Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:04:03 (2928)

1997-01-30 15:04:03# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:04]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spurði mig hvort ég væri sömu skoðunar og í fyrra. Ég er það. Ég er sömu skoðunar og í fyrra og tel að Alþingi megi ekkert gera sem veikir 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna. Hér liggur fyrir frv. sem mér finnst, eftir jaml og japl og fuður, að menn hafi náð meginatriðum fram og er það vel. Hér er ekki um veðsetningu aflaheimilda að ræða. Það er bannað samkvæmt frv., hv. þm. Hitt skal ég játa að hér er um kvaðabindingu að ræða. Kvaðabinding er þekkt í mörgum tilfellum. Hvers vegna þarf að hafa kvaðabindingu í þessu tilfelli? Aflaheimildir eru mikil verðmæti. Þess vegna er eðlilegt þegar aflaheimildir eru orðin jafnmikil verðmæti og raun ber vitni að það verði að hafa kvaðabindingu á þeim, út af almenningi, út af fjármálastofnunum. Við skulum hugsa okkur að skip sem stendur með þúsund þorskígildum getur selt þorskígildin í burtu fyrir 600 milljónir --- ótrúleg tala. Eftir liggur verðlaust skip. Á að láta útgerðina, eða sægreifana eins og oft er sagt, fara með þessar 600 milljónir án þess að gera upp skuldir sínar og almenningur verður svo að borga þær í gjaldþroti skipsins? Þess vegna segi ég: Þetta ákvæði á að draga úr braski og koma í veg fyrir að handhafar aflaheimildar selji aflaheimildir og hirði fyrir stórfé en láti almenning borgar skuldir sínar því skipsskrokkurinn er lítils virði þegar aflaheimildirnar eru farnar, hv. þm. Þess vegna tel ég að eftir langan tíma hafi menn komist að ásættanlegri niðurstöðu í þessu frv., en hvet þó þingið til þess að fara vel yfir málið.