Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:31:16 (3347)

1997-02-11 21:31:16# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:31]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég marka það af þessari ræðu hv. þm. að hann gerir ekki greinarmun á arðgjafarmarkmiðinu annars vegar og arðgreiðslumarkmiðinu hins vegar og það er auðvitað mjög erfitt að halda þessari umræðu áfram mikið lengur ef hv. þingmenn gera sér ekki almennt grein fyrir að þarna er mikill munur á.

Eignaraðilarnir eru sammála um að orkuverðið verði óbreytt til ársins 2000 og þeir eru líka sammála um að orkuverðið geti lækkað að raunvirði um 2--3% á ári frá 2001 til 2010. Það er stefnt að 5,5% arðgreiðslum úr fyrirtækinu sem eru byggðar á framreiknuðum stofnramlögum eigenda í fyrirtækinu. Það þýðir að arðgreiðslur á árinu 1996, af því að árið 1996 var gott rekstrarár í rekstri fyrirtækisins, verða í kringum 196 millj. kr. Þar af fær ríkið um 50% eða 50% og því hefur verið ákveðið að fá heimild fyrir því í 6. gr. fjárlaga að fá að ráðstafa þessum arðgreiðslum ríkisins af Landsvirkjun til atvinnusköpunar á landsbyggðinni. Þetta er kristaltært.