Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:21:57 (2873)

1997-01-30 11:21:57# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:21]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar þannig að ég mun ekki hafa langt mál við 1. umr. Ef undan er skilin 3. gr. frv. þá sýnist mér að um margt geti ákvæði frv. verið til bóta. Veðlögin eru orðin gömul og ófullnægjandi og á margan hátt úr sér gengin og í raun eru þau miðuð við allt aðrar aðstæður og atvinnuhætti en við búum við í dag en að stofni til eru ýmis ákvæði veðlaga frá síðustu öld. Ljóst er að ákvæði frv. tryggja betur rétt lánastofnana en verið hefur en ég tel að skoða þurfi vel í nefnd hvort ákvæði frv. tryggi betur rétt þeirra sem setja eitthvað að veði og gætu lent í klóm á lögfræðingum eða lánastofnunum. Því þarf að kanna vel hvort það sjónarmið hafi einnig verið haft að leiðarljósi að tryggja veðrétt þeirra sem taka lán og setja veð fyrir lánafyrirgreiðslum.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að 3. gr. frv. sem er mest umdeild í frv. Með ákvæði þessarar greinar er 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, sem kveður á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar, gerð hálfmerkingarlaus eða a.m.k. er verið að veikja ákvæði hennar mjög. Maður spyr hvert við séum að halda með þeim ákvæðum um heimild til veðsetningar á kvóta. Jú, útgerðarmenn fá nú ókeypis afnotarétt á auðlindinn og mega síðan fara með veiðiheimildirnar að vild, láta þær ganga kaupum og sölum og nú er heimild til að veðsetja aflaheimildir eins og hverja aðra þinglýsta eign þeirra. Með þeim áformum er verið að staðfesta í raun og sanni einkarétt örfárra útgerðaraðila á auðlindum sjávar sem þjóðin byggir helst afkomu sína á. Hér er með blessun og heimild frá hinu háa Alþingi verið að brjóta öll lögmál sem gilda í viðskiptum og fjármálum manna á milli að heimila örfáum aðilum sem braskað hafa árum saman með auðlindina að veðsetja eign sem er eign allrar þjóðarinnar.

Ég furða mig á því að Framsfl. hafi fengist til þess að styðja þetta ákvæði. Með þessari afstöðu sinni verða þeir ekki marktækir lengur í umræðunni. Það er hreinlega hægt að afskrifa þá því þeir eru ómerkir orða sinna. Kattarþvottur nokkurra þingmanna, þeirra sem margir bundu vonir við að héldu til streitu afstöðu sinni og andófi sínu gegn veðsetningu aflaheimilda, er afar aumkunarverður svo ekki sé meira sagt. Þessir hv. þm. þurfa svo sannarlega að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessari umræðu og maður spyr: Í hverju felst sú breyting nú á frv. sem réttlætir að þeir framsóknarmenn sem lögðust gegn veðsetningu kvótans geti nú fylgt þessu frv.? Jú, að nú sé ekki hægt að framselja kvótann nema létta veðböndum af skipinu eða bátnum. En hver er hin raunverulega breyting? Í einni setningu er bannað að veðsetja aflahlutdeild og í hinni að það megi veðsetja fjárverðmæti sem fiskveiðiréttindin eru skráð á og þá megi ekki skilja aflahlutdeildina frá. Fyrst er því byrjað að banna veðsetningu og í næstu setningu er hún leyfð og maður spyr: Hvaða hundalógíkk er þetta eiginlega? Þetta nýja ákvæði sem framsóknarmenn hlupu á er í raun marklaust þar sem aflaheimildirnar verða samkvæmt lögum að vera skráðar á skip. Á þessu er bitamunur en ekki fjár og hreint með ólíkindum að framsóknarmennirnir hugdjörfu, sem gripu til vopna sinna og sögðu þjóðinni að þeir ætluðu að berjast gegn veðsetningu kvótans skuli hreinlega snúa við með skottið á milli lappanna inn í herbúðir þeirra sem ætla að afnema yfirráðarétt þjóðarinnar á auðlindinni og færa hana á silfurfati til örfárra kvótaeigenda og lánastofnana.

