Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 13:54:01 (3051)

1997-02-04 13:54:01# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[13:54]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hluta en undir nál. með mér skrifa hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Guðný Guðbjörnsdóttir sem sat fund allshn. sem áheyrnarfulltrúi og er sammála því áliti sem ég mæli hér fyrir.

Í meðferð og umfjöllun nefndarinnar um málið voru nokkrir meginþættir gagnrýndir bæði af minni hluta nefndarinnar og í umsögnum og athugasemdum þeirra sem komu á fund nefndarinnar. Þessir þættir eru arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmiðin í samningnum og ekki síst áhrif hans á jöfnun orkuverðs og hvernig eigendaframlögin hafa myndast.

Ég hygg að það sé ekki og sterkt til orða tekið að segja að miklar efasemdir eru uppi um hvernig hægt sé að ná fram gjaldskrármarkmiðum samningsins. Þar eru óvissuþættirnir mjög margir og ýmsir telja að þar vanti traustari og skýrari markmið varðandi lækkun orkuverðs. Eins verður að segja að það markmið er afar lítið metnaðarfullt sem sett er um lækkun orkuverðs og reyndar afar óvíst hvort það markmið náist. Ljóst er að í samningnum virðist aðaláherslan vera lögð á arðgreiðslurnar og forsendur þær sem gjaldskrármarkmiðin byggja á eins og gjaldskrárverð Landsvirkjunar á að vera óbreytt að raungildi til ársins 2000 og lækka síðan árlega um 2--3% á árunum 2001--2010. Jafnvel þó markmiðin séu ekki háleitari en þetta er engu að síður settur varnagli í samningnum og sagt að þær kunni að breytast sem gæti haft í för með sér röskun á forsendum og þróun um gjaldskrárbreytingar. Í raun og sanni er því verið að festa í sessi að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsrafveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000 og óvissa ríkir um framhaldið. Hvergi er hægt að sjá í þessu frv., greinargerð þess eða samningnum sem gerður var milli aðila hvort arðgreiðslumarkmiðið eða gjaldskrármarkmiðið eigi að vera víkjandi ef forsendur samningsins ganga ekki eftir. Fram kemur þó í nefndaráliti meiri hlutans að það er skilningur hans og iðnaðarráðherra að arðgreiðslumarkmiðin eigi að vera víkjandi fyrir gjaldskrármarkmiðunum. En það er eðlilegt að spyrja sig hvort það haldi. Bæði er það að slík yfirlýsing liggur einungis fyrir frá fulltrúa ríkisvaldsins í þessum samningum, hæstv. iðnrh., sem verður líklega löngu farinn úr stól iðnrh. þegar á ákvæðið reynir og einungis hefur einn eignaraðilinn af þremur gefið slíka yfirlýsingu. Eðlilegra hefði því verið að um slíkt yrði kveðið á í samningnum sjálfum eða eftir atvikum í 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um eigendaframlögin og arðgreiðslurnar.

Fyrsti minni hlutinn gerir athugasemdir við tvö mikilvæg atriði í þessu frv. og flytur um þær breytingartillögur.

Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að stjórn Landsvirkjunar setji gjaldskrá fyrir Landsvirkjun, en áður gerði Þjóðhagsstofnun tillögu áður en gjaldskrá var sett. Mjög óeðlilegt er að einokunarfyrirtæki eins og Landsvirkjun skuli ekki búa við neitt eftirlit með verðlagningu. Telur 1. minni hluti að það eftirlitshlutverk eigi að vera í höndum Samkeppnisstofnunar og að starfsemi Landsvirkjunar falli undir samkeppnislög og flytur um það breytingartillögu en þá breytingartillögu flytur 1. og 2. minni hluti. Það er sú sem hér stendur ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Þar er lagt til að á eftir 8. gr. komi ný grein er verði 9. gr. sem hljóði svo, með leyfi forseta:

Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:

Starfsemi Landsvirkjunar fellur undir samkeppnislög.

