;
         
    
    viðunandi aðstöðu til að geyma, þvo og þurrka föt;
         
    
    viðunandi magni af drykkjarvatni á hentugum stöðum; og
         
    
    viðunandi og hreinum aðstæðum til að matast.

III. RÉTTINDI OG SKYLDUR STARFSMANNA OG


FULLTRÚA ÞEIRRA


    Skv. 13. gr. samþykktarinnar skyldu starfsmenn og öryggis- og heilbrigðisfulltrúar þeirra fá eða hafa aðgang að, eftir því sem við á, upplýsingum sem ættu m.a. að vera fólgnar í:
         
    
    þar sem því verður við komið, tilkynningu um hvers konar heimsókn hlutaðeigandi stjórnvalds til námunnar sem tengist öryggis- eða heilbrigðismálum;
         
    
    skýrslum um eftirlit á vegum hlutaðeigandi stjórnvalds eða atvinnurekanda, þar með talið eftirlit með vélum og tækjum;
         
    
    afritum af fyrirskipunum eða leiðbeiningum, útgefnum af hlutaðeigandi stjórnvaldi, hvað snertir öryggi og hollustuhætti;
         
    
    skýrslum um slys, meiðsl, sjúkdómstilfelli og önnur tilfelli sem hafa áhrif á öryggi og hollustuhætti, sömdum af hlutaðeigandi stjórnvaldi eða atvinnurekanda;
         
    
    upplýsingum og tilkynningum um alla áhættuþætti í starfi, þar með talið um hættuleg, eitruð eða skaðleg efni sem notuð eru í námu;
         
    
    hvers konar öðrum gögnum um öryggi og hollustuhætti sem atvinnurekanda er skylt að viðhalda;
         
    
    tafarlausum tilkynningum um slys og hættulega viðburði; og
         
    
    hvers konar heilbrigðisrannsóknum sem framkvæmdar eru vegna hættu sem er fyrir hendi á vinnustað.
    Ráðstafanir, sem gera skyldi skv. e-lið 1. mgr. 13. gr. samþykktarinnar gætu verið fólgnar í kröfum um:
         
    
    tilkynningar til verkstjóra og öryggis- og heilbrigðisfulltrúa um þá hættu sem tilgreind er í þessu ákvæði;
         
    
    þátttöku háttsettra fulltrúa atvinnurekanda og fulltrúa launafólks til að leitast við að leysa málið;
         
    
    þátttöku, ef nauðsyn krefur, fulltrúa hlutaðeigandi stjórnvalds til að hjálpa til við að leysa málið;
         
    
    enga launaskerðingu starfsmanns og, þar sem við á, tilflutning hans í annað viðeigandi starf;
         
    
    tilkynningu til sérhvers annars starfsmanns, sem beðinn er að inna af hendi starf á viðkomandi svæði, þess efnis að annar starfsmaður hafi neitað að vinna þar og hvaða ástæður liggja að baki.
    Skv. 2. mgr. 13. gr. samþykktarinnar ættu réttindi öryggis- og heilbrigðisfulltrúa, þar sem við á, að vera fólgin í rétti til:
         
    
    að fá viðeigandi þjálfun á vinnutíma, án kaupskerðingar, um réttindi og starfssvið öryggis- og heilbrigðisfulltrúa og öryggi og hollustuhætti;
         
    
    aðgengis að viðeigandi aðstöðu til að inna af hendi skyldur sínar;
         
    
    að fá sín venjulegu laun fyrir allan þann tíma sem þeir verja til að nýta rétt sinn og inna af hendi starf sitt sem öryggis- og heilbrigðisfulltrúar; og
         
    
    að aðstoða og ráðleggja starfsmönnum sem hafa farið af vinnustað sínum vegna þess að þeir telja að öryggi sínu og heilsu sé hætta búin.
    Öryggis- og heilbrigðisfulltrúar ættu, eftir því sem við á, að tilkynna atvinnurekanda um ætlun sína að fylgjast með eða rannsaka öryggi og hollustuhætti, samkvæmt ákvæðum ii-liðar b-liðar 2. mgr. 13. gr. samþykktarinnar.
    (1) Öllum ætti að vera skylt:
         
    
    að forðast að taka úr sambandi, breyta eða fjarlægja að eigin geðþótta öryggisbúnað á vélum, tækjum, áhöldum, í verksmiðjum og byggingum; og
         
    
    að beita öryggisbúnaði með réttum hætti.
        (2) Atvinnurekendum ætti að vera skylt að veita starfsmönnum viðeigandi þjálfun og leiðbeiningar til að gera þeim kleift að inna af hendi þær skyldur sem lýst er í tölulið 1 hér að framan.

IV. SAMVINNA


    Ráðstafanir til að hvetja til samvinnu, skv. 15. gr. samþykktarinnar, ættu m.a. að vera fólgnar í:
         
    
    að koma á fót samstarfsvettvangi, t.d. öryggis- og heilbrigðisnefndum, þar sem atvinnurekendur og starfsmenn eiga jafnmarga fulltrúa, nefndum sem hafa það vald og hlutverk sem þeim kann að vera falið, þar með talið vald til að framkvæma sameiginlega skoðun;
         
    
    því að atvinnurekandi tilnefni þar til hæfa og reynda menn til að stuðla að öryggi og heilbrigði;
         
    
    þjálfun starfsmanna og öryggis- og heilbrigðisfulltrúa þeirra;
         
    
    að stuðla að reglulegum áætlunum til að vekja athygli starfsmanna á öryggi og hollustuháttum;
         
    
    reglulegum skiptum á upplýsingum og reynslu hvað snertir öryggi og hollustuhætti í námum;
         
    
    samráði atvinnurekanda við starfsmenn og fulltrúa þeirra við að ákveða stefnu og ráðstafanir hvað snertir öryggi og hollustuhætti;
         
    
    að atvinnurekandi heimili fulltrúum starfsmanna að taka þátt í rannsóknum á slysum og hættulegum viðburðum, svo sem tilgreint er í d-lið 10. gr. samþykktarinnar.

V. ÖNNUR ÁKVÆÐI


    Ekki skyldi beita þann starfsmann neins konar mismunun eða refsiaðgerðum sem neytir réttar síns sem hann hefur samkvæmt landslögum eða reglugerðum eða samkomulag er um milli atvinnurekanda, starfsmanna og fulltrúa þeirra.
    Tekið skyldi eðlilegt tillit til hugsanlegra áhrifa námuvinnslu á nærliggjandi umhverfi og öryggi almennings. Hér er einkum átt við að hafa stjórn á landsigi, titringi, fljúgandi grjóti, skaðlegum mengunarefnum í vatni, lofti eða jarðvegi, hafa örugga og skilvirka stjórn á förgunarstöðum úrgangs og endurlífgun námusvæða.



Fylgiskjal III.


Bókun frá 1995 við samþykkt um vinnueftirlit frá 1947 (nr. 81).



    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 82. þingsetu sinnar í Genf 6. júní 1995 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að því að ákvæði Samþykktar um vinnueftirlit frá 1947 eiga aðeins við um vinnustaði á sviði iðnaðar og verslunar, og
    gefur gaum að því að ákvæði Samþykktar um vinnueftirlit (í landbúnaði) frá 1969 eiga við um vinnustaði í landbúnaði sem reknir eru í hagnaðarskyni og ekki eru reknir í hagnaðarskyni, og
    gefur gaum að því að ákvæði Samþykktar um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi frá 1981 eiga við um alla atvinnustarfsemi, þar með talda opinbera þjónustu, og
    tekur tillit til allar þeirrar áhættu sem starfsmenn í þjónustustörfum, sem ekki eru unnin í hagnaðarskyni, kunna að verða fyrir, svo og þeirrar þarfar að tryggja að þessar atvinnugreinar séu háðar sams konar og jafnskilvirku og óhlutdrægu kerfi vinnueftirlits og gert er ráð fyrir í Samþykkt um vinnueftirlit frá 1947, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar um þau þjónustustörf sem eru ekki unnin í hagnaðarskyni, sem er sjötta mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi bókunar við Samþykkt um vinnueftirlit frá 1947,
    samþykkir þingið í dag, 22. júní 1995, eftirfarandi bókun sem nefna má bókun frá 1995 við Samþykkt um vinnueftirlit frá 1947:

I. HLUTI. GILDISSVIÐ, SKILGREINING OG NOTKUN


1. gr.

    1. Sérhverju aðildarríki sem fullgildir þessa bókun ber að láta ákvæði Samþykktar um vinnueftirlit frá 1947 (hér eftir nefnd „samþykktin“) ná til þjónustustarfa sem ekki eru unnin í hagnaðarskyni.
    2. Hugtakið „þjónustustörf sem ekki eru unnin í hagnaðarskyni“ á við störf í öllum tegundum vinnustaða sem ekki teljast til iðnaðar eða verslunar í skilningi þessarar samþykktar.
    3. Þessi bókun á við um alla vinnustaði sem falla ekki nú þegar undir gildissvið þessarar samþykktar.

2. gr.

    1. Aðildarríki, sem fullgildir þessa bókun, er heimilt með yfirlýsingu, sem bætt er við fullgildingarskjal þess, að undanskilja að öllu eða nokkru leyti frá gildissviðinu eftirtalda hópa:
    yfirstjórn ríkisins eða alríkisins;
    herlið, hvort sem það er skipað hermönnum eða óbreyttum borgurum;
    lögreglu og aðra aðila sem sjá um almennt öryggi;
    fangelsisstofnanir, bæði starfsmenn fangelsa og fanga við störf,
ef beiting samþykktarinnar á einhverju þessara sviða mundi valda sérstökum og verulegum vanda.
    2. Áður en aðildarríki nýtir sér þann möguleika sem veittur er skv. 1. mgr. ber því að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins eða, ef slíkir aðilar eru ekki fyrir hendi, fulltrúa viðkomandi atvinnurekenda og starfsmanna.
    3. Aðildarríki, sem gefið hefur yfirlýsingu þá sem vikið er að í 1. mgr., ber, þegar það hefur fullgilt þessa bókun, að tilkynna í næstu skýrslu sinni um framkvæmd samþykktarinnar, samkvæmt ákvæðum 22. gr. Stofnsamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ástæður fyrir útilokun viðkomandi starfshópa og gefa kost á annars konar tilhögun við eftirlit fyrir þá hópa sem útilokaðir voru. Í síðari skýrslum ber því að lýsa hvers konar ráðstöfunum sem það kann að hafa gert í því skyni að láta ákvæði bókunarinnar ná til þeirra.
    4. Aðildarríki, sem gefið hefur yfirlýsingu þá sem vikið er að í 1. mgr., er heimilt hvenær sem er að breyta eða fella úr gildi slíka yfirlýsingu með því að senda inn aðra yfirlýsingu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

3. gr.

    1. Ákvæði bókunar þessarar skulu framkvæmd með landslögum eða reglugerðum eða með öðrum hætti samkvæmt venjum viðkomandi ríkis.
    2. Ráðstafanir, sem gerðar eru til að hrinda ákvæðum bókunar þessarar í framkvæmd, skulu gerðar í samráði við aðila vinnumarkaðarins eða, ef slíkir aðilar eru ekki fyrir hendi, fulltrúa hlutaðeigandi atvinnurekenda og starfsmanna.

II. HLUTI. SÉRSTAKAR RÁÐSTAFANIR


4. gr.

