Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 16:23:16 (3244)

1997-02-10 16:23:16# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:23]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekki að gera athugasemd við það að þessi ráðuneyti ættu þarna sæti. Ég held að það sé mjög gott að búa til samstarfsvettvang allra þeirra ráðuneyta sem koma að þessum málum á einn eða annan hátt. Það sem ég var að velta upp var að þó þetta sé verkfæri ríkisstjórnarinnar --- Samband íslenskra sveitarfélaga er hér reyndar líka með og ég tel það mjög eðlilegt, það er aðili kemur margvíslegan að þessum málum --- hvort það gæti ekki orðið til þess að styrkja þetta ráð og væri ekki rétt að bæta við einum fulltrúa almannasamtaka, þó ég sé ekki reiðubúin á þessari stundu að leggja til hver það ætti að vera, eða einhverjum þeim sem vinnur dags daglega að þessum málum? Ég skil auðvitað meginhugsunina. Hún er sú að ná yfirsýn á því sviði sem ríkisvaldið annast og inn á svið sveitarstjórnanna. En þá vantar kannski þetta, þ.e. þá sem horfa á þessi mál frá sjónarhóli t.d. foreldra. Ég held að það geti einungis orðið til bóta að fá slíkan aðila að þessu starfi.