Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:21:43 (2872)

1997-01-30 11:21:43# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekkert í þessum endalausa misskilningi. Ég hef aldrei verið að tala um að takmarkanir á framsalinu sem slíku væru óhagstæðar eða breyttu einhverju í sambandi við sameignarákvæði og forræðisákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Ég hef bara alls ekki verið að tala um það mál. (Dómsmrh.: Frv. fjallar ekki um annað.) Þetta eru bara útúrsnúningar hjá hæstv. ráðherra. Við erum að tala um afleiðingarnar af því að veiðiheimildirnar verða í reynd, de facto, veðsettar í framtíðinni með þessu fyrirkomulagi. Það er sú staða sem mun fara að hafa áhrif á löggjafann í því að breyta kerfinu. Hæstv. ráðherra hlýtur að átta sig á því að þetta liggur svona. Ef fyrirtæki í framtíðinni, sem orðið er mjög skuldsett en á veiðiheimildir, fær lán út á þær eða veðhafarnir treysta sér til að halda úti lánum vegna þess að það á veiðiheimildir sem eru fastar inni í fyrirtækinu og þar með í reynd veðsettar, þá mun það fara að verka þannig. Og ef menn ætla svo að kippa þessu allt í einu í burtu. Við skulum segja hjá fyrirtæki sem á mjög fá skip en talsvert miklar veiðiheimildir --- það eru fyrst og fremst þær sem í reynd standa fyrir lánveitingunum --- þá munu menn heykjast á því að breyta því kerfi. Og hæstv. ráðherra veit vel að í lánakerfinu undanfarin missiri hefur verið þróun í gangi. Þróun í hvaða átt? Færa veðin yfir í útgerðarfyrirtækin þar sem veiðiheimildirnar eru. Af hverju reka bankarnir og sjóðirnir á eftir sameiningu fyrirtækja? Þau reyna að keyra skuldug vinnslufyrirtæki saman við útgerðarfyrirtæki. Af hverju heldur hæstv. ráðherra að það sé? Ha, hæstv. dómsmrh. ef hann skyldi nú ræða við hæstv. sjútvrh.? Það er vegna þess að þar með telja bankarnir sig fá tryggari veð í kvótanum sem á bak við verður. Þetta vita allir. Við skulum ekki tala um þessi mál öðruvísi en þau eru. Lánakerfið hefur verið á fullri ferð undanfarin missiri við að keyra lán sín yfir í þau fyrirtæki eða með sameiningu fyrirtækja þar sem veiðiheimildir standa á bak við til að undirbúa sig fyrir þá framtíð sem ríkisstjórnin er hér að teppaleggja fyrir kerfið.