Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:09:44 (2919)

1997-01-30 14:09:44# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:09]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það hefur farið eins og við mátti búast að meginefni frv. hefur fallið í skuggann fyrir því ákvæði þess sem fjallar um veðsetningu skipa og ákvæði um meðferð veiðiheimilda við veðsetningu. Ég vil þó fara fáeinum orðum um efni frv. að öðru leyti áður en ég vík að þessu máli málanna.

Ég átti á síðasta kjörtímabili sæti í allshn. sem fékk þetta mál tvívegis ef ekki þrívegis til umfjöllunar. Nefndin hafði farið vandlega yfir frv. á þeim tíma án þess að tækist að afgreiða það út vegna ágreinings um þetta ákvæði sem ég gat um í upphafi. Niðurstaða mín eftir þá yfirferð var að öðru leyti en þessu varðandi veðsetningu skipa og aflaheimilda, að frv. væri nokkuð gott og horfði til framfara. Ég geri því ekki ágreining um það og tel að ekki eigi að vera nein fyrirstaða af hálfu þingheims að afgreiða frv. eins og það er lagt fram að öðru leyti en þessu sem ég hef getið um.

Víkjum þá að því ákvæði sem mönnum hefur orðið hvað mest tíðrætt um. Það fyrsta sem er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir er hvaða breytingar er verið að gera og fyrir hverja er verið að gera breytingar. Það er alveg augljóst mál í mínum huga og orkar ekki tvímælis að verið er að breyta löggjöf til að styrkja stöðu veðkröfuhafa. Það er ekkert annað sem verið er að gera með þessum breytingum en að bæta stöðu lánardrottna.

Það hefur verið rifjað upp fyrr í þessari umræðu að eftir að lögin um stjórn fiskveiða voru sett árið 1990 hefur verið óheimilt að veðsetja aflahlutdeild beint þannig að lán sem tekin eru eftir gildistöku þeirra laga með veði í skipum eru ekki tryggð með veði í aflaréttindum skipsins heldur einungis þau lán sem voru á skipinu við gildistöku laganna. Því hafa lán sem tekin hafa verið eftir að núgildandi lög um stjórn fiskveiða voru sett enga tryggingu í þessum aflaréttindum. Bankar og lánastofnanir hafa að nokkru farið inn á á braut að krefja útgerðarmenn eða eigendur skipanna um yfirlýsingar þess efnis að þeir muni ekki flytja varanlegar aflaheimildir burt af skipinu nema með samþykki þeirra. Þannig hefur fyrirkomulagið verið frá maímánuði 1990.

Þá er það raunverulega spurningin: Hvers vegna þarf að breyta þessu ákvæði? Hefur verið sýnt fram á að þetta fyrirkomulag sé sérstaklega slæmt? Ég hef ekki fengið upplýsingar um það frá bönkum eða lánastofnunum og ég hef ekki séð að þessar lánastofnanir hafi lagt fram upplýsingar í þingnefnd eða á öðrum vettvangi sem þingmenn hafa aðgang að að reynslan af þessu fyrirkomulagi sé neitt sérstaklega slæm fyrir bankakerfið. Ég geri þess vegna kröfu til þess að færð séu rök fyrir því að breyta þurfi frá núverandi fyrirkomulagi.

Ég gat ekki heyrt það í framsöguræðu hæstv. ráðherra að hann hefði neinar upplýsingar um það sem rökstyddi nauðsyn á að þessi breyting næði fram að ganga.

