Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:08:18 (2930)

1997-01-30 15:08:18# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:08]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur í umræðunni á þinginu opnað hina hliðina á þessu máli sem menn höfðu kannski ekki áttað sig jafnglöggt á fyrr en hann talaði hér, að byggðirnar fá með þessum hætti ákveðið tak á sinni atvinnu. Nú talar hann um að þarna geti lánveitandi komist yfir skip. (SighB: Og aflaheimildir.) Nú er kannski ekkert slæmt við það að lítill sparisjóður á Vestfjörðum geti komist yfir skip og selt það svo aftur með aflaheimild og tryggt að það verði í byggðinni. Þetta getur gerst með þessum hætti. Það er siður banka- og peningastofnana að þegar þær af nauðung eignast svona eign þá koma þær þeim fljótt af hendi sér aftur. Í þessu tilfelli liggur fyrir að réttur byggðarinnar gagnvart þeirri peningastofnun sem starfar í nágrenni við þetta skip er sterkari eftir að þetta verður að lögum. Þess vegna finnst mér að hv. þm. hafi vakið upp nýja hlið sem er ekki slæm í þessu máli. En mér er það efst í huga að ég tel að þessi kvaðabinding geri það að verkum að almenningur stendur betur varinn á eftir fyrir því að hann verði ekki að borga skuldir einhvers annars og að lánastofnunin geti sagt: Allt í lagi, seldu þetta magn en þú verður bara að gera upp skuldir þínar áður en þær fara. Mér finnst að stjórnarflokkarnir, það hafa heyrst gagnrýni- og óánægjuraddir með þetta mál í þeim báðum, þær voru háværar í Framsóknarflokknum --- hafi komist að niðurstöðu og ég er tiltölulega sáttur við hana. En ég tek undir með mönnum að auðvitað verður þingið að fara mjög vandlega yfir þetta mál og skoða það frá öllum hliðum.