Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 17:18:40 (3254)

1997-02-10 17:18:40# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[17:18]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þm. um sálfræðingana þá var það fyrir mjög skömmu síðan að sálfræðingar fluttust úr menntmrn. yfir í heilbrrn. og það er sérstaklega verið að skoða það að auka þjónustu sálfræðinga sérstaklega við börn og ungmenni. (MF: Og félagsráðgjafa.)

Varðandi áhyggjur hv. þm. af Forvarnasjóði, þá svaraði ég því til áðan að stjórn sjóðsins er að vinna að úthlutun og það verða ábyggilega einhverjir sem ekki fá úthlutun á þessu ári. Það eru miklu fleiri sem sækja um heldur en við eigum nokkurn tíma fjármagn til að veita. Og það er metið á verkefnagrunni hverju sinni hverjir fá úthlutað úr Forvarnasjóði. En af því að hv. þm. sagði að ekki hefði komið fram hvað þetta nýja forvarnaráð muni kosta á þessu ári, þá er ég að tala um að á síðustu mánuðum ársins verður þetta komið í fullan gang ef Alþingi Íslendinga samþykkir þetta frv. Við erum ekki með nákvæmar tölur um hvað þetta kostar, en þetta sparar verulega annars staðar. Þessi samhæfing mun spara annars staðar þannig að við erum ekki að tala um verulega fjármuni sem þetta nýja ráð mun kosta. Og þegar til lengri tíma er litið, þá er verið að tala um að áfengisvarnaráð fellur niður og á hverju ári er lagt til þess tæplega 10 millj. kr. og það gengur að sjálfsögðu til þessa nýja ráðs.