Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:45:48 (2950)

1997-01-30 16:45:48# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:45]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. orðaði það svo hér áðan að það hefðu orðið ný verðmæti til þegar kvótinn var settur á. Ég notaði einmitt dæmisögu af einni útgerð til að benda á hvernig þessi verðmæti hefðu orðið til og hvað hefði orðið um þau. Þessi verðmæti urðu til annars vegar með því að tillit var tekið til aflareynslu. Útgerðarmaðurinn sem ég tiltók fékk sem sagt náðarsamlegast heimild til þess að veiða það sem hann hafði veitt og það sem hann hafði keypt skipið sitt til þess að veiða. Í öðru lagi fékk hann heimildir sem hann keypti fyrir peninga. Og hvað varð svo um þessi verðmæti sem hv. þm. telur að nú eigi að verða til þess að sérstakt auðlindagjald verði lagt á ? Hvað varð um þessi verðmæti? Þau voru skorin miskunnarlaust niður úr 800 tonnum niður í 250 tonn. Það var nú það sem varð um verðmætin. Ég hefði þá gjarnan viljað varpa þeirri spurningu fram hvort hv. þm., miðað við söguna og miðað við þessar forsendur, gerir þá ekki ráð fyrir því að skila eigi útgerðarmanninum þessum verðmætum sem búið er að skera niður áður en farið er að tala um auðlindaskatt.