    1. Aðildarríki er heimilt að gera sérstakar ráðstafanir vegna skoðunar vinnustaða yfirstjórnar ríkisins eða alríkisins, herliðs, lögreglu og annarra aðila sem sjá um almennt öryggi, svo og fangelsisstofnana, til að hefta vald vinnueftirlitsmanna, samkvæmt ákvæðum í 12. gr. samþykktarinnar hvað snertir:
    að eftirlitsmenn hafi viðeigandi samþykki stjórnvalda öryggismála til þess að fara inn á viðkomandi staði;
    skoðun samkvæmt beiðni;
    vald til að krefjast afhendingar trúnaðarskjala;
    að fjarlægja trúnaðarskjöl af staðnum;
    að taka og greina sýni ef efnum.
    2. Aðildarríki er einnig heimilt að gera sérstakar ráðstafanir vegna eftirlits á vinnustöðum herliðs og lögreglu og annarra aðila sem sjá um almennt öryggi í því skyni að heimila eftirfarandi takmarkanir á valdi vinnueftirlitsmanna:
    takmörkun á eftirliti meðan á heræfingum eða æfingum stendur;
    takmörkun eða bann við eftirliti herliðs í fremstu víglínu eða virkri herþjónustu;
    takmörkun eða bann við eftirliti á yfirlýstum hættutíma;
    takmörkun á eftirliti hvað snertir flutninga sprengiefna og vopna í hernaðarskyni.
    3. Aðildarríki er einnig heimilt að gera sérstakar ráðstafanir vegna eftirlits á vinnustöðum starfsmanna fangelsismálastofnunar hvað snertir takmörkun við eftirliti á yfirlýstum hættutíma.
    4. Áður en aðildarríki nýtir sér einhverjar þær ráðstafanir sem heimilaðar eru skv. 1., 2. og 3. mgr. ber því að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins eða, ef slíkir aðilar eru ekki fyrir hendi, fulltrúa hlutaðeigandi atvinnurekenda og starfsmanna.

5. gr.

    Aðildarríki er heimilt að gera sérstakar ráðstafanir vegna eftirlits á vinnustöðum slökkviliða og annarrar björgunarþjónustu í því skyni að heimila takmörkun á eftirliti á meðan barist er við eldsvoða eða á meðan á björgunaraðgerðum stendur eða við aðrar neyðaraðstæður. Í því sambandi ber vinnueftirlitinu að hafa reglubundið eftirlit með slíkum störfum og eftir sérhvern stórviðburð.

6. gr.

    Vinnueftirlitinu skal gefinn kostur á að veita ráð um mótun virkra ráðstafana til að draga úr hættu við æfingar fyrir vinnu sem gæti reynst hættuleg og taka þátt í eftirliti með framkvæmd slíkra ráðstafana.

III. HLUTI. LOKAÁKVÆÐI


7. gr.

    1. Aðildarríki er heimilt að fullgilda bókun þessa um leið og það fullgildir samþykktina, eða hvenær sem er eftir að það hefur fullgilt samþykktina, með því að tilkynna forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um formlega fullgildingu bókunarinnar til skráningar.
    2. Bókunin gengur í gildi tólf mánuðum eftir þann dag er forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar hefur skráð fullgildingu tveggja aðildarríkja. Eftir það gengur bókunin í gildi fyrir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar hefur skráð fullgildingu þess og er samþykktin þá bindandi fyrir hlutaðeigandi aðildarríki, að viðbættum 1.–6. gr. þessarar bókunar.

8. gr.

    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur bókun þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynning um uppsögn skal send forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2. Sérhvert aðildarríki, sem fullgilt hefur bókunina en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri málsgrein, rétt þann til uppsagnar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, en síðan getur það sagt henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

9. gr.

    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skrásetningu allra fullgildinga og uppsagna bókunarinnar.
    2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli aðildarríkja stofnunarinnar á því hvaða dag bókunin gangi í gildi.
    3. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir.

10. gr.

    Enskur og franskur texti þessarar bókunar er jafngildur.



Fylgiskjal IV.


Samþykkt nr. 81, um vinnueftirlit í iðnaði og verslun.


(Endurskoðuð íslensk þýðing.)


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 30. þingsetu sinnar í Genf 19. júní 1947 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    hefur samþykkt tilteknar ábendingar um tilhögun vinnueftirlits í iðnaði og verslun, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,
    gerir þingið í dag, 11. júlí 1947, svohljóðandi samþykkt sem nefna má Samþykkt um vinnueftirlit, 1947:

I. KAFLI

Vinnueftirlit í iðnaði.

1. gr.

    Sérhvert aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem samþykkt þessi nær til skal halda uppi vinnueftirliti á vinnustöðum í iðnaði.

2. gr.

    1. Vinnueftirlit á vinnustöðum í iðnaði skal ná til allra vinnustaða þar sem starfsmenn vinnueftirlitsins geta beitt lagaákvæðum um vinnuskilyrði og vernd starfsmanna við vinnu.
    2. Með lögum eða reglugerðum er heimilt að undanskilja námu- og flutningafyrirtæki framkvæmd þessarar samþykktar að öllu eða nokkru leyti.

3. gr.

    1. Hlutverk vinnueftirlitsins skal vera:
    að tryggja framkvæmd lagaákvæða um vinnuskilyrði og vernd starfsmanna við vinnu, svo sem ákvæða um vinnutíma, vinnulaun, öryggi, heilbrigði og velferð, vinnu barna og unglinga og önnur skyld atriði, að svo miklu leyti sem þeim er unnt að framfylgja slíkum ákvæðum;
    að láta atvinnurekendum og starfsmönnum í té tæknilegar upplýsingar og ráðleggingar um skilvirkustu aðferðir til að fullnægja ákvæðum laga;
    að vekja athygli hlutaðeigandi stjórnvalds á ágöllum eða misbeitingu sem gildandi lagaákvæði kveða ekki sérstaklega á um.
    2. Hvers konar frekari skyldur sem starfsmönnum vinnueftirlitsins kunna að verða faldar skulu hvorki vera með þeim hætti að þær komi í bága við skilvirka framkvæmd meginskyldna þeirra né dragi með nokkrum hætti úr valdi því og óhlutdrægni sem starfsmönnum vinnueftirlitsins er nauðsynlegt í samskiptum sínum við atvinnurekendur og starfsmenn.

4. gr.

    1. Að svo miklu leyti sem það samrýmist stjórnunaraðferðum aðildarríkis skal vinnueftirlit sett undir yfirumsjón og stjórn meginstjórnvalds.
    2. Í sambandsríki kann „meginstjórnvald“ að merkja alríkisstjórn eða meginstjórnvald einstaks ríkis innan sambandsríkisins.

5. gr.

    Hlutaðeigandi stjórnvaldi ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að:
    virku samstarfi eftirlitsþjónustunnar, annarra greina ríkisvaldsins og opinberra stofnana og einkastofnana sem hafa svipaða starfsemi með höndum; og
    samvinnu embættismanna vinnueftirlitsins, atvinnurekenda og starfsmanna eða samtaka þeirra.

6. gr.

    Starfsmenn vinnueftirlitsins skulu vera opinberir embættismenn sem njóti þeirrar aðstöðu og starfskjara að þeim sé tryggð varanleg atvinna og að þeir séu óháðir breytingum á ríkisstjórn og óeðlilegum ytri áhrifum.

7. gr.

    1. Starfsmenn vinnueftirlitsins skulu einungis ráðnir með hliðsjón af starfshæfni, að teknu tilliti til hvers konar skilyrða sem sett kunna að verða með landslögum eða reglugerðum um ráðningu opinberra starfsmanna.
    2. Hlutaðeigandi stjórnvald ákveður með hvaða hætti slík starfshæfni skuli metin.
    3. Starfsmenn vinnueftirlitsins skulu hljóta viðeigandi þjálfun vegna skyldustarfa sinna.

8. gr.

    Heimilt er að ráða jafnt karla og konur til starfa við vinnueftirlit, en ef þörf krefur má fela körlum og konum sérstök eftirlitsstörf.

9. gr.

    Sérhverju aðildarríki ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að fyllilega hæfir tæknilegir sérfræðingar, þar með taldir sérfræðingar á sviði læknisfræði, verkfræði, rafmagnsfræði og efnafræði, séu fengnir til aðstoðar við eftirlitið með þeim hætti sem kann að þykja best viðeigandi í hverju ríki, til að tryggja framkvæmd ákvæða laga um heilsuvernd og öryggi starfsmanna við vinnu sína og til að rannsaka áhrif framleiðsluferla, efna og starfsaðferða á heilbrigði og öryggi starfsmanna.

10. gr.

    Starfsmenn vinnueftirlitsins skulu vera nægilega margir til að tryggja skilvirka framkvæmd skyldustarfa eftirlitsins og skal fjöldi þeirra ákveðinn með hæfilegu tilliti til:
    mikilvægis þeirra skyldna sem eftirlitsmönnum ber að inna af hendi, einkum:
         i.    fjölda, eðlis, stærðar og aðstæðna á skoðunarskyldum vinnustöðum;
         ii.    fjölda og starfsgreina starfsmanna sem starfa á slíkum vinnustöðum; og
         iii.    fjölda og margbrotins eðlis þeirra lagaákvæða sem framfylgja verður;
    þeirra tækja sem eftirlitsmönnum eru fengin í hendur;
    aðstæðna sem verða að vera fyrir hendi á meðan á skoðunarferðum stendur svo að þær beri tilætlaðan árangur.

11. gr.

    1. Hlutaðeigandi stjórnvaldi ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sjá starfsmönnum vinnueftirlitsins fyrir:
    umdæmisskrifstofum sem búnar eru þeim gögnum sem nauðsynleg eru vegna starfseminnar og aðgengilegar öllum sem hlut eiga að máli;
    nauðsynlegum flutningum svo að þeim sé fært að inna af hendi skyldur sínar þar sem ekki eru fyrir hendi viðeigandi almenningsfarartæki.
    2. Hlutaðeigandi stjórnvaldi ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að endurgreiða starfsmönnum vinnueftirlitsins allan ferðakostnað og annan kostnað sem óhjákvæmilega leiðir af framkvæmd skyldustarfa þeirra.

12. gr.

    1. Starfsmenn vinnueftirlitsins, sem hafa í höndum viðeigandi skilríki, hafa rétt til:
    óhindraðs aðgangs að hvaða eftirlitsskyldum vinnustað sem er, hvenær sem er að degi eða nóttu, án þess að gera boð á undan sér;
    að hafa aðgang að degi til að hverjum þeim húsakynnum sem þeir hafa gilda ástæðu til að telja að séu eftirlitsskyld;
    að framkvæma hvers konar rannsóknir, prófanir eða athuganir sem þeir kunna að telja nauðsynlegar til að fullvissa sig um að ákvæðum laga sé hlítt til fullnustu, einkum:
         i.    að fá nákvæmar upplýsingar hjá atvinnurekanda eða starfsmönnum, annaðhvort í einrúmi eða í vitna viðurvist, um hvaða atriði sem er sem snertir framkvæmd lagaákvæðanna;
         ii.    að krefjast þess að framvísað sé hvers konar bókum, skrám eða öðrum skjölum sem skylt er að halda samkvæmt landslögum eða reglugerðum um vinnuskilyrði til þess að ganga úr skugga um að þau séu samkvæmt ákvæðum laga, svo og að afrita slík skjöl eða gera útdrátt úr þeim;
         iii.    að láta setja upp þær auglýsingar sem lög mæla fyrir um;
         iv.    að taka eða hafa á brott með sér sýni af efnum og hráefnum, sem notuð eru eða farið er með, til greiningar, að því tilskildu að atvinnurekanda eða fulltrúa hans hafi verið tilkynnt um hvers konar sýni eða hráefni sem tekin hafa verið eða höfð á brott í þessu skyni.
    2. Þegar eftirlitsmenn koma í heimsókn ber þeim að tilkynna atvinnurekanda eða fulltrúa hans um nærveru sína, nema þeir telji að slík tilkynning gæti hindrað þá í skyldustörfum sínum.

13. gr.

    1. Starfsmönnum vinnueftirlitsins skal fengið vald til að gera ráðstafanir til að bæta úr göllum sem þeir verða áskynja í verksmiðju, tilhögun eða starfsaðferðum sem þeir kunna að hafa ástæðu til að telja að hættulegar séu heilsu eða öryggi starfsmanna.
    2. Til þess að eftirlitsmönnum sé kleift að gera slíkar ráðstafanir skal þeim fengið vald, sem háð er hvers konar áfrýjun til dómstóla eða framkvæmdarvalds samkvæmt lögum, til að gefa eða láta gefa út fyrirskipanir um:
    breytingar á byggingum eða verksmiðjum sem framkvæma skal innan tiltekins tíma og nauðsynlegar kunna að vera til að tryggja að framfylgt sér ákvæðum laga um heilbrigði og öryggi starfsmanna, og
    ráðstafanir sem gerðar skulu án tafar til að forðast yfirvofandi hættu fyrir heilsu eða öryggi starfsmanna.
    3. Ef ráðstafanir þær sem tilgreindar eru í 2. mgr. eru ekki í samræmi við venjur framkvæmdar- eða dómsvalds aðildarríkis skulu eftirlitsmenn hafa rétt til að fara þess á leit við hlutaðeigandi stjórnvald að það gefi út fyrirskipanir þess efnis að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir án tafar.

