Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:29:01 (3346)

1997-02-11 21:29:01# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:29]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hæstv. iðnrh. standi hér og hafi uppi tal af því tagi sem við heyrðum. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að tryggja að sú yfirlýsing, sem talsmenn Reykjavíkurborgar segja að breyti ekki nokkrum sköpuðum hlut og reidd var fram við 3. umr. málsins í frhnál., sé einhver trygging fyrir stefnu sem felld var á Alþingi þegar borin var fram brtt. við málið til þess að lögfesta þá stefnu? Síðan kemur hæstv. ráðherra og ætlar þeim sem sitja að völdum í landinu og í Reykjavíkurborg upp úr aldamótum að tryggja það sem stjórnarliðarnir felldu hér á Alþingi, hver um annan þveran. Þetta er aldeilis stórkostlegur málflutningur. Og voru það nú tíðindin sem hæstv. ráðherra flutti okkur hér, hvernig þetta ætti að gerast, það ætti að ákvarða þetta á ársfundi Landsvirkjunar. Hefur það ekki legið fyrir? Er það eitthvað nýtt? Hér eru menn enn að reyna að krafsa í bakkann og ekki lái ég þeim það. Þetta er brattur og ljótur bakki og erfitt að komast upp úr. Ég efast satt að segja um að það takist, a.m.k. ekki þannig að það verði eitthvert upplit á þeim sem klórar sig upp úr þessu feni, takist það á annað borð. Og ég verð að undrast það að hæstv. ráðherra skuli bjóða landsmönnum aðra eins röksemdafærslu eins og hér er uppi. ,,Núverandi`` stendur í bókuninni og lögð áhersla á það, í upphafi bókunar um það efni. Það eru ,,núverandi`` sem eru að skuldbinda þá sem koma hér upp úr aldamótunum. Þvílíkt.