Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 16:16:32 (3239)

1997-02-10 16:16:32# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:16]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til þess að fagna framlagningu þessa frv. fyrst og fremst því það er löngu kominn tími til að víkka út starfsemi áfengisvarnaráðs til þess að taka meiri þátt í vímuefnavörnum. Einstakar jákvæðar athugasemdir vil ég samt sem áður gera. Ég vil gjarnan að þær komi fram við 1. umr. Fyrst og fremst er það sú ábending að ýmsir hagsmunaaðilar, ýmsir stuðningsaðilar og ýmsar stofnanir hafa afskipti bæði af áfengis- og vímuefnaneytendum. Ég vísa til 4. gr. þar sem talað er um tóbaksvarnir, heilsueflingu, manneldismál, kynsjúkdómavarnir, forvarnir langvinnra sjúkdóma og slysavarnir. Það er einmitt þetta sem ég vil benda á, þ.e. að það þarf að hafa geysilega góða samvinnu við þessa hópa. Ég nefni slysavarnaráð sem komið var á fót í fyrra eða hittifyrra. Meðlimir þess hafa samband við þá sem koma að slysum almennt í landinu. Ég nefni félög eins Krabbameinsfélagið og Samtök sykursjúkra. Ég nefni hagsmunasamtök, verkalýðssamtök, fanga o.s.frv. Ég held að það þurfi að vinna mjög vel að framkvæmd og uppbyggingu þessa ráðs þannig að við séum ekki að safna báknum sem öll eru að vinna að sama hlutnum, þ.e. betri heilsu landsmanna og ekki síst færri slysum. Ég vonast til þess að í heilbrn., en ég býst við að þessu frv. verði vísað til hennar, munum við geta átt gott samstarf til þess að ræða þau mál.