14. gr.

    Vinnueftirlitinu skal tilkynnt um vinnuslys og tilfelli um atvinnusjúkdóma að því marki sem landslög eða reglugerðir kveða á um.

15. gr.

    Að þeim tilvikum frátöldum sem ákvæði kunna að vera um í landslögum eða reglugerðum er starfsmönnum vinnueftirlitsins:
    óheimilt að eiga beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta í þeim fyrirtækjum sem þeir hafa eftirlit með;
    að viðlögðum viðeigandi refsingum, óheimilt að ljóstra upp, jafnvel eftir að þeir hafa látið af störfum, hvers konar framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmálum eða vinnsluferlum sem þeir kunna að hafa orðið áskynja um við framkvæmd skyldustarfa sinna; og
    skylt að fara með sem algert trúnaðarmál nafn heimildarmanns síns varðandi hvers konar kvörtun um galla eða upplýsingar um brot á lögum og gefa hvorki atvinnurekanda né fulltrúa hans neina vísbendingu um það að eftirlitsferð hafi verið farin í kjölfar slíkrar kvörtunar.

16. gr.

    Vinnustaðir skulu skoðaðir svo oft sem þurfa þykir og eins nákvæmlega og talið er nauðsynlegt til að tryggja virka framkvæmd viðkomandi ákvæða laga.

17. gr.

    1. Þá sem láta undir höfuð leggjast að hlíta ákvæðum laga, sem eftirlitsmenn sjá um framkvæmd á, er unnt að lögsækja fyrirvaralaust, með þeim fyrirvörum sem vera kunna í landslögum eða reglugerðum í þeim tilvikum þar sem skylt er að gefa viðvörun um úrbætur eða aðgerðir til forvarna.
    2. Lagt er í vald eftirlitsmanna hvort þeir veiti viðvörun og ráðleggingar í stað þess að hefja eða mæla með málsókn.

18. gr.

    Í landslögum eða reglugerðum skulu vera ákvæði um viðeigandi refsingar fyrir brot á lagaákvæðum sem eftirlitsmenn sjá um framkvæmd á og fyrir að trufla þá við framkvæmd skyldustarfa sinna. Slíkum ákvæðum skal stranglega beitt.

19. gr.

    1. Eftirlitsmönnum eða eftirlitsskrifstofum í viðkomandi sveitarfélagi er skylt að gefa meginstjórnvaldi skýrslur reglulega um árangur af eftirlitsstörfum sínum.
    2. Slíkar skýrslur skulu gerðar með þeim hætti og fjalla um það efni sem meginstjórnvald mælir fyrir um á hverjum tíma; þær ber að leggja fram a.m.k. svo oft sem slíkt stjórnvald mælir fyrir um og a.m.k. eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

20. gr.

    1. Meginstjórnvaldið skal gefa út ársskýrslu almenns eðlis um störf eftirlitsþjónustunnar sem fram fer á þess vegum.
    2. Slíkar skýrslur skulu gefnar út innan hæfilegs tíma frá viðkomandi áramótum og í öllum tilvikum innan 12 mánaða.
    3. Afrit af slíkum ársskýrslum skulu send forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar innan hæfilegs tíma eftir að þær hafa verið gefnar út og í öllum tilvikum innan 12 mánaða.

21. gr.

    Í ársskýrslunni, sem meginstjórnvald eftirlitsmála gefur úr, skal fjallað um eftirfarandi efni og annað viðkomandi efni, svo fremi slíkt sé á valdsviði þess:
    lög og reglugerðir sem snerta störf eftirlitsþjónustunnar;
    starfsmenn eftirlitsþjónustunnar;
    tölfræðilegar upplýsingar um þá vinnustaði sem háðir eru eftirliti og þann fjölda starfsmanna sem þar starfar;
    tölfræðilegar upplýsingar um eftirlitsferðir;
    tölfræðilegar upplýsingar um brot og refsingar sem dæmt hefur verið til;
    tölfræðilegar upplýsingar um vinnuslys;
    tölfræðilegar upplýsingar um atvinnusjúkdóma.

II. KAFLI

Vinnueftirlit í verslunarfyrirtækjum.

22. gr.

    Sérhverju aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, þar sem þessi hluti samþykktar þessarar er í gildi, ber að halda uppi kerfi vinnueftirlits í verslunarfyrirtækjum.

23. gr.

    Vinnueftirlit á vinnustöðum í verslunarfyrirtækjum skal ná til allra vinnustaða þar sem eftirlitsmenn geta beitt lagaákvæðum um vinnuskilyrði og vernd starfsmanna við vinnu.

24. gr.

    Kerfi vinnueftirlits í verslunarfyrirtækjum skal fullnægja þeim kröfum sem tilgreindar eru í 3.–21. gr. samþykktar þessarar að svo miklu leyti sem þær eiga við.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

25. gr.

    1. Sérhverju aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem fullgildir samþykkt þessa er heimilt, með yfirlýsingu, sem fylgir fullgildingarskjali þess, að undanskilja II. hluta hennar.
    2. Sérhverju aðildarríki, sem gefið hefur út slíka yfirlýsingu, er heimilt að ógilda hana hvenær sem er með því að gefa út aðra yfirlýsingu.
    3. Sérhverju aðildarríki, sem tilkynning skv. 1. mgr. þessarar greinar gildir fyrir, ber að skýra árlega í ársskýrslu sinni um framkvæmd samþykktar þessarar frá afstöðu laga sinna og venja hvað snertir ákvæði II. hluta hennar og að hvaða marki slík ákvæði hafa verið framkvæmd eða ætlunin er að framkvæma þau.

26. gr.

    Í sérhverju tilviki þar sem vafi leikur á um hvort hvers konar starfsemi eða hluti hennar eða þjónusta í tengslum við hana eða vinnustað sé starfsemi, hluti hennar, þjónusta eða vinnustaður sem samþykkt þessi nær til skal hlutaðeigandi stjórnvald skera úr um það.

27. gr.

    Í samþykkt þessari felur hugtakið „lagaákvæði“ í sér, auk laga og reglugerða, úrskurði gerðardóma og almenna kjarasamninga sem hafa lagagildi og eftirlitsmönnum er skylt að hlíta.

28. gr.

    Í þeim ársskýrslum sem leggja skal fram skv. 22. gr. stofnsamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skulu vera ítarlegar upplýsingar um öll lög og reglugerðir sem settar hafa verið til að tryggja framkvæmd samþykktar þessarar.

29. gr.

    1. Ef í aðildarríki eru stór, strjálbýl svæði, eða þróunarstig er með þeim hætti að hlutaðeigandi stjórnvald telur óframkvæmanlegt að beita ákvæðum samþykktar þessarar, er því heimilt að undanskilja slík svæði frá framkvæmd hennar, annaðhvort almennt eða með þeim undanþágum varðandi tiltekna starfsemi eða starfsgreinar sem það telur við hæfi.
    2. Sérhverju aðildarríki ber að tilgreina í fyrstu ársskýrslu sinni um framkvæmd samþykktar þessarar skv. 22. gr. stofnsamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sérhver þau svæði þar sem það hyggst beita ákvæðum þessarar greinar og tilgreina ástæður þess; eftir útgáfudag fyrstu ársskýrslu sinnar er engu aðildarríki heimilt að beita ákvæðum þessarar greinar, að undanteknum þeim svæðum sem tilgreind hafa verið með þessum hætti.
    3. Sérhverju aðildarríki sem beitir ákvæðum þessarar greinar ber að tilgreina í síðari ársskýrslum hver þau svæði þar sem það hyggst afsala sér þeim rétti að beita ákvæðum þessarar greinar.

[30. og 31. gr.: Staðlaðar yfirlýsingar um beitingu ákvæða samþykkarinnar á sjálfstjórnarsvæðum.]

IV. KAFLI.


Lokaákvæði.


[32.–39. gr.: Staðlaðar lokagreinar.]



Fylgiskjal V.


Ræða félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar,


á allsherjarþingi 82. Alþjóðavinnumálaþingsins.


(7. júní 1995.)