Það er grundvöllurinn áður en lengra er haldið að þeir sem gera kröfu um breytingar færi rök fyrir sínu máli, leggi sín spil á borðið þannig að menn geti vegið og metið þau rök sem þeir hafa fram að færa. Ég fer fram á það við hv. þingnefnd að hún afli upplýsinga frá þeim aðilum sem gera kröfu til þess að ákvæðinu verði breytt í þá veru sem hér er í frumvarpinu og að þeir rökstyðji sitt mál. Ég veit alveg hvaða aðilar þetta eru eftir heimsóknir þeirra til allshn. á síðasta kjörtímabili. Það voru einungis fulltrúar bankanna sem lögðu fram þessa kröfu. Fulltrúar verkalýðshreyfingar og sjómannasamtaka lögðust gegn breytingunni, svo dæmi sé tekið. Ég hygg að það sé ekki of mikil krafa á hendur þeim sem gera kröfu um lagabreytingu á þingi til að gæta hagsmuna sinna, bankanna, að þeir færi rök fyrir sínu máli. Við skulum meta það þegar það liggur fyrir, en ég hef ekki séð þau rök og ég get ekki ímyndað mér að framgangur mála sé þannig að bankarnir hafi beðið neinn skaða af umfram það sem eðlilegt má teljast í lánastarfsemi sem eðli máls samkvæmt er áhættubisness.

[14:15]

En það er athyglisvert að velta fyrir sér úrræðunum sem menn grípa til að því gefnu að menn sannfærist um að það þurfi að breyta, sem ég er ekki sannfærður um. En þeir sem eru sannfærðir um það telja að það þurfi að breyta. Það er fróðlegt að athuga hvernig breytingu þeir leggja fram.

Breytingin, sem lagt er til að verði gerð, er sú að festa saman skipið og veiðiréttindin í ríkari mæli en er í dag. Með öðrum orðum er hún að láta lagabreytinguna frá 1990 ganga til baka að nokkru leyti. En með þeirri lagabreytingu var tekið upp hið frjálsa framsal. Með öðrum orðum er það hið frjálsa framsal sem er vandamálið gagnvart bönkunum í þessu tilliti. Fram að þeim tíma þurftu þeir ekki að hafa áhyggjur af að aflahæfi skips, sem þeir höfðu veð í, mundi rýrna við það að veiðiréttindin væru flutt í burtu af því að fram að þeim tíma voru skip og veiðiréttindi óaðskiljanleg eining. Úrræðin sem menn grípa til núna til að tryggja hagsmuni lánardrottna er að ganga til baka, er að þrengja að framsalinu. (ÖS: Ekki í þágu þjóðarinnar.) Í sína þágu. Ég kem að því á eftir. Hins vegar á meðan þjóðin á bankana eru það auðvitað hagsmunir þjóðarinnar að bankarnir tapi ekki miklu fé. (Gripið fram í: Ekki alla bankana.) Nei, nei, en Landsbankinn er með yfirgnæfandi meiri hluta af viðskiptum í sjávarútvegi.

Það er fróðlegt að hafa í huga að það er hið frjálsa framsal veiðiheimilda sem mönnum verður starsýnt á að er vandamálið. Það er ekki bara í þessu máli sem menn hafa komist að raun um að frjálsa framsalið er vandamál, það hafa verið lögð fram frv. á fyrri þingum um að takmarka framsalið og það liggja fyrir frv. á þessu þingi líka um að takmarka hið frjálsa framsal. Þau frv. verða rædd síðar í dag. Ég minni á frv. sem þingmenn Alþb. hafa flutt á fyrri þingum í þessa veru. Og ég minni á miðstjórnarsamþykkt Alþb. um að takmarka hið frjálsa framsal. Sú úrlausn sem menn grípa til beinir sjónum manna að kerfinu sjálfu sem við störfum undir um stjórn fiskveiða og bendir okkur á að hið frjálsa framsal er verulegt vandamál í því kerfi.