Þá vil ég víkja að annarri breytingu sem flutt er af sömu þingmönnum. Hún snertir Ríkisendurskoðun og eftirlitsmöguleika Ríkisendurskoðunar.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í álit Ríkisendurskoðunar en þar kemur fram að Ríkisendurskoðun telur að frv. skerði verulega eftirlit þess með starfsemi Landsvirkjunar. En það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun sýnist frumvarpið koma til með að skerða verulega eftirlit eða öllu heldur eftirlitsmöguleika þingsins með Landsvirkjun.``

Herra forseti. Þetta mál snýr nú mjög að hæstv. iðnrh. og ég held að ekki sé til of mikils ætlast að hann sitji undir þessari umræðu enda hef ég hugsað mér að beina ákveðinni fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem snertir það ákvæði í brtt. sem ég er hér nú að byrja að mæla fyrir.

(Forseti (ÓE): Forseti gerir ráðstafanir til að hæstv. ráðherra komi í salinn. Hann er í húsinu.)

[14:00]

Herra forseti. Nú gengur hæstv. iðnrh. í salinn. Ég var að byrja á að fara yfir álit Ríkisendurskoðunar sem telur að ákvæði frv. skerði mjög möguleika hennar til að hafa eftirlit með starfsemi Landsvirkjunar. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun sýnist frv. koma til með að skerða verulega eftirlit eða öllu heldur eftirlitsmöguleika þingsins með Landsvirkjun. Samkvæmt 3. gr. frv. mun ráðherra framvegis en ekki Alþingi velja fulltrúa í stjórn fyrirtækisins. Við þetta verður að telja að möguleikar Alþingis til þess að fylgjast með málefnum fyrirtækisins og hafa eftirlit með þeim þrengist. Á sama hátt og þó einkum í ljósi þess hve miklir hagsmunir ríkis og þjóðar eru bundnir í fyrirtækinu virðist ákvæði 7. gr. frv. falla í sama farveg. Ákvæðið mun skerða beina eftirlitsmöguleika eignaraðila með fyrirtækinu, nái frv. óbreytt fram að ganga. Eftir slíka breytingu blasir við að endurskoðunar- og eftirlitsheimildir þeirra gagnvart fyrirtækinu verða mun þrengri en t.d. gagnvart öðrum stofnunum, sjóðum eða fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira. Hinir fjárhagslegu hagsmunir sem eru í húfi eru þó að jafnaði margfalt minni í þessum fyrirtækjum en í Landsvirkjun.``

Síðar í áliti Ríkisendurskoðunar segir, með leyfi forseta:

,,Litið hefur verið svo á að þar sem sérákvæðum Landsvirkjunarlaga um að stjórn Landsvirkjunar skuli ráða endurskoðendur voru ekki sérstaklega felld úr gildi við gildistöku laganna um Ríkisendurskoðun á sínum tíma líkt og gert var vegna annarra fyrirtækja og sjóða í eigu ríkisins, sem féllu undir endurskoðunarumboð stofnunarinnar ber Ríkisendurskoðun ekki að endurskoða fyrirtækið. Ekki hefur fengist skýring á því hvers vegna sameignarfélög voru undanskilin þessari ákvörðun. Hitt er að þessi skipan er andstæð þeirri meginreglu 6. gr. laganna um Ríkisendurskoðun að stofnunin skuli annast endurskoðun ársreikninga allra fyrirtækja sem eru í eigu ríkisins að hálfu eða meira. Í ljósi hinna gífurlegu hagsmuna sem ríkið á í húfi í fyrirtækinu verður ekki í fljótu bragði komið auga á þau sjónarmið sem réttlæta að Ríkisendurskoðun skuli hafa minni endurskoðunar- og eftirlitsmöguleika gagnvart fyrirtækinu en öðrum fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira.``

(Forseti (ÓE): Það er fullmikill kliður í salnum.)

