Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:34:30 (3349)

1997-02-11 21:34:30# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:34]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur orðið fróðleg umræða og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson eyddri drjúgum tíma af ræðu sinni í að fara yfir lífshlaup mitt og ég verð að sætta mig við hans dóm á mér í þeim efnum. (Gripið fram í.) Nei, ég geri það ekki sjálfur. En það vakti athygli mína hvað hann eyddi samt miklum og dýrmætum tíma í að fjalla um mig persónulega.

Um málið vil ég segja varðandi orð hans um arðgreiðslurnar að staðreyndin í málinu er sú að fyrst er talað um arðgreiðslur í Landsvirkjun í janúarmánuði 1979. Þá fyrst er farið að tala um arðgreiðslur. Arður hefur síðan verið greiddur 1979, 1985, 1988, 1989, 1990, 1991 og 1992. Öll þessi ár hafa arðgreiðslur verið inntar af hendi. Þetta er staðreyndin í málinu.

Hækkun orkuverðs. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og fleiri af alþýðubandalagsmönnum hafa komið hér upp, sagt og látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum að með þessu frv. sé verið að hækka orkuverð í landinu um 10%. Þetta er rangt. Það segir svo að orkuverð skuli vera óbreytt til ársins 2001 en þá skuli orkuverð lækka árlega um 2--3% á árunum 2001--2010, en ekki að hækka eins og hv. þingmenn Alþb. hafa hér verið að halda fram. Þetta eru staðreyndir í málinu.

Ég þarf ekki að fara yfir það hvernig 80 millj. eru fundnar. Það hefur hæstv. iðnrh. gert þannig að ég vona að þingmaðurinn geti verið sáttur við þær skýringar sem þar komu fram.