Bann við framleiðslu á jarðsprengjum

Fimmtudaginn 06. febrúar 1997, kl. 17:55:35 (3233)

1997-02-06 17:55:35# 121. lþ. 64.12 fundur 267. mál: #A bann við framleiðslu á jarðsprengjum# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[17:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni fyrir hans framlag í þessu máli. Hér er um merka þáltill. að ræða sem lögð hefur verið mikil vinna í og það er fagnaðarefni að mál af þessum toga skuli vera lögð hér fram á Alþingi og styrkir okkur sem erum að vinna að þessum málum í því ætlunarverki okkar að ná fram því takmarki sem þessi þáltill. ber með sér.

Ísland hefur tekið þátt í þessari umræðu á undanförnum árum á margvíslegum vettvangi. Við höfum verið meðflutningsmenn að tillögum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þannig að við beitum okkur fyrir því og munum beita okkur fyrir því að komið verði á alþjóðlegri samþykkt um bann við hönnun, framleiðslu, notkun og sölu á jarðsprengjum.

Það var ekkert ofmælt í því sem hv. þm. sagði. Hér er um gífurlegt vandamál að ræða og mikill hryllingur fylgir þessu ógnarvopni sem grandalaust fólk verður fyrir. Það er okkar skylda í hinu alþjóðlega samfélagi að vinna að því að þessu ógnarvopni verði útrýmt. Það er leitt til þess að vita að jafnvel enn þann dag í dag skuli menn vera að koma jarðsprengjum fyrir án þess að nokkur viti nákvæmlega hvar þeim er komið fyrir. Það er í sjálfu sér skelfilegt að þessu skuli vera komið fyrir, en enn þá verra er að menn skuli ekki skrá það niður þannig að a.m.k. verði hægt að fjarlægja þessar sprengjur eðlilega þegar friður kemst á. Þannig er ástandið í fyrrum Júgóslavíu eins og hv. þm. lýsti réttilega og víða annars staðar í heiminum.

Það er einmitt þess vegna sem við Íslendingar höfum ákveðið að beina okkar hjálp í Bosníu einkum að þessum vanda, þ.e. megnið af þeim 100 milljónum sem við leggjum fram til uppbyggingar í Bosníu fer til heilbrigðismála og þar munu okkar sérhæfðu fyrirtæki leggja mikið lið í þessu sambandi í samvinnu við Alþjóðabankann. Við Íslendingar getum því lagt mikið af mörkum til að hjálpa því fólki sem hefur orðið fyrir þessu því við eigum sem betur fer mjög hæf fyrirtæki á því sviði sem hafa öðlast alþjóðlega viðurkenningu. Þar af leiðandi er rétt af okkur að beita okkur á þeim sviðum þar sem við höfum þekkingu. Við höfum að sjálfsögðu ekki þekkingu í leitinni að slíkum sprengjum vegna þess að þetta eru tól sem við höfum fæst séð og getum vart ímyndað okkur hve mikil ógn stafar af þeim.

Ég tel að þessi tillaga sé mjög til góðs og það er að sjálfsögðu til góðs að Alþingi Íslendinga fjalli um slík mál eins og er með þjóðþing víða í heiminum og mætti vera meira um það að hér sé fjallað um tillögur um hið alþjóðlega samfélag, þó ég sé alls ekki að gera lítið úr því sem þó kemur fram í þeim efnum.

Ég bið hv. þm. Steingrím J. Sigfússon afsökunar á því að ég missti að hluta til af ræðu hans um frv. sem hann flutti hér. En það er endurflutt og við áttum orðaskipti um það á síðastliðnu ári. Ég vísa til þeirrar umræðu og vil færa honum þau sorgartíðindi, að hans mati sjálfsagt, að ég hef í engu skipt um skoðun í því máli og vitna að öllu leyti til þess sem þá var sagt þó að því megi að vísu bæta við að nokkur árangur hefur náðst í afvopnunarmálum þannig að þar stefnir í rétta átt. Alltaf er eitthvað gott að koma upp í þeim efnum þó sá árangur mætti vera miklu meiri. Þetta mál sem hér er til umfjöllunar er einmitt sönnun þess að við höfum ekki náð nægilega langt í þeim efnum.