Í lokin á umsögn Ríkisendurskoðunar kemur fram, með leyfi forseta:

,,Það er skoðun Ríkisendurskoðunar að ákvæði laga um stofnunina eigi að gilda um Landsvirkjun eins og önnur fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkissjóðs.``

Það er einmitt í ljósi þessa sem ég hef flutt breytingartillögu ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, þess efnis að um endurskoðun ársreikninga Landsvirkjunar skuli fara að lögum um Ríkisendurskoðun. Slíkt ákvæði tryggir að ákvæði laga um Ríkisendurskoðun gildi um Landsvirkjun eins og önnur fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkissjóðs.

Það er ástæða til, herra forseti, að spyrja hæstv. ráðherra um þetta álit Ríkisendurskoðunar, spyrja ráðherrann um það sem fram kemur í álitinu, þ.e. að eftir þessa breytingu blasir við að endurskoðunar- og eftirlitsheimild Ríkisendurskoðunar gagnvart fyrirtækinu verði mun þrengri en t.d. gagnvart öðrum stofnunum, sjóðum eða fyrirtækjum sem ríkið á að hálfu eða meira þótt fjárhagslegir hagsmunir sem í húfi eru séu að jafnaði margfalt minni í þessum fyrirtækjum en í Landsvirkjun. Telur hæstv. ráðherra ekki eðlilegt að samþykkja slíka breytingartillögu sem við leggjum til og kveður á um að um endurskoðun reikninga Landsvirkjunar fari eftir ákvæðum laga um Ríkisendurskoðun?

Því hefur verið haldið fram að í frv. sem nú liggur fyrir um Ríkisendurskoðun --- það hefur að vísu ekki verið mælt fyrir því enn --- sé tekið á þessu máli og að með ákvæði í því frv. geti Ríkisendurskoðun haft þá möguleika sem við leggjum til í þessari breytingartillögu, þ.e. að endurskoða reikninga Landsvirkjunar og að það fari eftir ákvæðum laga um Ríkisendurskoðun. Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, vísa í þetta frv. um Ríkisendurskoðun en þar segir, með leyfi forseta:

,,Enn fremur skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga fyrirtækja, félaga og stofnana sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira, þar með talin hlutafélög,`` en síðan kemur ,,sameignarfélög``.

Ég hygg að verið sé að vísa í þetta orð þegar því er haldið fram að þetta ákvæði ætti að duga til að Ríkisendurskoð hafi eðlilegan aðgang að endurskoðunarreikningum Landsvirkjunar. En þetta ákvæði mun ekki duga. Ég hef rætt það við lögfræðinga og Ríkisendurskoðun og þeir telja að þetta ákvæði eitt og sér, þessi breyting á lögum um Ríkisendurskoðun dugi ekki. Ef þetta á að vera fullkomlega tryggt þá þyrfti annaðhvort að samþykkja þá breytingartillögu sem við í minni hlutanum leggjum til um að um endurskoðun reikninga Landsvirkjunar fari eftir ákvæðum laga um Ríkisendurskoðun eða að tryggja það örugglega í frv. sem verður fljótlega til meðferðar í þinginu um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun. Þar þyrfti t.d. að koma fram hugsanlega í ákvæðum til bráðabirgða að þrátt fyrir ákvæði laga um Landsvirkjun þá skuli ákvæði laga um Ríkisendurskoðun gilda um endurskoðun á reikningum Landsvirkjunar á meðan eignarhlutur ríkisins er 50% eða meira. Það er alveg ljóst að slíkt ákvæði, ef ekki verður fallist á þessa brtt., þarf að koma inn í breytingar og meðferð á frv. um Ríkisendurskoðun.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra einmitt um þetta ákveðna atriði. Ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn til að skoða það sérstaklega að beita sér fyrir því, og ég veit að fleiri þurfa að koma að því máli, m.a. forsn. sem ber fram frv. um Ríkisendurskoðun, að það yrði tryggt afdráttarlaust í frv. um Ríkisendurskoðun að Landsvirkjun hefði þá möguleika sem við erum að opna á með þessu ákvæði, þá hefðum við nefndarmenn hugsanlega --- ég hef ekki rætt það við þá sem hafa flutt þetta með mér --- tilbúnir til að draga það ákvæði til baka. En það verður líka að vera algjörlega ljóst og algjörlega tryggt að samstaða náist um að flytja slíka brtt. við frv. um Ríkisendurskoðun. Og ljái hæstv. ráðherra máls á því að tryggja það svona, til þess að ekki þurfi að fara inn í þennan samning, þá held ég að það væri nauðsynlegt að iðnn. hittist á milli 2. og 3. umr. til að fara sérstaklega yfir þennan þátt málsins þannig að frá því verði örugglega gengið að það náist sátt um að flytja tillögu að slík ákvæði þegar við förum að fjalla um frv. til laga um Ríkisendurskoðun. Þessari spurningu beini ég til hæstv. ráðherra og vænti þess að fá svör nú í þessari umræðu um þetta mál vegna þess að það skiptir máli, virðulegi forseti, bæði við efnislega umfjöllun málsins og eins við afgreiðslu á þeirri breytingartillögu sem ég hef mælt fyrir.

