Tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:06:40 (3185)

1997-02-06 14:06:40# 121. lþ. 64.95 fundur 178#B tillögur stjórnar ÁTVR um sölu á áfengi og tóbaki# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnast sumir hv. þm., með fullri virðingu, tala eins og þeim sé ekki ljóst að ofnotkun áfengis og tóbaksreykingar eru alvarlegasta heilbrigðisvandamál heimsins. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ítrekað á undanförnum árum hvatt ríkisstjórnir í heiminum til þess að taka sér aðhaldssama stefnu Norðurlandanna, einkum Svíþjóðar, Noregs og Íslands, til fyrirmyndar vegna þess að með miklu forvarnastarfi og aðhaldssamri stefnu hefur þessum þjóðum tekist að ná meiri árangri í baráttu við þetta vandamál en nokkrum öðrum þjóðum í heiminum. Þannig tókst t.d Svíum, nánast einum þjóða, á níunda áratugnum að draga úr áfengisnotkun. Og svo tala menn eins og hér séu ekki alvöruhlutir á ferð. Ég hvet t.d. hv. þm. Lúðvík Bergvinsson til að kynna sér með viðtölum við heilbrigðisstéttir við hvað hér er að glíma. og þar á meðal kostnaðinn af þessu vandamáli sem við erum að ræða og fara ekki fram með neinni léttúð.

Ég tel að hæstv. ráðherra túlki ákvæði 4. gr. laganna um verslun með áfengi mjög rúmt. Og ég tel að til viðbótar, þrátt fyrir ákvæði reglugerðar um stefnumótunarhlutverk stjórnarinnar, fari stjórn ÁTVR út fyrir hlutverk sitt þegar hún leggur til hluti sem eru í andstöðu við lög sem Alþingi hefur nýverið sett, t.d. um sama verð á áfengi í smásölu um allt land. Stjórn sem er í slíkum leiðöngrum misskilur hlutverk sitt og samskipti sín við löggjafann.

Það er ósambærilegt að jafna aðstöðu í einstökum fámennum byggðarlögum úti á landi þar sem af hagkvæmnisástæðum er samið um samstarf við verslunaraðila um dreifingu á þessum vörum, við t.d. það sem gerist í Kópavogi. En úrslitaatriðið er auðvitað hvort álagningin verður gefin frjáls því þar með kemur hagnaðarvon rekstraraðilanna inn í spilið. Þeim mun meiri sala, þeim mun meiri gróði. Svo einfalt er það lögmál. Nákvæmlega það sama á í hlut ef tóbakið verður gefið frjálst og fleiri aðilar geta farið að markaðssetja fleiri tegundir inn á markaðinn. Reynslan alls staðar, út um allan heim, sýnir að það sem tengist ofnotkun þessara efna leiðir til aukinnar sölu, fleiri vandamála, meiri kostnaðar og meiri mannlegra hörmunga.

Ég fagna því að lokum, herra forseti, að sem betur fer er ekki samstaða í ríkisstjórninni um þessa stefnu. Talsmaður Framsfl. hafnaði henni alfarið áðan. (Forseti hringir.) Ég fagna því og þakka það. Og það vekur líka vonir um að fyrir þessari háskalegu stefnu sé ekki heldur meiri hluti á Alþingi Íslendinga. Ég hvet hæstv. fjmrh. og sérstaklega stjórn ÁTVR til að hafa þetta í huga.