Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 17:03:03 (3249)

1997-02-10 17:03:03# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[17:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma með smá innlegg í þessa umræðu en hef tækifæri til að koma að málinu í heilbr.- og trn. þegar það kemur þangað. Ég get tekið undir flestar þær athugasemdir sem hafa komið um málið hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Það sem mig langaði til að gera athugasemd við og kannski að vera með smá vangaveltur um, er orðanotkun. Orðanotkun þegar við erum að fjalla um áfengis- og vímuvarnir. Ég hefði frekar kosið þegar við erum að tala um notkun áfengis eða annarra vímuefna eins og segir í upphafi frv., að ,,tilgangurinn með stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir sérstaklega meðal barna og ungmenna og sporna gegn afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna.`` Ég hefði frekar kosið að við notuðum misnotkun eða ofneyslu í staðinn fyrir notkun eða neyslu áfengis. Að við notum misnotkun eins og þjóðirnar í kringum okkur gera þegar þær eru að tala um slæmar afleiðingar af neyslu áfengis. Að við tölum um misnotkun eða ofneyslu.

Við vitum að það geta verið jákvæðar afleiðingar af neyslu áfengis. Ég veit ekki betur en öldruðu fólki sé gefið sjerrí á sjúkrastofnunum til þess að það sofi betur, eitt staup, það eru jákvæðar afleiðingar af neyslu áfengis, að fólk sefur betur. Rannsóknir hafa sýnt að gott sé fyrir hjartað að dreka eitt glas af rauðvíni á dag og það sé jafnvel gott fyrir heilastarfsemina. (ÖS: Gerir þingmaðurinn það?) Nei, hann gerir það nú ekki en það væri kannski athugandi. Ég tel líka að það væri áróðurslega sterkara að nota orðið misnotkun eða ofneyslu þegar við tölum um þessi mál. Ég minni á orðatiltækið ,,hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta``. Ekki getum við verið á móti því. Þetta hefur komið áður til tals í hv. heilbr.- og trn., að nota frekar misnotkun eða ofneyslu þegar við ræðum þessi mál. Ég hefði frekar viljað sjá þá orðanotkun í frv.

Úr því ég er farin að taka hér til máls langar mig að minnast aðeins á stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum, sem truflar mig svolítið þegar ég les fjórða punkt í upptalningunni í fskj. II með frv.

,,Fram til ársins 2000 verði lögð áhersla á: Að efla andstöðu í þjóðfélaginu gegn notkun barna og ungmenna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki.``

Þetta er tvöföld neitun sem getur náttúrlega komið út sem öfugmæli. Þannig að ég held að maður segi frekar að efla andstöðu við notkun barna á fíkniefnum, áfengi og tóbaki, það sé réttari íslenska.

Annars ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég tek undir að þetta er mjög mikilvægur þáttur í starfi hins opinbera að efla varnir gegn ofneyslu og misnotkun á vímuefnum og áfengi. Eins og menn heyra þá kýs ég heldur að nota orðið ofneyslu og misnotkun í þessu tilviki.