    Virðulegi þingforseti.
    Ég vil hefja mál mitt á því að óska hr. Rosales Argüello til hamingju með kosningu sem forseti 82. Alþjóðavinnumálaþingsins. Ég vil taka undir orð fyrri ræðumanna sem hafa látið í ljósi fullvissu um að hann muni leysa þetta ábyrgðarfulla starf vel af hendi og þar með stuðla að því að árangur þingsins verði sem allra mestur.
    Skýrsla forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar ber að þessu sinni yfirskriftina „Fjölgun starfa“ (Promoting Employment). Skýrslan er útdráttur úr annarri skýrslu í nýrri ritröð sem fjallar um atvinnuástandið í heiminum. Í henni er að finna yfirlit yfir atvinnustig á öllum helstu atvinnusvæðum heimsins og greiningu á þeim vanda sem knýr dyra nú á tímum hjá flestum þjóðum heimsins, þ.e. vaxandi atvinnuleysi sem leiðir til aukinna félagslegra vandamála, einkum fátæktar og félagslegrar útskúfunar. Í skýrslunni er þess freistað að brjóta til mergjar ástæður vaxandi atvinnuleysis og reynt að benda á leiðir til lausnar þessum vanda sem ríkisstjórnir flestra ef ekki allra aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru að glíma við um þessar mundir. Þetta er ekki auðvelt viðfangsefni. Í seinni hluta skýrslunnar vekur forstjórinn athygli á þeirri staðreynd að höfuðumarkmiðið í hagstjórn á árunum eftir síðari heimstyrjöldina hafi verið full vinna fyrir alla. Þetta markmið virkaði hvetjandi á atvinnusköpun. Forstjórinn bendir á að nú á tímum sé eins og stjórnmálamenn hafi gefið þetta markmið upp á bátinn og það sé miður. Ég vil taka undir þetta álit forstjórans. Það sem ef til vill skiptir mestu máli er að takast á við þetta vandamál með því hugarfari að atvinnuleysi sé óásættanlegt böl og að hafa bjargfasta trú á að hægt sé að viðhalda fullri atvinnu fyrir allar vinnufúsar hendur.
    Í fyrri hluta skýrslunnar fjallar forstjórinn um helstu atriði sem einkenna þróun atvinnu- og efnahagsmála síðustu árin og áratugina. Þar er enn á ný vakin athygli á þeim skipulagsbreytingum sem hafa átt sér stað í atvinnulífinu. Hlutur landbúnaðar og iðnframleiðslu hefur dregist saman en hlutur þjónustu í heimsframleiðslunni hefur vaxið mjög hratt, einkum í iðnríkjum og þróunarríkjum. Þetta hefur valdið breytingum á vinnumarkaðinum. Samdráttur í iðnaði og landbúnaði hefur valdið miklu atvinnuleysi í þessum atvinnugreinum.
    Íslensk stjórnvöld tóku virkan þátt í Úrúgvæ-viðræðunum og Ísland er meðal stofnríkja WTO. Þegar á heildina er litið eru Íslendingar tiltölulega sáttir við niðurstöðuna. Hins vegar er því ekki að neita að lækkun tolla á ýmsum vöruflokkum getur komið illa við ýmsar atvinnugreinar á Íslandi. Þetta á ekki síst við landbúnaðinn sem býr við erfið veðurfarsleg skilyrði en ekki er hægt að horfa fram hjá því að stór hluti vinnandi fólks á Íslandi hefur lífsviðurværi sitt af landbúnaðarframleiðslu beint eða óbeint.
    Í skýrslu forstjórans er fjallað um Úrúgvæ-viðræðurnar og hugsanleg áhrif þeirra á atvinnu- og efnahagslíf. Það sem vekur sérstaka athygli er hversu forstjórinn er varkár í skýrslunni í mati sínu á áhrifum samkomulagsins. Hann bendir á að framkvæmd þess verði ekki sársaukalaus fyrir mörg ríki og hún krefjist margvíslegra aðgerða sem miða að því að laga atvinnulífið að nýjum aðstæðum. Þetta gildir einkum að því er varðar útflutning ríkja í suðri á vefnaðarvöru, fatnaði og landbúnaðarframleiðslu til ríkja í norðri.
    Aðildarríki samkomulagsins verða að hafa á því skilning að í starfsgreinum þar sem vænta má umtalsverðra áhrifa verða stjórnvöld að grípa inn í með beinum hætti. Á Íslandi gildir þetta fyrst og fremst um landbúnaðinn. Óheft samkeppni og of ör niðurskurður á styrkjum og annari aðstoð getur leitt til umtalsverðrar byggðaröskunar með tilheyrandi félagslegum vandamálum. Það vekur athygli mína að í skýrslu forstjórans kemur fram ríkur skilningur á þessu sérstaka vandamáli.
    Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að mikilvægt sé að halda áfram opinberum stuðningi við fjölskyldubúskap. Bent er á að fjárfesting í landbúnaði sem hafi að markmiði að bæta framleiðni sé mjög arðvænleg. Fram kemur að aukið frjálsræði í viðskiptum með hærra verði, lægri tollum og opnun nýrra markaða geti bætt fjárhagsstöðu landbúnaðarins þegar á heildina er litið. En á því hefur verið misbrestur að landbúnaðurinn hafi getað nýtt sér ný tækifæri til markaðssóknar. Ástæðan er sú að stjórnvöld hafa afnumið styrki sem gera einyrkjum kleift að nýta þessi nýju tækifæri. Forstjórinn leggur áherslu á að stjórnvöld forðist slík mistök þannig að bændur og landbúnaðurinn í heild njóti að fullu ávinningsins af auknu frjálsræði í viðskiptum. Ég vil heilshugar taka undir þessi orð forstjórans.
    Eins og flestir vita sjálfsagt eru Íslendingar fámenn þjóð sem frá árinu 874 byggir hlutfallslega stórt land. Barátta fyrir fullu sjálfstæði í aldir, frá 1262 til 1944, hefur gert Íslendinga meðvitaða um gildi alþjóðasamstarfs og löngun annarra þjóða til að búa við frelsi og sjálfstæði. Þar af leiðandi voru Íslendingar í hópi þeirra ríkja sem fyrst viðurkenndu ný ríki Austur-Evrópu.
    Íslendingar vilja eiga samstarf við önnur ríki á jafnréttisgrundvelli á alþjóðavettvangi, ekki síst vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra. Þess er vænst að málefni þeirra og annarra smáríkja fái umfjöllun með svipuðum hætti og annarra fullvalda ríkja. Á það má minna að framlag þessara ríkja, bæði að því er varðar fjármuni og virka starfsemi alþjóðastofnana, þolir samburð við framlag mun fjölmennari þjóða. Þar af leiðandi vekur það nokkra athygli mína að í skýrslu forstjórans er ekki minnst einu orði á hin smærri aðildarríki stofnunarinnar, a.m.k. ekki þau sem eru í Evrópu. Svo virðist sem hér sé fylgt ákveðinni stefnu sem jafnvel taki til smæstu atriða í skýrslunni. Þannig segir í neðanmálsgrein á bls. 66 í enskri útgáfu skýrslunnar að EFTA taki einungis til Sviss, Austurríkis, Noregs og Svíþjóðar. Þetta er rangt vegna þess að Ísland hefur verið aðildarríki EFTA frá því árið 1970, auk þess sem Lichtenstein er einnig meðal aðildarríkja. Ég vona að hér sé einungis um tilviljun að ræða og villu en ekki meðvitaða stefnu. Ef svo væri hlyti ég fyrir hönd íslenskra stjórnvalda að mótmæla henni. Til að koma í veg fyrir misskilning er rétt að taka fram að vegna inngöngu í Evrópusambandið gengu Austurríki, Finnland og Svíþjóð úr EFTA 1. janúar 1995.
    Ég vil taka fram að ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á það að þróun í efnahags- og viðskiptamálum fylgi umbætur í félagsmálum. Þar af leiðandi styðjum við áframhaldandi umræður um þetta efni á vettvangi ILO. Hins vegar viljum við lýsa yfir stuðningi við þau sjónarmið sem telja að nauðsynlegt sé að taka til endurmats vinnu ILO að þessu máli. Við erum þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða mikilvægt umræðuefni, ekki vegna viðskiptasamninganna sem slíkra eða stöðu velferðarkerfisins. Þetta snertir grundvallarmannréttindi, ekki síst grundvallarréttindi launafólks sem eiga að vera forgangsviðfangsefni þessarar stofnunar. Við styðjum aðila sem hafa varað við því að þessi umræða leiði til þess að upp verði tekin dulbúin verndarstefna sem hindri útflutning þróunarlanda og hefti sókn þeirra til bættra lífskjara sem leiði til félagslegra umbóta. Við teljum þó koma til greina að slík félagsleg ákvæði „social clause“ verði takmörkuð við grundvallarréttindi, t.d. félagafrelsi, samningafrelsi, afnám nauðungarvinnu og afnám alvarlegrar misnotkunar barna við vinnu.
    Í þessu sambandi vil ég láta í ljósi ánægju mína með leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í Kaupmannahöfn í mars sl. um félagslega þróun. Eins og við höfum orðið vör við hefur forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar þegar hafið undirbúning við að hrinda í framkvæmd þeim þáttum lokayfirlýsingar fundarins í Kaupmannahöfn sem heyra til verksviðs Alþjóðavinnumálstofnunarinnar.
    Virðulegi forseti.
    Ég óska þessu 82. Alþjóðavinnumálaþingi velfarnaðar og vænti þess að starf þess verði árangursríkt.



Fylgiskjal VI.

Niðurstaða nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem fjallar um félagafrelsi,


í kærumáli ASÍ vegna setningar laga nr. 15/1993, um bann við


verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi.


    Með bréfi, dags. 29. mars 1994, kærði Alþýðusamband Íslands til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) setningu laga nr. 15/1993, um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi. Lögin voru sett til að binda enda á kjaradeilu skipverja um borð í skipinu. Félagsmálaráðherra barst bréf frá alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf, dags. 11. apríl 1994, þar sem óskað er eftir athugasemdum ríkisstjórnarinnar við þessa kæru. Í kæru Alþýðusambandsins er setning framangreindra laga talin brot á alþjóðasamþykktum nr. 87, um félagafrelsi, og nr. 98, um samningafrelsi. Ísland fullgilti fyrrnefndu samþykktina árið 1950 en þá síðarnefndu 1952.
    Hinn 17. febrúar 1995 sendi ríkisstjórn Íslands Alþjóðavinnumálastofnuninni greinargerð um afstöðu sína til kæru ASÍ.
    Stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar afgreiddi á fundi sínum 23. júní 1995 skýrslu nefndar um félagafrelsi. Kæra ASÍ vegna setningar laga nr. 15/1993 er meðal þeirra mála sem fjallað er um í skýrslunni. Niðurstaða nefndarinnar er eftirfarandi:

Kærumál nr. 1768.

Kæra Alþýðusambands Íslands (ASÍ) á hendur ríkisstjórn Íslands.


    71. Með bréfi dags. 29. mars 1994 lagði Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fram kæru á hendur ríkisstjórn Íslands vegna brota á félagafrelsi.
    72. Ríkisstjórnin lagði fram greinargerð sína í málinu í bréfi dags. 20. febrúar 1995.
    73. Ísland hefur staðfest alþjóðasamþykkt nr. 87, um félagafrelsi, frá 1948, og alþjóðasamþykkt nr. 98, um beitingu grundvallarreglna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega, frá 1949.

