Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:29:37 (2920)

1997-01-30 14:29:37# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:29]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var býsna málefnaleg ræða hjá hv. 5. þm. Vestf. Það er alveg kórrétt hjá honum að vandinn sem er uppi í þessu stafar fyrst og fremst af því að við erum með frjálst framsal. Það er það sem gerir það að verkum að upp getur komið óvissa og skúrkar í þessari atvinnugrein geta valdið óöryggi í viðskiptunum. En þegar við vorum með sóknarmark var veiðirétturinn veðsettur með skipinu. Meðan við vorum með kvótakerfi þar sem framsalið var ekki leyft, þá var veiðirétturinn veðsettur með skipinu og enginn gerði athugasemd við það. Það þótti öllum alveg sjálfsagt mál. En þessi vandi kemur upp núna og við erum í raun ekki að gera annað með því að banna framsalið en að koma á svipaðri stöðu og þar sem um er að ræða kvóta án framsalsheimildar. Við erum að búa til þá sömu stöðu og var áður en framsalið kom til gagnvart þessum aflaheimildum. Það er ekki annað sem verið er að gera í þessu og ekki stærri glæpur sem verið er að fremja í en að tryggja viðskiptaöryggi með því að takmarka framsalið og koma í þeim tilvikum upp svipaðri stöðu og var þegar aflamarkið var ekki framseljanlegt. Það er kjarni málsins í þessu samhengi.