Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 17:19:33 (2961)

1997-01-30 17:19:33# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[17:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er jafnan háttur hæstv. sjútvrh. í umræðum sem þessari að reyna að draga þær niður á þetta ómálefnalega plan, að gera mönnum upp einhverjar illar hvatir eins og ég þóttist kenna á máli hæstv. sjútvrh. Það sem fyrir mér vekti og kannski öðrum hv. þingmönnum væri aðallega að koma sjávarútveginum á kné. Það er auðvitað fjarri því. Eins og hæstv. sjútvrh. veit hefur sennilega ekkert mál tekið jafnmikið af tíma hv. þingmanna Alþfl. og Þjóðvaka eins og einmitt sjávarútvegurinn. En hvenær var þetta bréf sem hæstv. sjútvrh. las hér upp áðan skrifað? Það var skrifað fyrir níu mánuðum. Hefur þessi réttaróvissa, sem ég taldi hér áðan lítilvæga, orðið til þess að sjávarútvegurinn, lítil fyrirtæki eða stór fyrirtæki búi við versnandi kjör eða verri kjör? Ég hef ekki orðið var við það. Ég hef satt að segja ekki orðið var við að þessi réttaróvissa kæmi nokkurs staðar fram nema í máli hæstv. sjútvrh. og í deilum milli stjórnarliðanna.