Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 527 . mál.


1140. Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu þriggja samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið á sinn fund Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Helga Ágústsson, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins, Kristin F. Árnason, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneytinu. Þá óskaði nefndin eftir umsögn sjávarútvegsnefndar um málið og er hún birt sem fylgiskjal með álitinu.
    Nefndin hefur fylgst náið með samningaviðræðum Íslands við Færeyjar, Noreg og Rússland um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum og auk þess fengið upplýsingar um stærð og dreifingu stofnsins, bæði núverandi og fyrir hrun stofnsins, alls á níu fundum á yfirstandandi þingi. Þar af voru tveir haldnir sameiginlega með sjávarútvegsnefnd Alþingis. Utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra, embættismenn viðkomandi ráðuneyta og Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, komu til þessara funda, ýmist allir saman eða hluti þessa hóps.
    Á framangreindum fundum hefur komið skýrt fram að mikið er í húfi fyrir Íslendinga að tryggja að síldarstofninn verði ekki ofveiddur. Með því aukast líkur á því að þeir stóru árgangar sem nú er veitt úr gangi inn í íslenska lögsögu í ríkari mæli en nú og stofninn taki aftur upp eðlilegt göngumynstur eins og það var fyrir hrun hans. Meiri hlutinn álítur að mikilvægt skref í þessa átt hafi verið tekið með bókun um verndun, skynsamlega nýtingu og stjórnun veiða á norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi sem gerð var í Ósló 6. maí 1996 af Færeyjum, Íslandi, Noregi og Rússlandi og að niðurstaða samninganna sé viðunandi. Með henni er sett fordæmi sem önnur ríki sem stunda síldveiðar á alþjóðlega hafsvæðinu austan af Íslandi verða að taka tillit til. Meiri hlutinn telur þó rétt að minna á að bókunin, sérstaklega að því er varðar aflahlutdeild fyrir árið 1996, hefur ekki fordæmisgildi gagnvart samningum milli ríkjanna fjögurra í framtíðinni.
    Hvað varðar samning við Norðmenn um veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu og lögsögu Jan Mayen á árinu 1996 telur meiri hlutinn hann stuðla að því að sem mest verðmæti fáist úr þeim síldarafla sem í hlut Íslands kemur. Samningurinn mun væntanlega lengja vertíð íslenskra síldveiðiskipa og um leið gera kleift að nýta stærri hluta veiðinnar til manneldis, en með því fæst mest verðmæti fyrir síldina.
    Meiri hlutinn minnir á að hér er um samninga að ræða og í þessu tilviki féllust viðsemjendur Íslands ekki á ýtrustu kröfur okkar. Eigi að síður telur meiri hlutinn mikilvægt að ganga samningaleið í deilum Íslendinga við aðrar þjóðir sé þess nokkur kostur. Í þessu tilviki var unnt að ná viðunandi samningi sem veikir ekki stöðu Íslands. Skortur á samningsvilja af hálfu Íslands hefði getað haft ófyrirséðar afleiðingar.

Prentað upp.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 31. maí 1996.



Geir H. Haarde,

Tómas Ingi Olrich.

Siv Friðleifsdóttir.


form., frsm.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Árni M. Mathiesen.

Vilhjálmur Egilsson.





Fylgiskjal.


Umsögn sjávarútvegsnefndar um 527. og 470. mál.


(29. maí 1996.)



    Sjávarútvegsnefnd fékk Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, og Jakob Jakobsson, forstöðumann Hafrannsóknastofnunar, til að fara yfir málin með sér á fundi sínum í morgun.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls en kýs að birta hér álit meiri og minni hlutans saman. Varðandi málsmeðferð vill nefndin í heild taka fram að hún hefði kosið að meira samráð hefði verið haft við hana á lokastigum málsins.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu málsins.
    Minni hluti nefndarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, Svanfríður Jónasdóttir og Sighvatur Björgvinsson, fagnar því samstarfi sem verið hefur milli Íslendinga og Færeyinga á sviði sjávarútvegsmála og mælir með samþykkt fyrrgreindrar þingsályktunartillögu um staðfestingu fiskveiðisamninga við Færeyjar. Um hina tillöguna, er varðar staðfestingu samninga um nýtingu og stjórnun veiða á norsk-íslenska síldarstofninum, vill minni hlutinn taka eftirfarandi fram:
    Minni hlutinn gagnrýnir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í aðdraganda samningsgerðarinnar. Ekkert samráð var haft við Alþingi og hagsmunaaðila fyrr en gengið hafði verið frá efnisatriðum samkomulags við Norðmenn í öllum aðalatriðum á leynifundi í London. Alls ekkert samráð var haft við sjávarútvegsnefnd.
    Samkomulagið byggist fyrst og fremst á mikilli tilslökun af hálfu Íslands og Færeyja frá því sem þjóðirnar höfðu einhliða ákveðið. Eftirgjöf Norðmanna er óveruleg og Rússar auka sinn hlut með samkomulaginu.
    Gagnrýnivert er að Íslendingar opna landhelgi sína fyrir Norðmönnum og Rússum án þess að fá rétt til veiða í lögsögum þeirra ríkja á móti. Er þá undanskilinn rétturinn til veiða við Jan Mayen, enda hafa Íslendingar sjálfstæðan rétt til veiða þar samkvæmt Jan Mayen-samningnum.
    Samkomulagið felur í sér að hlutdeild Íslendinga til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum nemur aðeins 17,2%. Þetta lága hlutfall er háskalegt í ljósi þess að eðlileg hlutdeild Íslendinga til veiða á fullorðinni síld, studd sögulegum og líffræðilegum rökum, er á bilinu 30–40%.
    Ástæða er til að hafa áhyggjur af orðalagi greinar 6.2 í bókun um verndun, skynsamlega nýtingu og stjórnun veiða á norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi. Orðalag ákvæðisins, þar sem talað er um „hugsanlegar breytingar“ á leyfilegum heildarafla og aflahlutdeild aðila, er óljóst. Ekki verður séð að það tryggi rétt Íslendinga til aukinnar hlutdeildar ef göngumynstur síldarinnar breytist eins og haldið hefur verið fram.
    Ljóst er að ekki hefur, þrátt fyrir þetta samkomulag, komist á heildarstjórnun veiða úr stofninum þar sem Evrópusambandið er ekki aðili að samkomulaginu.

Virðingarfyllst,



Steingrímur J. Sigfússon, formaður.