Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 13:49:03 (3279)

1997-02-11 13:49:03# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:49]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í þessu frv. er fjallað fyrst og fremst um arðgreiðslur af þessu fyrirtæki. Til þess að ná fram því markmiði að svokallaðir eigendur geti fengið meiri arð eru í frv. ákvæði um að breyta skipan stjórnar og forræði hennar á gjaldskrá þannig að hún hafi sem frjálsastar hendur til að ná inn þeim arði sem ætlað er að deila út.

Í þessu frv. er ekki fjallað um verðlækkun raforku eða verðjöfnun. Það er ekki viðfangsefni þessa máls, það er ekki á áhugasviði þeirrar ríkisstjórnar sem ber þetta mál fram að lækka raforkuverð í landinu og jafna það. Það er einungis áhugaefni að ná í arð frá fyrirtæki sem skuldar rúmlega 50 þús. millj. kr. Ég tel því sjálfsagt að vísa þessu máli heim til föðurhúsanna og ég segi já.