A. Fullyrðing sóknaraðila.
    74. Í kæru sinni dags. 29. mars 1994 staðhæfir ASÍ að með því að samþykkja lög nr. 15, 23. mars 1993, um bann við verkfalli og verkbanni á ferjunni ms. Herjólfi, en samkvæmt þeim var skipaður sérstakur gerðardómur til að ákveða kaup og kjör skipverja á ms. Herjólfi fyrir 1. ágúst 1993, brjóti í bága við alþjóðasamþykktir nr. 87 og 98. Með úrskurði gerðardómsins 9. ágúst 1993 voru lagðar hömlur á kjarasamninga stéttarfélags sem átti ekki aðild að deilunni og svipti félaga þess rétti til að gera almenna kjarasamninga til þess að unnt væri að koma til móts við kröfur félaga annarra stéttarfélaga sem áttu í kjaradeilu við stjórn Herjólfs hf.
    75. Nánar tiltekið tilgreinir ASÍ að ms. Herjólfur sé ferja sem er í ferðum milli Vestmannaeyja og meginlandsins. Að jafnaði starfa 16 menn á skipinu og eru þeir félagar í fimm stéttarfélögum: stýrimennirnir eru félagar í Stýrimannafélagi Íslands, vélstjórarnir eru félagar í Vélstjórafélagi Íslands, skipstjórarnir eru félagar í Skipstjórafélagi Íslands, brytarnir eru félagar í Félagi bryta, og þernur, hásetar og bátsmenn eru félagar í Sjómannafélaginu Jötni. Stjórn Herjólfs hefur gert sérstaka samninga við hvert stéttarfélag og eru kjarasamningar þessara stéttarfélaga algerlega óháðir hver öðrum.
    76. Hinn 3. febrúar 1993 boðaði Stýrimannafélag Íslands verkfall stýrimanna á ms. Herjólfi. Kröfur stýrimanna voru m.a. í því fólgnar að laun þeirra yrðu hækkuð í tilteknu hlutfalli við laun bátsmannsins. Skömmu eftir að Stýrimannafélag Íslands hóf verkfallið var þess óskað að Sjómannafélagið Jötunn tæki þátt í samningaviðræðum um breytingar á vinnutilhögun um borð í skipinu. Sjómannafélagið Jötunn vakti athygli á því að félagið hefði gildan samning sem gengi ekki úr gildi fyrr en 1. mars 1993. Félagið vísaði til þessa samnings þegar það var beðið um að taka þátt í samningaviðræðum um kaup og kjör.
    77. Hinn 23. febrúar fengu undirmenn á ms. Herjólfi, þ.e. bátsmenn og hásetar, uppsagnarbréf þar sem sagði að ráðningartíma þeirra væri lokið að liðnum uppsagnarfresti. Sjómannafélagið taldi að uppsagnirnar væru til komnar til þess að þvinga undirmenn til að samþykkja kröfur yfirmanna og stjórnar Herjólfs hf. varðandi breytingar á vinnutilhögun; undirmenn töldu að framlagðar tillögur væru gróft brot á réttindum þeirra. Sjómannasamband Íslands og Sjómannafélag Reykjavíkur höfðu uppi kröftug mótmæli vegna uppsagnar undirmanna. Samninganefnd Sjómannasambands Íslands, sem hafði fengið umboð til að semja fyrir hönd Sjómannafélagsins Jötuns, hafnaði því að gera nýjan kjarasamning við stjórn Herjólfs fyrr en uppsagnir undirmanna hefðu verið dregnar til baka.
    78. Hinn 8. mars 1993 dró stjórn Herjólfs uppsagnirnar til baka með því skilyrði að fulltrúar undirmanna kæmu til fundar. Fundur var haldinn 9. mars 1993 þar sem fulltrúar undirmanna lögðu fram tilboð um óbreyttan kjarasamning að öðru leyti en því að launaliðurinn mundi hækka í samræmi við hækkanir sem samið kynni að verða um í almennum kjarasamningum milli ASÍ og Vinnuveitasambands Íslands (VSÍ) fyrir landverkamenn. Í tillögu undirmanna frá 9. mars var einnig yfirlýsing varðandi gerð heildarkjarasamnings fyrir áhöfn ms. Herjólfs á samningstímanum. Undirmenn töldu eðlilegra að ræða breytingar á vinnutilhögun við aðrar aðstæður en þær að yfirmennirnir væru í verkfalli, en slíkt ylli miklum þrýstingi. Auk þess höfðu yfirmennirnir með kröfum sínum dregið undirmenn inn í deilur sínar við stjórn Herjólfs hf. Undirmenn töldu að slíkar aðstæður væru algerlega óviðunandi forsenda samningaviðræðna um breytingar á vinnutilhögun um borð.
    79. Tilboði undirmanna frá 9. mars var ekki svarað. Hins vegar voru lög nr. 15/1993 samþykkt 23. mars. (Ensk þýðing laganna fylgir kærunni.) Með lögunum var verkfall Stýrimannafélags Íslands á ms. Herjólfi fellt úr gildi, „svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða . . .  “ Í lögunum sagði síðan að ef stéttarfélög skipverja og stjórn Herjólfs hf. hefðu ekki náð samningum um starfshætti og kjör fyrir 1. júní 1993 yrði þess farið á leit við Hæstarétt Íslands að hann tilnefndi þrjá menn í gerðardóm sem skyldi ákveða kaup og kjör skipverja á ms. Herjólfi fyrir 1. ágúst 1993. Þar eð deiluaðilar höfðu ekki náð samningum 1. ágúst 1993 kvað gerðardómurinn upp úrskurð sinn 9. ágúst sama ár. Öll stéttarfélögin fimm voru tilgreind sem aðilar að því máli sem var til úrskurðar fyrir gerðardóminum og voru kröfur þeirra að mestu leyti hinar sömu og áður. Yfirmennirnir, þ.e. stýrimenn, vélstjórar og skipstjórar, kröfðust þess að laun þeirra yrðu ávallt hærri en laun undirmanna þeirra svo næmi tilteknum hundraðshluta. Sjómannafélagið Jötunn vísaði til tilboðs síns frá 9. mars, en áréttaði þá staðhæfingu sína að starfshættir væru efni til samninga en ekki mál gerðardóms sem skipaður væri samkvæmt lögum.
    80. Niðurstaða gerðardómsins varð hins vegar sú að kaup og kjör yfirmanna á ms. Herjólfi frá 23. mars. til 31. desember 1993 skyldu byggð á gildandi kjarasamningum stéttarfélaganna fjögurra (að undanskildu Sjómannafélaginu Jötni). Hins vegar skyldu kaup og kjör undirmanna, m.a. bátsmanna og þerna, á sama tíma byggjast á síðasta gilda kjarasamningi háseta á kaupskipum milli Sjómannafélags Reykjavíkur og atvinnurekenda og milli Sjómannafélagsins Jötuns og varnaraðila, Herjólfs hf., með þeirri undantekningu að fellt skyldi niður ákvæði 3. gr. um yfirvinnu háseta samkvæmt sérstökum samningi milli aðila, dags. 15. ágúst 1989. Slíkar yfirvinnugreiðslur höfðu verið teknar upp í samningum milli aðila 1981, en þá varð að samkomulagi að fjöldi háseta skyldi vera minni en næmi áætlaðri mönnunarþörf, en í stað þess skyldu þeir fá yfirvinnugreiðslur. Starfað hafði verið samkvæmt þessari tilhögun síðan 1981.
    81. Í niðurstöðu sinni vísaði gerðardómurinn hins vegar til 3. gr. laga nr. 15/1993 þar sem segir að þegar gerðardómurinn ákveði kaup og kjör samkvæmt lögunum skuli hann hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu. Dómurinn var þeirrar skoðunar að yfirvinnugreiðslur þær sem undirmenn höfðu fengið í 12 ár væru umfram það sem almennt gilti á kaupskipum og skyldu því felldar niður. ASÍ telur að úrskurður gerðardómsins lækki laun undirmanna um 10% og valdi því verulegri skerðingu á kaupi og kjörum undirmanna. ASÍ mótmælir meðferð málsins þar sem laun félaga eins stéttarfélags voru lækkuð í því skyni að leysa deilu atvinnurekenda og annars stéttarfélags. Auk þess sagði gerðardómurinn í niðurstöðu sinni að rekja mætti deiluna að miklu leyti til innri ágreinings milli stéttarfélaga, einkum hvað snertir launahlutföll. ASÍ er þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk stéttarfélaga að komast að samkomulagi sín á milli um launahlutföll.
    82. Í stuttu máli dregur ASÍ saman rök sín fyrir því hvers vegna ríkisstjórnin braut ákvæði alþjóðasamþykkta nr. 87 og 98. Í fyrsta lagi var mælt svo fyrir í lögum frá 23. mars 1993 að gerðardómurinn skyldi ákveða kaup og kjör skipverja hvort sem þeir ættu aðild að deilu um kaup og kjör við atvinnurekanda sinn eða ekki og hvort sem ítarlegar tilraunir hefðu verið gerðar til að ná samningum eða ekki. Hinn almenni kjarasamningur milli Sjómannafélagsins Jötuns og stjórnar Herjólfs hf. gekk ekki úr gildi fyrr en 1. mars 1993. Eini fundurinn sem undirmenn voru boðaðir á var haldinn 9. mars 1993. Á þeim fundi lögðu undirmenn fram þá eðlilegu kröfu að hinir almennu kjarasamningar skyldu haldast óbreyttir, en þeir skyldu hljóta launahækkanir sem samsvöruðu þeim hækkunum sem önnur stéttarfélög innan ASÍ kynnu að fá í yfirstandandi samningaviðræðum. Enn fremur lýstu undirmenn yfir því að þeir væru reiðubúnir til að hefja samningaviðræður um breytingar á vinnutilhögun um borð í skipinu. Hins vegar var tilboði þeirra ekki svarað og lögin voru samþykkt skömmu síðar.
    83. ASÍ telur að ekki hafi verið gerðar ítarlegar tilraunir að ná samningi við Sjómannafélagið Jötun, þar eð lögin voru sett skömmu eftir að samningurinn við stéttarfélagið rann út. Sú staðreynd að yfirmenn skipsins fóru í verkfall mætti ekki valda því að félagar í Sjómannafélaginu Jötni (undirmenn) væru sviptir rétti sínum til að gera almenna kjarasamninga um kaup og kjör, jafnvel þótt ein af kröfum verkfallsmanna væri sú að laun þeirra skyldu hækka í samræmi við hækkun sem undirmenn hefðu fengið áður. Einn fundur getur ekki talist nægileg sönnun fyrir því að ítarlegar tilraunir hefðu verið gerðar til að ná samkomulagi þar sem undirmönnum hefði aldrei borist gagntilboð eftir fundinn. Því telur ASÍ ekki mögulegt að líta svo á að kjaradeila hafi komið upp milli Sjómannafélagsins Jötuns og stjórnar Herjólfs hf. þar eð aldrei barst svar við kröfu undirmanna. Samkvæmt íslenskri vinnulöggjöf gildir sú meginregla að þegar kjarasamningar eru lausir skuli síðustu gildandi kjarasamningar milli aðila gilda þangað til annar samningur hefði verið gerður. Því hefði verið unnt að gera samning fyrir félaga í Sjómannafélaginu Jötni, jafnvel þótt talist hefði nauðsynlegt að ljúka verkfalli yfirmanna og deilu þeirra um kaup og kjör við atvinnurekandann með lagasetningu.
    84. ASÍ telur að samningsrétturinn sé einskis virði ef ríkisstjórnin getur svipt félaga í stéttarfélögum samningsbundnum rétti sínum, einkum ef slíkt er gert tólf árum eftir gerð samnings, eins og í því tilviki þegar gerðardómurinn felldi úrskurð um niðurfellingu yfirvinnugreiðslna til skipverja. ASÍ telur óþolandi að unnt skuli vera að ógilda löglega gerða kjarasamninga stéttarfélags við viðsemjendur sína með þessum hætti. Slík afskipti grafi undan trúverðugleika stéttarfélaga og trausti félaganna á starfsemi þeirra.

