Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:28:49 (3191)

1997-02-06 14:28:49# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:28]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á efni eða tilgangi með annars ágætri ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar sem hann eyddi verulegum tíma í að túlka eða mistúlka, sjálfum sér og kannski okkur til skemmtunar, skilning á orðinu samstaða eða samráð. Ég hygg að það hafi komið mjög skýrt fram í máli hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur, formanns Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins að innan þeirrar nefndar er mikið um samráð og samstöðu. Menn koma þar úr bæði stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu og ræða mjög opinskátt og málefnalega og komast að niðurstöðu og virða þá niðurstöðu. Það eru vinnubrögð sem einkennast á Evrópuráðsþinginu. Þar sitja menn sem einstaklingar, ekki sem heilar nefndir þjóða. Mönnum er raðað niður í stafrófsröð af því að áhersla er lögð á að menn eru þar sem einstaklingar, en menn jafnframt vinna mjög skýrt saman og koma úr ólíkum pólitískum hópum. Þetta tel ég skipta miklu máli og þetta tel ég að séu vinnubrögð sem íslenskt Alþingi gæti um margt lært af.

Í annan stað fannst mér hv. þm. efast dálítið eða reyna að mistúlka einhvern veginn þá lýsingu sem ég reyndi að gefa í ræðu minni fyrr í dag um það hvernig stofnanir hafa ekki breyst þó að alþjóðaástand hafi breyst allverulega. Það eina sem ég sagði er að stofnanirnar blíva en samfélagið hefur breyst. Og hvað varðar þá spurningu sem hv. þm. beindi til mín, þá er sú tillaga, sem ég ásamt allri íslensku sendinefndinni og 7 öðrum þingmönnum stöndum að í Evrópuráðsþinginu, einfaldlega hvatning til ráðherranefndar Evrópuráðsins um að hún hafi frumkvæði að því að endurskoða hlutverk og áherslur alþjóðastofnana á borð við Vestur-Evrópusambandið, Evrópuráðið, ÖSE-þingið og jafnvel NATO til þess að koma í veg fyrir tvíverknað, sem þingmenn Evrópu almennt eru sammála um að eigi sér stað að óþörfu.