Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:18:25 (3357)

1997-02-11 22:18:25# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:18]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er þá orðið skýrt hvernig þetta ákvæði er hugsað af hálfu stjórnarliðsins og það er ágætt að það liggi fyrir að það sé þetta ákvæði sem er verið að vitna til og með þeim skilningi sem ráðherra hefur sett fram. Ég er ekki sammála þessum skilningi en það er bara þannig og verður ekkert meira við því gert. Við getum síðan látið lögfræðinga um það að fjalla um málið í framhaldinu. En mér finnst líka að eitt mundi vefjast fyrir Samkeppnisstofnun og samkeppnisráði í þessu tilviki og það er að það vantar samanburðinn. Hvað er hið eðlilega verð sem samkeppnisráð á að ákvarða eða hvenær getur samkeppnisráð sagt: Gjaldskráin er óeðlileg. Óeðlileg miðað við hvað? (Iðnrh.: Verðþróun.) Við almenna verðþróun? En það eru engin ákvæði um það í lagatextanum að almenn verðþróun eigi að vera viðmiðun. Þannig að það vantar hina lagalegu forskrift fyrir samkeppnisráð til þess að hafa sem viðmiðun á móti gjaldskránni. Ég hef því ekki trú á að það gangi vel að beita þessu ákvæði en ég heyri að ráðherra trúir því og við skulum bara vona að það gangi eftir.