B. Svar ríkisstjórnarinnar.
    85. Í bréfi sínu dagsettu 20. febrúar 1995 bendir ríkisstjórnin á að meginhluti efnahagslífs landsins byggist á fiskveiðum og útflutningi sjávarfangs. Þetta atriði skipti miklu í því máli sem hér er til umfjöllunar vegna þess að Vestmannaeyjar séu ein mikilvægasta verstöð Íslands. Ríkisstjórnin lýsir síðan þeim aðgerðum sem gerðar hafa verið til að takast á við mikla verðbólgu og ná jafnvægi í utanríkisviðskiptum landsins. Loks lýsir ríkisstjórnin langvarandi deilum sem snerta skipverja á ms. Herjólfi og ástæðunum fyrir því hvers vegna Alþingi hafi samþykkt lög til að binda enda á sjö vikna langt verkfall þeirra.
    86. Í fyrsta lagi útskýrir ríkisstjórnin að fiskveiðar skipti verulegu máli fyrir efnahagslíf Íslands. Fiskafurðir séu um þrír fjórðu af útflutningi landsins og þær gefi um 55% af heildargjaldeyristekjum landsins. Við sjávarútveg starfi um 12% mannaflans. Hins vegar hefðu sveiflur í aflamagni og verðlagi óhjákvæmilega valdið meiri efnahagssveiflum á Íslandi en í mörgum öðrum iðnríkjum. Þannig mætti nefna að ekki sjaldnar en átta sinnum hefði landsframleiðsla dregist saman milli ára frá stofnun lýðveldisins árið 1944. Þótt þessar sveiflur hefðu farið rénandi settu þær engu að síður efnahagsstefnu þröngar skorður. Brestur í afla eða verðfall afurða gæti leitt til atvinnuleysis og/eða skuldasöfnunar við útlönd, nema úr útgjöldum þjóðarinnar væri dregið. Þetta hefði verið gert á Íslandi, einkum með því að lækka gengi gjaldmiðilsins, krónunnar, eða með því að hafa bein áhrif á raunlaunakostnað atvinnuveganna.
    87. Ríkisstjórnin bendir síðan á að verðbólga hafi verið langvarandi vandi á Íslandi, enda hafi hún aukist á áttunda áratugnum og orðið margfalt meiri en í öðrum aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Verðbólgan hafi komist í 49% árið 1975. Á því og næsta ári hefðu verið gerðar víðtækar ráðstafanir til að draga úr verðbólgu, sem náði 30% á tveggja ára tímabili. Ein ráðstöfunin hafi verið að takmarka verðtryggingu launa. Hins vegar hafi m.a. verið gert ráð fyrir 25% almennum launahækkunum í kjarasamningum árið 1977 auk fullrar verðtryggingar. Verðbólga hafi magnast á ný og verið á bilinu 50–60% fram á fyrstu ár níunda áratugarins, en það hafi leitt til þess að gera varð ráðstafanir árið 1983, svo sem að afnema vísitölubindingu launa um tveggja ára skeið, svo og að fella gengið. Ríkisstjórnin segir að dregið hafi úr verðbólgu smám saman á undanförnum árum. Hún hafi verið á bilinu 20–25% á árunum 1986–89; úr henni hafi dregið verulega árið 1990, þegar hún var 7,3% frá ársbyrjun til ársloka. Verðbólgan hafi verið 7,2% árið 1991, 2,4% árið 1992 og 3,2% árið 1993. Árið 1994 hafi verðbólgan frá ársbyrjun til ársloka verið aðeins um 1%. Þetta hafi verið afleiðing samráðssamnings árið 1986 og þjóðarsáttar í febrúar 1990 sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin sömdu um til að vinna gegn verðbólgu. Það þurfi ekki að koma á óvart að ríkisstjórnin hefði gætt ýtrasta aðhalds á öllum sviðum efnahags- og kjaramála í því skyni að stofna þessum árangri ekki í hættu. Það sé í þessu ljósi sem verði að líta á aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessum sviðum.
    88. Ríkisstjórnin lýsir síðan megindráttum Vestmannaeyja, sem séu meðal helstu verstöðva landsins. Til dæmis var 227.600 tonnum af afla landað í Vestmannaeyjum árið 1992, en heildarverðmæti þess afla úr sjó var 4,723 millj. kr. Að mati ríkisstjórnarinnar sé mikilvægi eyjanna fyrir efnahag Íslands óumdeilt. Ríkisstjórnin útskýrir að flugvélar og skip annist fólks- og vöruflutninga á milli Vestmannaeyja og meginlandsins. Reglulegar flugsamgöngur séu við Heimaey en vegna veðurs verði oft að aflýsa flugi. Ms. Herjólfur sé því meginsamgöngutækið með fólk og vörur milli lands og eyja og það mikilvægasta. Ms. Herjólfur sigli daglega milli lands og eyja og fari allt að tíu ferðir á viku á sumrin. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að góðar og traustar samgöngur séu forsenda fyrir búsetu á eyjunum.
    89. Það er í þessu samhengi sem ríkisstjórnin ræðir deilu skipverja og útgerðar ms. Herjólfs. Hún telur að rót þeirra deilu sem hér sé til umfjöllunar sé kjarasamningur milli stjórnar Herjólfs hf. og Sjómannafélagsins Jötuns. Ríkisstjórnin bendir á að í ljós hafi komið að ekki hafi verið haft samráð við Vinnuveitendasamband Íslands (VSÍ) og að samningurinn hafi ekki verið sendur VSÍ til samþykktar eins og aðildarfyrirtækjum samtakanna beri að gera. Þeir sem gerðu samninginn voru formaður Verkalýðsfélags Vestmannaeyja fyrir hönd stjórnar Herjólfs hf. og formaður Sjómannafélagsins Jötuns. Í þessu sambandi telji ríkisstjórnin nauðsynlegt að upplýsa að formaður Verkalýðsfélags Vestmannaeyja hafi á þessum tíma verið fulltrúi fjármálaráðherra í stjórn Herjólfs hf. og formaður Sjómannafélagsins Jötuns hafi verið varafulltrúi fjármálaráðherra í stjórn Herjólfs hf. Framangreindir samningar hafi falið í sér verulegar kjarabætur til handa félagsmönnum í Sjómannafélaginu Jötni umfram félagsmenn annarra stéttarfélaga sem störfuðu um borð í ms. Herjólfi. Þar með hefðu samningarnir orðið undirrót að óánægju og langvinnum erjum meðal áhafnarinnar. Ekki hefðu komið fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna talið hefði verið rétt að auka hlut eins hóps skipverja umfram aðra. Óhætt væri að telja að kjarasamningurinn árið 1981 hefði fært undirmönnum um borð í ms. Herjólfi óeðlilega miklar launahækkanir miðað við aðrar stéttir um borð og ekki síður ef miðað væri við kjör undirmanna á skipum annars staðar á Íslandi.
    90. Ríkisstjórnin segir að útgerð ms. Herjólfs hafi gert ítrekaðar tilraunir til að endurskoða starfshætti skipverja í þeim tilgangi að samræma launakerfi áhafnarinnar. Forsenda þess að því markmiði yrði náð hefðu verið samningaviðræður við öll hlutaðeigandi stéttarfélög á sama tíma. Sjómannafélagið Jötunn hafi komið sér hjá því hvað eftir annað að taka þátt í markvissum samningaviðræðum í þessu sambandi vegna þess að félaginu hefði áður tekist, með samningnum við útgerð skipsins árið 1981, að tryggja félögum sínum verulegar launa- og kjarabætur umfram kaup og kjör skipverja í öðrum stéttarfélögum sem störfuðu um borð í ferjunni. Ríkisstjórnin telur að það hafi verið mistök hjá rekstrarfélaginu að gera þennan samning vegna þess að með honum var gert upp á milli einstakra hópa skipverja og það olli að óþörfu innbyrðis deilum milli stéttarfélaga.
    91. Ríkisstjórnin telur að greinargerð ASÍ, sem fram kemur í kærunni, gefi ekki rétta mynd af þróun deilumála um borð í ms. Herjólfi og sé raunar að ýmsu leyti röng. Í fyrsta lagi sé rangt að ekki hafi verið kjaradeila við Sjómannafélagið Jötun. Upplýst sé að Vinnuveitendasamband Íslands hafi vísað málum allra fimm stéttarfélaganna, sem eiga umbjóðendur um borð í ms. Herjólfi, til sáttasemjara ríkisins með bréfi dags. 12. febrúar 1993 og beðið um aðstoð hans við að fá öll stéttarfélögin fimm til viðræðna samtímis og ná samningum við þau á sama tíma. Ríkisstjórnin minnir á að rót kjaradeilu geti bæði verið boðun verkfalls en einnig boðun verkbanns. Á því yrði að vekja athygli að útgerð ms. Herjólfs hefði boðað verkbann á þann hluta áhafnar sem ekki var í verkfalli. Í þessu bréfi, dags. 12. febrúar 1993, óskaði VSÍ eftir því að vinnudeilan við framangreind stéttarfélög, þar með talið Sjómannafélagið Jötun, yrði leyst samtímis. Í þessu bréfi kemur einnig skýrt fram að samningar hafi verið lausir við öll félögin nema Brytafélagið, en samningar þess mundu losna 1. mars 1993.
    92. Í öðru lagi er það ekki alls kostar rétt að Sjómannafélaginu Jötni hafi ekki verið boðið til viðræðna fyrr en eftir að verkfall stýrimanna hófst. Ríkisstjórnin segir VSÍ hafa sent öllum stéttarfélögum áhafnarinnar samhljóða bréf 14. febrúar 1992 þar sem lýst hafi verið því markmiði að gerðir yrðu samtímis kjarasamningar um kaup og kjör allrar áhafnarinnar á nýjum Herjólfi sem var í smíðum í Noregi. Þrátt fyrir jákvæðar undirtektir í fyrstu tókst það ekki. Aðstoð sáttasemjara ríkisins hafi svo verið leitað 12. febrúar 1993.
    93. Í þriðja lagi: vegna beintengingar kjarasamnings Sjómannafélagsins Jötuns við kjarasamning Sjómannafélags Reykjavíkur gilti hann til 31. desember 1992, en ekki 1. mars 1993 eins og haldið er fram í kærunni. Fiskimannasamningar giltu til 1. mars 1993 en farmannasamningar til 31. desember 1992.
    94. Í fjórða lagi: ríkisstjórnin fellst aðeins að vissu marki á það sjónarmið ASÍ að það sé ekki hlutverk stéttarfélaga að samþykkja hlutföll á milli félaga. Reynslan sýni hins vegar að kröfugerð einstakra stéttarfélaga byggist oftar en ekki á samanburði við launaþróun annarra starfshópa og stétta. Þetta sé ef til vill enn meira áberandi í fámennum þjóðfélögum eins og því íslenska en meðal fjölmennari þjóða. Ríkisstjórnin telur að áhafnir skipa geri mikið af því að stunda slíkan samanburð og séu mjög vel á verði gegn því að einn hópur beri meira úr býtum en annar.
    95. Verkfall stýrimanna á ms. Herjólfi hófst 3. febrúar 1993 og lá skipið bundið við bryggju frá þeim tíma og þar til lög um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi voru sett 23. mars 1993. Ástæðan fyrir lagasetningunni hafi fyrst og fremst verið sú að draga úr því gífurlega tjóni sem áframhaldandi stöðvun ms. Herjólfs gæti haft á atvinnulíf í Vestmannaeyjum og hag þjóðarbúsins alls. Ríkisstjórnin segir að samgönguráðherra hafi borist eftirfarandi ályktun frá bæjarstjórn Vestmannaeyja sem samþykkt var samhljóða á fundi hennar 16. mars 1993:
    „Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að óska eftir við ríkisstjórn Íslands að flutt verði frumvarp til laga á Alþingi til að binda enda á kjaradeilur, verkfall og verkbann á ms. Herjólfi. Bæjarstjórn Vestmannaeyja áréttar að óhjákvæmilegt er að í lögum verði tekið á kjarasamningum allra stéttarfélaga sem aðild eiga að deilunni og málið þannig leyst í heild sinni.
    Það er orðið mjög brýnt fyrir Vestmannaeyinga að þessari deilu ljúki sem fyrst því að skipið er helsta samgöngutæki Eyjanna og hefur verið úr rekstri í sex vikur nú þegar og ekki er útlit fyrir að lausn finnist í deilunni.“
    96. Það voru tveir stýrimenn af 16 manna áhöfn sem fóru í verkfall. Stýrimennirnir kröfðust launahækkunar þar sem þeir töldu að launamunur milli þeirra og háseta væri of lítill. Hásetar á ms. Herjólfi höfðu nokkru áður samið um fækkun háseta gegn því að þeir fengju greidd 1 klst. yfirvinnulaun fyrir hvern virkan dag, en laun stýrimanna voru sambærileg við laun stýrimanna á öðrum skipum. Áður en verkfallið hófst voru gerðar margar tilraunir til að ná sáttum og samningum til að afstýra verkfalli, en eftir að vinnustöðvun hófst var málið alfarið í höndum sáttasemjara ríkisins, enda töldu menn tilgangslaust að tala meira saman. Það hafði verið reynt til þrautar fyrir verkfallið. Eftir byrjun verkfalls má segja að sáttasemjari ríkisins hafi unnið stanslaust að lausn deilunnar og voru sáttafundir mjög margir. Ríkissáttasemjari gerði sér sérstaka ferð til Vestmannaeyja og dvaldist þar í u.þ.b. viku og voru þá látlausir fundir með aðilum deilunnar. Að mati ríkisstjórnarinnar sýnir þetta hversu mikil áhersla var á það lögð að ná kjarasamningi í frjálsum samningaviðræðum aðila. Að lokum, eftir sjö vikna verkfall, var það mat bæði samngsaðila og sáttasemjara að svo mikið hefði borið á milli deiluaðila að engar líkur væru á lausn deilunnar í bráð. Þegar hér var komið var ljóst að vinnustöðvun stýrimannanna hafði mikil áhrif á atvinnuöryggi annarra skipverja auk þess sem atvinnuöryggi þeirra sem með beinum eða óbeinum hætti höfðu atvinnu af rekstri og þjónustu skipsins var teflt í tvísýnu.
    97. Þegar samgönguráðherra hafði fengið framangreinda ályktun bæjarstjórnar Vestmannaeyja og með hliðsjón af því ástandi sem skapast hafði féllst samgönguráðherrra á að leggja fram frumvarp til laga um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi. Enda þótt mikill meiri hluti þingmanna hafi greitt atkvæði með frumvarpinu kom fram gagnrýni á nokkra þætt þess. Sú almenna gagnrýni kom fram að ekki væri rétt að löggjafinn gripi inn í kjaradeiluna með lagaseningu og drægi með þeim hætti úr ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á að leysa sínar deilur með frjálsum kjarasamingum. Fyrsta grein frumvarpsins var gagnrýnd. Ekki þótti rétt að lögin tækju til skipverja sem ekki höfðu boðað verkfall og ekki áttu sök á deilunni. Einnig var talið ósanngjarnt að þeir sem áttu ekki sök á deilunni væru bundnir af hugsanlegri ákvörðun gerðardómsins til loka ársins 1993.
    98. Ríkisstjórnin staðhæfir hins vegar að margoft hafi verið reynt á undanförnum árum að binda enda á deilur sem stóðu um kaup og kjör um borð í ms. Herjólfi. Þetta hafði ekki tekist vegna þess að ekki voru allir aðilar reiðubúnir að taka þátt í samningaviðræðum. Með hliðsjón af þessari staðreynd lá það fyrir að ekki tækist að leysa deilumálin um borð í ms. Herjólfi nema fundin yrði lausn sem tæki til allra starfshópa sem áttu hlut að máli. Stjórnvöld voru þeirrar skoðunar að um borð í ms. Herjólfi ríkti kjaradeila sem tæki til allra starfsmanna ferjunnar. Verkfall stóð yfir sem tók til hluta áhafnarinnar. Ekki má þó gleyma því að útgerð ferjunnar hafði boðað til verkbanns á þá starfsmenn sem ekki voru í verkfalli. Það er því ljóst að kjaradeildan tók til allra starfsmanna um borð í ms. Herjólfi. Þar af leiðandi var lagt til að lögin tækju ekki einungis til þeirra sem voru í verkfalli heldur einnig allra annarra starfsmanna ferjunnar sem boðað verkbann átti að taka til. Einungis með þessum hætti var talið að varanleg lausn yrði fundin á deilumálinu sem tryggði að starfsemi ferjunnar héldist áfram, en hún hefur úrslitaþýðingu fyrir vöru- og fólksflutninga milli lands og eyja.
    99. Ekki kom fram gagnrýni á ákvæði 3. gr. þar sem tekið er fram að gerðardómurinn skuli við ákvörun kaups og kjara samkvæmt lögunum hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu. Rétt þykir að leggja ríka áherslu á þetta ákvæði sem er til komið vegna þjóðarsáttarsamninganna árið 1990, þegar víðtæk samstaða tókst í íslensku þjóðfélagi um að vinna með markvissum hætti að því að vinna bug á þrálátri verðbólgu sem hafði herjað í íslensku fjármálalífi um áratuga skeið. Það hefur verið grundvallarstefna ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir að verðlagsþróun fari í fyrra horf. Þar af leiðandi hefur á undanförnum árum ríkt mjög aðhaldssöm stefna í launa- og fjármálum. Ríkisstjórnin hefur í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins lagt alla áherslu á að koma í veg fyrir að þeim árangri sem hefur óumdeilanlega náðst á þessu sviði sé stofnað í hættu. Það er í þessu ljósi sem verður að meta aðgerðir stjórnvalda í því kærumáli sem hér er til umfjöllunar.
    100. Í 2. gr. laga nr. 15/1993 var kveðið á um að hefðu deiluaðilar ekki náð samkomulagi um vinnutilhögun og launakjör fyrir 1. júní 1993 skyldi Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skyldi ákveða kaup og kjör skipverja á ms. Herjólfi fyrir 1. ágúst 1993. Samningar tókust ekki og var gerðardómurinn skipaður í samræmi við ákvæði laganna. Gerðardómurinn kvað upp úrskurð sinn 9. ágúst 1993.
    101. Ríkisstjórnin telur að það hafi verið hrein neyðarráðstöfun að leggja til við Alþingi að sett yrðu lög til lausnar kjaradeilunni um borð í ms. Herjólfi. Verkfall hafði staðið í sjö vikur, farið var að bera á vöruskorti, allt annað atvinnulíf var að lamast og stutt var í að lífi og heilsu manna yrði stefnt í hættu. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að deilan hafi verið komin í óleysanlegan hnút og stjórnvöldum hafi verið nauðugur einn kostur að höggva á hann með lagasetningu. Ríkisstjórnin mótmælir sérstaklega þeirri fullyrðingu sóknaraðila að ekki hafi verið leitað allra leiða til að leysa deiluna með frjálsum samningum. Í því sambandi er vísað til þess að haldnir voru fjölmargir árangurslausir fundir ríkissáttasemjara með deiluaðilum.
    102. Ríkisstjórnin mótmælir því sérstaklega að við þessar aðstæður hafi hún brotið ákvæði alþjóðasamþykkta nr. 87 og 98. Hún vekur athygli á sérkennum hins íslenska vinnumarkaðar þar sem mörg lítil stéttarfélög hafa hvert um sig sjálfstætt umboð til samninga. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að erfiðustu vandamálin sem hún fær til úrlausnar séu deilur sem stafi af innbyrðis deilum stéttarfélaga. Deilan um borð í ms. Herjólfi er gott dæmi: umboð til að semja fyrir 16 manna áhöfn er í höndum fimm stéttarfélaga. Þrátt fyrir marga sáttafundi reyndist ekki mögulegt að leysa deiluna um borð í ms. Herjólfi með samningum. Að loknu sjö vikna verkfalli taldi ríkisstjórnin að deilan væri komin í óleysanlegan hnút og taldi sig til neydda að leysa hana með lagasetningu.