Herra forseti. Í nefndarálitinu kemur fram að varðandi framtíðarskipan orkumála leggur 1. minni hluti áherslu á að brýnt sé að mótuð verði stefna um nýtingu auðlinda, sem og aðskilnað vinnslu flutnings, dreifingar og sölu á raforku sem er forsenda fyrir samkepppni, sbr. niðurstöðu orkulaganefndar sem iðnaðarráðherra skipaði. Jafnframt verði tryggt að arður af nýtingu náttúruauðlinda renni til almennings í landinu. Þegar þarf að hefja undirbúning að stofnun raforkuflutningsfyrirtækis, Landsnets, í samráði við sveitarfélögin og orkuveitur í landinu. Stefnt verði að því að Landsnetið yfirtaki flutningskerfi Landsvirkjunar og þann hluta af flutningskerfi Rariks sem þarf til að allar rafveitur eigi beinan aðgang að landsnetinu.

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu en ég vil draga saman í örfáum orðum þær megináherslur sem 1. minni hluti lagði við umfjöllun nefndarinnar um málið í hv. iðnn.

Það er í fyrsta lagi að skerða ekki eftirlitsmöguleika Ríkisendurskoðunar. Tryggja að Ríkisendurskoðun hafi fullan og óskoraðan aðgang að því að endurskoða reikninga Landsvirkjunar sem hún hefur ekki samkvæmt núgildandi ákvæðum í lögum um Ríkisendurskoðun og ekki með þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir þinginu. Það er alveg ljóst að ákvæðin í þessu frv. eru svo afdráttarlaus um að Ríkisendurskoðun komi ekki að þessu máli, að á því verður að taka.

Í öðru lagi eru megináherslur 1. minni hlutans að eftirlit með gjaldskrá Landsvirkjunar vegna einokunaraðstöðu verði tryggt hjá Samkeppnisstofnun, en svo er ekki nema með því ákvæði sem við höfum hér lagt til.

Í þriðja lagi að skýrt yrði kveðið á í nefndaráliti um jöfnun orkuverðs og að arðgreiðslumarkmið verði víkjandi fyrir gjaldskrármarkiðum og að þegar í stað yrði hafinn undirbúningur að stofnun raforkuflutningsfyrirtækis, Landsnets, í samráði við sveitarfélögin og orkuveitur í landinu.

Þetta voru þau atriði sem við lögðum áherslu á að hægt væri að ná heildarsamstöðu um í nefndinni og að komið yrði til móts við þessi sjónarmið. En það gat ekki orðið eins og sést á að hér eru komin fram þrjú nefndarálit í þessu máli.

Virðulegur forseti. Afstaða mín til þessa frv. í atkvæðagreiðslu mun verulega ráðast af því hvaða afgreiðslu breytingartillögurnar fá, m.a. þær sem ég hef hér mælt fyrir. Það mun koma í ljós síðar við þessa umræðu eða við 3. umr. málsins hvernig ég mun greiða atkvæði að lokum í þessu máli. En ég legg áherslu á að mikilvægur liður í því er að fá skýr og afdráttarlaus svör hæstv. iðnrh. við þeim spurningum sem ég hef beint til hans.