Smáfiskaskiljur

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:22:52 (2831)

1997-01-29 14:22:52# 121. lþ. 57.4 fundur 207. mál: #A smáfiskaskiljur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir ágæt svör. Það er ljóst að það er komið af stað mikið starf sem vonandi leiðir til þess árangurs að menn sjái fyrir endann á því hvort ekki sé hægt að taka upp þessa aðferð við veiði þannig að smáfiskadrápið megi minnka eða jafnvel hverfa.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi að hugsanlega skaðist fiskurinn sem sleppur í gegnum smáfiskaskiljurnar svo mikið að hann drepist eftir að hann er kominn út í gegnum skiljuna. Ég hef rætt við bæði vísindamenn og veiðimenn sem hafa rannsakað þetta og það er þeirra skoðun að 90% og upp í 100% sleppi lifandi eftir að hafa farið í gegnum skiljuna. Ég held að það sé almennt álit manna hér að þetta sé ekki raunveruleg hætta. En auðvitað geta orðið hreisturskemmdir sem fiskurinn þolir ekki.

Ég tek undir það sem kom fram hjá ráðherranum að nauðsynlegt sé að gera rannsóknir á öðrum tegundum heldur en ýsu og þorski og þá sérstaklega karfanum því að eins og menn vita þá drepst hann vegna þrýstingsmunarins þegar búið er að draga hann upp á yfirborðið. Það er þess vegna mjög mikilsvert að gera tilraunir með skiljurnar á hreinum karfasvæðum til þess að sjá hvort ekki er mögulegt að nota karfaskilju við þær veiðar.