C. Niðurstöður nefndarinnar.
    103. Nefndin gefur gaum að því að fullyrðingar í þessu máli snerta brot á alþjóðasamþykktum nr. 87 og 98 þar eð Alþingi hafi með lögum nr. 15 23. mars 1993 (hér eftir nefnd lögin), bannað verkfall og verkbann á ferjunni ms. Herjólfi og komið á fót gerðardómi til að ákveða laun skipverja á ms. Herjólfi. Ríkisstjórnin heldur því fram að eftir fjölmarga viðræðufundi hafi þótt ljóst að deilan um borð í ms. Herjólfi yrði ekki leyst með samningum og að löggjafinn hafi ekki skipt sér af málinu með samþykkt laga nr. 15/1993 fyrr en að loknu sjö vikna verkfalli.
    104. Nefndin gerir sér grein fyrir því að skoðanir sóknaraðila og ríkisstjórnarinnar eru skiptar um tiltekin málefni sem upp komu fyrir lagasetninguna. Til dæmis heldur sóknaraðili því fram að Sjómannafélagið Jötunn hafi verið beðið um að taka þátt í samningaviðræðum um kaup og kjör skömmu eftir að stýrimennirnir á ms. Herjólfi fóru í verkfall 3. febrúar 1993. Stéttarfélagið brást við með því að vísa til kjarasamnings síns við stjórnendur Herjólfs hf. sem rann ekki út fyrr en 1. mars 1993. Hinn 9. mars, eftir að gildistíma þessa samnings lauk, gerði stéttarfélagið enn fremur stjórn Herjólfs hf. tilboð sem var fólgið í óbreyttum kjarasamningi. Hins vegar barst félögunum í Sjómannafélaginu Jötni (undirmönnum) aldrei gagntilboð eftir þennan fund, en eftir það gengu lögin í gildi. Sóknaraðili er því þeirrar skoðunar að ekki hafi verið gerðar ítarlegar tilraunir til að ná samningum við Sjómannafélagið Jötun. Við bætist að vegna þess að undirmönnum barst aldrei svar við kröfum sínum telur sóknaraðili að aldrei hafi í fyrsta lagi komið upp deila milli Sjómannafélagsins Jötuns og stjórnar Herjólfs hf. Sóknaraðili fær ekki séð hvernig mögulegt er fyrir gerðardóm að ákveða laun félaga í einu stéttarfélagi í því skyni að leysa deilu atvinnurekenda og annars stéttarfélags (í þessu tilviki Stýrimannafélags Íslands).
    105. Hins vegar heldur ríkisstjórnin því fram að útgerð ms. Herjólfs hafi, burtséð frá efnisatriðum kröfunnar, gert ítrekaðar tilraunir til að fá öll stéttarfélög áhafnar ms. Herjólfs til samningaviðræðna í því skyni að samræma launakerfi áhafnarinnar. Sjómannafélagið Jötunn hefði hvað eftir annað komið sér hjá þátttöku í markvissum samningaviðræðum um málið vegna þess að því hafi tekist, með samningi sem það hafði gert við útgerð árið 1981, að tryggja félögum sínum verulegar launa- og kjarabætur umfram kaup og kjör annarra félaga stéttarfélaga sem störfuðu um borð í ferjunni. Með nánari tilvísun til kærunnar útskýrir ríkisstjórnin að Vinnuveitendasamband Íslands (VSÍ) hafði boðið Sjómannafélaginu Jötni að taka þátt í samningaviðræðum, jafnvel áður en verkfall stýrimannanna hófst, í því skyni að gera samtímis kjarasamninga við alla áhöfnina. Þar eð sú tilraun misheppnaðist var leitað aðstoðar sáttasemjara ríkisins 12. febrúar 1993 sem síðan hélt fjölda funda þar sem reynt var að sætta deiluaðila. Hvað viðvíkur þeirri spurningu hverjir deiluaðilarnir hafi verið fullyrðir ríkisstjórnin að Sjómannafélagið Jötunn hafi átt mikinn þátt í launadeilunni. Þegar VSÍ skaut deilunni, sem náði til allra stéttarfélaganna fimm, til sáttasemjara ríkisins 12. febrúar 1993 óskaði VSÍ aðstoðar hans við að fá öll stéttarfélögin fimm til að taka þátt í samningaviðræðum samtímis í því skyni að ná samningum við þau samtímis. Enn fremur leggur ríkisstjórnin áherslu á að launadeila kunni ekki aðeins að stafa af verkfallsboðun heldur einnig af tilkynningu um verkbann, en það hafði einmitt gerst í þessu máli. En hvað sem því líður, þar eð kjarasamningur Sjómannafélagsins Jötuns var tengdur kjarasamningi Sjómannafélags Reykjavíkur, gilti fyrrnefndi samningurinn til 31. desember 1992 en ekki 1. mars 1993 eins og fram kom í kærunni.
    106. Hvað nefndinni viðvíkur gefur hún gaum að því að mikið ber á milli ofangreindra tveggja röksemda í eftirtöldum atriðum: i) hvort Sjómannafélagið Jötunn hafi yfirleitt verið viðriðið nokkra deilu; og ii) hvort nægilegar tilraunir hafi verið gerðar til að ná samningum með samningaviðræðum. Hvað snertir fyrra atriðið hallast nefndin helst að því að þessi deila hafi ekki snert Sjómannafélagið Jötun þar eð félagar í Stýrimannafélagi Íslands hefðu boðað verkfall. Þar með er ekki sagt að deilan hefði ekki óbeint snert Sjómannafélagið Jötun þar eð bæði sóknaraðili og ríkisstjórnin hafa haldið því fram að ein af kröfum verkfallsmanna (stýrimannanna) hafi verið að laun þeirra yrðu hækkuð um tiltekinn hundraðshluta til samræmis við launahækkun sem félagar í Sjómannafélaginu Jötni hefðu fengið áður. Auk þess hafði verkbann verið sett á þann hluta áhafnarinnar sem var ekki í verkfalli. Hins vegar voru lög nr. 15/1993 fyrst og fremst samþykkt til að banna verkfall stýrimannanna, þ.e. vegna þess að yfirmönnum og stjórn Herjólfs hf. hafði ekki tekist að semja um kaup og kjör hinna fyrrnefndu. Nefndin fær því ekki séð hvers vegna lögin hefðu einnig átt að ná til Sjómannafélagsins Jötuns og ákveða þar með einnig kaup og kjör félaga þess. Það styrkir nefndina í þessari trú að sóknaraðili heldur því fram, og ríkisstjórnin mótmælir því ekki, að kjarasamningar stéttarfélaganna fimm á ms. Herjólfi séu algerlega óháðir hver öðrum.
    107. Þegar kemur að þeirri spurningu hvort Sjómannafélagið Jötunn og stjórn Herjólfs hf. hefðu reynt að gera nýjan kjarasamning í samningaviðræðum vekur það athygli nefndarinnar að reginmunur er á staðhæfingum sóknaraðila og ríkisstjórnarinnar. Með tilliti til mótsagna í röksemdafærslunum tveim vekur nefndin aðeins athygli beggja aðila á þeirri meginreglu að jafnt atvinnurekendur og stéttarfélög skyldu ganga til samninga í góðri trú og leggja sig fram um að ná samningum og að viðunandi samskipti aðila vinnumarkaðarins eru fyrst og fremst háð afstöðu aðila hvors til annars og gagnkvæmu trausti. [Sjá Digest of decisions and principles of the Freedom of Association committee (Útdrátt úr úrskurðum og meginreglur nefndarinnar um félagafrelsi), 3. útgáfu, 1985, 590. tölul.]
    108. Hvað viðvíkur réttlætingu þess að setja lögin gefur nefndin gaum að þeim rökum ríkisstjórnarinnar að lögin hafi verið samþykkkt 23. mars 1993, rúmum sjö vikum eftir að verkfallið hófst, en allan þann tíma var ms. Herjólfur bundinn við bryggju. Nefndin gefur einnig gaum að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þess efnis að sáttasemjari ríkisins hefði staðið fyrir fjölda funda til að sætta stýrimenn og stjórn Herjólfs hf. á meðan á verkfallinu stóð. Lögin voru ekki sett fyrr en verkfallið hafði staðið í sjö vikur, þegar báðir deiluaðilar og sáttasemjari ríkisins voru þeirrar skoðunar að svo mikið bæri á milli aðila að ekki mundi takast að leysa deiluna með samningum.
    109. Hvað þetta snertir viðurkennir nefndin, eins og sérfræðinganefndin um beitingu alþjóðasamþykkta og tilmæla, að svo kunni að fara í samningaviðræðum að stjórnvöld séu réttlætt í því, að loknum langvinnum og árangurslausum samningaviðræðum, að grípa í taumana þegar augljóst er orðið að ekki muni reynast unnt að koma viðræðunum úr sjálfheldu án afskipta þeirra [sjá General Survey on Freedom of Association and Collective Bargaining (Almennt yfirlit yfir félagafrelsi og gerð kjarasamninga), ILC, 81. fundur, 1994, 258. tölul.]. Nefndin er þeirrar skoðunar að umrædd deila hafi verið komin í sjálfheldu. Það styrkir þessa skoðun nefndarinnar að samkvæmt ákvæðum 2. gr. laganna átti gerðardómurinn að ákveða kaup og kjör skipverja því aðeins að deiluaðilar hefðu ekki náð samkomulagi um málið fyrir 1. júní 1993. Deiluaðilum voru því veittir tveir mánuðir í viðbót til að ná samkomulagi með samningaviðræðum, en úr því varð þó ekki í þessu tilviki. Þar af leiðandi var skipaður gerðardómur.
    110. Nefndin hefur auk þess áhyggjur af því að í 3. gr. laganna er ákvæði þess efnis að gerðardómurinn skuli „við ákvörðun kaups og kjara samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu“. Ríkisstjórnin segir að þetta ákvæði hafi verið sett í lögin í samræmi við þjóðarsáttarsamningana frá árinu 1990, en með þeim náðist víðtæk samstaða á Íslandi um markvissar aðgerðir til að sigrast á þrálátri verðbólgu sem hafði þjakað efnahagslíf Íslands í áratugi. Nefndin gefur einnig gaum að því að Hæstiréttur tilnefndi gerðardómsmennina þrjá. Nefndin kemst hins vegar ekki hjá því að veita því athygli að orðalag ákvæðisins veitir gerðardóminum ekki neinn sveigjanleika til túlkunar. Gerðardómurinn sjálfur viðurkennir þetta þar eð hann bendir á í úrskurði sínum að þetta ákvæði takmarki mjög frelsi hans til að leysa málið. Í þessu sambandi minnir nefndin ríkisstjórnina á að til þess að öðlast og halda tiltrú málsaðila sé nauðsynlegt að hvers konar gerðardómskerfi sé raunverulega sjálfstætt og að niðurstaða gerðardóms skyldi ekki fyrir fram ákveðin með lögum.
    111. Af þessum ástæðum telur nefndin að lögin, eins og þeim er beitt gegn stéttarfélagi, sem átti ekki beina aðild að umræddri deilu, sé íhlutun sem takmarkar rétt stéttarfélaga til að ganga til frjálsra samninga við atvinnurekendur, en slíkt er brot á þeirri meginreglu að aðilar skuli ganga óheftir til almennra kjarasamninga. Nefndin biður því ríkisstjórnina að forðast í framtíðinni að grípa til slíkrar íhlutunar með lagasetningu.