Hins vegar má segja að með því úrræði sem gripið er til í frv. um að festa betur saman skip og veiðiheimildir taka menn upp aftur ákveðið vandamál sem menn voru að koma sér frá með lögunum frá 1990. Menn lenda í þeim vanda að jafnvel þótt með frv. sé skýrt tekið fram að óheimilt sé að veðsetja sjálf réttindin til að veiða þá verða þau réttindi í raun veðsett. Þau verða ekki sjálf veðsett en þau verða í raun veðsett. Það verður ekki hægt að koma í veg fyrir það nema bæta við frekara ákvæði í þetta frv. Það gerist þannig að samkvæmt frv. verður heimilt að veðsetja skipið. Það eru engin takmörk á því fyrir hve háa fjárhæð má veðsegja eitt skip. Það er því fullkomlega heimilt ef einhver vill lána peningana sína að veðsetja skip fyrir meira verðmæti en húftryggingarverðmæti þess er. Þá segja þeir sem eru að veðsetja svona aftarlega, þeir eru í óvissu með sitt veð af því að skipið stendur ekki undir því, sem svo: Á móti þessu óöryggi hef ég það öryggi að veiðiréttindi skipsins verða ekki frá því flutt nema með mínu samþykki og ég met það svo að með þessum veiðiréttindum muni skipið ævinlega geta staðið undir því að afla tekna til að borga niður lánið. Þannig eru menn í raun að veðsetja veiðiréttindin þó það sé alveg skýrt, ég er ekki að gera ágreining um það, að veiðiréttindin sjálf eru ekki veðsett.

Til að koma í veg fyrir að menn skáskjóti sér áfram í málinu, eins og ég var að lýsa að muni verða gert og er í raun gert, þá verða menn að bæta inn í frv. ákvæði sem bannar að veðsetja skipið fyrir hærri fjárhæð en sem nemur t.d. húftryggingarverðmæti þess. Þá eru menn búnir að festa hámark þeirrar fjárhæðar sem eitt skip má vera veðsett fyrir og tryggja að menn geti ekki skuldsett útgerðina fyrir hærra fé en nemur verðmæti skipsins eins og sér.

Annar galli sem kemur upp í því máli að tengja flutning á veiðiréttindum frá skipi við samþykki veðkröfuhafa er sá að menn gefa veðkröfuhöfunum þá stöðu sem þeir geta notað, eða misnotað eftir atvikum, sér verulega í hag og öðrum í óhag. Veðkröfuhafi getur neitað að samþykkja flutning á aflaheimildum frá einu skipi til annars og sagt: Ég vil ekki samþykkja þennan flutning á veiðiheimildum nema þú seljir þessu skipi en ekki eða hinu skipinu. Eða hann getur sett enn önnur skilyrði og sagt: Ja, ég samþykki ekki flutning nema þú borgir upp mitt lán. Í raun og veru getur veðkröfuhafinn, samkvæmt frv. eins og það er lagt fram hér, sett öll þau skilyrði sem honum sýnist fyrir sínu samþykki. Ég tel að staða veðkröfuhafa í þessu frv. sé allt of sterk. Ég bið hv. formann nefndarinnar að punkta hjá sér að ég bendi á að það verði athugað í nefndinni hvernig hægt er að takmarka stöðu veðkröfuhafa til að neita að fallast á flutning aflaheimilda frá skipi. Því eins og hér er frá málum gengið getur veðkröfuhafinn sett hvaða skilyrði sem honum sýnist, bæði eðlileg og óeðlileg. Ef menn á annað borð hafa kerfi sem heimilar flutning á milli þá verða menn að hafa sæmilega skýrar leikreglur um hvernig sá flutningur fer fram og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að slíkt geti gengið eftir. Það væri að mínu mati algjörlega óviðunandi og óeðlileg ráðstöfun ef einn veðkröfuhafi segði: Ég samþykki ekki flutning á aflaheimildum til þessa skips af því að ég vil ekki selja því heldur vil ég að þú seljir öðru skipi sem er í viðskiptum við minn banka, svo dæmi sé tekið. Ég fer fram á að hv. allshn. athugi mjög gaumgæfilega hina sterku stöðu veðkröfuhafa ef mál ganga eftir eins og þarna er lagt til.

