Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 17:25:36 (2967)

1997-01-30 17:25:36# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[17:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er langt mál sem menn ræða hér um réttaróvissu. Ég hef aldrei séð þetta bréf frá þessum tveimur bankastjórum Seðlabankans en ef ég hjó rétt eftir því sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan, þá felur það í sér beina ósk um að veitt verði lagaheimild til þess að veðsetja kvóta. Er það ekki orðað þannig? Það er með öðrum orðum verið að breyta lögum til þess að taka undir þessa ósk og þar með hljóta menn að fallast á og álykta að verið sé að breyta lögum í þá átt að það megi veðsetja kvóta. En það er það sem hv. þingmenn Framsfl., og ég man ekki betur en einmitt þessi þingmaður, hafa alltaf verið á móti. Veðsetning eða ekki veðsetning. Ef ég tek lán hjá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, þá get ég ekki boðið fram að veði fasteign sem hæstv. sjútvrh. á. Ef útgerðarmaður tekur lán hjá banka mun það leiða til þess ef menn samþykkja þessi lög að ef hann getur ekki greitt lánið, þá tekur bankinn veðið, gengur að veðinu. Hann tekur ekki bara skipið, hann tekur aflaheimildirnar líka.