Tilmæli nefndarinnar.


    112. Í ljósi ofangreindra niðurstaðna leggur nefndin til að stjórnarnefndin samþykki eftirfarandi tilmæli:
    Nefndin vekur athygli sóknaraðila og ríkisstjórnarinnar á þeirri meginreglu að jafnt atvinnurekendur og stéttarfélög eiga að ganga til samninga í góðri trú og leggja sig fram um að ná samningi og að viðunandi samskipti aðila vinnumarkaðarins eru fyrst og fremst háð afstöðu aðila hvors til annars og gagnkvæmu trausti.
    Nefndin minnir ríkisstjórnina á að til þess að öðlast og halda tiltrú málsaðila er nauðsynlegt að hvers konar gerðardómskerfi sé raunverulega sjálfstætt og að niðurstaða gerðardóms skyldi ekki fyrir fram ákveðin með lagaákvæðum.
    Að teknu tilliti til þess að lög nr. 15 23. mars 1993, eins og þeim er beitt gegn stéttarfélagi, sem átti ekki beina aðild að umræddri deilu, sé íhlutun sem takmarkar rétt stéttarfélaga til að ganga til frjálsra samninga við atvinnurekendur, en slíkt er brot á þeirri meginreglu að aðilar skuli ganga óheftir til almennra kjarasamninga, fer nefndin þess á leit við ríkisstjórnina að hún forðist í framtíðinni að grípa til slíkrar íhlutunar með lögum.



Fylgiskjal VII.


Skýrsla um starf nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar


og framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 1995.


    Á 61. Alþjóðavinnumálaþinginu, sem haldið var í Genf árið 1976, var afgreidd samþykkt nr. 144, um samstarf ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála. Ísland fullgilti samþykktina árið 1981. Samþykktin endurspeglar það samstarf fulltrúa ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins sem fram fer innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og skapar henni sérstöðu meðal annarra stofnana sem starfa innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Í anda samþykktar nr. 144 var 16. apríl 1982 skipuð samstarfsnefnd ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Á árinu 1995 skipuðu eftirtaldir nefndina: Fulltrúi Alþýðusambands Íslands til loka ágúst var Bryndís Hlöðversdóttir, lögræðingur ASÍ. Í stað hennar tók Ástráður Haraldsson lögfræðingur sæti í nefndinni. Fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands var Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur VSÍ, og fulltrúi félagsmálaráðuneytisins og jafnframt formaður nefndarinnar var Gylfi Kristinsson deildarstjóri.
    Verkefni nefndarinnar á árinu 1995 voru svipuð og næstu ár á undan, þ.e. að fara yfir drög að skýrslum til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta, svara spurningaskrám sem skrifstofan sendir aðildarríkjunum þegar undirbúin eru drög að nýjum samþykktum og fjalla um athugasemdir sem sérfræðinganefnd ILO gerir við framkvæmd á alþjóðasamþykktum. Nefndin ræðir einnig framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu.
    Nefnd um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina hélt á árinu 1995 samtals fimm fundi. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru:

a. Skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði vinnumála.
    Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er aðildarríki skylt að gefa stofnuninni skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Þessi skylda er tvíþætt. Í fyrsta lagi skulu aðildarríkin gefa ILO reglulega skýrslur um framkvæmd þeirra samþykkta sem þau hafa fullgilt. Í öðru lagi getur stjórnarnefnd ILO falið alþjóðavinnumálaskrifstofunni að óska eftir skýrslum frá aðildarríkjunum um framkvæmd ákvæða í öðrum samþykktum sem þau hafa ekki fullgilt. Lagt er til í 5. gr. tillögu nr. 152, um samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, að stjórnvöld hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um samningu þessara skýrslna. Þess skal getið að á árinu tók alþjóðavinnumálaskrifstofan upp nýtt fyrirkomulag á eftirliti með framkvæmd fullgiltra samþykkta. Í sumum tilvikum verður dregið úr kröfum um skýrslur um framkvæmd samþykktanna en í öðrum verða þær auknar. Af þessu leiddi að nauðsynlegt reyndist að taka saman nokkru fleiri skýrslur en nauðsynlegt var að óbreyttum reglum. Til lengri tíma litið munu nýjar reglur draga úr þörfinni á samantekt á skýrslum.
    Á árinu 1995 undirbjó ILO-nefndin skýrslur ríkisstjórnarinnar um framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta sem Ísland hefur fullgilt:
    Alþjóðasamþykkt nr. 98, um samningafrelsi.
    Alþjóðasamþykkt nr. 111, um mismunun með tilliti til atvinnu eða starfs.
    Alþjóðasamþykkt nr. 122, um stefnu í atvinnumálum.
    Alþjóðasamþykkt nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna krabbameinsvaldandi efna.
    Alþjóðasamþykkt nr. 144, varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála.
    Alþjóðasamþykkt nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi.

b. Skýrsla um 81. Alþjóðavinnumálaþingið 1994.
    Aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni fylgir sú skylda að kynna löggjafarsamkomu þær samþykktir sem Alþjóðavinnumálaþingin hafa afgreitt. Á Ísland er þetta ákvæði uppfyllt með þeim hætti að félagsmálaráðherra gefur Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingin. Í skýrslunum eru birtar í íslenskri þýðingu þær samþykktir, tillögur og ályktanir sem þingin hafa afgreitt. Á árinu 1995 var haft samráð við ILO-nefndina um skýrslu félagsmálaráðherra um 81. Alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var árið 1994. Það þing afgreiddi nýja alþjóðasamþykkt um réttindi þeirra sem vinna hlutastarf. Í nýju samþykktinni er að finna skilgreiningar á hugtökum eins og hlutastarfsmaður. Helsta skuldbindingin fyrir aðildarríki að nýju alþjóðasamþykktinni felst í því að vernda réttindi þeirra sem vinna hlutastarf. Samþykktin hefur að geyma ákvæði um það hvaða réttindi starfsmenn í hlutastarfi skuli hafa með samanburði við fullvinnandi starfsmenn.
    81. Alþjóðavinnumálaþingið lauk fyrri umræðu um drög að nýrri alþjóðasamþykkt um öryggi og hollustuhætti í námum.

c. Undirbúningur fyrir þátttöku í 82. Alþjóðavinnumálaþinginu.
    ILO-nefndin fjallaði á fundum sínum fyrri hluta árs 1995 um dagskrármál 82. Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var farið yfir drög að alþjóðasamþykkt um öryggi og hollustuhætti í námum. Enn fremur var farið yfir skýrslur sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman til undirbúnings umræðum um helstu dagskrármál vinnumálaþingsins.

d. Fullgilding samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Nefndin fjallaði um bréf frá forstjóra ILO, Michel Hansenne, til félagsmálaráðherra þar sem hann fer þess á leit við íslensk stjórnvöld að þau fullgildi alþjóðasamþykkt nr. 138, um lágmarksaldur við vinnu. Erindið var sent í framhaldi af lokayfirlýsingu fundar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í mars sl. um þróun félagsmála í heiminum. Forstjórinn tók þetta mál upp við félagsmálaráðherra á fundi í tengslum við Alþjóðavinnumálaþingið 6. júní sl. Á fundinum varð að samkomulagi að íslensk stjórnvöld taki til athugunar fullgildingu samþykktarinnar. Í framhaldi af þessari niðurstöðu hefur ráðherra óskað eftir því að samráðsnefndin taki málefnið til athugunar.
    Nefndin samþykkti að senda samþykktina til helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins og óska eftir umsögn þeirra um hugsanlega fullgildingu hennar.

e. Félagsmálasáttmáli Evrópu.
    Umfjöllun um aðild Íslands að félagsmálasáttmála Evrópu er meðal verkefna sem falin hafa verið ILO-nefndinni. Á árinu 1995 vann nefndin að samningu skýrslu um framkvæmd eftirtalinna greina félagsmálasáttmálans:
    11. gr., um rétt til heilsuverndar.
    12. gr., um rétt til félagslegs öryggis.
    13. gr., um rétt til félagslegrar aðstoðar og læknishjálpar.     
    14. gr., um rétt til að njóta góðs af félagslegri velferðarþjónustu.     
    18. gr., um rétt til að stunda arðbært starf í landi annars samningsaðila.
    Þess skal getið að ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti á fundi sínum 17. september 1992 að breyta til reynslu fyrirkomulagi á skýrslugjöf um framkvæmd sáttmálans. Skv. 21. gr. sáttmálans skal þetta gert á tveggja ára fresti. Samkvæmt því hafa aðildarríkin tekið saman annað hvert ár skýrslu um framkvæmd allra fullgiltra ákvæða sáttmálans. Enn fremur hefur þeim verið skipt í tvo hópa og hafa ríkjahóparnir skipst á um að senda Evrópuráðinu skýrslur sínar. Þetta breytist þannig að nú skal til reynslu næstu fjögur ár taka saman skýrslu á hverju ári um tiltekinn fjölda greina. Aðildarríkin munu í raun skila skýrslu á tveimur árum um framkvæmd ákvæða sáttmálans. Af breytingunni leiðir að sérfræðinganefndin getur nú samtímis lagt mat á framkvæmd allra aðildarríkjanna á ákvæðum sáttmálans. Það ætti að leiða til þess að betri samanburður fáist á framkvæmd ríkjanna á sáttmálanum.
Neðanmálsgrein: 1
Skýrslan heitir á ensku: 299th Report of the Committee on Freedom of Association, ILO Governing Body (GB. 263/3 — 263rd Session, Geneva June 1995).