Öryggi barna

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:37:12 (2836)

1997-01-29 14:37:12# 121. lþ. 57.5 fundur 252. mál: #A öryggi barna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:37]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vænti þess sannarlega að það takist að koma þessu margumrædda frv. í gegnum þing að þessu sinni og lögfesta. Það var fyrsta málið sem umhvrh. flutti á þinginu í haust og ég hef lagt áherslu á að það sé forgangsmál að reyna að afgreiða þetta frv. Ef ég fæ lukkulegan stuðning Alþfl. í málinu, þá vona ég að ég verði sá lukkulegi, eins og hv. fyrirspyrjandi talaði um og taldi að mér veitti líklega ekki af, að eiga einhvers staðar lukkutröll til þess að styðja mig í þessu verkefni öllu saman. (Gripið fram í.) Ég vona að þau séu sem víðast til þess að hjálpa mér í málinu og koma þessu verkefni í gegnum þingið sem sannarlega er tímabært.

En aðeins út af því sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um að hraða þeim breytingum sem e.t.v. þyrfti að gera á reglugerðum, sem við teljum þó að séu í mörgum tilfellum fyrir hendi, þá minni ég aftur á þennan fund sem til stendur að halda innan fárra daga. Þar verður að sjálfsögðu farið yfir það hvað er í veginum, eins og ég gat um áðan, varðandi framkvæmd og hvernig megi ýta við þeim þáttum sem betur megi fara og gera það þá hið allra fyrsta ef ekki vantar til þess lagaákvæði og menn telja óásættanlegt að bíða enn í óvissu eftir því hvort margumrætt frv. verður að lögum. Í framhaldi af því verði þá byggingarreglugerðin endurskoðuð og sett. Ég hef fullan vilja á því að verða við þeim ábendingum sem hv. fyrirspyrjandi hefur beint til mín í þessu efni og mun að sjálfsögðu skoða það á þessum fundi með öllum þeim aðilum sem að málinu koma og þar verða til kallaðir.