Það hefur líka verið sýnt fram á að mörgum spurningum er ósvarað varðandi þetta mál. Til dæmis nokkuð sem er ekkert smámál, að heimild til veðsetningar á kvótanum geti komið í veg fyrir eða a.m.k. gert það mjög erfitt að breyta kvótakerfinu án þess að borga upp veðskuldir eða til komi skaðabótakrafa á ríkið. Þeirri spurningu verður ríkisstjórnin og hæstv. sjútvrh. að svara skýrt --- og var nokkuð til umræðu áðan milli sjútvrh. og þeirra sem hér hafa talað --- hvort hægt sé að breyta stjórn fiskveiða án þess að til komi skaðabótakrafa á ríkið og þó því sé haldið fram í grg. frv. að breytingar á lögum um stjórn fiskveiða eigi ekki að leiða til bótaskyldu, þá er nauðsynlegt að taka af allan vafa um það og að það sé þá sagt afdráttarlaust í lagatextanum sjálfum, og er hæstv. dómsmrh. þá tilbúinn til þess?

Herra forseti. Ég trúi því ekki að óreyndu að þetta mál nái hér fram að ganga. Stjórnarandstaðan verður með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir þetta slys sem stjórnarflokkarnir ætla að fara að leiða yfir þjóðina, sem ekki bara felur í sér að verið er í raun að færa yfirráðarétt þjóðarinnar á auðlindum til örfárra útgerðaraðila með því að heimila veðsetningu á aflaheimildum, heldur mun þetta ákvæði hafa alvarlegar afleiðingar víðs vegar úti í þjóðfélaginu og magna upp og margfalda þá hrikalegu misskiptingu sem uppi er í þjóðfélaginu. Maður spyr hvort það réttlæti heimild til veðsetningar á auðlindinni bara til þess að tryggja öryggi lánastofnana. Eiga lánastofnanir ekki að vera fullfærar um að gera það sjálfar gagnvart útgerðaraðilum eins og öðrum atvinnugreinum? Af hverju eiga útgerðaraðilar að fá aðra meðhöndlun í þessu efni en venjulegir lántakar eins og heimilin í landinu? Ekki geta þeir gengið í veð nágrannans ef þeir hafa ekki veð í sinni eigin eign. Hvaða lögmál eiga að gilda í þessu? Á það virkilega að vega meira á hinu háa Alþingi og vera hlutverk þess að gæta hagsmuna lánastofnana, sem þær eiga að vera fullfærar um að gera sjálfar, en standa vörð um eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni? Eiga útgerðaraðilar að búa við þau forréttindi umfram aðra að geta bara veðsett eigur annarra? Ég tel að þetta séu siðlaus áform og stór spurning hvort þetta brjóti ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæði um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.

Ég spyr til dæmis: Eru allir jafnir fyrir lögum þegar útgerðaraðilanum er heimilt að veðsetja eignir annarra fyrir þeim fjárfestingum sem þeir fara í en iðnaðarmaðurinn sem hefur ekkert annað að leita en í sínar lögmætu eignir fyrir skuldsetningu sinni? Síðan er líka spurning um gildi slíkrar veðsetningar, um mat á þeirri hættu að lánastofnanir verði smátt og smátt formlegir eigendur aflaheimilda í landinu. Og hvernig stenst það að taka langtímalán til 10 eða 20 ára með ábyrgð og veðsetningu í kvóta sem útgerðaraðili hefur enga tryggingu fyrir að hafa lengur en innan kvótaársins?

Herra forseti. Það er vissulega mörgum spurningum ósvarað varðandi framkvæmd þessa máls og afleiðingar þess fyrir þjóðfélagið og það er aðeins hægt að draga eina niðurstöðu af málinu og hún er sú að þessu slysi verður að forða sem 3. gr. frv. býður upp á.