Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:26:10 (3189)

1997-02-06 14:26:10# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki eins vel að mér í tónlistarfræðum og hv. þm. en hún hefur lýst því að það var ekki hægt að viðhafa einsöng og ekki tvísöng og þetta endaði með tríói. En hér kom hún áður og hélt því fram að allt annað tónverk hefði verið flutt. Hún lagði áherslu á samheldni sem ekki var til staðar. Ég hefði talið æskilegt að þessi mál hefðu verið rædd hér heima áður en lagt var í þetta ferðalag. Ég hefði t.d. ekki talið óeðlilegt við það að þetta mál hefði verið rætt á vettvangi utanrmn. og þess freistað að reyna að ná samstöðu um það. En það er búið og gert. Eina aðfinnsla mín var sú að þrísöngur var uppi vegna þess að það var ekki eining um einsönginn og þá er ekki hægt að koma hingað og halda því fram að þetta hafi verið gert í fullri sátt og samlyndi vegna þess að allt annað var uppi. Við sem fylgdumst með þessari umræðu hér heima, fylgdumst með þessu eins og hverri annarri sinfóníu þar sem menn voru sífellt að detta úr takti við aðalhljómsveitina. Og í hverjum einasta fréttatíma var greint frá því hver það var sem síðast fór úr takti. En það er aukaatriði, herra forseti.

Spurningin sem ég beindi til hv. þm. var þessi: Telur hún að Alþingi Íslendinga eigi að auka fjárveitingar sínar til Evrópuráðsnefndarinnar til þess að hún geti sinnt starfi sínu betur og sótt fleiri fundi?