Mér hefur orðið tíðrætt um að í frv. er sjónum beint að því að takmarka hið frjálsa framsal til að styrkja veðkröfuhafa. Gott og vel. Við skiljum öll stöðu þeirra sem lána peninga og viljum síst setja lög sem setur þá í meiri áhættu en þeir búa við í dag. En það eru fleiri aðilar sem eiga hagsmuna að gæta við flutning aflaheimilda en bara veðkröfuhafar á skipinu. Bið ég nú hæstv. sjútvrh. að leggja við hlustir. Það eru fleiri aðilar sem eiga hagsmuna að gæta við það að veiðiheimildir eru fluttar af skipi. Það hefur áhrif á þeirra aflahæfi, stöðu þeirra og möguleika á tekjum, verðmæti eigna þeirra o.s.frv. Þess vegna eiga þeir jafnverðmætra hagsmuna að gæta og veðkröfuhafar. Það eru sjómenn. Af hverju þarf ekki samþykki sjómanna fyrir því að flytja aflaheimildir af skipi? Eiga þeir lakari hagsmuna að gæta heldur en veðkröfuhafar? Eru hagsmunir sjómanna eitthvað minni í þessu máli heldur en hagsmunir veðkröfuhafa? Eiga sveitarfélögin í heild eða byggðarlögin ekki hagsmuna að gæta? Skiptir ekki máli að þar sé atvinnustarfsemi eða að hún leggist niður vegna þess að aflaheimildir eru fluttar burt? Ég gæti líka nefnt verkafólk og fleiri mætti eflaust bæta við. Það getur gengið þvert á hagsmuni þessa fólks að veiðiheimildir verði fluttar burt.

Ég tel eðlilegt að ef löggjafinn er að fást við að breyta lögum þannig að hagsmunir tiltekins hóps í málinu, lánardrottna, sé sem best gætt og telur það réttlætanlegt út frá almannahagsmunum þá eiga menn jafnhliða að gæta að hagsmunum annarra þjóðfélagshópa. Það er ekki sæmandi að mínu viti að taka lánardrottnana eina fram fyrir en ýta öllum hinum hópunum til hliðar og segja: Þeir eru ekki viðfangsefni þingsins. Þeir skulu bjarga sér sjálfir í markaðsþjóðfélaginu. En af hverju eiga þá ekki lánardrottnarnir að vera í markaðsþjóðfélaginu?

Herra forseti. Þetta eru þær atugasemdir sem ég hef um þetta mál. Ég vil segja að lokum að ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta frv., ef það nær fram að ganga óbreytt, muni veikja sameignarákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Ég hef ekki heyrt í umræðunni þau rök sem sannfæra mig um að hætta sé á því. Enda vil ég í lengstu lög halda því fram að lagabreytingar veiki ekki það ákvæði. Því fleiri þingmenn sem halda hinu fram stuðla einfaldlega að því að þróunin verði sú sem þeir óttast. Þess vegna eiga menn ekki að vera að halda því fram nema þeir séu vissir um að hafa gild rök fyrir því að þessi þróun muni verða. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Já.) Það er einfaldlega vegna þess að veiðiheimildirnar eru ekki veðsettar. Það er alveg klárt eins og ég hef rakið fyrr í ræðu minni. Þær eru ekki veðsettar. (Gripið fram í: Ekki einar og sér.) Ekki einar og sér, þær eru það ekki. En ég held að þessi framgangsmáti muni hins vegar styrkja í sessi aflamarkskerfið sjálft. Ég hef trú á því af því að skuldirnar muni síga út yfir veðmörk skipanna og í raun inn á veiðiheimildirnar og það muni halda aflamarkskerfinu fastara í sessi í framtíðinni en að óbreyttu. Ég er ekki viss um að óbreytt aflamarkskerfi sé skynsamlegt. Ég er reyndar viss um að á kerfinu, eins og það er í dag, þurfi að gera veigamiklar breytingar til að menn geti búið við það í sæmilegri sátt í þessu þjóðfélagi.