Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:03:54 (2916)

1997-01-30 14:03:54# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að metast um hvaða lögmenn hafa mest vit á þessu en ég efast ekkert um hæfileika Þorgeirs Örlygssonar prófessors í lagadeild háskólans. Hann hefur samið mörg lög en ég hef líka orðið var við að þau lög má túlka á marga vegu. (Gripið fram í: Hann hefur samið frumvörp.) Hann hefur samið frv. sem hafa orðið að lögum. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því og ég fagna því að hæstv. dómsmrh. tekur undir þau orð mín að nauðsynlegt sé að skoða þetta mál mjög gaumgæfilega í hv. allshn. og þar fáum við væntanlega þá svör við þessum spurningum. Við höfum náttúrlega svörin frá lagaprófessornum. Við gætum þá leitað svara frá öðrum lögmönnum sem hafa mikla praktíska reynslu í því lagaumhverfi sem hefur verið skapað í sambandi við veðsetningar.

Varðandi frjálsa framsalið og 1. gr. þá minnir mig að 1. gr. fjalli um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Varðandi það ákvæði er fyrst og fremst verið að gera ráð fyrir því að eignarákvæðið verði óbeinna með þessu, það verði ekki eins tryggt með þessum breytingum og það er að óbreyttu.

Um það hvort hægt sé að selja kvóta og aflaheimildir þá er það í mínum huga allt annað mál. Samkvæmt þessum drögum verður mun erfiðara um allt framsal, sem ég hef hingað til haldið að hæstv. sjútvrh. hafi einmitt haft sérstakan áhuga á að yrði óbreytt, að framsalið gæti verið óbreytt og mætti helst ekki skerða með lögum.