Túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 13:36:02 (2814)

1997-01-29 13:36:02# 121. lþ. 57.1 fundur 194. mál: #A túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Skömmu áður en fyrrv. félmrh., hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, lét af starfi sem ráðherra skipaði hún nefnd til að semja tillögur um hvernig treysta megi rétt heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufdumbra til túlkunar. Þessi nefnd skilaði áliti í apríl sl. og helstu niðurstöður er að finna í nefndaráliti sem hér gefst því miður ekki tími til að gera grein fyrir í heild sinni en þar kemur m.a. fram eftirfarandi og vitna ég þá í nefndarálitið, með leyfi forseta.

,,Heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir hafa átt í erfiðleikum með að njóta almennrar þjónustu. Opinberar stofnanir hafa litið svo á að það væri ekki í þeirra verkahring að sjá fyrir túlkun og ekki hefur verið brugðist við þessari þörf með heildarlagasetningu varðandi túlkun. Réttur heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra til túlkunar er ekki nægilega tryggður þar sem hvergi er beinlínis sagt hverjum er skylt að greiða túlkunina. Þetta á við um samskipti við ýmsa opinbera aðila eins og t.d. heimilislækna, göngudeildir sjúkrahúsa, skóla vegna t.d. foreldrafunda, fræðsluskrifstofur eða aðrar opinberar stofnanir ríkis eða sveitarfélaga. Stjórnendur stofnananna halda að sér höndum og notendur þjónustunnar veigra sér við að krefjast hennar.

Nefndin lítur svo á að til þess að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir geti notið allrar almennrar lögbundinnar þjónustu og aðgengis að íslensku samfélagi verði opinberir aðilar sem bera ábyrgð á þjónustu við einstaklinga að líta svo á að túlkaþjónusta sé hluti af þeirri þjónustu og sömuleiðis ábyrgðin á því að tryggja þann rétt og kostnað við túlkunina.``

Í áliti nefndarinnar segir síðan: ,,Nefndin telur eðlilegt að tillögur hennar taki mið af því hvernig þróunin hefur verið á sl. árum og hver vilji löggjafans er varðandi fatlaða almennt. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra kemur skýrt fram að tryggja eigi fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og einnig er ljóst að vilji löggjafans er að leitast verði við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum. Í samræmi við þetta leggur nefndin til að skýrt verði kveðið á um rétt til túlkunar fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda þar sem það á við í öllum almennum lögum er varða réttindi og skyldur og í lögum um málefni fatlaðra og þetta verði haft í huga við endurskoðun laga í framtíðinni.``

Um spurningu númer tvö vil ég segja þetta: Það er ljóst að að skoða þarf skipulag og hlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra. Þessi stofnun heyrir undir menntmrn. og á samkvæmt lögum að annast túlkaþjónustu. Með sérstökum lögum um Samskiptamiðstöðina og greinargerð sem þeim fylgir verður ekki annað séð en með þeim hafi átt að tryggja þessum hópi fatlaðra nauðsynlega túlkaþjónustu þannig að hann fái notið aðgengis að samfélaginu. Þá er ástæða til að skoða hvernig unnt er að koma þeirri tillögu nefndarinnar í framkvæmd að opinberar stofnanir beri kostnað af túlkun vegna þjónustu sem heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir sækja til þeirra.

Fram undan er endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga og ákveðið hefur verið að málefni fatlaðra færist til sveitarfélaganna 1. janúar 1999. Ég tel að það sé einboðið að reyna fyrir þann tíma að koma sér niður á viðunandi framtíðarskipan á þessari túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda. Ég tel að núverandi ástand sé ekki nægilega gott og taka þurfi sérstaklega á þessu efni áður en að yfirfærslunni kemur.