Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:07:50 (2942)

1997-01-30 16:07:50# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi síðustu orð hv. þm. endurspegla nokkuð þá togstreitu sem hefur verið meðal stjórnarliðanna. Hv. þm. Sturla Böðvarsson lýsir því yfir að hann geti nú ekki séð á þeim breytingum sem fram hafa komið á þessu þingmáli að hans sjónarmið hafi nokkuð orðið undir. Með því er hann að lýsa því yfir að það sé auðvitað geip eitt sem hv. þingmenn Framsfl. segja, að þeir hafi unnið einhvern sérstakan sigur í þessu máli. Ég er honum sammála um það. Þeir hafa engan sigur unnið. Hér hefur verið bent á það af öðrum þingmanni Sjálfstfl. að það voru í raun þeir sem tryggðu þá leið eina sem hægt var að fara til að veðsetja kvóta.

Ræða hv. þm. var góð að því leyti til að það velktist enginn í vafa um hvað það er sem hann vill. Hann talaði skýrt í þessu máli. Ég er í mörgum efnum ósammála honum. Hv. þm. tók algerlega málstað þeirra sem veita lánin og eitt af því sem hann er ánægður með er, svo ég noti hans orð beint, að þetta frv. tryggir fullkomlega hagsmuni þeirra sem veita lánin. En hvernig er það tryggt, herra forseti? Með því að veita veð í eign sem samkvæmt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða er ekki þeirra og það get ég ekki fallist á og þess vegna er ég ósammála þessu frv. Afstaða mín ræðst ekki af því hvernig frv. tengist framsali aflaheimilda. Hún ræðst af þessu.