Fríverslunarsamtök Evrópu 1996

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 15:29:13 (3202)

1997-02-06 15:29:13# 121. lþ. 64.4 fundur 287. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 1996# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þingmannanefnd EFTA fyrir gott starf og ágætt samstarf en samstarf ráðherranefndanna er allmikið. Eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði, var mjög bagalegt, og ég skil það mjög vel, að hvorki íslenski né norski utanríkisráðherrann var viðstaddur síðasta fund. En ég hafði nú skilið það svo að svissneski ráðherrann hafi verið þar, en hann gegnir núna jafnframt forsetaembætti í Sviss.

[15:30]

Það er nú svo að fundartíminn 16. desember hentar Íslendingum almennt ekki. Ég var ekki hvatamaður að þeirri dagsetningu og dró úr þeirri dagsetningu eins og ég mest mátti vegna þess að ég vissi af gamalli reynslu að einmitt á þeim tíma er fjárlagavinnan hér í hámarki og verið að reyna að ljúka fundum fyrir jól og mjög bagalegt fyrir þingmenn og ráðherra að komast frá á þeim tíma. Hins vegar er það óheppilegt þegar ekki tekst að finna annan tíma og eftir því sem ég best veit var það ekki síst vegna þess að svissneski ráðherrann var með mjög erfiða dagskrá og kom því ekki við að gera þetta fyrr í desember. En síðan eru ýmsir aðrir fundir í byrjun desember eins og NATO-fundir og Vestur-Evrópusambandið og ýmsir fleiri fundir sem rekast gjarnan á. Í sannleika sagt er alþjóðlegt samstarf orðið svo mikið að vöxtum að erfitt er að fylgjast með í því öllu og þar verða menn að velja og hafna, ekki síst við Íslendingar.

Ég tel að skýrt hafi komið fram að undanförnu að gildi EFTA er mikið. Gildi samtakanna er mikið í samstarfi þeirra þjóða sem þarna standa að málum. Gildi samtakanna er mjög mikið í sambandi við samstarf þeirra þjóða við Evrópusambandið og gildi EFTA er jafnframt mikilvægt í samstarfi þeirra þjóða, þ.e. EFTA-þjóðanna við aðrar þjóðir sem standa utan Evrópusambandsins. Við höfum verið að gera fríverslunarsamninga við margar þjóðir og stöðugt er unnið að þeim málum. Við höfum unnið að því að auka samskipti okkar við aðrar heimsálfur, t.d. Asíu. Ég vænti þess að árangur verði af því starfi. Við getum jafnframt notað EFTA í margvíslegum sameiginlegum tilgangi. Til dæmis hefur verið ákveðið að innan EFTA fari fram athugun á því hvaða áhrif hin sameiginlega mynt hefur á samstarf Evrópusambandsþjóðanna og EFTA-ríkjanna og það er mikilvægt að nýta þessi samtök í þessum tilgangi. Ég tel að EFTA skipti mjög miklu máli í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Við erum alltaf að reyna að þróa þau samskipti og gera þau betri bæði hin pólitísku samskipti og þá pólitísku umræðu sem á sér stað milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins, sem hefur ekki verið nægilega mikil að vöxtum, en sem betur fer hefur það farið heldur batnandi þó að þar þurfi að gera betur. En jafnframt skiptir EFTA mjög miklu máli í sambandi við þau áhrif sem við höfum á allar þær gerðir sem eiga sér stað innan Evrópusambandsins. Þar hefðum við viljað hafa meiri áhrif og sem betur fer hefur það færst til betri vegar en að mínu mati á enn eftir að þróa þetta samstarf svo fullnægjandi geti talist, sérstaklega fyrir okkur sem erum í EFTA.

Herra forseti. Ég vil að endingu endurtaka þakklæti fyrir ágætt samstarf og mjög gott starf þessarar þingmannanefndar, eins og reyndar allra annarra þingmannanefnda sem eru í alþjóðlegu starfi. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta starf er oft framkvæmt við erfið skilyrði. Þingmennirnir hafa tiltölulega litla hjálp í þessu starfi miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum og því reynir mikið á þá í slíku starfi og flestir gera sér ekki grein fyrir því við hvað menn búa í þeim efnum. Úr þessu er reynt að bæta með góðu samstarfi við ráðuneytin og ríkisstjórn á hverjum tíma þannig að þegar allt er saman lagt hafa þingmannanefndir í alþjóðlegum samskiptum skilað afar góðum árangri og Íslendingar getað gert ótrúlega mikið miðað við þær aðstæður sem þeir búa við. Ef við líkjum t.d. okkar aðstæðum saman við það sem Norðmenn búa við þá er það svo mikill munur að ég held að flestir mundu vart trúa því. Þess vegna er þetta starf sem þarna er framkvæmt ekkert skemmtistarf. Það eru sumir sem halda að þetta séu fyrst og fremst einhverjar skemmtiferðir af hálfu þingmanna. Þetta eru oftast nær erfiðar vinnuferðir þar sem reynir mikið á menn og menn búa við langan vinnudag.