Evrópuráðsþingið 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 14:31:20 (3192)

1997-02-06 14:31:20# 121. lþ. 64.6 fundur 289. mál: #A Evrópuráðsþingið 1996# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[14:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom mér ekki á óvart að hv. þm. ætti erfitt með að skilja það sem ég sagði hérna áðan. Ég verð aftur og aftur var við að hv. þm. á stundum erfitt með að skilja það sem hann segir sjálfur. Ég verð aftur og aftur var við að hann skilur t.d. ekki stefnu Framsfl. í hinum ýmsu málum, og hér er auðvitað vísað í þær mörgu skoðanir sem hv. þm. hefur uppi á ýmsum málum eins og sjávarútvegsmálum. Þau eru nú ekki til umræðu hér. Það eina sem ég gerði, herra forseti, var að fetta fingur út í það að þegar íslenska sendinefndin er búin að klofna í eins marga hluta og fræðilega er mögulegt, þá er ekki hægt að koma hingað og halda því fram að samheldni hafi einkennt störf hennar. Það er alveg klárt að í því máli sem mestu skipti á vettvangi Evrópuráðsins var hún eins og hænsnahjörð. Þannig leit hún út í fjölmiðlum á Íslandi a.m.k. Og það eina sem ég leyfði mér að segja var að e.t.v. hefðu menn átt að reyna að ræða þetta hér til einhverra lykta áður en lagt var í ferðalagið, til að mynda á vettvangi utanrmn. Ég hins vegar tek fyllilega undir það að menn eru þarna sem einstaklingar, fulltrúar flokka. Ég get ekki heimtað að menn fari að hafa einhverjar skoðanir sem þeir eru ekki sammála um, ég get það ekki. En ég varð ekki var við sem fulltrúi í utanrmn. að það bæri nokkurn tímann á góma innan hennar, hvernig við ættum að haga okkur þar.

Í hinn stað gat ég þess að ég væri fulltrúi á þingmannasamkundu Vestur-Evrópuþingsins. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þar fari fram starf sem skarast mjög við aðrar alþjóðastofnanir. Ég taldi þess vegna að það kynni að vera að ég hefði misskilið í einhverju starf og tilgang þeirrar stofnunar. Og það eina sem ég bað um er þetta: Getur hv. þm. Hjálmar Árnason deilt með mér viðhorfum sínum til þess á hvaða vettvangi störfin skarast? Ég ætla honum ekki að vera að leggja fram tillögur sem hann hefur ekki undirbúið og sem hafa ekki grunn til að standa á. Ég ætla honum það ekki --- ekki enn þá.