Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:54:52 (2924)

1997-01-30 14:54:52# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:54]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. spurði að því hvort unnt væri að veðsetja, ef ég skildi hann rétt, útvarpsréttindi eftir að þetta frv. yrði að lögum. Ef hann hefði lesið frv. þá kemur alveg skýrt fram að öll réttindi sem tengd eru ákveðnu fjárverðmæti er óheimilt að veðsetja þannig að þeir sem lesa lagatextann sjá alveg skýrt hvert efni hans er.

En það var fróðlegt að hlusta á ræðu hv. þm. Enginn, hygg ég, hefur á undanförnum vikum tekið stærra upp í sig út af framsali aflaheimilda en hv. þm. Enginn hefur hneykslast meira á því að unnt væri að selja aflaheimildir frá einu skipi til annars og einkanlega ef það þýddi að aflaheimildir flyttust frá einni byggð til annarrar. Enginn hefur hneykslast meira á því með stærri orðum. Svo kemur hv. þm. hér og getur ekki einu sinni tekið afstöðu til þess þegar fyrir liggur frv. sem heimilar veðhöfum í byggðarlögunum, hvort sem þeir eru lífeyrissjóðir eða sveitarfélög og hvort sem þeir eru að veita útgerðarfélögum stór lán eða smá, að hindra að útgerðarmaðurinn selji aflaheimildirnar af skipinu. Þegar frv. er flutt um það þá getur hv. þm. ekki sagt þingheimi hvort hann er með þeirri skipan eða á móti. Sú spurning hlýtur að vakna hjá fleirum en mér, hvenær hv. þm. sé að tala í alvöru. Eða er hann kannski nokkurn tíma að gera það? Hvenær meinar hann eitthvað með því sem hann er að segja?