Upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 17:41:18 (2811)

1997-01-28 17:41:18# 121. lþ. 56.6 fundur 192. mál: #A upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:41]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. flm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir þetta mjög svo athyglisverða mál. Ég tel þetta bæði raunsæja tillögu og mjög athyglisverða. Við erum greinilega alveg sammála því, herra forseti, ég og flm. að við getum auðvitað ekki haft endalaust marga háskóla á landinu og margir spáðu því að það væri ekki einu sinni pláss fyrir Háskólann á Akureyri þegar hann hóf starfsemi sína. Ég held að hann hafi nú sannað að það var full þörf fyrir þá stofnun og ég er alveg sannfærð um að sú hugmynd sem hér er sett fram mun geta orðið mjög mikil lyftistöng fyrir menntamál á Austurlandi og án þess að til komi mjög mikill kostnaður. Með þeim fjarskiptamöguleikum sem nú eru tel ég að það geti orðið veruleg bót að þessari stofnun, upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi.

Ég vil taka undir með hæstv. menntmrh. að það sé þörf á því að fá fram frv. til laga um háskólastigið í heild þannig að þessi mál verði skipulögð með heildstæðum hætti. En ég tel að bæði fjarnámið í Kennaraháskólanum sem hefur náð til kennaramenntunar um allt land svo og nýjustu fréttir af mastersnámi í hjúkrunarfræði erlendis frá Háskólanum á Akureyri sýni að við getum gert mjög margt núna með fjarskiptatækninni. Og ég tel að það sé mjög mikilvægt að menntamálin þróist í nánum tengslum við atvinnulífið á hverjum stað. Þó að e.t.v. sé rétt að ekki séu gerðar miklar menntunarkröfur í atvinnulífinu á Austfjörðum, getur vel verið að það sé vegna þess að menntunin er ekki til staðar. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að það verði látið reyna á það að efla og treysta menntun fólks sem þar starfar og það mun vafalaust líka eiga sinn þátt í því að fólk verður ánægðara á svæðinu og flyst ekki eins í burtu.

Ég vil því fagna þessu máli og mun taka því vel þegar það kemur til menntmn. og mun sjá til þess að það fái vandaða umfjöllun og vona svo sannarlega að það nái fram að ganga ef ekki leynast einhverjir duldir gallar á því sem ég sé ekki í fljótu bragði. En ég vil þó ítreka að það hefur verið niðurskurður til menntamála hér á undanförnum árum. Háskóli Íslands hefur verið sveltur og ég mundi ekki verða því fylgjandi að þetta mál yrði til að skera niður fjármagn til Háskóla Íslands eins og því miður var með Háskólann á Akureyri, þar hefði auðvitað átt að koma til viðbótarfjármagn. Því miður hafa þessar stofnanir verið að bítast um fjármagn sem hefur komið verulega niður á Háskóla Íslands að mínu mati. Ég tel að nú sé mikilvægt að leggja aukið fé í menntamálin, að allt landið og miðin jafnvel líka --- maður heyrir jú um togarasjómenn sem núna stunda nám --- sé tengt inn í samhæft net. Þess vegna tel ég jafnvel að þessi hugmynd geti eins vel átt við á Vestfjörðum eða í öðrum landshlutum. Ég veit vel að á Austurlandi hefur verið mjög kröftugt starfsfólk í tengslum við kennaramenntunina sem reyndar er nafngreint í tillögunni sumt hvert. Þess vegna er þessi tillaga fullrar athygli verð og ég er enn þá bjartsýnni við að heyra góðar undirtektir menntmrh. Ég vona svo sannarlega að þetta verði til þess að frekara átak verði gert á háskólastiginu en verði ekki til þess að draga enn frekar úr fjárframlögum til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.