Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:06:21 (2929)

1997-01-30 15:06:21# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:06]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um það að hv. þm. Guðni Ágústsson skuli lýsa því yfir hér að hann sé sömu skoðunar um þessi mál og hann var í fyrra. En honum hefur nefnilega skotist yfir eitt atriði. Það er að með samþykkt 4. mgr. 3. gr. er verið að opna þann möguleika að lánveitandi komist yfir veðheimildir skips sem hann hefur lánað til. Við getum hugsað okkur stóran lánveitanda sem hafi lánað tiltölulega litlu útgerðarfyrirtæki með veði í skipinu. Nú fær hann veðígildi í veiðiheimildunum því minni útgerðin fær ekki að selja þær veiðiheimildir frá sér nema með samþykki veðhafans. Og hann getur gengið það fast fram að útgerðarfyrirtækið hið minna eigi engan annan kost en að láta hann hafa bæði skip og veiðiheimildir vegna þess að hann getur neitað endalaust öllum öðrum ráðstöfunum viðkomandi útgerðarfyrirtækis sem hann hefur lánað til. Þó að það sjónarmið hjá hv. þm. sé rétt að eðlilegt sé að tryggja að ekki sé hægt að rýra verðgildi tiltekinnar eignar miðað við það verðgildi sem hún var metin á þegar lánið var veitt þá er með þessari grein verið að opna fyrir því að sá sem lánar útgerðarfyrirtæki einhverja fjárupphæð geti fylgt því eftir til enda hver verður ráðstöfunin á veiðiheimildunum. Hann ræður því hvernig veiðiheimildunum verður ráðstafað. Með því er í raun og veru verið að heimila viðkomandi lánveitanda að taka veð í veiðiheimildunum því hann öðlast ráðstöfunarrétt.