Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 17:07:13 (3250)

1997-02-10 17:07:13# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[17:07]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir ágæta umfjöllun um þetta mál. Það hafa komið fram nokkrar fyrirspurnir og vangaveltur um frv. sem eðlilegt er. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fór yfir frv. og var því sammála á flestum sviðum. Hún gerði þó að umtalsefni að sér þætti rétt að fleiri kæmu inn í ráðið en þarna er upp talið. Því er til að svara að það mun verða mjög góð samvinna við þessi félagasamtök. Það er mjög erfitt að velja einhver ein félagasamtök út úr. Í þessu sambandi vil ég minna á að ég tel mjög mikilvægt að Samband sveitarfélaga skuli eiga sinn fulltrúa í ráðinu. Það tengist þeirri fyrispurn sem hún kom inn á þ.e. hvað yrði um áfengis- og vímuvarnaráð í héruðum. Það er í tillögum að efla áfengis- og vímuvarnaráð í héruðum sem eru venjulega tengd félagsmálanefndum viðkomandi sveitarfélaga. Það eru tillögur um að héraðslæknar komi sterkar inn í þetta en hefur verið hingað til og þeir verði tengiliðir.

Hún spurði líka hvar það fræðsluefni verði notað sem í frv. er gert ráð fyrir. Þetta fræðsluefni verður fyrst og fremst notað í skólum, á heilsugæslustöðvum og í sumum tilvikum sent inn á hvert heimili.

Þetta voru helstu fyrirspurnir sem hv. þm. kom með. En fleiri tóku til máls, m.a. hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. Hún kom eiginlega inn á sömu atriði og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hafði gert áður. Hún spurði þó hvernig stæði á því að tóbaksvarnirnar væru ekki með. Það kemur fram í greinargerð að áætlað er að byggja upp svokallaða forvarnamiðstöð þar sem inn í kemur þá tóbaksvarnanefnd, manneldisráð o.s.frv. Þannig að það mun koma í beinu framhaldi af þessu, að við bindum vonir við að geta sett allt þetta fyrirbyggjandi starf á einn stað. Þá erum við að tala um að Heilsuverndarstöðin verði nýtt til þess og þannig náum við betur utan um þessi mál en við höfum gert hingað til.

Hv. þm. talaði um að hún sæi ekki hvernig þetta nýja ráð hefði fjármagn. Eins og fram kom í ræðu minni áðan þá tekur nokkra mánuði að koma þessu öllu heim og saman verði þetta frv. að lögum í sumar. Mér sýnist að það verði í fyrsta lagi í nóvember sem þetta forvarnaráð verði komið í fullt starf. Þess ber að geta að í Forvarnasjóði eru enn þá eftir 32 millj. kr. þannig að við höfum nokkra fjárhæð upp á að hlaupa. En áfengisvarnaráð hefur rúmlega 9 millj. kr. til umráða. Ég býst við að áfengisvarnaráð muni vinna með áfengis- og vímuvarnaráði á meðan það er á sínum bernskudögum og styðji og styrki við það starf sem er að fara af stað. Ég held að menn sjái og séu innst inni sammála um það að mikilvægt er að samhæfa alla þessa þætti sem ríkið er að vinna að varðandi forvarnir. Það er mikilvægt að heilbrrn., menntmrn., dómsmrn., tollgæslan, utanrrn. og félmrn. séu öll að vinna í sömu átt. Það tryggjum við með þessu nýja ráði. Það er enginn vafi á því að margir verða til kallaðir til að styrkja þessa starfsemi.

Ég heyri að menn eru sammála um að hraða þessu máli. Það er kannski eitthvað sem varðar orðalag sem menn vilja breyta eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom inn á áðan. Það eru ekki stórvægilegar breytingar og menn geta dundað sér við það í heilbr.- og trn. að breyta þar orðalagi. Hér vita allir að við erum ekki að ræða um hóflega drukkið vín þegar við leggjum fram þetta frv. Ég held að öllum sé það ljóst.